Svifryki spúlað burt

Vafasamur sparnaður

Horfist í augu við staðreyndina: Borgin hefur ekki tímt almennilega að draga úr svifriki umferðar, af því að borgurunum þótti þetta málefni ekki nógu mikilvægt. Drjúgur hluti þegnanna baðar sig í svifryki daglega en hefur haft meiri áhyggjur af því hvernig súrefnishlutfall í heiminum geti viðhaldist fyrir barnabarnabörnin en ekki að sama skapi hvernig bein svifryksmengun er að láta heilsunni stórhraka í dag. Við tímum þessu ekki núna, af því að greiða þarf verktökum fyrir meginhluta starfsins, en þegar kostnaðurinn var fastur og tækjakosturinn og mannaflinn tilheyrði borginni, þá fannst okkur sjálfsagt að hreinsibílar væru alltaf á fullu við það að hirða malbiksrykið undan okkur. Kostnaðurinn er veginn og metinn miðað við allt annað sem þarf að gera og hingað til virðist svifryk hafa verið léttvægt fundið, sem það er að sjálfsögðu, en ekki varðandi heilsu, þar sem það hefur afgerandi neikvæð áhrif á heilsu manna. Það er til lítils að stunda líkamsrækt og heilbrigt mataræði ef það er svo eyðilagt strax í akstri á leiðinni úr vinnunni, eða sem verra er, læðist ofan í börnin okkar á meðan við brunum til verka okkar.

Aukin umferð, meiri þrif. Spörum ekki vatnið.

Götur eru ekki sjálfhreinsandi, einhver þarf stöðugt að vera að þrífa þær, fyrst þær eru jafnan í notkun. Fullkomnir hreinsibílar eru tilbúnir, en eru ekki notaðir að því marki sem til þarf að halda mengun okkar undir viðmiðunarmörkum. Það gefur auga leið, að svifryk á Stór- Reykjavíkursvæðinu væri mun minna ef gengi hreinsibíla væri á fullu, t.d. á næturna við það að hreinsa aðalæðar þar sem mikill hluti svifryks verður til. Aðstaðan er öll fyrir hendi, bara að gefa samþykkið fyrir kostnaðinum. Við fjölguðum bílum um tugi þúsunda á skömmum tíma og ætlumst svo til að það hafi ekki afleiðingar, hvorki í umferðarþunga, slysum eða í mengun. Það er tómt mál um að tala að við eigum að vera í einhverri bíllausri Útópíu: svona er þetta hér uppi á klaka. Allir aðrir en maður sjálfur eiga að nota strætó eða að hætta lífi sínu á reiðhjóli, en maður sjálfur vill upphitað sæti og 4,5 mínútna ferðalag í vinnuna, eins og í mínu tilviki. En þegar ég vann uppi á Höfða og ók Ártúnsbrekkuna nokkrum sinnum á dag, þá sást og fannst gjarnan svifrykshjúpurinn yfir Miklubrautinni. Verst var að lenda fyrir aftan 18 hjóla trukk að vori, sem slæddist út í yfirhlaðinn drullukant götunnar og jós uppsöfnuðu eitrinu yfir alla. Þessi aur á ekki að vera þarna, heldur ættu hreinsibílar næturinnar að vera búnir að taka þetta allt. Annað er svo sjálfsagt, að nota vatnið til þess að spúla göturnar oft, þá nær fína eiturrykið ekki að setjast að. Erlendis þarf að spara vatnið, en hér er sjálfsagt að nýta sér aðstöðuna. Vissulega er það ekki æskilegt í ræsin og út í sjó, en ef göturnar eru ryksugaðar með hreinsibílum og spúlað oft inn á milli þá er magnið í ræsin í lágmarki, en lungun okkar hrein og fín.

Höldun nagladekkjum

Ekki tók langan tíma að finna blóraböggul, blessuð nagladekkin. Vissulega spæna þau upp malbikið meir en önnur dekk, en það liggur í hlutarins eðli og á aðeins að valda því að notkun þeirra sé takmörkuð, ekki bönnuð. Dettur nokkrum heilvita manni í hug að banna stóra flutningabíla af því að þeir slíta malbikinu meir í einni ferð heldur en allt að 30.000 fólksbílar? Varla, heldur takmörkum við notkun þeirra bíla, t.d. við vegina sem þola þá. Árið sem ég ók nagladekkjalaus var ég með lífið í lúkunum og olli samborgurum mínum stórhættu, t.d. rennandi yfir stöðvunarskyldu við brekkufót í Þingholtunum og gjarnan í vandræðum á umferðarljósum. Nú er jafnvel hugsanlegt að nagladekkjaleysistískan undanfarið eigi sinn þátt í því að alvarlegum slysum hafi fjölgað.

Þurfum salt og nagla

Það er samspil notkunar salts og nagladekkja sem skapar stærsta hluta svifryksins. Við þörfnumst beggja þeirra þátta ef ísing heldur áfram að vera algeng, þannig að áherslan verður að vera á það að lágmarka afleiðingarnar, þar sem orsakavaldinum verður trauðla breytt, ekki frekar en öðrum orsökum svifryks, svo sem leirfoki af heiðunum eða blýmenguðum pústögnum. Hvetjum borgaryfirvöld áfram til þess að nota allar helstu aðferðir til þess að þrífa undan okkur götuskítinn, svo að við öndum honum minna að okkur. Ekkert mál, bara að borga!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband