Heilsa og fiskur eða pítsurusl

Hugsum um það sem máli skiptir. Manneskjan er hér á jörðu til þess að fjölga sér, koma genunum áfram.  Gæta síðan afkvæmanna, veita þeim skjól og næringu og stýra þeim í rétta átt til sjálfsbjargar og sjálfstæðrar hugsunar.  Erum við að gera þetta í dag?  Hver getur sagt að hann eða hún sé með forgangsröðina á hreinu? Góð heilsa verður að vera til staðar til þess að geta gert nokkurn skapaðan hlut fyrir mann sjálfan, hvað þá fyrir aðra. 

Ábyrgð á heilsu annarra líka

Ef nægileg ábyrgðartilfinning fyrir eigin heilsu er fyrir hendi þá nær sú ábyrgð líka yfir börnin og fjölskylduna sem heild.  Flestir vita hvað er gott eða slæmt fyrir þá og þeirra nánustu, en gera flest annað en gott þykir.  Eitt helsta framfararspor mannsins var það þegar hann fór að safna mat og hugsa til vetrar.  Sá sem stríðelur sig í dag á rusli án hreyfingar fyrir sig eða aðra í fjölskyldunni er sannarlega ekki að hugsa til nánustu framtíðar, hvað þá til langframa eða til viðhalds stofninum.  Neyslan hefur einnig áhrif á geðheilsu, sem nánast gengur í ættir eftir hegðunarmynstri, því að neysla og lífshættir móta einstaklingana sem eiga þátt í að móta afkomendurna. 

Leiðir skiljast í móðurkviði

Leiðir þeirra sem neyta hollustufæðu ungir og hinna sem lifa á rusli skiljast mjög snemma, þar sem þeim í hollustunni gengur betur í námi og ná lengra en aðrir.  Börn þeirra mæðra hafa strax forskot í líkamsvexti og atgervi öllu, t.d. með skilvirkari heila ef fiskneysla hefur verið góð.  Mannskepnunni hefur hvarvetna reitt vel af þar sem fiskur hefur verið drjúgur hluti neyslu hennar.  Þetta er nokkuð augljóst þegar skoðað er menntunarkort Bandaríkjanna, þar sem æðri menntun er langmest með ströndinni og upp með Mississipifljóti, í beinni samsvörun við fiskneysluna, á meðan fólkið inni í landi borðaði allt annað en menntaðist minna.  Það gæti þá verið að fólk með virka heila hafi sóst eftir félagsskap sinna líka eða jafnvel til neyslumynsturs sem það sá að gaf af sér hæfa einstaklinga í samkeppni tegundarinnar.

Íslendingar og Japanir

Nýlegar rannsóknir benda til þess að Neandendalsmenn hafi lítið eða ekkert neytt fiskjar enda dóu þeir út í samkeppni við Homo Sapiens manninn, sem við erum komin af (a.m.k. flest!). Íslendingar og Japanir, heimsmethafar í fiskáti hafa þótt standa sig vel að ýmsu leyti, t.d. í langlífi og frumkvæði, en eitthvað hlýtur að saxast á forskotið þegar áhrifa pítsukynslóðarinnar fer að njóta eða gæta, því varla er það að njóta.  Hertar jurtaolíur hafa t.d. ekki hjálpað mörgum til heilsu og sjálfsþurftar. Japönsk börn borðuðu hvalkjöt (Omega3- ríkt)  framan af öldinni. Fiskafurðir, kindakjöt, íslenskt grænmeti, ásamt skyri er það sem hefur gert okkur að því sem við erum í dag, þ.e. þau sem hafa húkt á skerinu í hundruð ára.  Það gildir áfram, því að sannleikurinn um fæðuna hefur ekkert breyst. Enn er tími til þess að snúa til betri vegar, því að jafnvel háaldrað fólk fær einhvern bata þegar það fer að taka lýsi og borða meiri fisk.

Vinir mínir segja að sem betur fer hafi móðir mín gefið mér lýsi og verið menntaður uppeldisfræðingur. Hvernig hefði þetta annars farið!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband