Ég er ekki í tísku

Ég er alls ekki í tísku.  Ég hrífst af stórhug virkjanafólks, styð sjálfstæðisviðleitni hvalveiðimanna, ek um á fjórhjóladrifsbíl með nagladekkjum til öryggis, kýs Sjálfstæðisflokkinn vegna athafna- sjálfstæðisstefnu, tel erfðabreytt matvæli jákvæð og flokka ekki ruslið ofan í sömu jörðina.  Ég borgaði allar skuldir af húsinu og húsbréfin líka, af því að ekki er gaman að skulda með ofurvöxtum í hárri verðbólgu með gengistryggingu.  Vinnan mín er ekki í hópefli á fundum með öðrum meðvituðum, heldur mest þar sem ég einbeiti mér einn, geri engar áætlanir fyrir árið, heldur mæti hverjum degi.  Hlaupin mín eru ekki á nýjasta tölvubrettinu með skjá og þjálfunaráætlun ásamt 100 öðrum sveittum kroppum í endurunnu flensulofti, heldur einn í íslenskri fjörugolu.  Tedrykkja mín fer ekki fram á kaffihúsi þar sem rætt er um það sem fólk ræðir um á kaffihúsum án þess að ég viti um það, heldur heima yfir mannkynssögubók þar sem í ljós kemur hæfileiki mannsskepnunnar til þess að endurtaka sjálfa sig stöðugt.  Traust mitt er aðallega á það að til séu athafnasamir og framfarasinnaðir einstaklingar á Íslandi, sem noti hugvit sitt, þrautseigju og kænsku til þess að ná langt á sínu sviði með óbilandi kjark að vopni.  Síst legg ég traust mitt á það að ríkið hlaupi undir bagga ef eitthvað gengur ekki upp hjá mér eða öðrum, heldur einungis ef þau eru ófær um það.  Þessi athafnatrú mín á sér víst fáa fylgjendur í augnablikinu, sem veldur eflaust glundroða í kosningunum í vor, þegar hjarðmennskan nær hámarki sínu og úrtalsjarmið myndar einn alsherjaróm, sem enginn nær að forðast nema flytjast úr landi.  Rollurnar vilja allar að gefið sé á garðinn, en hver á að gefa?  Síðan er slátrun í haust.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband