Sögur úr sveitinni: Skaftafellsboli

Ellefu ára stráki fannst spennandi þegar kýrin var leidd undir nautið. Bolinn sem hafði húkt einn og kyrr í myrkri torfkofans í gamla Selbænum svo mánuðum skipti, var leiddur út í köðlum og beint upp á beljuna. Tækist þetta? Færi skotið út í loftið? Tudda fórst þetta frekar óhönduglega, klöngraðist upp á kusu og reyndi að fjölga nautgripakyninu. Eitt andartak sást bleikur risablýantur skjótast fram og Ragnar bóndi fylgdist vel með. Beljan var brothætt á að líta undir þessu trölli. "Nei, nei, hann klúðrar þessu"! Eitthvað misheppnaðist, tuddi fór á taugum og missti þetta hálfpartinn út í loftið.Selid i Skaftafelli

Nokkru síðar fékk boli annan möguleika á að sanna tilgang sinn. Í þetta sinn var gengið hreinlega til verks og hann gat verið stolt naut. Þá fannst honum biðin langa örugglega hafa verið einhvers virði.

En síðar kom að uppgjörsdögum, því að nú átti að slátra karli. Aflífunin fór fram í gripahúsi torfbæjarins, þar sem strekkt og verkuð selskinn voru á tréhlerum allt í kring. Hver hafði sitt hlutverk. Ragnar bóndi mundaði kindabyssuna, forna skammbyssu sem tók eitt skot í einu og skotpinna sem dreginn var aftur. Aðrir héldu í kaðla sem bundnir voru um gripinn. Ég hélt í einn slíkan sem kræktur var í járnhring í gegn um nef tuddans. Einnig var mér fenginn bali til þess að fanga blóð með. Þarna stóðum við spenntir hjá tuddanum þegar Ragnar bar byssuna að enni hans og skaut. Nautið kiknaði við, en fyrtist síðan verulega við, eins og við það að skynja að endalokin væru í nánd. Aftur var skotið, en ekkert dugði. Bóndi var nú skotlaus og þurfti að ganga til síns bæjar að ná í fleiri skot. Á meðan héldum við í tryllt nautið í tíma sem mér fannst vera heil eilífð. Þriðja skotið felldi bola. Hófst þá Sláturhúsið Hraðar hendur. Höfuðið fauk af með sveðjuhnífi. Þá átti ég að standa mig, en náði vart neinu blóði í balann, því að tuddi barðist um hauslaus í dauðateygjum og blóðbunurnar gengu út í loftið úr aðalæðum þykka svírans. Loks var bola kippt á afturlöppunum upp í rjáfur. Þá náðist í blóð að ráði. Nautið var flegið strax, en mér krossbrá í hver sinn er kippir komu í dýrið, eins og það færi af stað aftur. Hausinn starði tómlega út í loftið. Borgarbarninu reyndist þetta mögnuð stund.

Nautaati var lokið, en dagar nautaáts voru í vændum, t.d. steik, gúllas og enskt buff með spæleggi. Allt var gott í sveitinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Glæsilegt Ívar. Á kommentinu þínu mín megin get ég séð að þetta var þó nokkuð skref fyrir þig. Og það er afskaplega vel heppnað skref. Frásögnin er skýr og hnitmiðuð, blóðug og spennandi, skemmtileg og sorgleg. Öllu þessu tókst þér að koma að í ekki lengri texta. Þú hlýtur að hafa gert töluvert af þessu.  Skrifa meina ég. Mér finnst ég lesa þarna á milli línanna að þetta sé sönn frásögn og að guttinn sért þú?

Hvað er gert við blóðið úr nautunum?

Jóna Á. Gísladóttir, 1.9.2007 kl. 16:31

2 Smámynd: Ívar Pálsson

Takk, Jóna, já guttinn er ég. Þessi sanna frásögn varð til í morgun, eða kannski í hausnum í nótt. Ég hef sáralítið gert af því að skrifa, en er að dýfa tánni í laugina hérna. Nú rétt í þessu varð til frásögn af því þegar ég fór sex ára í sveit, sem kemur þá á morgun. Sú er ekki blóðug. Hrafn Gunnlaugsson er ekki endilega fyrirmyndin!

Þar sem ég myndi seint lifa á skrifum, þá læt ég flakka frekar hrátt á bloggið, því að það er útrás í skriftunum. Gangi þér vel með alvöru skrif og útgáfumál. Þrautsegjan borgar sig, eins og í bisness.

Ívar Pálsson, 1.9.2007 kl. 17:22

3 Smámynd: Gunnar Þórðarson

Nú líkar mér við þig Ívar. Þarna ertu á réttri hillu. Það er gott að hvíla kolefniskvótann og vextina og þetta er frábærlega vel skrifuð saga. Þú hefur svei mér reynt ýmislegt. Meira af svona sögum.

Gunnar Þórðarson, 2.9.2007 kl. 15:01

4 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Ég ákvað að koma hér við til að sýna og sanna að ég gæti eflaust skilið eitthvað í svona tölum og hagfræði upplýsingum bara ef ég nennti að lesa í gegnum þær. Og viti menn..beið min ekki bara saga úr sveit af lífi og dauða Tudda. Og þroskasaga drengs. Mikið kom mér það gleðilega á óvænt. Heillaðist svo af sögunni að ég er búin að steingleyma öllum góðum fyrirætlunum um að lesa tölur og hagfræði. Svo nú er ég farin heim til mín með góða sögu í kollinum og ætlun að kíkja við aftur síðar.

Knús!!!

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 2.9.2007 kl. 19:58

5 Smámynd: Ívar Pálsson

Mikið er gaman fyrir svona gamlan harðhaus eins og mig að mýkjast upp við þessar vingjarnlegu athugasemdir ykkar. Þetta hvetur mann til dáða, takk. En ég áskil mér rétt til þess að halda einörðum skoðunum, t.d. á heimsmálum. Ég þarf að læra að flokka bloggið upp til hliðar svo að þetta þvælist ekki hvað fyrir öðru.

Ívar Pálsson, 2.9.2007 kl. 22:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband