Bloggfærslur mánaðarins, júní 2009

Frumvarp um Weimar- Ísland

Nú verður frumvarp um stærstu skuldbindingu Íslandssögunnar lagt fram á Alþingi, án þess að aukinn Weimar- Íslandmeirihlutastuðningur sé fyrir því á þingi, jafnvel ekki einfaldur meirihluti sem styður það. Bráðaþörf er á því að breyta lögum landsins um meðferð slíkra mála  þannig að það sé til samræmis við mikilvægi eða skuldbindingu, sbr. lög um hlutafélög, þar sem krafist er amk. 2/3 hluta atkvæða til slíkra ákvarðana, sem hafa afgerandi áhrif á starfsemina um ókomna tíð.  

Raunar ætti að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave samninginn, enda eiga þeir fulltrúar sem sum okkar kusu á þing ekki að geta fengið til umráða undirritaðan óútfylltan tékka, stílaðan á þrældóm okkar langt fram í tímann vegna ævintýra gjaldþrota einkafyrirtækja.  Þetta finnst flestum gefa auga leið, en lúðraþytur fylkinganna bylur svo í eyrum, að almenningur játar sig sigraðan og segir við alþingismennina: „skrifið undir, allt fyrir friðinn, kannski verða þjóðirnar mildari við okkur fyrir vikið“.

Hvar í stjórnmálaflokki sem þú stendur, ekki gefast svona upp! Við hin þörfnumst þín í kjörkuðum hópi einstaklinga sem kallast Íslendingar og vilja búa á fjarlægu, gróðurlitlu skeri í norðurhöfum. Nóg er okkar eigin skuldaánauð, þótt við tökum ekki á okkur sjálfviljug skuldir ráðvilltra milljarðamæringa sem flugu sitt Íkarusaflug upp í sólina.

Látum Íkarus falla án okkar hjálpar. Höfnum Icesave- „samningunum“.

 

Um Ikarus af Wikipediu: http://en.wikipedia.org/wiki/Icarus

“Before they took off from the island, Daedalus warned his son not to fly too close to the sun, nor too close to the sea. Overcome by the giddiness that flying lent him, Icarus soared through the sky curiously, but in the process he came too close to the sun, which melted the wax. Icarus kept flapping his wings but soon realized that he had no feathers left and that he was only flapping his bare arms. And so, Icarus fell into the sea…”


mbl.is Icesave-ábyrgð úr ríkisstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Staðreyndir um Icesave standa

Áköf leit mín að lögfræði í plaggi Jakobs R. Möller skilaði litlu. En álit um það hvað væri algengt eða fátítt í samningum er víða að finna, einnig skoðanir á hinum ýmsu málum, en bein rök gegn neikvæðri túlkun lærðra lögspekinga eru afar rýr. Eftir stendur óhaggað:

  • Um verulegt afsal réttar til málskota er að ræða. Þjóðaréttur fellur niður að mestu leyti.
  • Eftir greiðslufall (5 daga) þyrfti ríkið að benda á eignir hérlendis og erlendis fyrir jafnvel hundruðum milljarða króna.
  • Ekkert þak er á skuldarupphæðinni.
  • Engin takmörkun er á því hlutfalli þjóðarframleiðslu Íslands sem greiða þarf árlega.
  • Skuldina má gjaldfella alla við minnsta greiðsludrátt ( jafnvel annarra skulda).
  • Nær 100% öruggt er að ríkið greiði 300 milljarða í vexti, án bóta.
  • Endurskoðunarákvæðin hafa EKKERT skuldbindingargildi fyrir Breta/Hollendinga.
  • Ef dómstólar dæma Neyðarlögin ógild, þá er Icesave- skuldin ofboðsleg (800 ma+).
  • Ef dómstólar dæma öðrum veðhöfum Landsbankans í hag, þá er öll Landsbanka- skuldin ofboðsleg (1000 ma+).

Ofangreindar fullyrðingar hafa ekki verið hraktar lögfræðilega. Þvert á móti, staðfestar. Hvaða staðreyndir nægja eiginlega til þess að meirihluti þingmanna sannfærist?


mbl.is Hagstæð ákvæði Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hæstaréttardómari staðfestir afsal

Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttardómari birti hnitmiðaða grein í Mbl. í dag (bls.15) þar sem hann lýsir þeirri skoðun sinni að afsal felist í Icesave samningunum. Aðalefnið er þó það að íslenska þjóðin eigi að fá úrlausn hlutlausra dómstóla um það hvort hún skuldar Icesave- féð:

 

„Icesave-samningarnir snúast í raun og veru um hvort við Íslendingar eigum að njóta þessa helga réttar í viðskiptum okkar við fyrrnefndar þjóðir. Það er nefnilega verið að semja við þær um afsal hans (feitletrun ÍP). Þær vilja fá fram viðurkenningu okkar um að við skuldum þetta án þess að leyfa okkur að njóta þess grunnréttar sem þær segjast sjálfar virða, bæði gagnvart sínum eigin borgurum og einnig í deilum milli þjóða, að allir skuli hafa aðgang að dómstólum til að láta dæma um réttindi sín og skyldur.“

 

EFTA courtMagnús Thoroddsen, fyrrverandi forseti Hæstaréttar hefur einnig lagt áherslu á ofangreint. Hann telur EFTA- dómstólinn réttan aðila til þess að dæma í málinu. En staðfesting Alþingis á Icesave- samningnum afsalar okkur þeim málskotsrétti. Bretar og Hollendingar hafa fullyrt að samningunum verði ekki breytt. Því er augljóst að Íslendingar eiga ekki annarra úrkosta völ en að hafna samningunum.

 

 


mbl.is Icesave gæti fellt stjórnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gjaldeyrishöft: „svindlarar“ í hverju horni?

Gjaldeyrishaftalögin eru svo hamlandi á eðlileg viðskipti (t.d. vegna tíma og kostnaðar) að stærstu útflutningsfyrirtækin teljast brotleg þótt þau séu t.d. einungis að borga efniskostnað beint erlendis eða af erlendum lánum sínum þar. Hvorugt kemur krónunni nokkuð við, en haftalögin banna þetta. Fyrirtæki ættu ekki að teljast svindla þótt þau verji sig gífurlegri gengisáhættu með því að safna í gjaldeyrissjóð, hvar sem hann er í löglegu umhverfi en ekki  í skattaparadísum.

Það er grundvallarfrelsi á alþjóðlegum viðskiptum að mega ákveða hvar peningar eru geymdir, í  innlendum eða erlendum banka, sérstaklega á þessum válegu tímum þegar bankar út um allt eru í raun gjaldþrota og vel það eins og okkar þrír eru. Nýju kennitölurnar hér blekkja engan hugsandi mann;  á bönkunum hvíla ábyrgðir upp á þúsundir milljarða króna. Útflytjandi sem fær andvirði afurða sinna greitt í erlendum gjaldeyri ætti ekki að þurfa að sæta því að ríkið taki andvirðið inn í sinn platbanka og inn á platgjaldeyrisreikninga, sem ekki er hægt að fá gjaldeyri út úr aftur að vild, enda ákveður svo ríkið platgengi í krónum á gjaldeyrinn, þegar andvirði hans er leyst út.

Ríkið, með öllum sínum undirfyrirtækjum,  endar fljótt með það að verða eini aðilinn sem má eiga eðlileg viðskipti án afskipta. Aðrir verða að sækja um leyfi fyrir hverri aðgerð, annars eru þeir útmálaðir svindlarar af Bankasýslu Ríkisins, Gjaldeyrishaftaeftirliti Ríkisins, Fjölmiðlaeftirliti ríkisins eða hvaða nýrri stofnun sem vinstri stjórninni dettur í hug að koma á legg. Þar með mótast álit þorra manna á alvöru útrásarfólki sínu.


mbl.is Fara framhjá gjaldeyrishöftum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólæs forsætisráðherra Samfylkingar?

Annað hvort er forsætisráðherra Samfylkingar ólæs eða að hún hefur ekki lesið yfir Icesave- samninginn með lögfróðu fólki, samninginn sem hún lét skrifa undir.

Sinnaskipti hennar héðan af skipta engu: hún hefði átt að vita betur en að veðsetja ríkiseignirnar.

Síðan hefur margnefnd 15. grein samningsins (til varnar Íslandi) ekkert skuldbindingargildi, heldur aðeins að „hefja viðræður, ef, þá hvort og hvernig“!!!


mbl.is Hræðsluáróður, segir Jóhanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þýðing Magnúsar Thoroddsen hrl.

Hér er þýðing Magnúsar Thoroddsen hrl., fyrrverandi forseta Hæstaréttar á  grein 16.3 Icesave samningsins við Hollendinga (sem er nauðalíkur breska samningnum):

 „ Afsal á griðhelgi fullveldis

Bæði Tryggingasjóðurinn og Ísland samþykkja algerlega hvers konar málsókn gegn sér í sambandi við hvaða deiluefni, sem upp kunna að koma og hvers konar annað réttarúrræði gegn sér, þar á meðal aðför eða fjárnám,  í hvaða eignum eða réttindum ( án tillits til hvaða nota þau eru ætluð) samkvæmt hvers konar úrskurði eða dómi.

Ef  Tryggingasjóðurinn eða Ísland, eða hvers konar eigur eða réttindi þeirra,  eiga rétt á griðhelgi í einhverri lögsögu frá málshöfðun eða birtingu annarra skjala í tengslum við hvaða deilu sem er, eða eiga rétt á hvers konar annarri griðhelgi frá lögsögu, lögsókn, dómi, fjárnámi, kyrrsetningu  ( þótt það sé  áður en dómur gengur til þess að tryggja aðför eða annað réttarúrræði)  eða annars konar lögsókn, þá er hér með óafturkallanlega fallið frá griðhelgi á eins algeran hátt og lög viðkomandi lögsögu leyfa.

Bæði Tryggingasjóðurinn og Ísland lýsa því einnig óafturkallanlega yfir, að þau samþykki, að gera ekki kröfu um griðhelgi sjálfum sér til handa eða vegna eigna eða réttinda hvors um sig.

 

Hversu takmarkaða ábyrgð telur þú ábyrgð Íslands nú vera? !

Fyrri greinar ÍP:

Milliríkjadeilan varð að bresku einkaréttarmáli

Með byssuna í hnakkann og bundið fyrir augun

Klýfur varaformaður flokkinn með Icesave og ESB?

 

 


mbl.is Icesave-samningar birtir í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Milliríkjadeilan varð að bresku einkaréttarmáli

Ríkissjónvarpið birti grein úr Icesave- samningnum á 17. júní. Ef Alþingi staðfestir hann, þá afsalar íslenska ríkið sér rétti til varna í þjóðarétti, en getur einungis varist í breskum einkamálarétti.  Allar eigur og réttindi ríkisins yrðu þar settar að veði án takmarkana, verði greiðslubrestur, þar sem samningurinn yrði allur gjaldkræfur. Þar mætti m.a. ganga að eftirfarandi eignum:

  • ·         Landsvirkjun
  • ·         Gullbirgðir Íslands, (sem geymdar eru í Seðlabanka Englands).
  • ·         Auðlindaréttindi í hafinu, fiskurinn í sjónum
  • ·         Varðskipin (sem mætti kyrrsetja)
  • ·         Byggingar, þjóðvegir osfrv.

Enginn íslenskur þingmaður, sama hvaða stjórnmálaflokki hann tilheyrir, getur staðfest þennan nauðungarsamning án þess að fremja landráð, þar sem um öryggi landsins er að tefla.

Við eigum annarra úrkosta völ: að gera hvað sem er annað en að staðfesta samninginn.


mbl.is Harðasta milliríkjadeilan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Með byssuna í hnakkann og bundið fyrir augun

Steingrímur J. staðfestir að Icesave- gjörðin er á milli einkaaðila, banka og tryggingarsjóðsins og þess vegna fáist hann ekki birtur. Þetta er ekki þjóðasamningur. Lymska Breta í því að draga okkur út úr þjóðarétti yfir í breskan einkamálarétt kemur í veg fyrir það að Alþingi taki einu vitrænu ákvörðunina og hafni samningnum.  

 

photobucket_gunpoint.pngSamningur þessi er ein allsherjar lögfræði- gryfja fyrir Íslendinga, það staðfesti einn lögfróðasti maður Íslands í gær við mig, eftir að hafa skoðað ósköpin. Óháð pólítík, þá skrifar engin heilvita maður undir slíkt afsal almennra grunnréttinda manna, hvað þá fyrir hönd heillar þjóðar, án þess að hver grein samningsins sé opinberuð.  Semsagt, skrifað undir með bundið fyrir augun og með kalt byssuhlaupið við hnakkann. Nei takk!

 

Vinsamlegast kíkið á færslu mína frá því í nótt og athugasemdir við hana, þar sem málið er betur reifað:

Klýfur varaformaður flokkinn með Icesave og ESB?

http://astromix.blog.is/blog/astromix/entry/897430/


mbl.is Enn leynd yfir Icesave-samningi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klýfur varaformaður flokkinn með Icesave og ESB?

Á ég að trúa því að vinkona mín, Þorgerður Katrín, ætli að bregðast þjóðinni í Icesave- málinu?putty_tear_apart.png Einmitt þegar sjálfstæðisþingmenn ná líklegast að fella afarsamninginn ef þeir standa saman, með aðstoð réttsýnna þingmanna úr öðrum flokkum?  Ég las annars staðar í dag að hún gefi það í skyn, að hún verði að styðja samninginn. Ef þingmenn úr Sjálfstæðisflokki staðfesta Icesave- „samninginn“, þá eru þeir sjálfkrafa að lýsa því yfir að nauðung sú, sem ESB með IMF beitir Íslendinga sé í lagi, allt fyrir heildarhagsmunina, sem felast í ESB aðild.

 

Sverfur til stáls í Icesave

Nú sverfur til stáls í þessu Icesave/ESB máli innan Sjálfstæðisflokksins, sem ég tel að sé í grundvallaratriðum svo, að um 30% flokksins vill Evrópusambandið, en drjúgur meirihluti vill það ekki, heldur sjálfstæði. Loftið átti að hafa hreinsast á landsfundi og í kosningunum en gerði það ekki. Um óásættanlegan ágreining er að ræða, sem kemur berlega í ljós í Icesave málinu ef þeir sjálfstæðisþingmenn finnast sem styðja þessa sjálfsaftöku þjóðarinnar. Ef einn bregst, þá hefur flokkurinn brugðist okkur öllum.  Samfylkingarþingmenn standa sem einn í vitleysunni, djúpt í kviksyndinu og vilja draga ljósbleikblátt sjálfstæðisfólk út í svaðið eins og í ríkisstjórninni forðum.

 

Einhliða nauðasamningur staðfestur af Samfylkingu

Fólk djúpt innan kerfisins sem þekkir til Icesave- bardagans, staðfestir að þetta er einhliða nauðasamningur. Nú þegar greinar hans birtast lögspekingum kemur í ljós að allt morar í gryfjum gegn Íslandi.  Gryfjurnar eru faldar í óvenju- erfiðu ensku lagamáli. Helst þar má nefna  afsal Íslands á þjóðréttarlegri stöðu sinni, þar sem Bretum tókst að færa málið úr þjóðarétti, samningum á milli þjóða, yfir í breskan einkarétt. Lögsagan yrði í raun bresk, í stað þess að vera þjóðréttarleg. Þetta er gert með því að draga íslenska ríkið inn í einkaréttarsamninga á milli banka og tryggingarsjóðsins, sem er einkaaðili.  Fyrir vikið missir íslenska ríkið flestan þann rétt og þá stöðu sem fyrir hendi er í dag í þessu máli. Nær ómögulegt yrði að koma viðhlítandi vörnum við frá okkar hendi. Mál þessi fengjust ekki rædd t.d. hjá Sameinuðu þjóðunum, þar sem um einkarétt yrði að ræða.  Mál með rakinn rétt Íslands yrðu að engu með afsalinu stóra.eaglecartoons_load.png

 

Réttur Breta verður ofaná

Vegna ofangreinds þá fá Bretar í raun ýmsar eignir íslenska ríkisins að veði, ef greiðslubrestur verður.  Hugsanlega yrði hægt að ganga að t.d. eignum fjármálaráðuneytisins! Breska ríkið setti raðir lögfróðs fólks, sérfræðinga í það að semja hverja grein samningsins. Hér  er mjög undirmannað og eðlilegir umsagnaraðilar fá hvorki samninginn né þá ráðrúm til þess að skoða hann.  Brotið er á grundvallarrétti manna með þessari samningagerð. Maður ber ekki ábyrgð á gjörðum annarra nema að maður hafi skrifað undir slíka ábyrgð.

 

Samningurinn ber augljóslega merki þess að vera einhliða gjörningur breska ríkisins, nauðungarsamningur sem íslenska samninganefndin telur sig hafa orðið að verða við vegna stjórnmálalegs þrýstings, í stað jafnhliða samnings á milli þjóða. Þrýstingurinn að ljúka málinu er svo mikill að augljóslega varð djöfullinn eftir í smáatriðunum.

 

Þingmenn með réttlætiskennd

Sem betur fer finnst núna góður fjöldi þingmanna sem ber skynbragð á sanngirni og hafnar Icesave-samningnum. Þar má enginn sjálfstæðisþingmanna bregðast. Helsta hættan er hjá ESB- sinnum, sem ættu að stofna eigin flokk eða að ganga í Samfylkinguna og falla með henni, en ekki að misnota Sjálfstæðisflokkinn í þessa herferð þeirra til Brussel- veldisins með fjárhagslegum Icesave skuldbindingum á hvert mannsbarn, eins og í forrétt fyrir aðalréttinn, aðild að ESB.

 

Verður Ólafur Ragnar Grímsson síðasta vonin?

Þar kemur kannski að því að okkur verði bjargað af Forseta Íslands. Þeim hinum sama og Icesave- samningamaður Íslands, Svavar Gestsson á að hafa sagt um forðum um nokkuð á þessa leið: Fyrr frysi Faxaflói yfir en að ég kjósi þennan mann!“. Þeir áttust augljóslega við í pólítíkinni í þá daga. En nú er kannski von til þess að Ólafur Ragnar Grímsson fái allsherjar syndaaflausn með því að neita að staðfesta breska Icesave- ofbeldisbragðið. Það yrði óvæntur sigur sanngirninnar.


mbl.is Sjálfstæðismenn ráða úrslitum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bara ef þeir hefðu nú farið!

Við lestur fréttar Mbl.is um banka og ábyrgðir hnaut ég um þessa grein mína frá því í júlí 2008 fyrir hrunið. Smá „flashback“:

28.7.2008 | 11:08

Bankar úr landi?

Væntanleg þjóðnýting ábyrgða bankanna á meðan þeir halda eignunum leiðir huga manns að  því hvort við ættum ekki frekar að hvetja skuldugustu bankana til þess að flytja höfuðstöðvar sínar úr landi. Að öðrum kosti lenda hrikalegar skuldir þeirra og ábyrgðir  á okkur ef illa fer, sem verður æ líklegra.

BNA: Gegn markaðshagkerfi 

Yfirtaka Federal Reserve (nk. Seðlabanka Bandaríkjanna)  á 5,2 milljón milljóna dollara ábyrgðum Freddie Mac og Fannie May fasteigna- veðlánabankanna  sýnir hvernig ríkið getur hlaðið nær óendanlegri ábyrgð á þegnana á einni helgi, eins og að smella fingri. Reiknað var út að virði ábyrgðarinnar vegna þessa væri um 150 milljarðar dollara, en rúmlega helmingur þess fór beint til hluthafanna sjálfra skv. The Economist (19/11/2008 forsíðugrein).  Ábyrgðirnar urðu til af því að ríkið taldi sér skylt að veita þessa vernd til bankanna. Breska ríkið fór eins að með Northern Rock bankann. Í stað þess að láta hann mæta þroti sínu ákvað stjórnin að bjarga honum og skekkti þar með samkeppnisstöðuna, þar sem bankinn færðist úr verstu stöðu, sem hann kom sér í sjálfur, í eina þá bestu, framar flestum öðrum bönkum, enda ríkið ábyrgt.

Þjóðnýting skulda á Íslandi Þjóðnýting?

Á Íslandi stefnir í það að ríkið færi meginþorra skulda og taps bankanna beint yfir á þegna landsins. Það er helst á tvenna vegu. Annars vegar með því að tilkynna að um mikil gjaldeyriskaup ríkisins verði að ræða, en það hvetur bankana og fleiri til andstæðra aðgerða, sem skila þeim milljarðatuga króna hagnaði á nokkrum vikum, en okkur sömu upphæð fátækari í gegn um krónuna. Hins vegar með því að gefa í skyn að um ábyrgð ríkisins sé að ræða á skuldum bankanna. Það hefur aukið lánakostnað trausta ríkisins okkar  verulega, en aðallega myndi það valda gríðar- hruni  krónunnar ef ríkið bjargaði íslenskum banka sem yrði fyrir áhlaupi þegar í ljós kæmi  að stoðirnar væru ekki nægilega traustar, fasteignirnar ofmetnar og  ábyrgðirnar vanmetnar.

Vaxtamunarverslun gegn krónunni 

Einhver segir eflaust núna að ofangreint sé ábyrgðarlaust tal, þúsundir manna hafi atvinnu hjá bönkunum hér og ruðningsáhrif séu mikil. En ábyrgðarleysið er hjá bönkunum, sem verða að horfast í augu við afleiðingar aðgerða sinna síðustu árin. Vaxtamunarverslunin (e. Carry Trade) með krónubréf ofl. er ein helstu rangindin sem við höfum verið beitt, þar sem krónan er gíruð upp, sem ýtir Seðlabankanum til vaxtahækkunar sem gírar krónuna upp frekar, þar til stíflan bregst.  Það hefur aðeins verið greitt inn á þá ofurvíxilskuld sem vaxtamunarverslunin skóp, stærsti hluti hennar er ógreiddur og fellur senn á krónuna.

Ábyrgð Íslendinga á útrás bankanna 

Bankarnir hafa verið stoltir af Edge og Icesave reikningum sínum, þar sem t.d. breskar húsmæður hagnast á því hve Seðlabanki okkar ákvað stöðugt hærri  stýrivexti, margfalt hærri en í Bretlandi. Þetta hefur tekist með flóknum vaxtaleik íslenskra banka. Ef okkur ber gæfa til þess að Seðlabankinn lækki stýrivexti hraustlega, þá gæti grunnur slíkra reikninga veikst (en kannski einnig ef raunveruleg staða bankanna yrði ljós). Umræður eiga sér stað í Bretlandi hvernig færi ef bankarnir sem að baki standa færu í þrot. Ein hugsanleg  niðurstaða var sú að íslenska ríkið greiði allt að 2 milljóna þrot hvers reiknings, en breska ríkið afganginn upp að nær 4 milljónum.  Íslendingar ættu að krefjast þess að stjórnvöld hér staðfesti óumdeilanlega að um engar slíkar ábyrgðir sé að ræða, enda eru allt að 2/3 hlutar viðskipta bankanna erlendis. Hví ætti fámenn þjóð að standa ábyrg fyrir „útrás“ bankanna, þar sem um ógurlegar upphæðir er að ræða og stofnun hvers reiknings hækkar hvort eð er vaxtastig á Íslandi eða grefur undan krónunni með tímanum.

Raunverð fasteigna ratar í bækur bankanna að lokum 

Fasteignaleik bankanna hlýtur senn að ljúka. Þeir mega ekki við því í lausafjárkreppunni að verðmat fasteignaveða þeirra sé lækkað um þau 30-40% sem þau þyrftu helst að gera til þess að sýna markaðsvirði, enda er þá drjúgur hluti nýju fasteignalánanna vel í mínus og því viðhalda þeir ímynd stöðugra fasteignaverða. Ekki er staða banka öfundsverð ef hann er með 1000 punkta (10%) skuldatryggingarálag, ofmetnar fasteignir, hættur að þéna á skuldabréfavafningum og vaxtamunarviðskiptum og hefur lítið eftir nema kaup og sölu krónunnar, sem gefur að vísu vel í miklu flökti núna. Hann verður þá að halda áfram að virka sem fjárfestingalánasjóður úti í heimi, en hátt á áhættukúrvunni þar sem ávöxtunin er drýgri ef vel gengur.

Álögur okkar minnka ef skuldugur banki flyst burt

Ef íslenskur banki færir höfuðstöðvar sínar úr landi, t.d. til Bretlands, þá léttir af okkur ábyrgðum, lánakostnaður okkar og ríkisins lækkar, bankanum er ekki eins auðvelt að leika sér með krónuna sem flöktir þá minna og fer frekar eftir grundvallaratriðum (e. „fundamentals“) í gengi hennar, ss. vöruskiptajöfnuði. Bretar beita banka sína líklega meira aðhaldi en við með eftirlitsstofnunum sínum, þannig að rekstur bankans yrði trúlega gegnsærri. Rými myndast þá á Íslandi fyrir evrópska banka sem veitt geta lágvaxta Evrulán gegn veðum í hágæðafasteignum  með raunsætt verðmat.  Ætli maður bíði þá ekki bara í 2-3 ár eftir því?


mbl.is Nýju bankarnir bera byrðina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband