30.000 krónur á mínútu allt árið

Það er skondið að fylgjast með því þegar fólk yfirgefur einn banka fyrir annan af hugsjónaástæðum eins og er að gerast þessa dagana eftir að Bjarni Ármansson forstjóri Glitnis nýtti allan kauprétt sinn og hagnaðist um rúmar 380 milljónir á því, enda aðeins 144 milljónir í laun og hlunnindi eða 5500 kr. á vinnumínútu alls samanlagt.

Hvernig er Kaupþing?

Þau sem hugleiða flutning vegna hugsjóna ættu fyrst að skoða hvar aðrir standa að þessu leyti og kemur Kaupþing náttúrulega fyrst í hugann. Þar margfaldast allar slíkar tölur með tveimur, þar sem Sigurður Einarsson og Hreiðar Már Sigurðsson fá allt jafnt. Þeir leystu út hagnað á kaupréttarsamninga upp á 674 milljónir hvor (ofan á 140 milljóna laun) og kostuðu bankann því 1.588 milljónir árið 2006. Bjarni er því aðeins þriðjungur þeirra. Þó er ekki öll sagan sögð um þessa stjórnendur Kaupþings árið 2006, því að þeir leystu aðeins út hagnað á hluta þess kaupréttar sem þeir nýttu sér þann 3. mars árið 2006(sbr. frétt Mbl. sd.): 1.624.000 hlutir á genginu 303 og 1.000.000 hlutir á genginu 740. Ef þeir hefðu selt alla þá kauprétti sem þeir nýttu á árinu 2006, nú þegar gengið var 1044, þá væri heildarupphæðin um 3.000 milljónir. Fyrir hverja klukkustund af bankaárinu 2006 greiddi Kaupþing því í raun til þeirra félaga um 1,875 milljónir eða þrjátíu þúsund krónur á bankamínútu.

En Landsbankinn?

Ef einhverjum finnst ofangreindar upphæðir fullháar og vill því færa sig frá Kaupþingi eða Glitni til Landsbankans vegna þessa, þá fýkur fljótt í hugsjónasporin. Eignarhaldsprósenta einna ríkustu feðga í heimi í Landsbankanum er það há, að hægt er að telja bankann þeirra eigin fyrirtæki, þar sem aðrir eigendur fá að fljóta með og njóta velgengni feðganna. En gleymum eignarhaldinu og höldum áfram með stjórnendur: Sigurjón og Halldór fengu líklega um 330 milljóna króna laun saman, en nýttu engan kauprétt á árinu. Þó er ekki öll sagan sögð: Samkvæmt ársreikningi L. Í. eiga þeir ónýtta kauprétti á um 159 milljónir að nafnvirði, þar af eru 99 milljónir á genginu 3,58 til 14,25, en gengi Landsbankans er 32,0 þessa stundina. Erfitt er að finna diplómatíska stund til þess að leysa þetta út, því að hagnaðurinn þeirra tveggja stjórnenda getur varla orðið minni en þrír milljarðar, þannig að þeir standa þá jafnir Kaupþings- stjórunum.

Sparisjóðirnir?

Þá hlýtur hugsjónamanneskjan að fara með spariféð sitt (hver á slíkt?) og viðskipti yfir í einhvern sparisjóðinn. Þar hlýtur að vera um lægri laun að ræða og ekki hægt að greiða stjórunum í formi valrétta á hlutafé eða annarra framvirkra samninga. En athugum það nánar. Launin sjálf þykja ekki slæm hjá stærstu sparisjóðunum, en haldbærar tölur liggja ekki fyrir. Fyrst nýleg lög um sparisjóði meinuðu þeim að breyta þeim í hlutafélög og stofnfjáraðilum að eignast sjóðina þannig, þá fóru þeir Krýsuvíkurleiðina, uppfæra stofnfé og greiða arð eins og hægt er, ásamt því að vera með stofnfjármarkað. Á nokkrum árum þá eignast stofnfjáraðilarnir þannig sparisjóðinn, þótt ekki sé það beint að nafninu til. Enginn annar hefur þennan rétt og sjálfseignarsjóðir verða ekki búnir til. Eignin er því stofnfjáraðilanna, sem eru gjarnan stjórnendur sparisjóðanna, fjölskyldur og vinir þeirra, eða þá nýir fjárfestar. Þessar upphæðir eru drjúgar, þar sem venjulegur eignarhlutur marfaldast hvert síðastliðinna ára. Þannig er  milljón fyrir 7 árum orðin tugir milljóna í dag í sumum tilfellum.

Hvert fara viðskiptin þá?

Ráðleggingin til hugsjónafólksins er því sú, að stunda sín bankaviðskipti óháð tilfinningum sínum eða þeim ímyndum sem bönkunum hefur tekist að skapa, heldur þar sem tölurnar sýna að peningunum verði best og traustast fyrir komið. Kannski er það í gjaldeyri í geymsluhólfi einhvers bankans?

Ársfundir

Það sérstæðasta við allt ofangreint er það, hve lögmál Parkinsons um stórar upphæðir virka vel. Það varð allt vitlaust á Íslandi þegar bankastjórarnir fengu 50 til 100 milljónir í kaupauka um árið. En þegar hann er tíu til þrjátíu sinnum meiri, þá rétt heyrist kurr. Einnig eru ársfundirnir algjör brandari. Þar sem eigendur og stjórnendur hagnast hrikalega, þá eru kosningar rússneskar og umræður engar, enda um hvað á að ræða? Hvaða vitleysingur fer að gaspra um óánægju sína yfir því að hagnast endalaust? Það er ekki fyrr en skellir koma á reksturinn sem kurrið um kaupréttina verður að öskri, en þá er þetta allt geirneglt og var frágengið árum áður, þegar allt lék í lyndi eins og nú. En svona er eðli framvirkra samninga.

PS: vinsamlegast sendið mér leiðréttingu í athugasemdadálkinn ef um talnaskekkju eða misskilning er að ræða. Byggt er á ársskýrslum bankanna fyrir árið 2006 og á fréttum Mbl.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband