CO2 kvótinn er verri en hinn kvótinn

Nú birtist nýja kvótaskrímslið með öllu sínu óréttlæti. Áður var það hafið okkar, núna er það loftið. Ég varaði við þessum ófögnuði síðast í lok júní í grein minni hér, en Blaðið birti frétt í dag um ætlaða skiptingu CO2 kvóta Íslands til ársins 2012. Ég veit að þetta er óspennandi, en ekki hætta að lesa. Enn er tími til þess að beita ráðamenn hér þrýstingi til þess að kveðja þennan Kyoto- pakka svo að Ísland geti um frjálst höfuð strokið. Í byrjun desember 2007 verður þetta síðan allt geirneglt á Balí í Indónesíu og þá verður ekki aftur snúið í vitleysunni. Nákvæmari úttekt mín er tilbúin og birti ég hana von bráðar.

CO2 kvoti Isl fyrirtaekjaSkipting loftsins: kvóti til stórfyrirtækjanna 

En hugsum um það á meðan hvaða réttlæti er í þessu. Búið er að breyta loftinu í verðmæti, sem ráðuneyti skipta upp á einstök fyrirtæki, engin lítil sprotafyrirtæki. Heildarkvótinn er þegar of lítill, af því að Ísland var of hreint árið 1990. Ekkert rúm er fyrir nýja starfsemi. Þau stórfyrirtæki sem voru með starfsemi eða eru að byrja á þessum lykilárum fá kvóta. Einungis þau fyrirtæki sem fá kvóta geta í raun keypt kvóta, því að þau deila heildarkvótaverðinu niður á allan kvóta sinn, eins og stóru sjávarútvegsfyrirtækin með fiskkvótann. Fyrirtæki sem hljóta mesta náð fyrir nefndinni fá mestan kvóta. Verðmæti kvóta mun ákveða verðmæti fyrirtækja. Svona heldur þetta áfram. Þegar milljarðatuga hagsmunir eru komnir í hendur einstaklinga í ráðuneytum, þumallinn upp eða niður í stað þess að hagkvæmni, samkeppni og skynsemi ráði, þá erum búin að vera.

Frá umhverfissinnum til erlendra álfyrirtækja

Umhverfissinnar fóstruðu þetta skrímsli, en munu ekki vilja kannast við það þegar það kemst á táningsárin og sönn ásjóna þess kemur í ljós. Gleypir allt, heftir framfarir og eykur spillingu í algeru tilgangsleysi. Byltingin étur börnin sín. Tilgangurinn er víst að kæla heiminn, en það er deginum ljósara að hann kólnar ekki við þetta, enda á hann ekki að gera það. Á skal að ósi stemma.  Hjálpumst öll að við  það að  kveða þennan draug niður.


mbl.is Losunarheimildir verða ókeypis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

"Heftir framfarir og eykur spillingu" segir þú og virðist mæla með að við Íslendingar segjum okkur frá alþjóðlegu samkomulagi um þetta stærsta mál heimsins í dag og verðum "frjálsir."

Málið gæti verið einfalt fyrir Íslendinga ef virkjanafíknin væri ekki að drepa okkur.

Einfaldleiki málsins birtist í því að skoða hvert virkjanaæðið leiðir okkur á endanum.

Markmiðið með því að reisa hér sex risaálver er að efla atvinnu. Afraksturinn liggur þó í augum uppi: Við þessi sex álver sem krefjast allrar virkjanlegrar orku landsins með núverandi tækni munu aðeins vinna um 2% af vinnuafli landsmanna.

Í stað þess að æða áfram á þessari braut getum við Íslendingar í rólegheitum nýtt okkur einstæða stöðu okkar hvað varðar endurnýjanlega orkugjafa til handa okkur sjálfum, staðist alþjóðlegar skuldbindingar og borið höfuðið hátt.

Ómar Ragnarsson, 29.8.2007 kl. 11:41

2 Smámynd: Ívar Pálsson

Já, Ómar, Kyoto- bókunin er þegar farin að hefta Ísland og er ósanngjörn. Einstæð staða okkar varðandi endurnýjanlega orkugjafa er mikið til komin vegna "virkjanafíknar" og ber að verja. Hagkvæmni framleiðslunnar er augljós í því hve fáa þarf til þess að skapa verðmætin, enda eflist hlutfall þjónustugeirans og menntunar á Íslandi samhliða því að færri vinna við grunnframleiðslu. Aðeins örfáa togara þarf til þess að veiða allan kvótann. Við berum höfuðið hæst með því að benda heiminum á sanngjarnar leiðir í mengunarmálum, að hreinum löndum eins og Ísland beri að njóta forsjálninnar.

Ívar Pálsson, 29.8.2007 kl. 13:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband