Hver borgar vextina?

Viðbrögðin við einni upphafsblogggrein minni hér, “Fall Íslands”, eru ótrúlega jákvæð og hafa nú gefið mér þá trú að öllum sé ekki sama um hættuna sem steðjar að íslensku efnahagslífi utan frá. Ég þakka ykkur, mörg hundruð manns á tveimur sólarhringum, fyrir að blása mér og hvert öðru í brjóst í þeirri löngun að kafa dýpra ofan í það hvað er raunverulega að gerast í efnahagslífinu.

Deep throat?

Næsta skref er það að fá svar við milljón dollara spurningunni: hver er svo vitlaus eða aðframkominn að borga þá heljarvexti sem halda hringekjunni á þeytingi? Við teljum okkur skilja það að Austurríska ríkið eða Deutsche Bank gefa út krónubréf fyrir milljarðatugi í einu, en enginn bankamaður hefur enn útskýrt allt ferlið og það hver borgar á endanum. Ég lýsi hér með eftir einhverjum Djúpt í hálsi (e: “Deep Throat”) bankamanni eða fjárfesti sem getur upplýst um þessi atriði. Sannleikurinn í Watergate hneykslinu varð lýðnum ljós í gegn um slíkan upplýsingagjafa, sem reyndist þar vera aðstoðaryfirmaður FBI. Ég efast þó um að við fáum aðstoðarbankastjóra til þess að útskýra þessi atriði, en hver veit?


Seðlabankinn verður að lækka vexti

Því betur sem málið er athugað, því ljósara virðist það vera að Seðlabankinn ræður meiru um þetta ástand en margan grunaði, þ.á.m. mig. Sú aldna skoðun hans að háir vextir haldi aftur af útlánum getur varla átt fullan rétt á sér hér í þessu ástandi, því að hærri vextir laða að sér alþjóðlega gjaldeyrisspekúlanta eins og mý að mykjuskán. Seðlabankinn ákveður stýrivexti sem eru svo háir að nóg rými er fyrir marga aðila í keðjunni að maka krókinn, þar sem feykinóg er til af peningum annars staðar á mun lægri vöxtum. Það styrkir mig í trúnni að íslenskur neytandi borgi brúsann. Ríkisstjórnin greiddi réttilega niður skuldir, en ríkisskuldabréfaútgáfa með háum vöxtum er verulega varasöm og lætur okkur blæða út.

Áhættumat markaðarins hækkaði í sl. viku

Nú er svo komið að húsmóður í Bretlandi og tannlækni í Hollandi finnst ekkert sjálfsagðara en að taka lán og kaupa ísbréf, jöklabréf eða hvað bankarnir vilja kalla þessa skuldabréfaútgáfu í krónum. Þetta virðist allt ríkistryggt fram og til baka fyrir þessu fólki, en þannig getur það varla verið. Loksins er heimsmarkaðurinn að gera sér grein fyrir því núna í síðustu viku að það er áhættusamt að gefa út skuldabréf til hávaxta jaðarmarkaða eins og Íslands, þar sem trygginarafleiður gegn greiðslufalli  (e: Credit Default Swap, CDS) hafa rokið upp í verði vegna hækkaðs mats á þeirri áhættu sem þessum viðskiptum (e: Carry trade) fylgir. Þetta gerist þrátt fyrir mat Moodys og annara sem setur íslenska viðskiptabankann jafnan ríkinu í áhættu að hluta til, enda er fáránlegt að jafna þeirri áhættu saman, en matsreglurnar spyrða bankann og ríkið saman. Á meðan Róm brennur í raun, þá dönsum við áfram við flaututónlist úti í haga og höldum að allt sé í þessu fína.

Er boðið á enda?

Nú gæti einhver sagt, jafnvel réttilega, að þetta sé allt svartagallsraus og næg eftirspurn sé eftir þessum bréfum öllum. Það er rétt, en það er vegna þess að flestir telja sig verða að halda partíinu áfram. En við þurfum þess ekki. Ef Seðlabankinn lækkar vexti, þá kemur sannleikurinn í ljós. Því fyrr, því betra.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband