Stefnir í glórulaust eignarnám

Hjardarhagi skipulag

Ráðandi öfl í borginni láta núna glitta verulega í sósíalista- tennurnar með samþykktum sínum á glórulausum tillögum í skipulagsmálum, eins og að taka nær allar bílageymslur við fjölbýlishúsin á Hjarðarhaga eignarnámi og setja hús þar niður. Það er „þéttingin“ komin, að rjúfa friðinn í grónum hverfum með jarðýtum á bílskúra fólks, byggja þar blokkir og búa til rifrildi óendanleikans.

Út á götu 

Hvar á fólkið í gömlu og nýju blokkunum að leggja sínum 0,4 bíl? Alltaf í næstu götu? Hver bætir íbúðareigandanum virðislækkun eignarinnar á sanngjarnan hátt? Verið er að gerbreyta lífsháttum fólks þvert gegn vilja þess. Ef almennileg íbúakosning yrði í hverfishlutanum, þá yrðu þessar tillögur felldar samstundis. En ef eignarnámið er gert í almannaþágu, þá verða hagsmunir almennings að vera afgerandi, ekki bara vegna villtra hugdetta ídealista sem vilja þröngva lífsháttum sínum upp á saklausa samborgara sína.

Hversu mikið þolir fólk? 

Hvað þarf til að fólki blöskri almennt hvernig ráðist er á náungann, eignarrétt hans og réttinn til friðar frá yfirvöldum? Við skulum vona að þessi þögli meirihluti sem hefur látið flest af þessu yfir sig ganga sjái núna að þetta gangi ekki lengur: það verður að kjósa ábyrgt fólk í borgarstjórn, sem tekur fullt tillit til hagsmuna og lífs allra borgaranna. Þessi borgarstjórnarblanda er eitraður kokkteill. 

Dagur raud ros RUV

 

 

 


mbl.is Umdeildar hverfisskipulagshugmyndir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnlaugur Ásgeirsson

Óhuggulegt mál, en kemur ekki á óvart.


Núverandi borgarstjórn lítur ekki á sig sem þjóna borgarbúa heldur drottnara. Þetta fólk hikar ekki við að beita “skrílinn” valdi til að knýja fram sinn vilja, sbr einkabílinn.


Þó virðast kjósendur ætla að velja aftur þessa flokka. Kannski má skýra það með skorti á valkostum. Í dag er í raun eingöngu hægt að velja þessi hrokafullu vinstri framboð sem nú stjórna og svo íhaldið, þar sem forystumaðurinn er yfirlýstur ESB sinni, þvert á 90% sjálfstæðisfólks..


En kannski kemur fram nýtt framboð sem “borgaralega” þenkjandi fólk getur kosið.

Gunnlaugur Ásgeirsson, 25.4.2014 kl. 08:39

2 Smámynd: Ívar Pálsson

Greining þín er réttmæt, Gunnlaugur. Erfiðustu bardagarnir eru þeir sem eru innanbúðar. Tvær Sjálfstæðiskonur í borgarstjórn tóku undir aðalskipulagið og vildu flugvöllinn burt, en skynja vonandi núna andstöðu almennings við þessa þéttingu byggðar, í stað þess að líta á Reykjavík í heild sinni, með öllum sínum svæðum og ókláruðu eða tómu íbúðum.

Sjálfstæðisflokkurinn er enn helsta vonin til þess að standa í lappirnar gegn þessum ósköpum. Aðrir hunsa vilja heildarinnar, sem er því miður helst til þögul. Halldór Halldórsson getur vonandi gleymt Brussel þegar hugsað er um hag Reykjavíkur. Júlíus Vífill og Kjartan Magnússon vilja sannarlega að að öll hverfi Reykjavíkur séu virk. Ef farið er nákvæmlega í saumana á þessum samþykktu tillögum ætti að koma í ljós hverjir styðja hvað, enda skipta þessi mál miklu í lífi fólks.

Ívar Pálsson, 25.4.2014 kl. 10:37

3 Smámynd: Sveinbjörn Hermann Pálsson

Það stendur ekki til að taka neitt eignarnámi. Íbúar, eigendur eigna, fá þarna leyfi til að byggja eitthvað annað en bílskúra, ef þeir svo vilja.

Þetta er ósanngjarn, óheiðarlegur og hreinlega pínlegur málflutningur hjá þér.

Sveinbjörn Hermann Pálsson, 22.5.2014 kl. 11:43

4 Smámynd: Ívar Pálsson

Sveinbjörn Hermann, ég á erfitt með að skilja útgáfu þína af þessari framkvæmd: Íbúar fá ekkert leyfi til þess að byggja eitthvað annað á staðnum. Þessar eignir verða rifnar og ákveðnar blokkir byggðar í staðinn, það er ekkert valkvætt við það.

Ívar Pálsson, 22.5.2014 kl. 11:54

5 Smámynd: Einar Karl

Ívar,

þetta er hárrétt sem Sveinbjörn Hermann Pálsson skrifar.

Þegar þú segir "Þessar eignir verða rifnar og ákveðnar blokkir byggðar í staðinn, það er ekkert valkvætt við það. þá er það bara algjörlega kolrangt. Hreinasta bull.

(Ef þú ert ósammála því þá verðurðu að koma með einhverjar heimildir fyrir þessum upphrópunum þínum.)

Þetta segir fyrrverandi borgarfulltrúinn Gísli Marteinn Baldursson um málið:

Ég er ekki lengur borgarfulltrúi og tók engan þátt í þessari hverfis-skipulagsvinnu, en get svarað þessu mjög greiðlega: Það stendur að sjálfsögðu ekki til að taka bílskúrana á Hjarðarhaga eignarnámi. Þetta er ömurleg grein frá þessum manni, og kemur lítið á óvart. Tillögurnar sem hann vísar í eru frumhugmyndir um það hvernig nýtt hverfisskipulag í Vesturbænum gæti litið út. Með þeim gætu íbúar við Hjarðarhaga fengið heimildir til að byggja eitthvað annað en bílskúra á bílskúrslóðunum sínum. Þetta er ekki ósvipað og ef deiliskipulagi í minni götu yrði breytt þannig að leyfilegt væri að hækka þakið og setja á kvist. Borgarstjórn Reykjavíkur myndi ekki mæta og staðinn og hefja framkvæmdir. Við íbúarnir myndum gera það ef við vildum. Ég óttast mest að þessi móðursýkislegu viðbrögð verði þess valdandi að íbúarnir missi þennan möguleika. Nota bene: Það eru engar tillögur komnar fram um þetta ennþá, eingöngu fyrstu hugmyndir sem íbúarnir munu hafa mjög rúman tíma til að meta og pæla í, og gera þær athugasemdir sem þeir vilja.

Einar Karl, 22.5.2014 kl. 13:30

6 Smámynd: Ívar Pálsson

Ekki vantar stóryrðin: „ósanngjarn, óheiðarlegur og hreinlega pínlegur málflutningur“ „..bara algjörlega kolrangt. Hreinasta bull.“„..ömurleg grein frá þessum manni, og kemur lítið á óvart.“..„þessi móðursýkislegu viðbrögð“!!!

Hvernig væri að ræða þetta eins og menn, ekki á þessum nótum? Fólk á heimtingu á því, þegar ljóst er hvernig þessar „tillögur“ og „hugmyndir“ sem enginn pólitíkus kom allt í einu nálægt voru ekki kynntar eins og skýrt er getið um að eigi að gera og síðan ekki birtar almenningi, heldur stimplaðar fram og til baka í borgarráði.

Núna þegar sannleikurinn er smám saman að koma í ljós undan sykurhúðinni, þá er á hreinu að á þennan hátt á að þétta byggðina við Hjarðarhaga. Eignirnar sem eru hluti af blokkunum þar, bílskýlin og bílastæðin fara ekki til þéttingar byggðar nema að byggt sé á þeim og eigendur allra íbúðanna séu sammála um það (og líklega aðrir nágrannar). En gildandi skipulagi sem þau treysta á ber að halda. Ef þröngva á þessari þéttingu byggðar upp á heilan hverfishluta, sem nokkuð örugglega kýs að fá að halda sér óbreyttum, þá hlýtur að þurfa að bæta þeim það sem ekki samþykkja þennan gjörning.

Nú lætur Gísli Marteinn líta svo út sem þetta sé bara valkvætt, góð hugmynd og allir hljóti að ná samkomulagi. Þessi aðferð, sem notuð var líka við Hofsvallagötuna, var að kynna eitthvað lauslega sem hugmyndir, sem var andmælt á fundi á Hótel Sögu af m.a. mér og síðan er þetta komið í framkvæmd. Tíminn sem gefinn var til athugasemda í hverfaskipulags- tillögunum leið og síðan voru umsagnir hundsaðar, eins og frá hverfafélaginu í Skerjafirði um flugvöllinn.

Við sjáum fagmennskuna í þessu hér að ofan og spyrjum enn: Hvernig á nákvæmlega að þétta byggðina á þessu svæði í fullum friði við íbúa þess?

Ívar Pálsson, 22.5.2014 kl. 15:22

7 Smámynd: Einar Karl

Ívar,

sammála þér að ræða þetta eins og menn. Mér sýnist þú nú bakka með allt það sem þú segir í pistlinum og það er mög gott, þegar menn leiðrétta mál sitt.

Þú segir í seinasta kommenti:

Eignirnar sem eru hluti af blokkunum þar, bílskýlin og bílastæðin fara ekki til þéttingar byggðar nema að byggt sé á þeim og eigendur allra íbúðanna séu sammála um það (og líklega aðrir nágrannar).

Einmitt þannig myndu breytingar virka, en EKKI þannig að bílskúrarnir yrðu teknir eignarnámi og rifnir!

Batnandi mönnum er best að lifa.

Einar Karl, 22.5.2014 kl. 15:43

8 Smámynd: Ívar Pálsson

Jæja Einar Karl, gott að þú tekur þessu vel. Málið er það að aðgerðin sem boðuð er, þétting byggðar, yrði aldrei að veruleika nema að þessum skilyrðum væri fullnægt, en það sýnist mér ekki stefna í (samkomulag) og þá annaðhvort eignarnám eða ekki neitt. Þessar tillögur eru því annaðhvort lýðskrum (sem leiðir ekki til neinnar aðgerðar) eða hreinn yfirgangur.

Ívar Pálsson, 22.5.2014 kl. 15:52

9 Smámynd: Einar Karl

Ég hef sjálfur búið á Hjarðarhaga á árum áður, þessar bílskúrsbakhliðar eru nú ekki beinlínis að fegra götuna. Þess vegna er ég til í skoða hvort og hvernig megi breyta götunni í framtíðinni.

Einar Karl, 22.5.2014 kl. 16:36

10 Smámynd: Ívar Pálsson

Gott væri ef þú og aðrir sem þekkja til hói sig saman um það hvað þeim finnst um tillögurnar sjálfar. Sum tala saman á Facebook, en uplýsingar eru rýrar frá borginni og það sem birtist lofar ekki góðu.

Ívar Pálsson, 22.5.2014 kl. 16:53

11 Smámynd: Elísabet Ólafsdóttir

Sæll Ívar. Ég heyrði af þessu eignarnámi, fannst það rosa skrýtið og gúglaði og spurði þá sem gætu vitað meira um málið. Kemur í ljós að þetta er misskilningur. Orri Gunnarsson skipulagsfræðingur segir:

Nokkrar leiðréttingar varðandi „bílskúrana í Vesturbænum“:

• Aldrei hefur komið til greina að borgin kaupi eða taki neinar lóðir eignarnámi.

• Í skipulagslýsingu er lagt til að skoðað verði hvar komi til greina að leyfa eigi lóðarhöfum að byggja á sínum eigin lóðum ef þeir kjósa svo.

• Bent var á ýmis svæði þar sem hægt væri að veita lóðarhöfum rétt sem þeir ekki hafa í dag. Allur byggingarréttur kæmi án endurgjalds, væri skipulagður í anda hverfisins og hefði á það jákvæð áhrif.

• Þó svo að byggingarheimildir séu veittar, eða séu nú þegar fyrir hendi, ber engum skylda að nýta þær!

• Vinna við hverfisskipulagið er ekki hafin. Einungis er byrjað að lýsa því hvað skipuleggja þurfi.

Skipulagsferli sem unnið er eftir:

Í framhaldi af gerð Aðalskipulags ætlar Reykjavíkurborg að ráðast í gerð hverfisskipulags fyrir öll hverfi borgarinnar. Markmiðið er að gera heilsteypt deiliskipulag (hverfisskipulag er ein tegund deiliskipulags) fyrir heil hverfi þar sem byggingar, samgöngur, þjónusta, umhverfi og margt fleira er skoðað í samhengi.

Til að hægt sé að gera slíkt skipulag þarf fyrst að gera s.k. skipulagslýsingu þar sem tilgreint er hvað verði tekið til skoðunar í skipulagsvinnunni. Sú lýsing var unnin af sjálfstæðum skipulagsráðgjöfum og lögð fyrir skipulagsráð og borgarráð.

Einhversstaðar verður að byrja. Það er gert með að ákveða, í samráði og með frumkvæði íbúa, hvað skoða skuli. Við gerð skipulagslýsingarinnar var því kallað til opinna íbúafunda í öllum hverfum borgarinnar. Íbúar voru beðnir um að teikna á kort og loftmyndir og skrifa um hugmyndir sínar að þróun hverfanna.

Tilurð hugmynda um breytta lóðarnýtingu:

Eftirfarandi atriði liggja til grundvallar því að skoðað verði hvort byggingarmagn megi auka á vissum lóðum:

• Á íbúafundi í Hagaskóla í september á síðasta ári var meðal annars bent á að stórar fjölbýlishúsalóðir væru lítið notaðar. Spurt var hvort ekki mætti nýta þær öðruvísi eða betur.

• Almennt er talinn vera skortur á litlum íbúðum í borginni, sérstaklega leiguíbúðum miðsvæðis og eftirspurn er mikil.

• Margir íbúar, sérstaklega miðsvæðis, hafa sóst eftir að breyta bílskúrum sínum í löglegar íbúðir.

• Hverfisverslun og önnur þjónusta innan hverfa þrífst illa, m.a. vegna þess að íbúaþéttleiki hefur minnkað.

• Aðalskipulagið sem liggur til grundvallar hverfisskipulagsvinnunni leggur áherslu á þéttingu byggðar, styttri vegalengdir, ódýrari og umhverfisvænni samgöngumátum og bætta nýtingu innviða.

Þess vegna lögðu ráðgjafar til að skoðað yrði hvort leyfa mætti lóðarhöfum að byggja íbúðir á lóð sinni, t.d. í stað bílskúra ef þeir svo óska. Bent er á ýmsa staði þar sem hægt væri að skoða slíkt.

Hvergi kom til umræðu að borgin ákvæði framkvæmdir á lóðum í einkaeign. Einungis er verið að leita leiða til að lóðarhafar fái nýtt eign sína á sem hagkvæmastan hátt án þess að gengið sé á rétt annarra og að heimilar framkvæmdir hafi jákvæð efnahagsleg, félagsleg og umhverfisleg áhrif á nágrennið, hverfið og borgina.

Það er alltaf hagur lóðarhafa að hafa möguleika á að byggja eða breyta húsum á lóð sinni. Það er í raun réttur allra að ráðstafa eignum sínum á þann veg sem þeir kjósa svo lengi sem það hafi ekki umtalsvert og ófyrirséð óhagræði í för með sér fyrir aðra.

MARKMIÐ:

í komandi hverfisskipulagsvinnu munu því sjálfstæðir skipulagsráðgjafar vinna tillögur að uppbyggingu og verndun í öllum hverfum borgarinnar. Ráðgjafar munu í samráði við íbúa og borgaryfirvöld vinna að faglegum heilindum að markmiðum um betri hverfi og aukin lífsgæði fyrir alla.

Kv. Elísabet

Elísabet Ólafsdóttir, 22.5.2014 kl. 22:21

12 Smámynd: Ívar Pálsson

Takk fyrir upplýsingarnar, Elísabet. Ég læt öðrum eftir að berjast við vindmylluhafið sem er borgarmaskínan og hvernig afleitar hugmyndir komast í framkvæmd. En ég var þarna á Hagaskóla- fundinum þar sem fólk mátti tússa á kort, brú yfir Skerjaförð, strika út bílastæði stúdenta og án efa stinga niður blokkum hér og þar. En að það verði grunnur breytinga á áratuga skipulagi er ekki viturlegt.

Ég efast um það að lóðirnar við Hjarðarhaga séu í einkaeign, en það getur náttúrulega verið að þær séu ekki leigulóðir borgarinnar. Ef þær eru í einkaeign, hefur þá einn bílskúrseigandi rétt til þess að hafna því að byggingin sé reist í heild sinni? En ef þetta eru leigulóðir, eiga ofangreindar reglur þá ekki við, þar sem lýst er rétti lóðarhafa?

Að lokum um samráðið, sjáið ferli yfirvalda hér að neðan. Ekki bólaði á þessi samráði. Takið eftir hvernig samráðið við íbúa átti að hafa átt sér stað í eftirfarandi. Takið eftir tímasetningum.

3. Kynning og samráð

3.1 Kynningar og samráð við íbúa og stjórnsýslu borgarinnar

Gerð lýsingar, mats á umhverfisþáttum og hverfisskipulags er og verður unnin í nánu samráði og samvinnu við íbúa og aðra hagsmunaaðila. Haldnar hafa verið reglulegar kynningar fyrir

umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkur og stýrihóp hverfis-skipulags sem skipaður er sérfræðingum hjá Reykjavíkurborg á sviði: skipulags- og byggingarmála, framkvæmda- og

mannvirkjamála, velferðarmála, skóla- og frístundamála, umhverfismála, sorp- og endurvinnslumála, menningar- og ferðamála o.fl.

Yfirlit yfir helstu kynningar og samráð við gerð lýsingar:

Fundir með hverfisráðum, íbúasamtökum og tengiliðum í hverfunum sem vinna með ólíkum hópum fólks eins og t.d. ungu fólki, öldruðum, öryrkjum, innflytjendum o.s.frv. – Júní 2013.

Samráðskassar á fjölförnum stöðum eins og sundlaugum, bókasöfnum og öðrum stöðum, þar sem hægt er að skrifa niður hugmyndir og setja í hugmyndakassa – ágúst 2013-mars 2014.

Samráð á kortavef á netinu þar sem fólk getur skráð og teiknað inn ábendingar– ágúst 2013 – mars 2014.

Samráðsfundir með íbúum og hagsmunaaðilum í hverjum borgarhluta – september-október 2013.

Kynning fyrir hverfisráðum febrúar 2014.

Fundir með aðilum frá skóla- og frístundasviði, íþrótta- og tómstundasviði, Velferðarsviði, aðila frá Félagsbústöðum eða öðrum sem verkefnisstjórar USK telja nauðsynlegt. – janúar 2014.

Skipulagslýsing og mat á umhverfisþáttum verða kynnt og lögð fram til umsagnar. Lýsingin verður send til umsagnaraðila og gerð aðgengileg ávefsvæðum Reykjavíkurborgar. Vakin verður athygli á henni með auglýsingu í fjölmiðli.

Áframhaldandi samráð verður við þá aðila sem komu að samráðsferli við gerð lýsingar, í 2.áfanga verkefnisins, sem er mótun tillögu að hverfisskipulagi.

Ívar Pálsson, 23.5.2014 kl. 00:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband