2 á móti 98

80/20 reglan, sem hefur verið nær algild, er á undanhaldi. Það var jafnan talið að fólk notaði t.d. 20% af fötum sínum 80% af vökutíma sínum. 80% viðskiptavina færðu manni aðeins 20% af hagnaðinum, á meðan 20% þeirra skópu 80% af hagnaðinum. 80% vinnunnar fara í 20% afrakstursins og 20% hennar skapa 80% afrakstursins. Hægt er að yfirfæra þetta á flest í heimi hér. En nú gerist sú spurning áleitnari, hvort hlutfallið sé ekki frekar 98/2 eða 2/98 heldur en 20/80. Svissneskur vísindamaður, skólafélagi minn, sagði t.d. um daginn að þau í vísindahópi hans veittu því eftirtekt að af þremur milljörðum DNA (e: nucleotides) í manninum þá eru 98% þarflaust rusl (þeirra orð!) á meðan hin tvö prósentin ákveða hvort einhver er ljóshærður, með blá augu eða hvaðeina. Allt annað má líta á sem fylliefni!

Ráða 2% okkur í raun? 

Við getum freistast til þess að færa ofangreinda "reglu" yfir á aðra þætti lífsins og umhverfisins, jafnvel mannlífsins. Vel getur hugsast, að af  6,581,102,838 manneskjum sem byggja þessa jörð einmitt núna, þá ákveði í raun 2% þeirra, 131.622.057 manns, hvað hinir taka sér fyrir hendur, eða á Íslandi, að sex þúsund manns geri slíkt hið sama við okkur hin. Kannski hefur náttúran kennt okkur að þau komist af sem eru leiðitöm í hópi, þannig að flestir sem slíta sig út úr hjörðinni lifa ekki af, þegar til langs tíma er litið. Því taka fæstir áhættuna á því að breyta út af hegðun hópsins, sem ákvarðast gjarnan af hæfum einstaklingum. En það er samt vel erfitt fyrir níutíu og átta prósentin að sætta sig við það að þetta sé einhvers konar náttúrulögmál  og því fer meginorka leiðtoganna oft í það að sannfæra hina um ágæti kerfisins eins og það er. Þótt slíkt hljómi eins og einræði, þá er aðhald hópsins sem heildar nokkurs konar lýðræði og virkar t.d. vel sem slíkt hér á landi.

Dregið í dilka Far Side bollinn minn

Það sem vert er að benda á er það hversu auðvelt er að greina fólk í hópa og hafa síðan áhrif á hvern hóp með auglýsingum og þrýstingi.   Markaðsrannsróknir mínar í námi með þáttagreiningu komust að 98% vissu um það hvaða naglalakkstegund hver miðmælandi notaði, út frá skoðunum hennar, áður en hún staðfesti tegundina. Það kom hverri og einni á óvart, því að auðvitað taldi hún sig sérstaka. En 98% okkar er hægt að draga í dilka eftir skoðunum og lífsháttum.

 
Allir suði jafnt, ekki í gusum! 

Eitt helsta vandamál tveggja prósentanna getur verið flökt í almenningsáliti á einhverju máli þar sem þörf er á langtímasjónarmiðum. Það reynir verulega á staðfestu leiðtoganna þegar slíkt gerist. Allt í einu lýsast allir upp í einu eins og eldflugur í tré sem ég sá eitt sinn í Vermont í Bandaríkjunum. Allt var hljótt í myrkrinu þar til einhverjar flugur byrjuðu að suða og lýsast upp og tréð var orðið að háværu jólatré á skammri stundu. Síðan lauk því jafn snögglega og allt varð hljótt. Ef mannlífi er stýrt með þessum hætti, þá er hlutskipti þessa sex þúsund manna ekki öfundsvert, að reyna að halda stefnu á hópnum eða að láta alla suða jafnt og þétt, en ekki í gusum.

Finnur þú nokkuð til vanmáttar þíns við þessa lesningu?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband