BNA Íslandi til bjargar

Ef Bandaríkin hefðu álpast til þess að skrifa undir bindandi yfirlýsingu núna, þá hefði ósanngjarna kvótakerfið hans Gores hrokkið verulega í gírinn og Ísland neyðst til þess að teljast í hópi „mengandi“ iðnríkja sem borga fyrir 80% af losuninni á meðan Kína mun greiða fyrir 20% en losa samt langmest í heimi hér. Losunin okkar (ekki á mann, það vita allir hvað við erum fá) er hvort eð er ekki upp í nösina á dvergvöxnum ketti.

Takk, Bandaríkin, fyrir þessa lotu. Vonandi finnur Þórunn afsemjari ekki nýja leið til þess að láta okkur blæða í framtíðinni fyrir að vera svona vistvæn þegar árið 1990.


mbl.is Bandaríkin skrifa ekki undir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Geir

Þó að Kínverjar hafi nýlega byrjað að menga meira en Bandaríkjamenn að þá menga þeir væntanlega fjórum sinnum minna en Bandaríkjamenn miðað við höfðatölu.

Ef Kína yrði klofið í tvennt á morgun, þá yrðu eftirlifandi ríki ekki mestu sóðar hvert fyrir sig - Bandaríkjamenn kæmust á toppinn. Höfðatölusamanburður er réttari en ekki samanlagður sóðaskapur lands óháð fólksfjölda.

Til að sigrast á sóðavandamálinu þurfa allir að leggjast á eitt, en ekki t.d. allir nema Íslendingar af því Íslendingar er fámenn þjóð. 

Auk þess er ekki hægt að segja við Kínverja eða önnur minna tækniþróuð lönd að þeir mega ekki hefja iðnbyltingu, "vegna þess að við Vesturlandabúar erum búnir að sóða of mikið til í iðnbyltingum sjálfir". 

Gunnar Geir, 9.12.2007 kl. 01:17

2 identicon

Ef við klyfum Kína í tvennt, fengjum við frjálst Tíbet og kommúnistaríki með borgarastyrjöld út.

Pétur Guðmundur Ingimarsson (IP-tala skráð) 9.12.2007 kl. 07:44

3 Smámynd: Ívar Pálsson

Gunnar Geir, Íslendingar eru gerðir ábyrgir fyrir sögulegri mengun alvöru iðnríkja í nýjustu tillögum og greiða samkvæmt því, en fá kvóta miðað við litla losun árið 1990. Núverandi hagvaxtarríki í austrinu með Kína í fararbroddi losa koltvísýring eins og um engan morgundag verði að ræða og græða á tá og fingri á meðan vestræn iðnríki keppast við að skjóta sig í fótinn með þessum „sameiginlegu“ aðgerðum.

Að auki er Kína helstu seljendur loftslagskvóta (af þem 30 milljörðum USD sem seldir voru 2006) en reisa 3 ný kolaorkuver á viku. Ég álasa þeim samt ekki, því að stjórnendum ríkisins ber að hugsa um þegna sína, gera þeim fært að nálgast orku úr hráefnum á staðnum, en ekki að valda hungri með því að brenna matvælum og tvöfalda þannig verð á hveiti í heiminum eins og gert hefur verið vegna etanól- æðisins.

Auðvitað skiptir mestu máli hve mikið magn er losað út í heiminn, ekki hve margir auðnuleysingjar horfa á það vera losað á hverju landssvæði. Athugaðu fyrst hve mikið af 29 gígatonnunum af CO2 sem mannfólkið á að hafa staðið að losun að árið 2004 hafi komið frá Íslandi áður en þú segir að það hafi skipt máli.

Fyrst það tekur heiminn einn og hálfan dag að fjölga sér um Íslendinga, aðallega í hagvaxtar- austrinu sem á víst bara að greiða 20% „skaðans“, hvaða réttlæti er í því að tala alltaf um losun á mann? Þau fjölga sér það hratt að þau þyrftu að losa CO2 ótrúlega til þess að hafa í við þessa fáu Íslendinga með sín fiskiskip og bíla. Við munum því aldrei geta fært okkur niður á það losunarplan sem þú virðist æskja fyrir okkur, því að þá værum við löngu flutt burt eða dáin úr hungri.

Ívar Pálsson, 9.12.2007 kl. 11:15

4 Smámynd: Gunnar Geir

Pétur: Ég er ekki viss um að þú hafir skilið hvert ég var að fara með Kína í tveimur pörtum. Til að taka af allan vafa, bæði fyrir þig og Ívar, tek ég fram:

Til að takast á við það global vandamál sem vísindamenn kalla gróðurhúsaáhrif þurfa ekki bara sumar þjóðir að taka til í bakgarðinum hjá sér, heldur allar. 

Það að þjóð eins og Íslendingar fái undanþágu sökum smæðar sinnar, eins og mér finnst Ívar færa rök fyrir, er einfaldlega ósanngjarnt gagnvart hinum. Hversu letjandi er það líka fyrir aðrar þjóðir í sinni tiltekt að til séu þjóðir sem ekkert gera? Það er ekkert nema eðlilegt að hver maður hafi rétt til þess að menga ákveðið mikið, rétt eins og við höfum jafnan rétt í öðru. Íslendingar eru ekki settir skör ofar en aðrir í t.d. lögum annarra ríkja.

Bandaríkin hafa bakað sér óvinsældir fyrir að reyna ekki eins og aðrir að skuldbinda sig til breytinga. En þegar yfirvegað fólk tekst á við stór vandamál hefur það tíðkast víða að skipuleggja tæklingu vandans með því að setja sér markmið.  Þessi aðferð hefur nýst fólki gífurlega vel í aldir alda við tæklingu alls konar vandamála. Bandaríkjamenn eru hins vegar ekki tilbúnir að beyta þessum viðurkenndu aðferðum í sama mæli og Evrópubúar við tæklingu loftlagsvandans.

Stundum tekst ekki að fara eftir skipulagi og það getur leitt til þess að markmiðum sé ekki náð. Það hins vegar þarf ekki að benda til þess að það hafi verið rangt í byrjun að notast við skipulag og markmið við lausn vandans. Við eigum með öðrum orðum að halda áfram að setja okkur markmið í loftlagsmálum á meðan þúsundir vísindamanna hvetja okkur til þess.

Kína er land sem fólki finnst þægilegt að benda á til að gera lítið úr sínum eigin sóðaskap. Undirrótin er að mínu viti leti viðkomandi til að takast á við bakgarðinn sinn eða einhverskonar friðun á samvisku. 

Kínverjar hafa heldur betur orðið varir við áhrif frá öllum þessum kolaverum sem þeir byggja. Það hafa komið myrkrir dagar í sumum stórborgum þegar ösku rignir yfir borgirnar. Ætli þeim sé alveg sama? Skildi almenningi vera sama?

Ekki aldeilis og kínverskir umhverfisvísindamenn ríkisins taka þessu vandamáli mjög alvarlega.  Betur má þó ef duga skal.

Sökudólgar hafa lengi reynt að komast undan sök með því að benda á einhvern annan. Börn læra mjög fljótt að kenna öðrum um eða gera lítið úr eigin gjörðum "af því að einhver annar gerði eitthvað verra". Ég sé engan mun á röksemdafærslu slíks barns og þeirra sem benda á Kína og eigin smæð í sömu setningu. Enda er ég þeirrar skoðunar að þó að Kalli breyti rangt þýðir það ekki að ég megi sjálfur breyta rangt líka. Er það ekki kjarni málsins???

Gunnar Geir, 9.12.2007 kl. 22:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband