Davíð bregst bogalistin

Ég hélt forðum að maðurinn sem bjargaði Íslandi, stóð sig svo óendanlega vel og við treystum svo mörg á, Davíð Oddson, myndi halda áfram að brillera og yrði eins konar Greenspan dollarokkar Greenspan þarna í Seðlabankanum. Því miður hefur annað komið á daginn. Hvert tækifærið af öðru sýndi sig til þess að hann gæti tekið af skarið og lækkað stýrivexti, þannig að stöðugleiki kæmist á, en hann og aðrir í Seðlabankanum einblíndu á íslenska verðbólgu þegar allt aðrir áhrifaþættir hafa verið í gangi með gengi krónunnar. David OddsonLandsbankinn og Glitnir staðfestu það á ágætum spáfundum sínum í dag og í gær að gengi krónu fylgir öðrum hávaxtamyntum og ræðst því mest af spákaupmennsku sömu aðilanna, minnst af heimatilbúnum hagsveiflum á hverjum stað. Þessu hef ég haldið fram í hálft ár og treystist enn í þeirri skoðun. Nú styrkist krónan enn þar sem vaxtamunamyllan blússar af stað aftur.

Seðlabankinn er dragbítur á framfarir 

Af hverju lækkar Davíð ekki stýrivexti? Af því að það er eins og að biðja bankastjórann Sedlabanki Islandssinn (skammtíma- spákaumennina með 800 milljarðana á móti krónunni) um að gjaldfella nokkra af víxlunum manns. Þar með búum við okkur sjálviljug til lausafjárkreppu, gjaldeyrisskort, gengisfellingu og verðbólguskot. Ekki að undra að maðurinn á takkanum skuli forðast að ýta á hann. En þetta er eins og með ruslabílinn, ef ekki er ýtt á takkann, þá fer ruslið ekki burt og hrannast upp við heimili fólks. Skuldir heimilanna eru hrikalegar og þurfa að koma í ljós. Það er ekki heilbrigt eða sjálfbært að lifa í hávaxtasamfélagi, eins og bankafólkið á fundunum benti á. Lausnin er einföld en erfið og Davíð verður að ýta á takkann.

Evran kemur, hvort sem Seðlabankinn vill eður ei 

Sedlabanki svarta husidAnnað sem Davíð beit í sig við komuna í Seðlabankann er það að það sé þjóðarnauðsyn að halda krónu sem gjaldmiðil, á meðan fyrirtæki landsins, leiðtogar í viðskiptum og alþjóðlegir sérfræðingar mæla hver af öðrum fyrir upptöku Evru eða beintengingu við hana. Davíð finnst þetta hlægileg firra! Svo klykkir Seðlabankinn út með því á síðasta degi fyrir Evruupptöku Straums banka, að beita skrifræðisreglu og lagalegum vangaveltum til þess að reyna að tefja framgang þessa eðlilega máls, sem var löngu tilkynnt, skipulagt og ákveðið. Öllum öðrum hefði ég trúað til slíks en Davíð, fyrrum aðalmálsvara frelsis í viðskiptum og fjármagnsflutningum. Hér virðist vera um valdaspurningu að ræða, þar sem Seðlabanki Finnlands tekur að sér það sem Seðlabanka Íslands fannst hlægilegt, en missir spón úr aski sínum. Straumur er leiðandi fjárfestingabanki og önnur fyrirtæki munu því fylgja á eftir. Hver og einn á að nota þann gjaldmiðil í viðskiptum sem treyst er á. Fyrir langflesta á Íslandi er það Evran, en ef einhver fyrirtæki kjósa Dollar eða annað, þá gera þau það bara, það er einungis tæknimál. Slík vandamál er löngu búið að leysa í Evrópu, þar var margskonar gjaldeyrir og jafnvel er í gangi á hverjum stað.

Lægri stýrivextir og upptaka Evru er þjóðarnauðsyn Evrugull

Seðlabankinn getur ekki stöðvað breytingaflóðið með orðræðum og hengilshætti. Stýrivexti þarf að lækka og Evra þarf að verða gjaldmiðillinn. Um þetta fer jafnvel að verða þverpólitísk samstaða. Meir að segja Federal Reserve, einka- seðlabanki Bandaríkjanna yfirgaf verðbólgustefnu sína og sér að leiðin áfram er um lægri vexti. Við getum vel gert þetta, fengið lága vexti og Evru, annað er ófært til lengdar.


mbl.is Krónan styrkist í kjölfar vaxtalækkana vestanhafs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Davíð er sennilega að bíða eftir Amero.  Hann hefur alltaf verið hallari undir vesturvænginn. Annars hef ég velt því fyrir mér, hvers vegna við þurfum seðlabanka.  Þetta var víst bara skúffa upp í fjármálaráðuneyti áður.  Hvað gera þeir annað en að ákveða vexti? Hvað kostar þetta bákn? Getum við ekki án þeirra verið? Hvenær skyldu mógularnir hér ná honum í prívatiseringu eins og í fyrirheitna landinu?

Jón Steinar Ragnarsson, 19.9.2007 kl. 20:38

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Enn einfaldari leið til að koma á ástandi markaðsvaxta og núllun verðbólgu (að meðaltali) er að leggja niður Seðlabanka Íslands og afnema lög sem banna útgáfu peninga sem eru bakkaðir upp af hvað svo sem er talið að framkalli traust markaðsaðila (sem sögulega hefur verið gull en það er ekkert lögmál).

Það að "taka upp" mynt - svona rétt eins og sú miðstýring sé eitthvað skárri en hver önnur (og hvað þá þegar umrædd mynt er einfaldlega stjórnað af öðrum ríkisstjórnum eða handbendum þeirra) - er aðgerð sem ég efast stórlega um að sé langtíma"lausn" á einu né neinu.

Evran hefur vissulega þann kost að hún er í umsjón margra ríkisstjórna með ólíka hagsmuni sem deila það mikið um vaxtastefnu að hún endar á að stjórnast af hægum hagkerfum hinna stóru ESB ríkja, en það er ekki nema relatívur kostur (miðað við ISK), en ekki absólút. 

Geir Ágústsson, 19.9.2007 kl. 21:35

3 Smámynd: Þórður Gunnarsson

Hrein spákaupmennska (carry trade-ið) er nú ekki allir 800 milljarðarnir.

En auðvitað má velta fyrir sér hvort erlend lán fyrir húsnæði sé ekki spákaupmennska í sjálfu sér?

Þórður Gunnarsson, 21.9.2007 kl. 16:54

4 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Hvaða hjal er þetta sem maður heyrir um kosti þess að gera upp fyrirtæki, eða eiga viðskipti í Evrum ? Ef einhverjum finnst þetta góður kostur, þá einfaldlega gerir hann það. Er nokkuð sem hindrar fyrirtæki í, að gera jafnvel uppgjör sitt í mörgum myntum samtímis ? Krónan er alvöru gjaldmiðill, sem hægt er að skipta í hvað sem verkast vill, erlendan gjaldmiðil eða þess vegna gull.

Stýrivextir er annað mál, sem mér finnst erfitt að taka afstöðu til. Eitt er þó ljóst, að ef stýrivexir bíta ekki í buddu landsmanna, þjónar engum tilgangi að halda þeim háum. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að fella eigi niður vaxtafrádrátt einstaklinga. Engin rök er hægt að greina, sem mæla með þessum frádrætti. Öllum er væntanlega ljóst, að ef ríkið borgar stóran hluta af vaxtakostnaði einstaklinga í gegnum skattakerfið, hafa vaxtahækkanir þeim mun minni áhrif.

Loftur Altice Þorsteinsson, 21.9.2007 kl. 20:12

5 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Ég er ekki sannfærður Ívar, að hlutfallslega háir vextir haldi til lengdar uppi háu gengi. Eru það ekki fremur breytingar á vaxtastigi sem fá menn til að hreyfa fjármagn út úr eða inn í hagkerfi ?

Ef það væri regla, að hátt vaxtastig valdi innstreymi alþjóðlegs fjármagns væru engin takmörk fyrir hversu hátt gengi krónunnar færi. Krónusvæðið er svo lítið að einungis brota-brot af fjármagni heimsins þyrfti að lúta þessari ímynduðu reglu.

Annars er krónan ótrúlega stöðug og alls ekki of hátt skráð, að mínu mati. Er hægt að þakka það Davíð og Seðlabankanum ? Raunar hefur Davíð góðan mann sér við hlið, sem er Eiríkur Guðnason. Við getum væntanlega orðið sammála um, að gagnrýni Davíðs á mótvægis-aðgerðir ríkisstjórnarinnar er réttmæt.

Loftur Altice Þorsteinsson, 21.9.2007 kl. 20:52

6 Smámynd: Gunnar Þórðarson

Svo það sé alveg á hreinu þá er hlutverk Seðlabankans skýrt. Að halda verðbólgu í kringum 2.5%.  Eina stýritækið sem hann hefur til þess eru stýrivextir.  Stýrivexti ákveða peningamagn í umferð sem er megin áhrifaþáttur í verðbólgu.  Seðlabankinn er ekki að stýra veðmæti krónunnar, hann getur það með því að hafa áhrif á eftirspurn eftir krónum með kaupum á þeim eða sölu.  Það er alveg ljóst að bankar sem taka  endurhverf lán hjá seðlabanka upp á 14.25% eru ekki að lána þetta fé fyrir minna. Hver er endanotandi þessara lána? Yfirdrættir á reikningum og kreditkortalán.  Það einmitt slík þensla sem menn vilja slá á með háum vöxtum  Auðvitað eru aukaverkanir vondar,eins og of hátt gengi, en það er skárra en hömlulaus verðbólga.  Þetta snýst svolítið um hinn geggjaða neyslubrjálaða Íslending.

Gunnar Þórðarson, 22.9.2007 kl. 02:50

7 Smámynd: Ívar Pálsson

Takk fyrir áhugaverðar athugasemdir, félagar. Þótt Seðlabankinn geti verið óþarfur, þá efast ég stórlega um að samstaða næðist um afnám hans. Við skulum amk. vona að hann taki ekki upp á því að „verja“ krónuna í óumflýjanlegu sigi og kasta þannig milljarðatugum í viðbót til spákaupmannanna. Mér skilst að stöður í vaxtamunarviðskiptum með krónunni, sem verða á móti henni á hverjum gjaldaga fyrir sig eða jafnvel fyrr, séu minnst 800 milljarðar. Drýgsti hlutinn hlýtur að teljast til spákaupmennsku. Bankarnir staðfesta það. Upphæðirnar eru slíkar að óstöðugleikinn telst verulegur, eins og háu skuldatryggingarálögin sýna, mun hærri en markaður þrátt fyrir AAA mat.

Erlend krónueftirspurn vegna þessa háa mats og hárra vaxta er alls ekki ímynduð regla, heldur raunveruleg og  greiningardeildir bankanna eru jafnvel farnar að taka undir það. Þetta eru kannski ekki ofur- fjárhæðir á heimsvísu, en áhættugjörnustu gammarnir hafa náð þessu upp í þessi hundruð milljarða með mikilli sölumennsku í útflutningi háu vaxtanna okkar, sem færir íslenskt hagkerfi full- nálægt brúninni. Nú er búið að reikna þetta heimsóknarfé inn í dæmið sem „stöðugt“ og „komið til að vera“ (svo að ég vitni í bankana), þegar eðlilegt áhættumat sýnir að þetta er hvikult fé. Þótt stórir og traustir erlindir bankar og sjóðir bjargi afkomu fjórðungsins með svona hávaxtaeltingaleik, þá færa þeir sig til eins og vindurinn blæs, ef það hentar.

Á meðan stýrivextir eru háir hér og jenið er veikt gagnvart ástralska og nýsjálenska dollaranum, verður gengi krónunnar sterkt og vaxtamunarverslun mikil, sem skilar af sér æ stærri skuld krónunnar í upphæðir sem við kunnum ekki að nefna. Trilljón? Það er víst ameríska fyrir eitt þúsund milljarða, sem við stefnum hratt í.

Gunnar, það er rétt hjá þér að Seðlabankinn hafi áhrif á eftirspurn eftir krónum, en minnst með kaupum og sölu, heldur með því að ákveða stýrivaxtastigið. Það er verið að endurskoða gamla verðbólgumódelið á flestum stöðum vegna ofurinnkomu hvika alþjóðafjárins. Því miður geta Sorosar þessa heims tekið svona smákrónudót eins og okkar í nefið og snýtt sér svo, fyrst það tókst í Rússlandi, Malasíu og m.a.s í Bretlandi. Hér á Íslandi ná háu vextirnir ekki að lækka yfirdrætti á reikningum og kreditkortalánum, fyrst þeir ná því ekki í dag. Ég held að engum ykkar finnist að innlend lánaeftirspurn ryki upp ef stýrivextir lækkuðu úr 13,3% um eitt eða tvö prósentustig.

Rekstur fyrirtækis á Íslandi í dag er allt of erfiður í flestum greinum, þar sem mest af orkunni fer í að giska á gengi krónunnar. Hún ræður hverjir lifa og deyja í viðskiptum. Það er ekki eðlilegt. Ef stýrivextir eru lækkaðir og við tengjumst Evru, þá kemst jafnvægi á, en eftir erfiða þynnku.

Ívar Pálsson, 23.9.2007 kl. 01:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband