Sjálfstætt ESB- Skotland er þversögn

ESB SkotlandSkotum er vandi á höndum að kjósa um sjálfstæði, nú þegar vinsæl vinstri sveifla gerir kröfu um virka ESB- aðild Skotlands. Hvað á þá sannur skoskur sjálfstæðissinni að kjósa, þegar ljóst er að „já“ gerir Skotland að enn meira ESB- héraði en það er í dag? Hann kýs kannski sjálfstæði í góðri trú en sér svo vinstri ESB- sinna dansa á götum úti eftir sigurinn.

Já við vinstri- ESB 

Sjálfstæði Skotinn fær sig varla til þess að setja „nei“ við spurninguna um sjálfstæði, en þó er það eina svarið til varnar gegn Brussel- veldinu. Nigel Farage, formaður breska UKIP- flokksins, segir já- talsmanninn vilja Skotland sem hluta ESB- ríkisins, þar sem lög þess eru samin í Brussel. Engin leið verði t.d. að endursemja um nýtingu skoskra fiskimiða.

Hinir hafna ESB 

Nú þegar Stóra- Bretland er ákveðið í því að auka sjálfstæði þess gagnvart Evrópusambandinu, þá gæti farið svo að vinstri sinnaðir ESB sinnar Skotlands nái að mynda innmúrað ESB- hérað (Skotland) á Bretlandseyjum með já-i í kosningunum. En það hlýtur þá að þýða að hinn hluti núverandi Stóra- Bretlands verði enn betur hreinsaður af þeirri ESB- áráttu og vilji enn skýrari línur gagnvart ESB eða jafnvel að endurheimta alvöru sjálfstæði þjóðarinnar með úrsögn úr ESB.

 


mbl.is Búa sig undir lokasprettinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Þetta er vissulega undarlegt. Það er kannski ekki af engu sem sagðir eru Skotabandarar.

Gunnar Heiðarsson, 13.9.2014 kl. 12:10

2 Smámynd: Aztec

Gunnar: Brandarar um nízku Skota eru ýmist búnir til af þeim sjálfum eða Englendingum. Staðreyndin er sú, að Skotar eru mjög örlátir og vilja allt fyrir mann gera, meðan þeir Englendingar, sem ég hef hitt halda traustataki í budduna eins og þeir eiga lífið að leysa. Aðrar nízkar þjóðir eru t.d. Danir og Íslendingar. Þeir sem hafa verið í Skotlandi á Hogmanay, þar sem borðin í heimahúsum, sem eru heimsótt, svigna undan ókeypis veitingum (aðallega whisky og bjór), þekkja skozku gjafmildina.

Einnig, vegna þess að Englendingum líta á Íra eins og untermencsh, þá sömdu þeir Írabrandara á færibandi um heimsku Íranna. En ég hef hitt fjöldann allan af Írum sem hafa talsvert hærri gáfur en fyrrnefndir Englendingar.

Það væri líka hægt að búa til brandara um Íslendinga, af nógu er svosem að taka.

En eins og ég hef skrifað áður, þá eiga Skotar rétt á að vera sjálfstæðir og eiga hvorki efnahagshorfur né tengslin við ESB ekki að eyðileggja það. Eftir sjálfstæðið geta þeir síðan tekið sjálfir ákvörðun varðandi ESB. Aðalatriðið er að þá geta Skotir sjálfir tekið sínar eigin ákvarðanir, en þurfa ekki að lúta ákvörðunum teknum í Whitehall og Downing Street af enskum þingmönnum.

Sumum ESB-andstæðingum finnst kannski betra að bíða með skozka sjálfstæðið þangað til eftir að Bretland hefur losað sig undan ESB-bákninu að hluta, en það er engin vissa fyrir að það muni gerast næstu 50 árin, sama hvað Cameron segir. Enda ekki hægt að reiða sig á neitt sem stjórnmálamenn segja.

Aztec, 13.9.2014 kl. 14:52

3 Smámynd: Aztec

Það slæddist þarna inn tvöföld neitun á einum stað. Það leiðréttist hér með.

Aztec, 13.9.2014 kl. 14:55

4 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Þakka þennan fína fyrirlestur um Skotabrandara Aztek. Ekki að ég telji Skota verri vegna þeirra, ekki frekar en Hafnfirðingar. Brandari er bara brandari.

Um gestrisni þeirra þarf ekkert að efast, hana þekkja allir sem til Skotlands hafa komið.

Hitt er undarlegt og ekki í neinum tengslum við raunveruleikann, að til séu Skotar sem berjast fyrir sjálfstæði en ætla síðan að færa það undir Brusselveldið við fyrsta tækifæri.

Skotar eiga sjálfstæði skilið og víst er að auðlindir Skotlands, bæði mannauður og náttúruauður er mikill, þó einstaka viðrini eins og Gordon Brown slæðist þar á meðal.

Stjórnvöld í Lundúnum hafa sagt að Skotar muni ekki geta notið pundsins og spurning hvort þar er um einfalda blekkingu sé að ræða, vitandi að engin þjóð getur verið án lögeyris.

En ef þau stjórnvöld standa við stóru orðin og Skotar telja of mikið mál að taka upp eigin gjaldmiðil, gætum við hæglega gefið þeim aðgang að krónunni okkar.

En að öllu gamni slepptu þá vona ég að Skotar kjósi sjálfstæði og haldi sig við það sem lengst. Að þeir hafi visku til að halda sig frá ESB, enda til lítils fyrir þá að fá yfirráð yfir sínum auðlindum til þess eins að gefa þau aftur eftir og það til sama aðila og ráðstafar þeim í dag!

Slík barátta er undarleg, hvernig sem á hana er litið. 

Gunnar Heiðarsson, 13.9.2014 kl. 15:13

5 Smámynd: Aztec

Rétt er það. En þetta með lögeyrinn er ekket vandamál. Þegar sjálfstæðinu hefur verið lýst yfir, þá mun verða komið á skozkum seðlabanka með ákveðinn gullforða sem mun slá skozkar pundmyntir og prenta skozka pundseðla.

Bankarnir þrír, Bank of Scotland, Royal Bank of Scotland og Clydesdale bank hafa í meira en hálfa öld prentað skozka punseðla sem eru gjaldgengir í Skotlandi, þótt myntirnar hafi verið slegnar í London.

Ég man eftir, þegar ég var lítill, að ég átti eins- og tveggja aura myntir með kórónu yfir íslenzka skjaldarmerkinu. Allar þjóðir geta komið sér upp sjálfstæðu seðlabanka og peningakerfi við sjálfstæði, þótt einstaka örríki notist við peninga annarra landa (t.d. Andorra, Monaco, San Marino, Liechtenstein) svo og Panamá.

Hvort hið nýja, skozka pund muni halda í við enska pundið er erfitt að segja til um, við vitum hvernig fór með íslenzku krónuna vs. þeirri dönsku. En það var vegna þess að íslenzkir stjórnmálamenn hafa átt heimsmet í pólítískri heimsku 1950 - 2013.

En þá er vert að líta til Írlands. Allt fram að þeim tíma sem Írar tóku illu heilli upp evruna, var írska puntið mun verðmeira en það brezka, jafnvel þótt efnahagur UK væri í grunninum mikið betri en sá írski. Gengið á nýjum skozkum gjaldmiðli gagnvart evru mun örugglega byrja á því að samræmast því enska. Eftir það er það undir valdhöfum komið hvernig síðan fer.

Og þótt skozku miðin séu þurrausin þökk sé CFP, þá er mikill útflutningsiðnaður í Skotlandi (ólíkt Íslandi, hér er næstum ekki neitt), sem heldur upp efnahagnum, ekki sízt olíuiðnaðurinn, sem mun skila milljörðum af skozku svæðunum í Norðursjónum. T.d. er Forties Oil Field, sem er í skozkri lögsögu, stærsta olíuvinnslusvæðið í Norðursjónum. Það var tekið í notkun árið 1975 og árið 2003 var áætlað að ennþá væru rúmlega 4 milljarðar tunnur af olíu eftir þar. Auk þess eru minni olíusvæði norðar og auk þess fyrir utan vesturströnd Skotland. Svo að skozka þjóðarbúið er vel undir sjálfstæði búið.

Aztec, 13.9.2014 kl. 15:58

6 Smámynd: Aztec

ESB hefur reynt að slá skítugum krumlunum í olíuauðlindirnar í Norðursjónum, en Þjóðverjar hafa aldrei fundið dropa á sínu svæði, enda svæði þeirra þar lítið að flatarmáli. Þetta hefur gerzt í dulbúningi þess að vilja "varðveita" hafsbotninn. Þegar bent hefur verið á blogginu á raunverulega ætlan framkvæmdarstjórnarinnar, hafa ESB-sinnar harðneitað því og skrifað dellu eins og: "ESB vill varðveita lífríkið á hafsbotninum í Norðursjónum, kuðungana og svoleiðis".

Nú veit ég ekki hvað verður um dönsku olíuna, en ESB fær ekki einn cm2 á ensku, skozku og norsku svæðunum. Svo að þeir geta bara gleymt því.

Aztec, 13.9.2014 kl. 16:06

7 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Ég veit ekki hvort er um einhverja þversögn að ræða. Það er mjög mikil andstaða við ESB í Skotlandi,allavega fyrir norðan. Flokkspólitíkin er ekki eins þarna og hér.

Jósef Smári Ásmundsson, 13.9.2014 kl. 16:42

8 Smámynd: Aztec

Það er rétt. Ég bjó mörg ár í Skotlandi og ég hitti ekki eina manneskju sem var hlynnt EBE þá og enn síður hlynnt ESB nú.

"EU is EEC gone horribly wrong".

Aztec, 13.9.2014 kl. 18:14

9 Smámynd: Aztec

Sumar af hótunum fjármálaelítunnar eru hreint út hlægilegar. Skozku bankarnir þrír hafa hótað að flytja höfuðstöðvar sínar til London, ef Skotar velja sjálfstæði. Ég held að hinum almenna Skota sé alveg nákvæmlega sama. Þessir bankar munu enn sem áður hafa útibú í Skotlandi, og ef þau útibú verða lögð niður, þá mun það þýða fjárhagslegt sjálfsmorð fyrir bankana. Það skiptir ekki meginmáli hvar höfuðstöðvarnar eru. Það er alltaf hægt að fá lán annars staðar. Auk þess eru enskir bankar líka starfræktir í Skotlandi, eins og t.d. Midlands Bank o.fl.

Þess skal getið að það eru ekki bankarnir í Bretlandi sem veita húsnæðislán, heldur einkareknir íbúðarlánasjóðir (building societies), sem lúta sérstökum reglum og þar sem allir húseigendur eru með veðlánin sín (mortgages). Þau fyrirtæki eru á hverju götuhorni og verða áfram.

Aztec, 13.9.2014 kl. 18:24

10 Smámynd: Ívar Pálsson

Athyglisverðar umræður, takk. En ég stend við þversögnina, þar sem fróðara fólk mér um Skotland á fundi Alþjóðamála- stofnunar HÍ virtist halda því fram að Skotar væru frekar vinstri sinnaðir og sá hluti vilji eindregið halda sig í ESB. Miklu meiri andstaða sé fyrir sunnan. Ef svo er, þá kemur þetta út sem ESB- kosning, sem amk. fælir margan ESB- andstæðinginn frá því að setja já við sjálfstæðið.

Ívar Pálsson, 13.9.2014 kl. 18:58

11 Smámynd: Aztec

Það er ekki mín reynsla, að þeir séu sérlega vinstrisinnaðir. Þegar ég bjó þar, var ég álitinn vera kommúnisti því að ég viðraði þá skoðun mína, að það væri of mikið bil milli ríkra og fátækra.

Oftar en einu sinni hafði ég á orði, að ég væri frekar hlnntur lýðveldi heldur en konungsveldi. það var umsvifalaust tulkað þannig að ég vildi umsvifalaust láta hálshöggva drottninguna og allt hennar hyski.

Þessir álitsgjafar sem þú talaðir við - gátu þeir vitnað í einhverja áreiðanlega og víðtæka skoðanakönnun varðandi pólítískar skoðanir ? Eða voru þetta bara einhverjir íslenzkir félags- eða stjórnmálafræðingar sem voru að gaspra?

Ekki gleyma því að Labour hefur hvað eftir annað beðið afhroð í Skotlandi. Þótt leiðtogar SNP, sem hefur hreinan meirihluta á þinginu í Edinburgh, skilgreini flokkinn sem sósíaldemókratískan, þá líkjast áherzlur þeirra frekar sósíalliberisískum flokki (betri heilbrigðisþjónustu, lægri skatta, jöfn tækifæri og sterkt atvinnulíf) og er þar með frekar miðjuflokkur að mínu áliti en vinstriflokkur.

Aztec, 14.9.2014 kl. 00:01

12 Smámynd: Aztec

Og ég er viss um að þetta skilti á myndinni þinni sé photoshoppað. :)

Aztec, 14.9.2014 kl. 00:03

13 Smámynd: Elle_

Andstæðan eða þversögnin er þarna eins og Ívar sagði.  Skotland undir Bretlandi er ekki sjálfstætt og ekki frekar undir Brussel.  Það er óskiljanlegt að vilja sjálfstæði frá Bretlandi meðan Brussel fer með æðsta valdið þar.

Elle_, 14.9.2014 kl. 01:59

14 Smámynd: Elle_

Ofanvert var orðað vitlaust hjá mér í lokin en mótsögnin væri að vilja sjálfstæði frá Bretlandi og ætla svo að gefa fullveldið Brusselvaldinu sem Bretland er nú þegar undir.  Það væri óskiljanlegt.

Elle_, 14.9.2014 kl. 02:11

15 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Ég náði þessu Elle,já það er óskiljanlegt. Mér er mjög hlýtt til Skota,dóttir mín og maður hennar,stunduðu nám í háskóla þar og ég fór 2svar þangað.Auk þess átti tengda dóttir mín ömmu í skosku hálöndunum.--- En það er mjótt á mununum í skoðanakönnunum,satt að segja erfitt þegar þegar krullið við Esb flækist fyrir. En ég óska þeim alls góðs,en leyni því ekki að ég vona að þeir kjósi sambandsslit,því England losar sig seint frá Brussel,valdinu.

Helga Kristjánsdóttir, 14.9.2014 kl. 03:48

16 Smámynd: Ívar Pálsson

Vel færi á því ef það reynist rétt að Skotar séu ekki sérlega vinstri- sinnaðir og hvað þá ESB- sinnar. En margoft hefur komið fram að þeir vilji áframhaldandi veru í ESB eftir sjálfstæði. Þannig er auðveldara fyrir ESB að ásælast auðlindirnar allar, ekki bara fiskimið Skota, sem hafa reynst öðrum löndum Evrópu svo vel!

Ívar Pálsson, 14.9.2014 kl. 08:00

17 Smámynd: Ívar Pálsson

Já, Aztek, skiltið á myndinni er kannski ekki til í raun, en gæti orðið til.

Ívar Pálsson, 14.9.2014 kl. 08:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband