Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Japan 0, Ísland 1

Seðlabanki Japans hélt stýrivöxtum sínum óbreyttum núna í 0,5%. Litlar líkur eru á því að það breytist fyrr en líða tekur á vetur, þar sem vöxtur í Japan fer minnkandi. Þar með festist vaxtamunarverslun með krónuna í sessi og krónan styrkist. Dollarinn er met- veikur gagnvart pundi og veldur hæsta gull- og olíuverði. Nú getur vaxtamunar- elítan á Íslandi sofið róleg og aukið enn við þann risabagga sem krónan litla á að bera. Hitt fólkið, allir hamstrarnir í hringekjunum, getur þá verið visst um að þurfa ekki að slá af hraðanum til þess að eiga fyrir ofurvöxtum sem fara aðallega til Lúxemborgar og Cayman- eyja. Haldið dampi, hamstrarnir ykkar! Eruð þið ekki að byggja?


Dagur á Íslandi

Reykjavík í dag, 29/10/2007: morgunn, dagur og kvöld fylgir hér í myndum. Tökum eftir náttúrufegurðinni í sólarhringnum. Ég hrífst enn að hverjum degi. Ýtið á hverja mynd þrisvar fyrir fulla stærð.  

Morguninn Dagurinn Kvöldið


Alvörutungl

Manneskjur eru móttækilegar fyrir tunglinu. Þetta fulla tungl reis áðan í Nautsmerki. Diskarnir taka á móti upplýsingum frá gervitunglum. Hvenær kemur tungl- móttakari? (ýtið þrisvar á myndina fyrir fulla stærð).Gervi tungl

  


Skarfar á Lönguskerjum

Á Lönguskerjum í Skerjafirði er oft líflegt. Ég tók þessar myndir um daginn í gegn um stjörnukíki þar sem fjöldi skarfa kom saman til þerris, líkt og á bankafundi á mánudegi. Ýtið þrisvar á myndina.

Löngusker skarfar

Longusker5 langt


Kaupþings- klemman

Greining Kaupþings sýnir að krónan er of sterk og er háð vaxtamunarviðskiptunum sem halda við „styrk“ hennar og gera okkur öll (sérstaklega Kaupþing) háð gengi japanska Jensins eins og ég sýndi á línuritum áðan. Verðbólgumarkmið Seðlabanka hafa ekkert að segja, heldur það hvenær hann tekur stóra skrefið og lækkar stýrivextina. Skoðið þessar setningar Kaupþings og fyrri grein mína: 
  • „enda verður svigrúm til vaxtalækkana takmarkað."
  • „gengi krónunnar verði fremur sterkt út árið"
  • „Vaxtamunur við útlönd mun áfram verða umtalsverður en dragast eilítið saman"
  • „Um mitt ár 2008 mun gengi krónunnar taka að veikjast... og vaxtalækkunarferli Seðlabankans hefst."
  • „Krónan gæti talist ofmetin í augnablikinu"
  • „Vegna viðvarandi hás vaxtamunar við útlönd mun krónan áfram flokkast sem hávaxtamynt"
  • „Í raun má segja að krónan hafi aftengst íslenska hagkerfinu"
  • „krónan verður berskjaldaðri en aðrar myntir"
  • „ef.. mikill vaxtamunur við útlönd verður viðvarandi er líklegt að krónan verði áfram ofmetin"

Það sjá allir hve vítahringurinn er alger, á meðan vaxtamunarmyllunni er haldið áfram á fullu. En hagsmunir markaðsráðandi aðila eru það miklir að þrýstingurinn á breytingar er ekki nægur. Á meðan þjást útflutningsfyrirtæki og almenningur mun gera svo einnig, sérstaklega ungt fólk.


mbl.is Krónan 10-15% of hátt verðlögð samkvæmt Greiningardeild Kaupþings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jenið og Ísland eru nátengd

Íslenski markaðurinn er frekar gegnsær þessa dagana, þrátt fyrir flöktið. Vaxtamunarverslun ræður gegni Jensins og íslenski markaðurinn og krónan byggir á þeim viðskiptum, þannig að JPY gengið ræður gengi krónunnar á andhverfan hátt. Íslenski hlutabréfamarkaðurinn fer mest eftir bönkunum sem fylgja krónunni. Því segir Japanska jenið að mestu beint til um það hvernig íslenska krónan og markaðurinn fer á hverjum degi. Sjáið línuritin unnin upp úr m5.is (ýtið þrisvar á þau):JPY GVT OMX KAU 1607 2210

Kaupþing virðist ráðandi í gegni íslenska markaðarins og sveiflast beint gegn Jeni. Ég benti á Jenakaup þeirra í júní sl. Varla ræður Kaupþing gengi Jensins og því hlýtur Jenið að ráða gengi Kaupþings (á andhverfan hátt). Þar sem japönskum degi er nær lokið við upphaf hvers dags hér, þá liggur í raun fyrir hvert gengi Kaupþings og jafnvel gengisvísitölunnar verður þann daginn. Þó er hér spurning um hænuna eða eggið, hvort komi fyrst yfir sólarhringinn, áhrif japanska eða bandaríska markaðarins. Hringurinn byrjar oft í USA og magnast upp í Japan.  

Kaupthing JPY 1607 2210 Fylgjumst með næstu daga hvort andstæð fylgni heldur áfram að vera nær alger. Giskið að morgni út frá japanska jeninu eða Nikkei vísitölunni, sem er gjarnan öfugt við það. En svo gæti þetta blogg náttúrúlega haft áhrif þannig að fylgnin hætti!

Taka þarf þó fram að þetta Jenagengi er náttúrulega á móti krónu, sem er í beinni sveiflu á móti hlutabréfamarkaði, þar sem t.d. Kaupþing er ríkjandi. En það er í raun punkturinn: Vegna vaxtamunarsamninganna er Jenið upphaf og endir alls hjá okkur. Til þess að vinda ofan af því þarf Seðlabankinn að lækka stýrivexti, svo að vaxtamunarbransinn minnki, þannig að beintenging flöktandi gengis Jensins fari ekki alveg með okkur Íslendinga.

Annars fer ég í það við tækifæri að skoða fleiri þætti. Endilega komið með athugasemdir um hvað mætti fara betur eða skoða nánar. 

Athugið síðan að nokkur íslensk fyrirtæki  virðast ekki vera orðin eins háð Jenaflöktinu og hér að ofan, en þar má nefna Landsbanka Íslands. NB: Ég er ótengdur öllum!


mbl.is Hlutabréf í Japan hækkuðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jenið sækir aðeins á

Staða gjaldeyrismarkaða var svona í morgun: 

Jen hækkar gegn 16 helstu gjaldmiðlum.

Besta staða Jensins í sex vikur.

G-7 fundurinn segir að heimsþensla muni róast.

Dollarinn náði nýrri sögulegri lægð gagnvart Evru.

G-7 virðist styðja veikari dollar. Evra styrkist líklega frekar.

G-7 hvetja Kína til þess að hækka Remninbi (Yuan) hraðar. Í raun: „seljum USD“.

„Vaxtamunarverslunin er búin í bili“ segir næst stærsta gjaldeyrisverslun heims.

Verið er að leysa ýmsa vaxtamunarsamninga upp.

Nýsjálenski dollarinn (NZD, Kiwi) og Ástralíudollar (AUD, Aussie) falla.

JPY/USD gæti farið í 110 í næsta mánuði, enda dollar lágur.

Fjárfestar forðast áhættu og kaupa Jen.

Greenspan: sig dollars endurspeglar minni áhuga á bandarískum skuldum (skuldabréfum).

Alþjóðlegir fjárfestar seldu mjög mikið af bandarískum eignum í ágúst.

Bandaríkin eru komin að hámarki leyfilegra skulda.

  • Núna í eftirmiðdaginn fór nú dollarinn samt að styrkjast.

Það er furða hve krónan helst sterk. Líklegasta skýring er sú, að þolinmæðin hefur borgað sig svo vel fyrir svo marga sem hafa fylgt henni. En tími Jensins mun koma.

Bloomberg grein

http://www.bloomberg.com/apps/news?pid=20601087&sid=a6rpZBnUr134&refer=home

Financial Times grein

http://www.ft.com/cms/s/0/56e6fe18-807a-11dc-9f14-0000779fd2ac.html?nclick_check=1

 

ÍP:


mbl.is Krónan veiktist um 1,16% í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Byrjað í nunnuskóla

Nunnan brosti til mín í öllu sínu veldi í svörtum búningnum með hvítum vængjum út frá höfðinu. „Viltu fá brjóstsykur?“ spurði hún mig og rétti fram heilan bakka af sælgæti. Boðið upp á nammi fyrsta daginn í skólanum! Landakotsskóli var örugglega ekki eins og aðrir skólar. Sex ára bekkur, nunnur og prestur að kenna, farið oft með bænir og aðeins einn bekkur í árgangi. Skólastjórinn, séra Georg, var fínn í sínum svarta kaþólska prestsbúningi. „Viljið þið ekki sjá skólann?“. Hvort við vildum! Það sérkennilegasta var að fara upp í spírulaga turninn, upp grannan stiga eins og í ævintýrunum. Kannski væri þar einhver svífandi abbadís í hvítum búningi með töfrasprota? Hún birtist að vísu ekki upp í smíðastofunni þann morguninn.

Næsta dag fór mamma með mér í strætó og við gengum í skólann, til þess að ég þekkti leiðina, út hjá Þjóðminjasafninu og meðfram kirkjugarðinum. Steypta kirkjugarðsgirðingin var lág fyrst á leiðinni, svo að leiði löngu látins fólks sáust fyrst, en þau næstu á leiðinni hurfu vegna þess að girðinginn hækkar þar gagnvart götunni. Þar hvílir Axel sýslumaður, fæddur 1865 en dó 1954. Kona hans, Guðrún, fæddist 1875, en dó árið 1954.  Ég teygði mig upp teinréttan þegar framar dró, til þess að sjá fleiri leiði til hliðar við mig. Ég sé þá meira þegar ég verð stærri!, hugsaði ég. Setningarnar um fólkið létu mig búa til heilu sögurnar um líf þeirra. Hallgrímur Sveinsson biskup, fæddur 1841 og Elín M. B. Sveinsson kona hans. Kona hans var því –son og með sama nafni! Hjá öðrum stóðu setningar eins og „heiður er Guðs himinn”. Þessi fyrsti lærdómur síaðist inn, þar sem forfeðurnir og hverfulleiki lífsins minntu á sig í bítið.Landakot Magnus A

Mamma gekk með mér í gegn um hverfið framundan þar til Landakotskirkjuturn birtist, þá var ekki um að villast. Við kvöddumst og nú skyldi ég spjara mig. Ég kom það snemma um morgun, að séra Georg var ekki búinn að opna húsið. Við árrisulu börnin sem biðum fyrir utan skólann horfðum inn í myrkur hans og sáum dularfulla glóð sveima um gangana. Það var skólastjórinnn sem gekk um reykjandi morgunsígarettunar sínar.

Í reikningstímanum lét séra Georg mig fylla út í hvern reit reikningsbókarinnar og skrifa báðum megin, til þess að nýta hana sem best. Gæta varð sín sérstaklega að ekki brettist upp á hornin á reikningsblöðunum þegar hollenski presturinn horfði til, annars fengum við að heyra það: „Engin asnaeyru!“. En leikurinn sem hann lét okkur taka þátt í var hugarreikningur: „Fimm (bið) plús tveir (bið) mínus þrír (bið) plús níu (löng bið). Hver hefur svarið? Ég var ansi rogginn ef ég fékk að svara og svarið reyndist rétt.

Það var létt yfir systur Henríettu. Lífsorkan geislaði af henni. Það var eins og hún tæki flugið þar sem hún gekk hratt eftir göngunum, vængirnir blöktu og pilsfaldurinn sviptist. Hún þaut eftir götum Reykjavíkur á Volkswagen Variant skutbíl og lagði upp á stétt þar sem hentaði til þess að vinna tíma. Eyþór vinur minn vissi meira en ég um hana. „Stöðumæla- og hraðasektirnar eru sendar til Páfans í Róm og verða aldrei greiddar“, sagði hann eftir mikla rannsóknarvinnu. Mér fannst hún klár! 

Nunnur ekki LandakotsÉg hélt að hugur minn myndi ekki reika eins mikið í skólanum og hann gerði heima hjá mér, en það var sama sagan. Sérstaklega var mér hugleikið lífið hjá nunnunum áður en þær komu til Íslands. Ég sá fyrir mér börn í Hollandi í heimsstyrjöldinni og síðan ungar stúlkur í köldu steinklaustri að þylja bænir oft á dag á meðan systur mínar fimm dönsuðu hjá grammófóninum heima í einbýlishúsinu. Allir höfðu það víst ekki eins gott allsstaðar.


Þórunn mun klúðra samningsstöðu Íslands

Umhverfisráðherra er ákveðin í því að gefa frá okkur hundruðMoney flies milljarða til annarra þjóða á meðan þær munu keppast við að kría út sem mestan losunarkvóta koltvísýrings á Balí í desember. Hún staðfesti áðan í ríkisútvarpinu að við ættum ekki að fá undantekningar og vill að við eigum að takmarka sem mest sjálf  þann kvóta sem fæst, en lýsir samt yfir að um veruleg verðmæti í ríkiseign sé orðið að ræða. Er hægt að vera vanhæfari en þetta til samninga um þessi „verðmæti" fyrir hönd okkar þegnanna? Fyrst takmörkum við það sem við fáum, helst til ársins 2020 að hennar vilja og búinn verður til kvótamarkaður þar sem við þyrftum að kaupa losunarheimildir í stað þess að fá ríflega skammtað og selja þær síðan frá okkur fyrir offjár. Þetta verðandi klúður er barnaleg skyssa, sem er miklu stærri en Orkuveitu- REI málið.

Ráðherra taki ábyrgð fyrir Íslands hönd

Valið stendur um það að ráða sjálf þeim vexti sem við teljum að þjóðin þurfi, eða að framselja hann til annarra þjóða með gjafasamningi. Koltvísýringslosun Íslands gagnvart heiminum breytir engu vegna þess hve lág hún er (og af vísindalegum ástæðum), en þetta afstyrmi samnings sem framundan er mun stöðva iðnað landsins innan skamms. Það er kannski það sem Þórunn vill.

Hér er tengill í útvarpsviðtalið í Speglinum á ruv.is: http://dagskra.ruv.is/streaming/ras1/?file=4362633
mbl.is „Nóbelsverðlaunin sýna að loftslagsbreytingar ógna friði"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klórblöndum ekki tæra vatnið okkar

Ófarir Oslóbúa með sníkjudýr í vatninu virðast setja aftur Vatnsdropiþrýsting á okkur Íslendinga að samþykkja ómögulega Evrópulöggjöf um skyldublöndun á efnum (klór?) út í vatnið. Noregur tók ekki upp löggjöfina vegna sérhagsmuna Íslands (hreina vatnið). Byrlum ekki börnum okkar eitur, ófæddum og fæddum. Taka verður á einstökum málum sem kunna að koma upp, en fara ekki að sulla eitri út í vatnið eins og var gert á Keflavíkurflugvelli að kröfu Varnarliðsins heitna. Hreina Gvendarbrunna, beint ofan í fólkið!
mbl.is Íbúar Ósló óttaslegnir vegna sníkjudýrs - þrír hafa smitast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband