Orka Íslands

Orkuframleiðsla er orðin grundvöllur íslenska hagkerfisins.  Sjávarútvegur er mikilvægur, en sem ein hæð í byggingunni, ekki sem grunnur og meginstoð, enda er grunnur hans, uppsjávarfiskar eins og loðnan farin að sveiflast verulega til í magni til þess að teljast traustur grunnur lengur.  En orkuframleiðslan heldur áfram, jafnvel þótt um verulegar náttúruhamfarir gæti orðið að ræða á Íslandi.  Það sem má helst nýta þessa orku í dag  til þess að geta greitt fyrir virkjanirnar er álframleiðsla, vegna eðlis þess iðnaðar.  Það gæti breyst, en þörfin fyrir umbreytingu þessarar orkuauðlindar sem Ísland situr á heldur áfram.  Líklegasta virðisaukandi notkun orkunnar í náinni framtíð er umbreyting vetnis í færanlegt eldsneyti, en sú tækni er of skammt á veg komin í dag til þess að borga sig, auk þess sem olían er enn of ódýr og vinsæl til orkunotkunar til þess að vetnisframleiðsla Íslands geti keppt við hana.  Sérstaða Íslands felst í atorkusömum, vel menntuðum einstaklingum sem nýta auðlindir á skynsamlegann hátt til þess að geta þróað heilbrigt samfélag í sátt við náttúru sína og umheiminn.  Það ber ekki að takmarka þessa sérstöðu við staðnaðar skoðanir háværra hópa erlendra stórborgarbarna, sem hafa löngu misst sjónar á þörfinni á því að lifa og þróast með náttúrunni.  Öllu heldur ætti að leiða hópinn með góðu fordæmi og framkvæmdum sem nýta vel það áræði sem Íslendingum hefur gjarnan verið í blóð borið.  Þegar þetta hefur verið gert, þá umbreytist þjóðfélagið í framfaraátt, en fjöldinn á yfirleitt erfitt með að þola of miklar breytingar í einu, sem kallar gjarnan á andsvörun.  Þessi baksveifla massans er þegar hafin hér á landi og gæti magnast í komandi kosningum.  Hverjum og einum finnst hann eiga stærri hlut af kökunni, sem hann vildi samt ekki taka þátt í að baka.  Sú skoðun er orðin algeng að Kárahnjúkavirkjun hefði ekki átt að vera reist, heldur hefði eitthvað annað átt að fleyta okkur fram veginn.  Það er eins og að búa á fjórðu hæð í blokk en mótmæla því að grunnurinn hafi verið reistur.  Við þörfnumst þessa útflutnings sárlega sem verður til við álframleiðsluna og það heftir ekki annan útflutning, s.s. sjávarafurða eða hugbúnaðar, heldur verður traustur hluti hagkerfis okkar.  Þorskurinn er takmörkuð auðlind, loðnan lét ekki látið sjá sig af viti í lengri tíma, ekki borgar sig lengur að veiða rækju og við erum almennt talin vera komin að endamörkum þess vaxtar sem hafið býður upp á.  Frystihúsin urðu fá og vélvædd, þar sem handavinna borgar sig ekki hér í alþjóðlegri samkeppni, nema með því að flytja inn útlendinga á lægri launum sem er ekki vænleg eða lögleg lausn.  Núna sjá nokkrir stórir frystitogarar og aðrir togarar um meginhluta veiða okkar, en annars bátafloti sem sendir fiskinn að mestu beint út á markað, enda er virðisaukinn mestur þegar minnst er átt  við fiskinn, ólíkt því sem áður var.

Þegar grunnur hagkerfisins er orkuframleiðsla eins og hér á landi, hvað eigum við hin að gera sem ekki vinna beint við þessa grunnframleiðslu?  Við menntumst til þess að þjóna hvert öðru og umheiminum, enda stendur hugur margra til þess.  Látum ekki þessa menntun fylla okkur hroka, vanþakklæti og vandlætingu, þar sem skilningsskortur á grunnþáttum hagkerfisins getur leitt til múgæsingar eða múgsefjunar í komandi kosningum.  Könnumst við það sem rétt var gert og af hverju það var rétt, því að það var nauðsynlegt til þess að fleyta Íslandi fram á við.  Stjórnartíð Davíðs Oddsssonar er líklegast mesta framfararskeið síðustu áratuga og er nú í traustum höndum Geirs H. Haarde.  Sú hugsun sem þar bjó að baki heldur áfram að vera grunnur sjálfstæðisstefnunnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband