Endamörk þarfleysunnar

2010_volcano_eyjafjalla_ivarpalsson.jpgHvað aðhefst umhverfisráðuneytið þessa dagana, þegar 20-700 fínmuldir smábílar þeytast upp í andrúmsloftið á hverri einustu sekúndu og dreifast sem aska um Ísland og nágrenni? Jú, það vinnur hörðum höndum að því að uppfylla skilyrði Evrópusambandsins um kolefnislosunarbókhald þess fyrir inngöngu Íslands í batteríið.

 

Friðun og kolefnilosunarbókhald eru aðalatriðin

En kannski var Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra upptekin við það að friða gossvæðið á Fimmvörðuhálsi fyrir ágangi mannskepnanna ógurlegu, sem  gerðu för í snjóinn hjá nýja fjallinu? Hún lýsti amk. vilja sínum til þess. Vinnunni miðaði vel áfram þar til Eyjafjallajökull fór að gjósa nokkrum kílómetrum frá og lagði öskuteppi yfir svæðið. Svandís getur þá friðað það þar til vindurinn blæs öskunni á haf út. Þá breiðist friðarboðaskapurinn út um allt, inn í flugvélahreyfla eða t.d. ,til Noregs. Þar fellur hann á blað Vinstri grænu stjórnarinnar, þar sem útlistað er kolefnislosunarbókhald Norðmanna. Bora skal eftir olíu hvar sem hún finnst og selja til annarra sem brenna henni í sínu bókhaldi, á meðan Noregur kaupir kvóta, ræktar tré og styður einræðisherra í Afríku til þess að jafna kolefnislosunarbókhald þeirra líka.

 

Athafnir náttúrunnar skipta víst ekki máli

En hér á Íslandi skiptir víst ekki máli hve mikið eldfjöllin losa af koltvísýringi eða af öðrum gróðurhúsalofttegundum, af því að mennirnir gera það ekki. Víst var reiknað fyrst, þegar eldgosið á Fimmvörðuhálsi virtist „aðeins“ senda sex tonn af hrauni á sekúndu upp í loftið. Síðan hljóðnaði í kolefnisvísindamönnum þegar ljóst var að magnið var sjöfalt á við það. En við öskugosið hundraðfaldaðist massinn og ekki aðeins það, heldur margfaldaðist gaslosunin þar sem um öskugos varð að ræða. Þá urðu svör kolefnisgengisins á þá leið, að náttúruleg losun komi kolefnislosun manna ekkert við.  

 

ip_gerdur_volcano.jpgMagnið skiptir víst ekki máli

Það skiptir semsagt engu máli hvort eldgos vari sekúndunni lengur eða skemur, hvort það losi tíu þúsund, hundrað þúsund eða milljón tonn af koltvísýringi eða öðrum mun virkari gastegundum, heldur er aðalmálið að þú hjólir í vinnuna og sparir þannig á einu ári sekúndubrot af losun eldfjallsins. Þá gleymist að vísu að í stað þess að anda að þér HEBA- filteruðu lofti í bílnum þá andar þú á fullu á hjólinu að þér svifryki eldfjallsins í viðbót við svifryk bílanna sem eftir eru.

 

Umhverfisráherra hugsi um umhverfi okkar

Nálægð Íslendinga við náttúruna sýnir okkur vel hvílík endaleysa þetta kolefnisbókhald er, hvað þá kvótinn sem því fylgir. Það er skiljanlegt að kaffihúsa- teóristar í vestrænum stórborgum aðhyllist alls kyns kerfi um það hvernig maðurinn geti ráðið veðurfari jarðar eða stjórnað öðru í náttúrunni að sínu skapi , en við hljótum að sjá að þannig aðgerðir geta aldrei verið annað en sandkastalar gegn briminu á ströndinni . Einbeitum okkur þess frekar að því að hugsa um velferð Íslendinga, sérstaklega í brimsköflunum sem nú ganga yfir. Huga ber að heilsunni, ásamt því að beisla endurnýjanlega orku til athafna, fólkinu til heilla, í stað þess að eyða tíma og fé þess í þarfleysu eins og núverandi ríkisstjórn sérhæfir sig í.


mbl.is Eldgosið áfram á sama róli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú ert nú alger... snýrð öllu á hvolf.  Varstu ekki búinn að frétta að 'hnattræn hlýnun' veldur eldgosum, jarðskjálftum og flóðbylgjum?  Ef kólnar, þá er það líka út af 'útblæstri'.

Eina lausnin er að borga nógu mikla skatta til hugumstórra manna og alþjóðlegra banka, þá, sko, vernda þeir okkur fyrir afleiðingunum.

Gullvagninn (IP-tala skráð) 25.4.2010 kl. 13:38

2 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Ég sem hélt að þú ætlaðir að skrifa grein um Óla Björn Kárason.  En hugleiðingin um manninn í náttúrunni er góð. Þessir umhverfisfasistar eru á rangri leið þegar þeir telja sig umkomna að stjórna náttúrunni.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 25.4.2010 kl. 15:36

3 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Allt satt og rétt. Manni bókstaflega sundlar og svelgist á þegar talið berst að þessari koldíoxíð- gróðurhúsa- steypu.

Vilhjálmur Eyþórsson, 25.4.2010 kl. 20:59

4 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Það er ekki úr vegi að vekja athygli á því að losun vegna eldgosa í heiminum er innan við 1% af losun manna. Áhrif eldfjalla í losun koldíoxíðs eru því sáralítil í heildasamhenginu (og eru þar fyrir utan náttúruleg), sjá færslu á Loftslag.is, þar sem kemur m.a. fram:

Fyrir fáeinum árum reiknuðu vísindamenn magn útblásturs CO2 frá eldfjöllum (bæði á landi og á botni sjávar) og útreiknað magn þess sem eldfjöll gefa frá sér, er samtals um 130-250 milljón tonn af CO2 á ári - sem er slatti. Menn losa um 29 milljarða tonna á ári í allt (tölur frá árinu 2006).

Eldfjöll gefa því frá sér tæplega 1 % af því sem menn gefa frá sér af CO2. Þau hafa því sáralítil áhrif miðað við menn.

Sveinn Atli Gunnarsson, 25.4.2010 kl. 21:18

5 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Smá viðbót, undarleg setning hjá þér Ívar:

Þá urðu svör kolefnisgengisins á þá leið, að náttúruleg losun komi kolefnislosun manna ekkert við.

En ekki hvað? Kemur þetta hvert öðru við eða hefur þetta áhrif hvert á annað, að þínu mati Ívar?

Sveinn Atli Gunnarsson, 25.4.2010 kl. 21:24

6 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Ég nenni ekki að byrja að deila enn einu sinni við þig, Svatli, um þetta mál. Ég læt nægja að benda á að það sem þú kallar „niðurstöðu vísindamanna“ eru einfaldlega getgátur beint út í loftið. Enginn hefur staðið með mælitæki við eldgos neins staðar í heminum, ofansjávar eða neðan, og enginn rennslismælir er á kvikuþrónni í Eyjafjallajökli. Þessar tölur og „útreikningar“ eru út í hött og marklausar með öllu.

Vilhjálmur Eyþórsson, 25.4.2010 kl. 21:31

7 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Ég nenni ekki heldur að deila við þig enn og aftur Vilhjálmur, rök virðast hrökkva af þér eins og vatn af gæs...

Það er einfaldlega ekki rétt hjá þér að vísindamenn geti ekki komist að sannfærandi niðurstöðu sem er nokkuð  nærri lagi með mælingum og rannsóknum. En ef þú vilt lifa í afneitun varðandi vísindin og getu þeirra, þá verður bara svo að vera, það verður ekki hægt að segja að ég hafi ekki reynt að koma með rök og heimildir sem þú getur skoðað.

Sveinn Atli Gunnarsson, 25.4.2010 kl. 21:46

8 Smámynd: Ívar Pálsson

Svatli, ég hef lítinn tíma og hef þetta stutt núna:

Það sér hver maður og vísindamenn líka hvílíkt ógnarmagn kemur úr venjulegu öskugosi eins og úr Eyjafjallajökli. Samt kemur margfalt meira úr Kötlu ef hún fer af stað. Höldum okkur þó við þetta. Allt stendur sem ég segi, mælingar sýndu 700 tonn á sekúndu í öskugosinu, sem ber reiðinnar ósköp af co2 og öðrum gastegundum. Það sem máli skiptir er hve lengi þetta stendur og hve stórt það er, en allt lætur það hjákátlega tilburði Íslendinga til kolefnisbókhalds verða enn fáránlegri. Aðferð Svandísar lætur okkur þurfa að kaupa kvóta af drullumöllurum úti í heimi, þegar við höfum umhverfisvænustu raforkuframleiðslu heims. 

Ef byrjað er að reikna út losun Íslendinga, reiknið þá losun íslenskrar náttúru. En við vitum öll að þetta skiptir engu máli og því skulum við ekki eyða meiri tíma í að munnhöggvast um það.

Ívar Pálsson, 25.4.2010 kl. 22:56

9 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Það sem þú ert að velta fyrir þér í sambandi við Svandísi er pólitík sem ég ætla ekki að velta mér upp úr, þó svo það sé þér hugleikið.

En hitt er þó svo að vísindamenn áætla að losun mannsins af CO2 sé meiri en 100 föld losun eldgosa af CO2 og er því ekki mikil af heildaráhrifum á heimsvísu, þó svo það geti verið slatti ef við miðum einungis við losun Íslendinga af CO2. En náttúran fer sínu fram sama hvað við mannfólkið gerum, en það sem við mannfólkið gerum getum við haft áhrif á...það er nokkur munur þar á.

Ég geri þar fyrir utan fastlega ráð fyrir því að jarðvísindamenn hafi ágætt bókhald yfir það sem losnar af föstum efnum sem og lofttegundum úr eldgosunum sem við upplifum nú um stundir. Sjá t.d. ágæta færslu Haraldar Sigurðssonar um losun koldíoxíðs á Fimmvörðuháls; Hvað kemur mikið Gas uppúr Fimmvörðuhálsi, og hver er Efnasamsetning þess?. Þar kemur t.d. fram:

"Ég álít að nýja kvikan á Fimmvörðuhálsi hafi því svipaða efnasamsetningu gastegunda og sú á Havaíí:  Vatn um 1% af kvikunni, koltvíoxíð um 0.1%, og brennisteinsoxíð SO2 um 0.1% af þunga."

Sveinn Atli Gunnarsson, 25.4.2010 kl. 23:16

10 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Þetta er flott grein. Skemmtilegar lýsingar. Þessi umhverfisverndarumræða er komin á villigötur. Og ekki bætir útblásturskvótaþvæla ESB úr skák. Þar er nú eitt skrímslið sem á eftir að kosta neytendur í Evrópu milljarða. Sannið til, það mun ekki líða á löngu þar til farið verður að braska með þessa kvóta á fjármálamarkaði með framvirkum samningum, alveg eins og eldsneyti, og hver borgar á endanum? Jú, mikið rétt, botninn á pýramídanum, neytendur!

Erlingur Alfreð Jónsson, 26.4.2010 kl. 01:49

11 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Þetta líkist meira trúarbragðaumræðu með hverjum deginum og Svatli stendur sig vel sem Mofi í henni.

Þa er kannski eðlilegt, því að í meginþáttum er bæði Co2 (satan) með alla Gorelærisveinana og svo Evrópbndalags átrúnaðurinn algerlega eins upp byggt og fundamentalismi í trúarbrögðum. Svolítið frumstæðara og jarar stundum við galdrafárið, en alveg eins annars.

Fyrir syndir okkar munum við svíða, nema að við bætum ráð okkar, iðrumst í sorpflokkun og leggjumst í meinlæti. Það er jú göfgin ein og vís upphefð hjá kolefniskirkjunni.

Hallelúja.

Jón Steinar Ragnarsson, 26.4.2010 kl. 04:29

12 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Ein birtingamynd þessarar vitleysu er bann á venjulegum glóperum. Nú skulu allir nota kvikasilfursfylltar flúrperur, hvort sem þeim líkar betur eða verr. Eða, kannski bara tímabundið, halógen-glóperur. 

Til að kóróna vitleysuna er farið að framleiða peru-bastarða sem eru halógenglóperur inni í stæri peru, sem er af sömu stærð og gömlu góðu perurnar, en mega þó ekki vera mattar, heldur bara glærar svo það sé nú alveg öruggt að menn fái glýju í augun. Auðvitað líka rándýrar. Þessir perubastarðar eru farnir að sjást í íslenskum verslunum.

Alveg er þetta makalaust...

Ágúst H Bjarnason, 26.4.2010 kl. 06:56

13 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Jón Steinar, skoðaðu þetta, Mýtan um trúarbrögð í loftslagsvísindum. Þessi tenging vísindanna og trúarbragða er ansi haldlítil. Reyndar held ég að það væri einnig ráð fyrir þig að skoða aðferðafræði og röksemdir þeirra sem afneita vísindunum, eins og t.d. Mofi o.fl. gera, og bera það saman við aðferðafræði vísindanna, þar sem gerðar eru mælingar og rannsóknir út í hinum raunverulega heimi.

Það virðist vera sem þessi umræða snúist meira um pólitík (t.d. Svandís vs. Ívar) og vörn einhverskonar heimssýnar, þar sem loftslagsvísindin (í það minnsta) og aðferðafræði vísindanna sem rannsaka áhrif CO2 passar ekki inní heimsmyndina (við gætum þurft að hugsa um afleiðingar þess að losa CO2). Ein aðferð við að sverta vísindin er svo að sjálfsögðu (eins og Jón Steinar gerir) að halda því einfaldlega fram að vísindin (en ekki öll vísindi, bara þau sem passa ekki við heimsmyndina) séu trúarbrögð án haldbærra röksemda.

Sveinn Atli Gunnarsson, 26.4.2010 kl. 07:56

14 Smámynd: Ívar Pálsson

Ég var á ferðalagi og komst ekki í tölvu, en sé núna að Svatli vitnar í Harald Sigurðsson eftir 2 vikur af Fimmvörðuháls-gosinu. Einmitt það sem ég benti á í greininni, þá hætta tölur að skipta máli fyrir loftslagsgengið þegar sannleikurinn verður óþægilegur. Losun gróðurhúsalofttegunda margfaldaðist eftir það (og skiptir ekki máli) og krafturinn var rosalegur þótt meðal- öskugos væri, þe seinna gosið.

Svatli, breytt losun Íslendinga myndi engu breyta miðað við eldgosið eða án þess. Þetta hlýtur hver og einn að sjá.

Ívar Pálsson, 28.4.2010 kl. 22:15

15 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Hvað meinarðu Ívar? Losun CO2 frá eldgosum á heimsvísu eru innan við 1% af heildarlosun mannfólks á heimsvísu. Þ.a.l. er það nokkuð ljóst að það er sú losun sem kemur frá mannfólkinu, sem veldur því að það er aukning á styrk gróðurhúsalofttegunda í lofthjúpnum. Við erum ekki afskorin frá heiminum hérna á Íslandi, þ.a.l. er losun okkar hvers fyrir sig ekki okkar einkamál. Þú ættir að þekkja það sem útflytjandi að við erum ekki afskorin frá restinni af heiminum.

Eldgos og aðrir náttúrulegir þættir hafa ekkert með losun okkar manna að gera og það er losun okkar mannfólksins sem hefur þau áhrif að styrkur koldíoxíðs í andrúmsloftinu er að aukast.

Þetta eru ekki rök hjá þér Ívar, heldur sjálfsréttlæting á status quo í hugsunarhætti.

Sveinn Atli Gunnarsson, 28.4.2010 kl. 22:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband