Byrjað í nunnuskóla

Nunnan brosti til mín í öllu sínu veldi í svörtum búningnum með hvítum vængjum út frá höfðinu. „Viltu fá brjóstsykur?“ spurði hún mig og rétti fram heilan bakka af sælgæti. Boðið upp á nammi fyrsta daginn í skólanum! Landakotsskóli var örugglega ekki eins og aðrir skólar. Sex ára bekkur, nunnur og prestur að kenna, farið oft með bænir og aðeins einn bekkur í árgangi. Skólastjórinn, séra Georg, var fínn í sínum svarta kaþólska prestsbúningi. „Viljið þið ekki sjá skólann?“. Hvort við vildum! Það sérkennilegasta var að fara upp í spírulaga turninn, upp grannan stiga eins og í ævintýrunum. Kannski væri þar einhver svífandi abbadís í hvítum búningi með töfrasprota? Hún birtist að vísu ekki upp í smíðastofunni þann morguninn.

Næsta dag fór mamma með mér í strætó og við gengum í skólann, til þess að ég þekkti leiðina, út hjá Þjóðminjasafninu og meðfram kirkjugarðinum. Steypta kirkjugarðsgirðingin var lág fyrst á leiðinni, svo að leiði löngu látins fólks sáust fyrst, en þau næstu á leiðinni hurfu vegna þess að girðinginn hækkar þar gagnvart götunni. Þar hvílir Axel sýslumaður, fæddur 1865 en dó 1954. Kona hans, Guðrún, fæddist 1875, en dó árið 1954.  Ég teygði mig upp teinréttan þegar framar dró, til þess að sjá fleiri leiði til hliðar við mig. Ég sé þá meira þegar ég verð stærri!, hugsaði ég. Setningarnar um fólkið létu mig búa til heilu sögurnar um líf þeirra. Hallgrímur Sveinsson biskup, fæddur 1841 og Elín M. B. Sveinsson kona hans. Kona hans var því –son og með sama nafni! Hjá öðrum stóðu setningar eins og „heiður er Guðs himinn”. Þessi fyrsti lærdómur síaðist inn, þar sem forfeðurnir og hverfulleiki lífsins minntu á sig í bítið.Landakot Magnus A

Mamma gekk með mér í gegn um hverfið framundan þar til Landakotskirkjuturn birtist, þá var ekki um að villast. Við kvöddumst og nú skyldi ég spjara mig. Ég kom það snemma um morgun, að séra Georg var ekki búinn að opna húsið. Við árrisulu börnin sem biðum fyrir utan skólann horfðum inn í myrkur hans og sáum dularfulla glóð sveima um gangana. Það var skólastjórinnn sem gekk um reykjandi morgunsígarettunar sínar.

Í reikningstímanum lét séra Georg mig fylla út í hvern reit reikningsbókarinnar og skrifa báðum megin, til þess að nýta hana sem best. Gæta varð sín sérstaklega að ekki brettist upp á hornin á reikningsblöðunum þegar hollenski presturinn horfði til, annars fengum við að heyra það: „Engin asnaeyru!“. En leikurinn sem hann lét okkur taka þátt í var hugarreikningur: „Fimm (bið) plús tveir (bið) mínus þrír (bið) plús níu (löng bið). Hver hefur svarið? Ég var ansi rogginn ef ég fékk að svara og svarið reyndist rétt.

Það var létt yfir systur Henríettu. Lífsorkan geislaði af henni. Það var eins og hún tæki flugið þar sem hún gekk hratt eftir göngunum, vængirnir blöktu og pilsfaldurinn sviptist. Hún þaut eftir götum Reykjavíkur á Volkswagen Variant skutbíl og lagði upp á stétt þar sem hentaði til þess að vinna tíma. Eyþór vinur minn vissi meira en ég um hana. „Stöðumæla- og hraðasektirnar eru sendar til Páfans í Róm og verða aldrei greiddar“, sagði hann eftir mikla rannsóknarvinnu. Mér fannst hún klár! 

Nunnur ekki LandakotsÉg hélt að hugur minn myndi ekki reika eins mikið í skólanum og hann gerði heima hjá mér, en það var sama sagan. Sérstaklega var mér hugleikið lífið hjá nunnunum áður en þær komu til Íslands. Ég sá fyrir mér börn í Hollandi í heimsstyrjöldinni og síðan ungar stúlkur í köldu steinklaustri að þylja bænir oft á dag á meðan systur mínar fimm dönsuðu hjá grammófóninum heima í einbýlishúsinu. Allir höfðu það víst ekki eins gott allsstaðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Töfrandi frásögn. Stemmningin ekki ósvipuð og í Hogwarths skólanum hans Potters.  Fróðlegt að vita að almættið borgar ekki stöðumælasektir. Hlýtur að hafa verið skringilegt æfintýri fyrir sex ára stubb og verkað örvandi á ímyndunaraflið. Eitthvað, sem þú virðist búa að enn.

Takk fyrir þetta. 

Jón Steinar Ragnarsson, 21.10.2007 kl. 21:26

2 Smámynd: Ívar Pálsson

Þakka þér, Jón Steinar. Skortur á ímyndunarafli hefur aldrei hrjáð okkur, en þú hefur ofgnótt og kemur því vel til skila.

Það er feikna gaman að lesa sögur Gunnars Þórðarsonar (bloggvinur "vinaminni" hér til hægri) um ferðir hans forðum. Þetta líkist Munchausen sögum á stundum, þegar klifrað er á rennum hótela og höfrungur kemur til bjargar, en það ótrúlega er að þær eru allar sannar.

Ívar Pálsson, 22.10.2007 kl. 17:03

3 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Hugljúf frásögn. Meira af þessu Ívar. Þu veist ég meika ekki jena- og Kaupþings-sögurnar

Jóna Á. Gísladóttir, 3.11.2007 kl. 15:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband