Um 10% gengisfall veldur verðbólgu

Umrót markaðanna felldi íslensku krónuna um tæp 10% sl. 16 daga. Þetta gengisfall er ekki komið út í verðlagið. Allt tal um það sem var, eins og 12 mán. verðbólga er eins og að aka horfandi stöðugt í bakspegilinn. Ræðum almennt um það sem framundan er.

Heimurinn snýst 

Seðlabankar dældu andvirði tæpra 9.000 milljarða króna inn í hagkerfin síðustu tvo daga til varnar lausafjárstöðu illra staddra banka. Sú aðgerð er verulega umdeild, bæði vegna þess hve fljótt er komið til bjargar, einmitt þegar eðlileg grisjun er að hefjast, en helst vegna þess hvort seðlabankarnir ættu að dæla svona inn yfirleitt, nema þá sem loka- lánsaðili (e."lender of last resort") til þeirra sem höfðu jafnan haldið áhættu sinni í lágmarki. Ef einhverjir eiga að þjást, hví ekki þeir sem tóku fólskulega áhættu? Af hverju á almenningur að koma þeim til bjargar vegna villu þeirra sem sölumenn verðlítilla bréfa, einmitt þegar ógnar-hagnaðurinn snarminnkar? Skilaboðin til markaðarins verða annars þessi: "það borgar sig að taka villta áhættu og æða áfram til andskotans, því að ríkið reddar þessu strax".

Krónan er áhættusöm 

Réttast er að láta þeim svíða sem undir míga. Vandamálin eru líklega mun dýpri fen en t.d. íslenskt bankakerfi fæst enn til þess að viðurkenna. Vandræðin í Bandaríkjunum eru mest hjá vogunarsjóðunum, en hér og í restinni af  Evrópu eru þau hjá bönkunum, sem hafa hampað þessum bréfabréfum í bókum sínum eins og um alvöru eign sé að ræða. Um leið og Moody's endurskoðar mat sitt hraðfalla bréfin, mun meira en þessi tæpu 10% sem krónan féll um. En vegna krónunnar, þá hlýtur einhver hluti af þeim 800 milljörðum sem eru líkast til útistandandi í vaxtamunarviðskiptum núna að verða snúið við í þessu ástandi. Áhættusömustu fjárfestingarnar eru á hraðri útleið, en þar geta talist vaxtamunaviðskipti með lítinn gjaldmiðil á háum vöxtum í jaðrinum. Glitnir segir í fréttum í dag:  "... því lengur sem órói á alþjóðamörkuðum varir, þeim mun lengur mun það að líkindum taka fyrir fjárfesta að ná aftur fyrri kjarki til áhættusamra viðskipta á borð við stöðutöku í krónunni. (JBB)".

Semjum í Evrum

Hvað með Ísland? Krónan féll um rúm 10% (eins og þörf var á) og fer sú hækkun gjaldeyris að öllum líkindum beint út í verðlagið í haust. Vaxtakostnaður banka hækkar. Líkur á aukinni verðbólgu eru verulegar. Kjarasamningar stéttarfélaga um 100.000 Íslendinga renna út um áramótin. Húsnæðisbólan hlýtur að springa fljótlega, m.a. af því að of hátt hlutfall margra eigna var lánað til of langs tíma, sem verður of erfitt ef t.d. afborgunin tvöfaldast. Min ráð eru enn: semjið í Evrum (eða tengt gengi Evru) við vinnuveitendur, herðið sultarólina, borgið skuldir, kaupið síðan gjaldeyri ef hægt er, en sættið ykkur við það að partíið er búið.


mbl.is Útlit fyrir að enn dragi úr verðbólgu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband