Landsvirkjun framar þegnunum

Landsvirkjun agbjarn1

Samfélagsmarkmið Landsvirkjunar minnast ekki á að halda orkunni á Íslandi eða að Íslendingar njóti góðs af. Hún heldur áfram vegvillu sinni með tíma- og kostnaðarsamri rannsókn um að leiða rafmagnið burt frá Íslandi. Í Morgunblaðinu í dag heldur Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar því fram að öryggi okkar aukist með tilkomu sæstrengs, af því að við gætum keypt rafmagn frá Evrópu.

Sæstrengur gegn hagsmunum okkar 

Öðru nær: öryggi rafmagnsins hér minnkar nær örugglega með sæstreng. Dýrasti og lengsti sæstrengur rafmagns í heimi gerir kröfu um örugga orku út, ekki aðeins umframorku okkar.  Hann yrði aldrei settur niður ef hann lægi ónotaður um tíma, enginn fjárfestir fengist til þess. Hörður staðfesti að ekki standi til að ríkið eigi strenginn (og tapi þar með á honum) og því verður ekkert úr þessu nema að við tryggjum orku í hann, sem væri glapræði.

Orkukrísur á okkar kostnað 

Orkukrísur í Bretlandi eða í Evrópu valda óefað pólitískum þrýstingi á einhverjum tíma á það að við seljum þeim orku, sem þegar er búið að semja um til notkunar hérlendis. Þar með erum við þáttakendur í orkukrísum þeirra, í stað þess að njóta öruggu orkunnar í samkeppni við framleiðslu þeirra.

Vatnsorkan er með alöruggastri orku fyrir okkur, á meðan æ stærri hluti orkunets Evrópu treystir á misjafna vinda og kjarnorkuverum er lokað í Þýskalandi.

Leiðnitapið eitt verður líklega á við helming orkunotkunar íslenskra heimila. Við þyrftum að blæða all hressilega til þess að kaupa orku frá Evrópskum aðilum og ættum aldrei að þurfa þess.

Klára dæmið 

Mér er hulið af hverju Landsvirkjun heldur þessari þráhyggju um sæstreng áfram, því að ekki er það í þágu íslenskra neytenda eða iðnaðar. Þessi „hvað er í pakkanum“- stefna með sæstreng er rándýr hugsanavilla sem afvegaleiðir alvöru óskabarnið núorðið, Landsvirkjun. Nú er rétt að ljúka þessari athugun, hún er auðútreiknuð: alger della.


mbl.is Landsvirkjun birtir samfélagsmarkmið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Hörður hefur jafnað sæstreng við loftflutninga á fiski til útlanda og sagt sem svo að hagnaðurinn af því miklu hærra verði sem við fáum fyrir þennan fisk sé svo mikill að hann sé mun meiri en nemur hækkun á fiskverði innanlands og skili sér því nettó til þjóðarinnar.

Raunar má deila um það hve mikið hann skili sér til almennings, miðað við þær svimandi tekjur sem sægreifar raka til sín.

Við þetta er ýmislegt fleira að athuga. Kvótakerfið sér um það að ekki sé hægt að láta freistast af eftirspurninni eftir gæðafiski með því að auka veiðarnar svo að úr verði rányrkja.

Almenningur skilur hugtakið rányrkja hvað varðar fiskveiðar en engan veginn varðandi nýtingu orkulinda og umgengni við einstæð náttúruverðmæti landsins.

Það er vegna þess að í gangi er mögnuð síbylja um "hreina og endurnýjanlega orku" sem er notuð sem alhæfing á alla orkuvinnslu Íslendinga og nú síðast er forseti vor að útbreiða þetta fagnaðarerindi á ráðstefnu, og gat þess vegna verið viðstaddur landsleik Svía og Íslendinga.

Á þessum ráðstefnum virðist aldrei minnst orði á það að menn ganga þannig í jarðvarmaorkuna að hún endist í aðeins nokkra áratugi og að menn hafi enn ekki náð tökum á brennisteinsvetnismengun frá jarðvarmaorkuverum.

Á fimm klukkustunda ráðstefnu Ísor í haust minntist aðeins einn maður á það að takmörk væru fyrir því hverju ætti að fórna fyrir orkuverin.

Það var bandarískur fyrirlesara sem afgreiddi þessi mál í Bandarikjunum með því að benda á kort af Norður-Ameríku sem sýndi löll þau svæði, þar sem hægt yrði að nýta jarðvarma, en benti síðan á það svæði, þar sem langmest væri af þessari orku sagði: "Þetta svæði er með mestu samanlagða jarðvarma- og vatnsorku Ameríku, en verður ekki snert, - þetta er Yellowstone, heilög jörð." 

Miðað við óbreytt viðhorf hér á landi munu Íslendingar einfaldlega fara hamförum við að virkja allt sem virkjanlegt er og gefa skít í hagsmuni komandi kynslóða.

Virkjanir aurugra vatnsfalla á Íslandi eru ekki eins umhverfisvænar og virkjanir hreinna vatnsfalla í öðrum löndum. Þannig flaug Villinganesvirkjun í gegnum mat á umhverfisáhrifum þótt viðurkennt væri að miðlunarlón hennar myndi fyllast af auri á nokkrum áratugum og verða ónýtt.

Sultartangalón fyllist upp á nokkrum áratugum og það skyldi þó ekki vera að þrýstingurinn á Norðlingaölduveitu standi í sambandi við það.

Hálslón fyllist miklu hraðar upp en ráð hefði verið gert fyrir vegna miklu meiri aurburðar í lónið af völdum bráðnunar jökla og miðlunargeta þess verður farin að daprast mjög á þessari öld. Þá verður áreiðanlega sagt að það verði að sökkva Eyjabökkum af því að það sé "langhagkvæmasti virkjunarkosturinn".

Tónninn fyrir græðgisvæðinguna á kostnað landsins og afkomendanna hefur verið gefinn: Hætt við friðlýsingar eða þær lemstraðar, öllu fólki sagt upp sem unnið hefur við þær og lagt til að umhverfisráðuneytið verði að deild í landbúnaðarráðuneytinu.

Þessa dagana er verið að tilkynna um að skerða orku til stóriðjunnar vegna vatnsskorts í öllum miðlunarlónunum. Ekki er að sjá að nokkur risarafstrengur, hvorki innanlands né til annarra landa gæti breytt því.   

Ómar Ragnarsson, 22.1.2014 kl. 00:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband