Krónur, skuldir og verðlaus bréf

Ég var á ágætum fundi Viðskiptaráðs um stýrivexti í dag. Davíð var góður fyrir hönd Seðlabanka að vanda, því miður, þar sem öðrum myndi varla líðast þessar hækkanir. Ljóst er að háir vextir eru fastir í sessi. En stóru spurningunni var þar ósvarað: gerir Seðlabankinn sér ekki grein fyrir því að krónan hefur aftengst hagkerfinu (sbr. greiningardeildir bankanna) og að hækkun stýrivaxta auki einungis vinsældir krónunnar í vaxtamunarviðskiptum? Síðan varð krónan gersamlega háð gengi Jensins eins og aðrar hávaxtamyntir, á meðan risaskuld á krónuna hefur safnast upp. Davíð sagði þjóðarbúið (ekki ríkið) þó vera komin að hámarki þeirrar skuldabyrði sem búandi er við, með sjö þúsund milljarða á þjóðarbúinu.

Krónan er amk. 800 milljarða í mínus, þmt. krónubréf og vaxtaskiptasamningar, þjóðarbúið skuldar 7000 milljarða (en hátt metnar eignir, t.d. bréfaeignir, eru um 1200 milljörðum lægri). Mér skilst að Líbanon sé eitt OECD ríkja skuldugra en Ísland.

Hvaða upphæðir þarf fólk að sjá til þess að hætta að styðja aðgerðir Seðlabankans, sem flestir sjá að skila sér ekki, enda styðjast þær við úrelta hagfræði?

En vandræði Bandaríkjanna eru svo hrikaleg að okkar smásyndir gleymast þegar við sjáum Amerísku tölurnar. Afskriftir þar sem hoggið er á báða bóga í verðlausa bréfabunkana en nóg er eftir. Síðan eru dollarar prentaðir eins og þýsk Mörk í Weimar- lýðveldinu. Samt tekur hlutabréfamarkaðurinn þar dauðakippi upp eins og núna, þó að fjármálageirinn sé enn varhugaverður. Það er nóg að gerast!


mbl.is Hlutabréf hækkuðu í Bandaríkjunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Sá að gullverð hefur ekki verið hærra í 27 ár. Eru það ekki merki um að hrun er á næsta leyti, þegar menn eru farnir að selja sig  smátt og smátt út af mörkuðum og binda peninga í gulli.  Þetta gerðu Morgan, Rothschild og Rockefeller fyrir stóra hrunið í den, enda risu þeir fullfiðraðir úr öskunni.  Margir segja að þeir hafi pantað og komið á þessari kreppu fyrir vikið. Skyldi eitthvað svipað vera í uppsiglingu núna.  Markaðurinn ætti annars að gefa viðvaranir, þegar stock obtionur fjölgar, sem er veðmál á að bréf muni falla.  Það varð þó hækkun á mörkuðum í dag og er það líka mjög dularfullt.

Nú fer að smella Ívar.  Það er þetta undarlega logn á undan storminum. (Kínverjar geta þó ýmislegt gert til að bjarga rassgatinu á US, enda hafa þir mikilla hagsmuna að gæta)

Jón Steinar Ragnarsson, 6.11.2007 kl. 22:25

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Nú er ég ekki mikill hagfræðingur, en Davíð hefur alltaf réttlætt vaxtastefnuna með því að verið sé að slá á þenslu.  Einhvernveginn get ég ekki annað séð en að þessi hávaxtastefna sé höfuðvaldur að skuldasöfnun okkar og gengdarlausri þenslu.  Er ekki eitthvað til í þvi.  Fyrir þessi ósköp flæða spekúlantamilljarðar inn í landið og enginn kann sér magamál frekar en múkki í mannaskít.

Ég trúi því að ástæðan fyrir ásælni peningamanna í Orkulindir og orkuflutning með öllu því upphæpi, sem því fylgdi, á því hve gífurlega verðmætt þetta er, sé vegna þess að nú vantar mönnum alvöru veð fyrir fjárfestingarfylleríinu, ef vextirnir skyldu nú loksins fara að súnka.  Hvað er vænlegra en að veðsetja fjöregg þjóðarinnar?  Er ekki fiskurinn í sjónum orðinn það nú þegar?

Jón Steinar Ragnarsson, 6.11.2007 kl. 22:54

3 Smámynd: Ívar Pálsson

Já, Jón Steinar, nú gerast flestir dómsdagsspámenn, þegar við vorum orðnir leiðir á þessu og maður hélt að vaxtaelítan gæti haldið þetta út að eilífu. Ameríska módelið sýnir hvað gerist með ruslbunkana, ekki bara subprime bréfin, heldur eru alvöru bréf líka lækkuð niður í 70% virði og jafnvel núlluð gagnvart endafjárfestinum, því að höndlarinn ber ábyrgð og greiðir ekki afborganir heldur núna. Gull, olía, landbúnaðarafurðir í USA og kínverska Remninbi er víst málið, en mér er sama, krónan verður bara að veikjast. Þá lifnar yfir útflutningi, álið mun þá skila sér vel fyrir okkur öll en áður var búið að rústa t.d. rækjuiðnaðinum sem kemur varla til baka. 

Nú stökkva afborganir fasteigna upp um tugi prósenta fyrir marga hér (úr 4,17% í 6,5%?) og hver fer að benda á annan um orsakir vandans. Stóri skellurinn er þó þegar Carry trade fer almennilega úr tísku, því að skellurinn á hagkerfið virkar svo hratt. 

Kína er traust. Þótt hlutabréf séu ofmetin, þá er gengi gjaldmiðilsins enn vanmetið og hagvöxturinn er endalaus. Skuldabréfaeign þeirra í dollurum er hrikaleg, þannig að þeir verða að enda með að kaupa hálft USA eins og arabar gerðu í London forðum í olíukrísunni, annars fæst ekkert fyrir bréfin. Eigin markaður Asíu vex svo hratt að áherslan á USA fellur, enda treysta Kanar á útflutninginn núna til þess að bjarga sér! Ódýrir risa- pickuppar æða um heiminn! Það eru ekki til stæði fyrir þessi ofurrassamonster á Ítalíu.

Ívar Pálsson, 6.11.2007 kl. 23:23

4 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Davíð veit sínu viti og hann hefur hæfa menn sér til aðstoðar. Seðlabankinn er ekki vandamál, þvert á móti er hann að bjarga efnahag þjóðarinnar. Það sem er vandamál er gengdarlaus eyðslustefna stjórnmálamanna. Þegar auka þurfti aðhald í fjármálum ríkisins, hljóp ríkistjórnin til og dengdi á mótvægisaðgerðum. Var tilgangurinn að koma í veg fyrir að erlendir farandverkamenn á Vestfjörðum þyrftu ekki að flytja til Reykjavíkur ?

Í þessari stöðu hefði ég hækkað stýrivextina enn meira en Seðlabankinn gerði. Vettlingatök duga ekki til að stöðva yfirdráttalán almennings. Ég tel reyndar, að yfirdráttarlánin séu betri mælikvarði á hagstjórnina en verðbólgan.

Fráleitt væri að taka mark á LÍÚ í þessari stöðu. Kvótaverð hafa aldrei verið hærri en núna, sem bendir til góðrar afkomu útgerðarinnar, en ekki slakrar ! Takmörkun veiðiheimilda er eins og skyldusparnaðurinn hér áður fyrr. Fiskurinn fær næði til að vaxa í sjónum og hverjir fá arð af uppskerunni, nema sjávarútvegurinn.

Útrásin hefur kostað sitt og engin ástæða til að ætla að þær fjárfestingar standi ekki undir sér í dag. Hins vegar eru blikur á lofti og hlutabréf eiga eftir að falla í verði, líklega fram að áramótum. Vonandi fá þau núna að falla hratt og án afskipta og blekkinga, þannig að hægt stígandi hækkanir geti hafist aftur á nærsta ári.

Kveðja.

Loftur Altice Þorsteinsson, 6.11.2007 kl. 23:53

5 Smámynd: Þórður Gunnarsson

Ég held að ég hafi skilið sambærilega athugasemd þessari hér áður, en hvað um það.

Vaxtamunarviðskipti er eitthvað sem er ekki skyndilega kippt úr sambandi. Það hefur sýnt sig í öðrum hávaxtagjaldmiðlum sem hafa upplifað viðlíka aðstæður og krónan er núna í, að vaxtamunarviðskiptin dragast hægar saman en sem nemur stýrivaxtalækkunum. Gjaldeyrismarkaðurinn er sá allra framsýnasti, þannig að menn stökkva ekki út 1,2 og 3 á meðan vaxtamunurinn er ennþá nokkur.

Þar að auki eru stærstu fjárfestarnir í krónubréfunum lífeyrissjóðir og ýmis opinber batterí og hugsa stöður sínar til langs tíma. 

Þórður Gunnarsson, 12.11.2007 kl. 17:13

6 Smámynd: Ívar Pálsson

Loftur, Seðlabankinn lifir í sér- heimi úr sér genginna aðgerða. Flestir sem lifa og hrærast í markaðnum (t.d. sumir í greiningardeildum bankanna) sjá það að virkni aðhaldaðgerða er nær engin heldur öfug af þessu helsta stýritæki, en stjórn Seðlabankans samþykkir ekki þá niðurstöðu, þótt raunin sé augljós. Aðrir blórabögglar verða tíndir til, sannaðu til.

Þórður, það er rétt að þrautseigu aðilarnir í vaxtamuninum hafa haft rétt fyrir sér og grætt. En nýr bisniss verður ekki eins mikið til ef kostnaður og áhætta fælir viðskiptavinina yfir í annað öruggara, t.d. gjaldmiðil sem gefur minni vaxtamun. Það tekur því tíma að vinda ofan af þessu, en mér skilst að eitthvað sé líka um framvirka samninga á móti, þannig að kúnninn geti hoppað út úr þessu hvenær sem er. Svo eru líka flest viðskipti með gjaldmiðla framvirkum áhrifum bundin í sér, þannig að ekki þarf að bíða eftir áhrifum aðgerða, ss. stýrivaxtalækkun eða hækkun Jensins, heldur forða sér flestir sem geta ef peningurinn er ekki að skila sér vel og gæti verið betur varið annars staðar.

Spíraláhrifin hljóta að verða sterk ef opinber batterí eru í þessum krónubréfum. Ættu þau að halda slíku áfram þótt komið væri í tap hvers dags? Væri ekki alltaf vonin um að krónan styrktist aftur? Það væri ábyrgðarhluti að tapa þannig fyrir ríki eða borg.

Ívar Pálsson, 12.11.2007 kl. 18:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband