Nóg komið af Jenum?

Það er athyglisvert að Kaupþing taki stórt Jenalán núna þegar umræðan er á þann veg að þessu geti senn farið að ljúka. Kannski er þetta eina lausnin, á meðan tryggingarálag bankans er lágt.

Vaxtamyllan hjakkar enn áfram

Vaxtamyllan, þar sem tekin eru lán í lágvaxtamynt (t.d. japönsku Jeni) en féð nýtt í hávaxtamynt (t.d. IKR) hefur gengið í þó nokkur ár en gæti farið að renna sitt skeið fljótlega. Ný- Sjálenski dollarinn NZD er líklegastur til þess að bresta fyrst að þessu leyti. NySjalenskir100dalirHann er framvörður hávaxtamynta (8% stýrivextir) þar sem verslað er mikið með þann gjaldeyri, á meðan íslenska krónan IKR (13,3 % stýrivextir) er talin áhættusamari, með minni viðskipti, meira flökt og styttri sögu sem alvöru gjaldmiðill. Það sem bendir helst til breytinga er tvennt: Bæði japanski og nýsjálenski seðlabankinn hafa fengið nóg af þessu endalausa útstreymi japanskra Jena yfir í nýsjálenska Dollarann, enda er munurinn á vaxtastigi sextánfaldur (en rúmlega 26 faldur miðað við Ísland!).

Nýja- Sjáland og Ísland 

Vandi andfætlinga vorra, Nýsjálendinga, er sá sami og okkar, þar sem vinsældir gjaldmiðilsins aukast við hverja vaxtahækkun, sem kallar í raun heima við á frekari vaxtahækkanir, sem auka aftur vinsældirnar. NZD myntÞar er verulega farið að velta fyrir sér hvort yfirleitt sé hægt að halda við litlum hávaxtagjaldmiðli, þar sem heimsverslun gjaldeyris skekkir stöðuna heimavið svo verulega. Seðlabanki landsins hafði ekki gripið inn í gjaldeyrisviðskiptin í fjölda ára þar til um daginn og segist munu halda því áfram, en því miður hefur sú garðslöngubuna ekkert haft að segja á móti því gríðarfljóti sem þetta fjármagnsstreymi er orðið.

Japanir vilja traust Jen

Það er ekki fyrr en í gær, sem japanski fjármálaráðherrann andmælti þessu einstreymi fjár, að markaðurinn telur að þessi "vaxtamunarverslun" geti farið að hægja á sér. Jen BloombergTalið er að japönskum yfirvöldum lítist ekki á það að langflestir fjárfestar, þmt. fjöldi japanskra launþega sem fær kaupaukana sína núna, nýti féð í erlenda fjárfestingu. Yfirvöld landsins hafa ekki skipt sér verulega af slíku í amk. tíu ár, en vilja leggja áherslu á innlendan vöxt héðan af.

Heljar- afleiðingar sterkara Jens

Afleiðingar hugsanlegrar styrkingar Jensins hefðu veruleg áhrif á heimsvísu, sérstaklega á hávaxtamörkuðum í jaðrinum, þar sem íslenska krónan er. Þá þarf Ísland að horfast í augu við stóra uppsafnaða vandann, sem eru framvirku skammtímasamningarnir vegna krónubréfa og annarra vaxtasamninga, stöðugt framlengdir en ekki lengur ef markaðurinn telur áhættuna of mikla. 700 milljarðar er engin smá- upphæð.

Krónan brestur að lokum

Þrátt fyrir allt ofansagt, þá hefur aðlögunarhæfni og útsjónarsemi íslensks bankafólks tryggt að "útrásin" haldi áfram, krónan er seld framvirkt og vaxtamyllan malar og fyllir stórar hlöður. Langflestir telja að krónan haldi velli, þrátt fyrir hrikalega skuldastöðu íslenska hagkerfisins. En ballið er búið, bráðum verða ljósin kveikt, þannig að best er að koma sér út sem fyrst.

 

Fyrri greinar af líkum meiði:

Stöðugt ástand?  http://astromix.blog.is/blog/astromix/entry/221080/

Vextir lækka ekki  http://astromix.blog.is/blog/astromix/entry/212149/

628 milljarðar. Bilun. http://astromix.blog.is/blog/astromix/entry/175941/

Enn of örlátt, segja Bretar http://astromix.blog.is/blog/astromix/entry/173588/

Augljóst hvert Moodys stefnir http://astromix.blog.is/blog/astromix/entry/165985/

Fall Íslands http://astromix.blog.is/blog/astromix/entry/139240/


mbl.is Kaupþing gefur út skuldabréf í jenum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Jamm...hvað skyldu svo timburmennirnir standa lengi?  Verða þeir kannski "krón"ískir?  Synd og skömm. Við sem vorum búin að finna fullkomna útflutningsvöru í vöxtunum okkar.  Það kostaði okkur að vísu annan útflutningsiðnað, svo nú er vandi úr að ráða.  Ekkert að flytja út nema íbúana sjálfa.  

Þetta hefur þó verið eftirminnilegt ball fyrir flesta.  Flýtur á meðan ekki sekkur.

Jón Steinar Ragnarsson, 27.6.2007 kl. 18:35

2 Smámynd: Ísdrottningin

Hverjir borga svo brúsann ef/þegar fleyið siglir í strand?

Ísdrottningin, 28.6.2007 kl. 03:21

3 Smámynd: Ívar Pálsson

Ísdrottning, ég tel að hver sá sem tók lán er að borga brúsann núna með of háum vöxtum. Gengislækkun eykur síðan byrðina. Ekki eyða í óþarfa, heldur aðhyllast manngildisstefnu ýmissa sambloggara okkar, þar sem léttari byrðar létta sálina.

Já, þetta hefur ekki verið slæmt og þarf ekki að verða það ef meistara- bankafólki okkar tekst að framlengja afleiðingum útfluttra ofurvaxta árum saman með góðri leiksýningu. En gömul fræði segja vexti yfir 10% ekki hafa haldist lengi í sögunni. Við erum kannski að móta nýja sögu.

Ívar Pálsson, 28.6.2007 kl. 10:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband