Bankadómínókubbar

Íslensku bankarnir gera lítið úr þeim alvarlegu afleiðingum fyrir þá og íslenskt hagkerfi, sem hratt sig bandaríska húsnæðislánamarkaðarins hefur valdið. Domino falling2Lánamarkaður heimsins er mjög viðkvæmur fyrir þessum breytingum, þar sem flóttinn úr áhættu yfir í gæði er hafinn. Afleiðumarkaðir sem meta lánaáhættu hafa hækkað beggja vegna Atlantshafsins. Skuldatryggingarálag íslensku bankanna er mat markaðarins á áhættu tengdum þeim viðskiptum sem bankarnir stunda. Það hefur snarhækkað, yfir 60% (LÍ) síðan í miðjum maí sl. Bankarnir vita fullvel af hverju þetta stafar, en segja t.d.: "Þetta gefur til kynna að utanaðkomandi þættir hafi orðið til þess að álagið hækkaði hjá bönkunum, enda hafa engin þau tíðindi orðið á íslenska bankamarkaðnum sem gætu útskýrt slíka hækkun" Vegvísir LÍ 19/07/07. Þeir gætu ella sagt: "Áhættumat heimsmarkaðarins á starfsemi okkar hefur hækkað um rúm 60% á tveimur mánuðum".

Vogun margfaldar áhrifin 

Vogun nútíma lánamarkaðar er svo hrikaleg, að margfeldi áhrifanna er verulegt og virkar að sama skapi hratt. Þannig geta áhrifin ferðast á nokkrum dögum úr fasteignamarkaði BNA, yfir í vegnar yfirtökur, síðan í hlutabréf og loks hagkerfi þeirra og heimsins.Dominóin falla Aðeins 1% lækkun á fasteignaverði í Bandaríkjunum er talin geta valdið yfir 40% tapi á veðum, þar sem bestu AAA bréfin sökkva í sama báti og þau verstu vegna þess að þeim er spyrt saman í seljanlegar kippur. Veðum er safnað saman á veðskuldabréf. Mörg slík bréf eru síðan spyrt saman í CDO (collateralized debt obligations), einskonar samsafn veðskulda, en hvert CDO hefur sitt áhættustig. Aðeins efstu prósent hvers pakka hafa gjarnan verið AAA bréf. Staða verðbréfaeigandans er mjög veik, þar sem hann á aðeins hlutabréf í sjóði sem á safn veðbréfa, en ekki veðbréfin sjálf og er því mjög aftarlega í veðröðinni. Áhætta vegna beinnar eignar í fasteignum er nær engin miðað við þessi bréfabréfabréf.

Smitar alla markaði

Nú í vikunni fengu sjóðseigendur tveggja vogunarsjóða undir hatti Bear Stearns Co. virts fjárfestingabanka, bréf þar sem tilkynnt var um að sjóðirnir væru tómir, en höfðu eigið fé upp á 1,5 milljarða USD við lok fyrsta ársfjórðungs 2007. Þeir höfðu tekið 20 milljarða USD að láni. Áður höfðu um 50 sjóðir brugðist annars staðar, helst þeir sem eru á "sub- prime" skuldabréfamarkaði, þ.e. ekki í hágæðaskuldabréfum. Slíkir atburðir hafa látið markaðinn krefjast þess af matsfyrirtækjum að þau endurmeti verulega áhættustig banka og sjóða sem stunda afleiðuviðskipti á fullu. Áhættan er talin vera mest í jaðri markaðarins, þar sem t.d. Ísland og Ungverjaland eru. Bankar okkar eru því með þeim fyrstu sem finna verulega fyrir minnkuðu áhættuþoli.

Verðum við þvinguð úr lás?

ÞUSD sedlarótt vaxtamunur okkar sé verulegur, þá gírast kostnaðurinn upp við endurmat markaðarins, þar sem heildarpakki íslenska bankans verður óspennandi og áhættusamur miðað við t.d. ástralska dollarann, sem fer samt snarhækkandi og er í methæðum núna. Ef Seðlabanki Íslands lækkar ofurháu stýrivextina, þá hækkar skuldatryggingarálag bankanna vegna lækkaðs vaxtamunar og gengi krónunnar fellur, þar sem framvirku samningunum í vaxtamunarviðskiptum verður snúið við. Þessu þorir Seðlabankinn ekki. Ævintýri bankanna er langt frá því á enda, enda eru stærstu aðilarnir á skuldatrygginga- afleiðumarkaðnum eins og Deutsche Bank enn í fimmta gír og hafa fulla trú á uppgíruðum vaxtamunarviðskiptum Íslendinga, sem styðja spilaborgina miklu.

Almenningur vill ekki gengisfellingu. Enginn vill því að blása á spilin.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Getum við virkilega haldið þessu svona upp á eigið sjálfdæmi?  Geta ekki einhverjar utanaðkomandi breytingar  velt fyrsta dómínókubbnum?  Hvar spáir þú að bresturinn verði?

Afar athyglisverð grein eins og þín er von og vísa og skýrir þetta ágætlega fyrir meðaljóninn, sem flýtur sofandi með í átt að ósi.

Jón Steinar Ragnarsson, 21.7.2007 kl. 02:44

2 Smámynd: Ívar Pálsson

Fyrstu dóminóin féllu þegar sjóðirnir gáfu sig, en greiningaraðilar virðast sammála um að greiðslubresturinn í húsnæðislánum BNA sé rétt hafinn. En þegar kostnaður (hækkað áhættumat) í heimslánakerfinu hækkar meira, þá hægist á vegnum yfirtökum og þar með loks hlutabréfum, sem enn halda sínu Íkarusarflugi áfram. Okkar raunveruleiki verður líklega fyrst ljós þegar jenið styrkist og áhættumat Fitch og Moody's sýnir ofgírun markaðarins. Annars veltir oft lítil þúfa þungu hlassi þegar svona hrúga er komin undir teppið. Ofvegin ávísanakerfi enda alltaf með hvelli.

Ívar Pálsson, 21.7.2007 kl. 11:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband