Þvingun

Straetosulta Kina

Borgarstjórnarmeirihlutinn, sem sum ykkar kusu til þess að sjá um sameiginlega þætti borgarlífsins, beitir valdi sínu til þess að þvinga okkur til lífsmynsturs að þeirra hætti, flestum til ama. Flest okkar kjósa að lífið sé sem ljúfast frá morgni til kvölds, en okkur er gert erfiðara fyrir með það af því að borgarpólítíkusar misskilja alfarið hlutverk sitt sem þjónar almennings og halda að þeim beri að móta líf okkar að þeirra ídealísku fyrirmynd. Skýrast kemur þessi árátta fram í umferðarmálum í nýju aðalskipulagi Reykjavíkur. Þar segir m.a.:

„Yfirdrifið framboð af fríum og ódýrum bílastæðum dregur úr vilja fólks til þess að nýta sér almenningssamgöngur, jafnvel þótt þær séu góðar. Draga þarf úr viðmiðum um fjölda bílastæða og fækka þeim verulega, sérstaklega á nýbyggingarreitum og setja kvaðir á fyrirtæki og stofnanir um að taka upp bílastæðagjöld“.  

Flestir fá að bíða 

Fjögur prósent borgarbúa nota strætó til og frá vinnu. Nýja skipulagið gerir ráð fyrir þreföldun á því næstu 16 árin, þá líklega í 12%! Það þýðir að venjuleg 24 ára manneskja núna þarf að þola þvingunaraðgerðir borgaryfirvalda (ef skipulagið gegnur eftir) gegn henni í einkabílnum til fertugs, þar sem hafðir eru af henni margir mánuðir í vinnu eða frá fjölskyldu, með auknu stressi, sitjandi í bíl að vilja ferðast eins og flestir aðrir.

Tilgangslaust 

Megintilgangurinn og lokatakmarkið með þessari þvingun er afar óljóst. Ekki er farið eftir aðlögunarstefnunni, að fólk bregðist við þeim aðstæðum sem eru á þeim stöðum sem þeir búa, heldur er módel úr suðrænum milljónaborgum staðfært upp á okkur fámennið á skerinu. Svo vilja þau flugvöllinn burt af því að hundruð þúsunda farþega þá leiðina er gert lífið of auðvelt. En jú, tilgangurinn er svo að setja niður félagsíbúðir á dýru lóðina.

Hver borgar? Þú, sem átt að vera mætt í vinnuna en ert föst af því að Dagur B. hafði metnað til þess að hægja á umferðinni.

 

 


mbl.is Vistvænar samgöngur í stað einkabíls
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Thorberg Friðþjófsson

Og þetta fólk ætla borgarbúar að kjósa áfram.

Jón Thorberg Friðþjófsson, 8.4.2014 kl. 12:39

2 Smámynd: Ragnar Þórisson

Þú ert eitthvað að misskilja. Það er ekki verið að þvinga þig til eins né neins. Það er ekki verið að taka af þér bílinn. Þú getur keyrt eins og þér sýnist.

Ragnar Þórisson, 8.4.2014 kl. 12:54

3 Smámynd: Ívar Pálsson

Ragnar, ég misskil ekki neitt. Dagur & Co ítreka það að jafnvel þótt almenningssamgöngur séu góðar (valkostirnir í lagi), þá kýs fólk samt bílinn hér í borg (engin furða), en við því þurfi að bregðaðst (með þvingunaraðgerðum). Það er ekki valfrelsi, heldur þvingun.

Ívar Pálsson, 8.4.2014 kl. 13:10

4 Smámynd: Ragnar Þórisson

Að kalla þetta þvingunaraðgerðir er út í hött. Það verður enginn þvingaður út úr bílnum. Það verður ekki snúið upp á handlegginn á neinum. Það verður að kalla hlutina sínum réttu nöfnum. Ég held það sé engin eftirspurn eftir svona málflutningi í borgarstjórn. Fólk er orðið þreytt á þessu.

Einkabíllinn hefur það bara mjög gott hérna í Reykjavík. Svo er lag til að gera fólki aðeins auðveldar fyrir að nýta sér aðra valkosti þá er það kallað þvingunaraðgerð.

Ragnar Þórisson, 8.4.2014 kl. 13:32

5 Smámynd: Ívar Pálsson

Hvað er þetta annað en þvingunaraðgerðir:

Að fækka bílastæðum, þannig að þau nægja ekki fyrir núverandi bílaeign og -notkun.

Að hægja verulega á umferð og jafnvel stöðva hana, eins og í Borgartúninu vegna strætó, í stað þess að hleypa umferðinni framhjá.

Þetta gerir fólki ekkert auðveldara að velja aðra samgöngumáta, bara verra að halda áfram með þann eðlilegasta hér, bílinn.

Ívar Pálsson, 8.4.2014 kl. 13:45

6 Smámynd: Ragnar Þórisson

Jæja, kallaðu þetta það sem þú vilt en ég fullvissa þig um að það er lítil eftirspurn eftir svona málflutningi hjá öðrum en eru þér þegar sammála. Það er mun vænlegra til árangurs að tala um þetta á málefnalegu nótunum. En þú ert svo sem ekki í framboði (svo framarlega sem ég veit) svo þetta skiptir kannski ekki máli.

Aðeins varðandi bílastæði. Þau eru mjög dýr. Viðmiðunin er að hvert bílastæði taki 25 m2 af landi þegar allt er talið. Það er mjög dýrt.

Þessar aðgerðir, ef þær ganga eftir koma til með að spara talsverðan pening. Styttri vegalengdir sparar innflutning á eldsneyti. Færri í einkabíl sparar á sama stað. Fleiri að ganga, hjóla eða í almenningssamgöngum veldur betri lýðheilsu vegna minni mengunar og meiri hreyfingar og sparar þar af leiðandi í heilbrigðiskerfinu.

Ragnar Þórisson, 8.4.2014 kl. 14:00

7 Smámynd: Ragnar Þórisson

Og annað. Með sömu rökleysu má kalla andstæðar aðgerðir þvingun til að nota fararmáta sem maður hefur ekki efni á.

Ragnar Þórisson, 8.4.2014 kl. 14:54

8 Smámynd: Ívar Pálsson

Niðurstaðan er alltaf sú sama. Verið er að neyða mann til þess að gera eitthvað annað en maður var að gera áður en þetta fólk var kosið!

Ívar Pálsson, 8.4.2014 kl. 15:05

9 Smámynd: Ragnar Þórisson

Með sömu rökleysu væri hægt að kalla allt sem sveitastjórnir og ríkisstjórnir gera þvingunaraðgerðir ef maður er ekki sammála því. Það græðir enginn neitt á svona pólitískum skotgrafarhernaði.

Ragnar Þórisson, 8.4.2014 kl. 15:16

10 Smámynd: Ívar Pálsson

Tími fólks er til einskis metinn í þessu Aðalskipulagi. Kannski er það rétt í tilfelli þeirra sem aðhyllast breytingarnar!

Ívar Pálsson, 8.4.2014 kl. 15:26

11 Smámynd: Ragnar Þórisson

Fyrsta setningin hjá þér gaf mér von um að mér hefði tekist að draga þig upp úr skotgröfunum en hún brást með annarri setningunni. Ég ætla að láta sem ég hafi ekki séð hana.

Ég held að það sé ekki rétt hjá þér. Þétting byggðar leiðir til styttri vegalengda sem vegur þá upp á móti hægari umferð. Og ef þetta leiðir til sparnaðar þá þarf fólk að vinna skemur til að ná í upp í ferðakostnað. Þetta eru þó flóknir útreikningar sem ég hef ekki farið út í en ég held það sé óvarlegt að áætla að tími fólks sé einskis metinn.

Ragnar Þórisson, 8.4.2014 kl. 15:55

12 Smámynd: Ívar Pálsson

Þétting byggðar breytir engu um þau 70-80.000 manns sem búa áfram á sínum stöðum í ýmsum hverfum borgarinnar. Þau þurfa áfram að komast á milli, ekki bara með fjölskylduna á reiðhjóli í slabbinu fjölda kílómetra, heldur frá A til B til C til D á sem skemmstum tíma, t.d. að reyna að halda sig við einn bíl, bæði vinna úti, hvort á sínum staðnum og krakkar í skóla og leikskóla. Svo virðist sem tími og geðheilsa þessa fólks sé ekki fullmetinn.

Gott og blessað að troða niður bílastæðalitlum blokkum í þá grænu bletti sem finnast inn á milli, en hvað ef maður er þar og fær draumavinnuna upp á Höfða eða einhvers staðar annarss staðar? Það passar ekki inn í Þvingunarmódelið.

Ívar Pálsson, 8.4.2014 kl. 16:19

13 Smámynd: Ragnar Þórisson

Borgin telur fleiri en þá sem búa í úthverfum. Þar að auki mundi enn frekar þynning byggðar valda enn meiri umferðarteppum. Þetta snýst um meðaltöl. Það þjónar engum tilgangi að búa til skipulag út frá aðstæðum manns sem hugsanlega fær draumavinnu upp á Höfða.

Ragnar Þórisson, 8.4.2014 kl. 16:30

14 Smámynd: Ólafur Björn Ólafsson

Sýnist eftir ð hafa lesið pistil ásamt athugasemdum að Ragnar Þórisson sé kanski að misskilja orðið þvingun.

Þvingun er hægt að framkvæma á fleiri en einn veg, til dæmis með gjörðum öðrum en ofbeldi, nema um sé að ræða andlegt ofbeldi. Það er andlega ofbeldið sem eykst með þessum þvingunar aðgerðum Dags & Co. En þetta er ekkert annað en ofbeldi sem beinist að íbúum þeim sem leita þurfa langt til vinnu. Það er ekki eins og að allir íbúar vesturbæjar vinni bara þar, svona sem dæmi.

Þétting byggðar þá sérstaklega í Vatnsmýrinni kemur til með að auka álag á íbúana sem þurfa til og frá vinnu enda verða líklega fæstir með vinnu í nágrenni við heimilið. Hvað svo sem skýringum Ragnars líður þá eru hlutirnir og verða örugglega ekki eins og hann óskar sér. Reynslan af öllum svona aðgerðum verða þannig að, fólk er neitt til að hanga heima þar sem það þolir ekki álagið í umferðinni.

Ólafur Björn Ólafsson, 8.4.2014 kl. 21:05

15 Smámynd: Ragnar Þórisson

Ég er ekki að misskilja orðið þvingun frekar en þú. Ég var að benda á rökleysuna á bakvið notkun orðsins. Með sömu rökleysu er hægt að kalla allar aðgerðir ríkis- og sveitastjórna þvingun ef þú ert þeim ósammála.

Þegar þú svo talar um auka álag á íbúa við þéttingu byggðar þá er algjörlega óljóst hvað þú átt við. Öll fólksfjölgun eykur álag. Þynning byggðar gerir það enn frekar. Þynning byggðar eykur meðalvegalengd íbúa til og frá vinnu. Þétting byggðar styttir hins vegar meðalvegalengdina. Styttri meðalvegalengd eykur álag ekki eins mikið og lengri meðalvegalengd.

Skilurðu hvað ég á við? Ég reyndi að útskýra í stuttu máli en ég get farið ítarlegar í þetta ef þú vilt.

Ragnar Þórisson, 8.4.2014 kl. 21:46

16 Smámynd: Ívar Pálsson

Hvernig passar það inn í þvingunarmódel Dags & Co að hafa áhugamál, fara í ræktina Laugardal í hádeginu, kaupa sushi á nýja góða staðnum á Laugavegi eftir vinnu, ná í krakkann og bóndann og skella sér heim í Grafarholtið? Alls ekki. Önnur hverfi en 101+107 eru ekki „Úthverfi“. Þar býr fjöld manns með fullkomlega eðlilegar langanir til frjáls lífs án ánauðar frá sjálfsskipuðum dómurum í lífi þeirra, hvað þá t.d. grínistum og áhangendum þeirra sem gerðu tilraunir með borgina í launuðum gleðitíma sínum eftir að hafa skrumskælt lýðræðið með kosningu sinni.

Ívar Pálsson, 8.4.2014 kl. 22:15

17 Smámynd: Ívar Pálsson

Við hjónin búum og vinnum á sama stað, nýtum Háskóla Íslands osfrv. allt samkvæmt módelinu, en samt er bílnum ekið amk. 15.000 km á ári. Það er vegna þess að lífið er út um allt í Reykjavík og á Íslandi, ekki bara nálægt okkur, þó að það sé langmest þar. Maður fer t.d. í þær búðir sem verðið og úrvalið er best, t.d. úti á Granda, þar sem eru líka bílastæði. Það eru 12 km fram og til baka með marga þunga búðarpoka. Strætó fer ekki þá leið, Skerjafjörður- Grandi. Nógu langur tími fer í innkaupin án þess, auk þess sem vöðvabólga tæki við. Við förum í pósthúsið í öðru bæjarfélagi, Seltjarnarnesi, því að miðbærinn er lokaður ferðalöngum.

Ívar Pálsson, 8.4.2014 kl. 22:40

18 Smámynd: Ívar Pálsson

Hvar er kennt Tækvandó? Eða gott HotJóga? Hvar kemur áhugafólk um flugmódel saman? Þetta er eflaust hér og hvar um borgina og maður vill skjótast á milli og njóta þess hve auðvelt er að ná fljótt á milli staða, að láta allt ganga upp. Það eru lífsgæði sem flestir kjósa, en gleyma því svo í kosningum að það skiptir máli, sérstaklega núna þegar verður farið í að þvinga fólk með nýja Aðalskipulagi Reykjavíkurborgar.

Ívar Pálsson, 8.4.2014 kl. 23:18

19 Smámynd: Ragnar Þórisson

Það er athyglisvert að sjá að þú beitir sömu röksemdarfærslum og þú ert að kvarta yfir hjá Degi og Co. Það er mjög erfitt að taka mark á svoleiðis málflutningi.

Ragnar Þórisson, 9.4.2014 kl. 08:05

20 Smámynd: Skeggi Skaftason

ÞAð er ekkert sjálfsagt eða eðlilegt að nota fleiri hektara af verðmætu landi miðsvæðis í borginni undir fjölda bílastæða, án þess að þeir sem noti stæðin greiði neitt fyrir.

Það er ekkert eðlilegt við það að kostnaður sem óneitanlega fylgir þessari landnýtingu deilist jafnt á alla íbúa, óháð því hverjir noti stæðin.

Of mörg bílastæði gera borgarlandslag óaðlaðandi, og þó þau geti vissulega verið til þæginda eru þau þannig LÍKA viss SKERÐING á lífsgæðum.

Ekki myndum við vilja að miðbær Reykjavíkur liti út eins og í kringum IKEA?

Skeggi Skaftason, 9.4.2014 kl. 09:38

21 Smámynd: Ragnar Þórisson

Hvers vegna viltu þvinga alla til að ferðast á einkabíl?

Ragnar Þórisson, 9.4.2014 kl. 10:05

22 Smámynd: Ívar Pálsson

Nú er reynt að snúa öllu á haus og segja að fólk sé þvingað í bílana. Öðru nær, bíleigendur moka skattgreiðslum af bílum sínum yfir í þessi 4% sem ferðast með strætó, en samt kýs fólk bílana almennt. Ekki er raunhæft að reykvískar fjölskyldur í hinum ýmsu hverfum borgarinnar ferðist um á reiðhjóli.

Skeggi, ég er ekkert að fara fram á fjölgun bílastæða, þótt þörfin sé víða. En ég berst gegn vísvitandi fækkun bílastæða, sem gerir ekki einu sinni ráð fyrir þeirri bílaeign sem er fyrir hendi. Það þvíngar fólk til aðgerða, t.d. að gefast upp á Laugavegssvæðinu, sem er bara orðið fyrir spásserandi útlendinga. Svo eru þeir spurðir sem þangað koma hvort þeir séu ánægðir með svæðið! Auðvitað, hinir eru hættir að fara þangað.

Afleiðingar þvingunarinnar verða þá þvert gegn stefnunni, endar í Smáranum í Kópavogi.

Ívar Pálsson, 9.4.2014 kl. 10:24

23 Smámynd: Ragnar Þórisson

Það er ekki hægt að snúa einhverju á haus sem þegar er með fætur upp í loft. Þú beitir fyrir þig rökleysu og ég beindi henni bara til baka til að sýna þér fram á það. Mér sýnist þú sjá það ágætlega frá þínu sjónarhorni en er efins um að þú getir séð stóru myndina.

Ragnar Þórisson, 9.4.2014 kl. 10:38

24 Smámynd: Skeggi Skaftason

Já um þetta eru skiptar skoðanir. Ég fer reglulega á Laugaveginn og í miðbæinn, finnst notalegt að rölta þar, kaupa eitt og annað, setjast á kaffihús.

Ég er á því að t.d. Austurvöllur og aðliggjandi götur séu miklu skemmtilegri nú en fyrir 15 árum, þegar bílar voru eftir öllu Pósthússtræti og upp götuna (upp að gamla Nasa) þar sem nú situr fólk fyrir utan Kaffi París og Thorvaldsen Bar.

í Smáralind kem ég ca. einu sinni á ári.

Skeggi Skaftason, 9.4.2014 kl. 12:54

25 Smámynd: Ívar Pálsson

Ragnar, stóra myndin eru öll hverfi Reykjavíkur og fólkið sem í þeim býr. Hvernig þau ferðast á milli svæða í bænum.

Skeggi, rétt hjá þér að Austurvöllur sé skemmtilegri núna. En þá var gengið of langt og Pósthússtræti lokað, í stað þess að breyta stæðunum bara í gangstétt og hleypa umferð í gegn. Suðurgötu hafði verið lokað til norðurs, svo að umferðin er í gegn um þrönga Tjarnargötuna fram hjá leikskólanum! En þegar skortur á aðgengi og stæðum leggjast á eitt, þá forðast maður svæðið. Almenn viðskipti á Laugavegi hafa snarminnkað.

Ég segi eins og þú, ekki fer ég í Smáralind, því sárnar manni meira hvernig farið er með heilu svæðin núna til frambúðar.

Ívar Pálsson, 9.4.2014 kl. 13:56

26 Smámynd: Kári Harðarson

Ívar, íslenskir bíleigendur hafa það alveg rosalega gott, jafnvel betra en í sjálfum Bandaríkjunum. Hefur þú búið erlendis? Þú hljómar dáldið eins og frekur krakki í mín eyru.

Kári Harðarson, 11.4.2014 kl. 10:59

27 Smámynd: Ívar Pálsson

Kári, takk fyrir að láta mig brosa yfir samlíkingunni við frekan krakka. Jú, víst bjó ég í Bandaríkjunum í 2 ár og hef keyrt víða um lönd, en enn hef ég ekki rekist á það nema hér að yfirvöld reyni að gera borgarbúum erfitt fyrir, heldur er reynt að bregðast við vandamáli sem fyrir er, t.d. vegna fólksfjölda. Hér búa yfirvöldin vandamálið til vegna ídealisma, vilja t.d. hægja á umferð án gildrar ástæðu og fækka stæðum, en hvort tveggja veldur fólki trega. Þetta snýst ekki um bardaga við hjólreiðafólk, heldur um að hámarka skilvirkni í flæði þeirrar umferðar sem er fyrir hendi eða er væntanleg.

Ívar Pálsson, 11.4.2014 kl. 11:22

28 Smámynd: Steinarr Kr.

Leiðin til ánauðar er vörðuð góðum fyrirætlunum.

Mér sýnist Ragnar vilja hjálpa til við að reisa eina stóra vörðu. 

Steinarr Kr. , 11.4.2014 kl. 11:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband