Jóhönnu- heilkennið í Reykjavík

AdalskipulagREK2010 2030

Morgunblaðið birti þann 22. maí 2014 grein mína sem hér fylgir: 

"Þegar íbúarnir fá nóg, þá er það orðið of seint: aðalæðar þrengdar, Reykjavík þekkt fyrir bílastæðaskort, flugvöllurinn farinn og úthverfin hundsuð."

Jóhönnu-heilkennið má kalla það, þegar hrært er í málum sem eru í góðu lagi á meðan þarfamálin eru látin nær ósnert. Þetta var alþekkt á landsvísu í stjórnartíð Samfylkingar og Vinstri grænna árin 2009-2013. Borgarmálin fóru líka í þennan farveg með Besta flokknum og Samfylkingu sl. fjögur ár og nú virðist Dagur Bergþóruson Eggertsson stefna í að fá umboð borgarbúa til þess að halda þeirri stefnu áfram af krafti næstu fjögur árin.

Samfylkingin bakvið tjöldin

Reykjavíkurdætur eru í hrifningarstormi á Facebook yfir Degi B., en mættu aðeins styrkja sig í hnjáliðunum og líta á líklegar afleiðingar þess að fá Samfylkinguna yfir borgarmálin af fullum krafti. Síðastliðin fjögur ár hefur hún unnið ýmis verk bakvið leiktjöldin, sérstaklega í mörg hundruð milljóna króna óþarfaverkum eins og breytingartillögum á Aðalskipulagi Reykjavíkur og Hverfaskipulagi, sem gert var ónothæft.

Daglegu lífi raskað

Daglegt líf þorra Reykvíkinga, nágranna þeirra og Íslendinga almennt nær að verða fyrir neikvæðum áhrifum þess að Samfylkingin og Björt framtíð fullkomna ídealisma sinn um breytingar á lífsstíl fólks að þeirra hætti. Síðan þegar íbúarnir fá nóg, þá er það orðið of seint: aðal- umferðaræðar eins og Hringbraut verða þrengdar, Reykjavík verður þekkt fyrir bílastæðaskort þrátt fyrir gnótt landsvæðis, flugvöllur höfuðborgarinnar verður fjarlægður með öllum sínum afleiðingum og félagsíbúðir á kostnað Reykjavíkurbúa reistar í staðinn á dýrasta stað í borginni. Í stað greiðfærra brauta sem lágmarka tímasóun þorra borgarbúa, þá er yfirlýst stefna beinlínis að hægja á umferð með stíflun hennar. Hagur úthverfanna er yfirleitt hundsaður.

Aðhald

En ofangreindir ókostir, sem liggja fyrir sem staðreyndir nú þegar, duga líklegast ekki til þess að kom Degi & Co frá völdum í borginni. Sjarminn blífur og skuldasöfnun okkar í gegnum hann er líkleg til þess að taka undir sig stökk. Þó er von til þess að kjósendur beiti hópinn aðhaldi, helst með því að kjósa hann ekki í komandi kosningum, en annars með því að fara ofan í saumana á m.a. þessum málefnum.

Raunverulegt val íbúanna

Íbúalýðræði Dags & Co hefur hingað til verið Facebook-lýðræði og álíka lýðskrum eins og Betri Reykjavík, þar sem kosið er um hvort bekkur verði settur upp hér eða hellur lagðar þar. Krefjast þarf alvöru kosninga íbúa hvers hverfis um alvörumál áður en þau eru sett af stað, sérstaklega þegar um er að ræða þéttingu byggðar í grónum hverfum, sem bæði Samfylking og Björt framtíð setja á oddinn. Þegar síðan nágrannabyggðir hafa verulegra hagsmuna að gæta, þá verður að vera full sátt um aðgerðir áður en vaðið er í þær. Seltjarnarnes hefur t.d. rétt á því að Hringbraut sé haldið greiðfærri, þó ekki sé nema vegna öryggishagsmuna.

Krefjumst upplýsinga

Borgaryfirvöld Dags & Co hafa talað um opna stjórnsýslu á tyllidögum, en ómögulegt er að nálgast jafnvel samþykktar tillögur Borgarráðs, sem opinbera þær afarhugmyndir sem eru í gangi. Krefjumst þess að allt sé birt og gert aðgengilegt, svo að borgarbúar megi sjá í hvaða villu er verið að leiða þá. Við höfum aðeins nokkra daga núna til umhugsunar fyrir kosningar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband