Stóriðjan kemur til bjargar

Árið 2008 mun útflutningur loksins skipta máli aftur. Snaraukinn útflutningur stóriðjunnar bjargar miklu sem tapast vegna fallandi gengi krónu og hruns í loðnu- og þorskveiði. Áföllin sem munu dynja á Íslandi á þessu ári vegna verðbréfaævintýra verða aðallega bærilegri vegna virkjana og álframleiðslu. Virkjanaáformin þurfa síðan öll að fá að ganga  eftir til þess að lífsgæðum verði viðhaldið. Sem betur fer hlusta nú fleiri á skynsemisraddirnar og skilja nauðsyn þess að raunveruleg framleiðsla og orkunýting eigi sér stað, þar sem útflutningur er í fyrirrúmi.

Prjónastofur og heimilisiðnaður?

Munið þið eftir prjónastofum og heimilisiðnaði áttunda áratugarins út um landið sem Kvennalistinn vonaðist til að bjargaði þjóðinni frá stóriðju„vánni“?  Segið börnum ykkar, nýjum kjósendum frá því hvernig það fór allt á húrrandi hausinn á meðan við nýttum bráðnandi jöklana dag og nótt til þess að vinna ál og kísiljárn í útflutning þannig að Seðlabankinn gæti gefið út íslenskar krónur. Stóriðja er góð í flesta staði, hagkvæm, ekki mannfrek, gerir okkur hinum kleyft að stunda þjónustustörf og er vistvæn að áliti flestra í heimi nema nokkurra háværra Íslendinga í leit að tilgangi.Gjaldeyrir 2008 IP

Álið er mikilvægt

Hér til hliðar fylgir kökurit sem sýnir áætlaða (ÍP) skiptingu gjaldeyristekna Íslands árið 2008, þar sem aukin álframleiðsla og minnkað vægi sjávarútvegs hafa breytt hlutföllunum verulega. Þetta er gróft metið, en ætti að nálgast raunveruleikann í árslok. Mikilvægi álgeirans er augljóst og fer vel á því.

Nýi kvótinn heftir vöxtinn 

Kolvitlaus losunarkvóti Þórunnar umhverfisráðherra kemur í veg fyrir áform Alcoa um verksmiðju við Húsavík og virkun á Bakka, þar sem kaupa þarf síðan kvóta af ríkinu fyrir nýjar verksmiðjur en ekki fyrri aðila, eins ósanngjarnt eins og það er. Stöðvum ekki það framfaramál sem sú virkjun og verksmiðja yrði. Réttast væri að segja Ísland alfarið úr Kyoto samkomulaginu úrelta, en til þrautavara að halda í sérstöðu landsins, ella er okkur beint refsað fyrir ráðvendni í umhverfismálum fyrri tíma, á meðan drullumokarar heimsins hagnast á kolavinnslu sinni.

Íslandi og fyrirtækjum þess verður ekki stjórnað úr kaffihúsunum. Leyfið alvöru framleiðslu og útflutningi að bæta hag okkar á meðan við sleikjum sárin eftir verðbréfadoddana.


mbl.is Dagar ofhitnunar liðnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Snævar Haraldsson

Verð aðeins að taka upp hanskann fyrir sjávarútveginn. Þú þyrftir að draga frá innflutt aðföng og þau eru talsverð í áliðnaðinum. Skil annars vel hvað þú ert að fara.

Við verðum að viðurkenna að eftir allt samann erum við bara ennþá slorþjóð. Lífið er saltfiskur. (Og slatti af áli)

Hef verið að velta því fyrir mér. Ég sé enga aðra lausn á þessu helvítis klúðri, aðra en að byggja bæði álver og olíuhreinsunarstöð á næstu misserum.

Annars má búast við mögrum árum.

Jóhannes Snævar Haraldsson, 27.2.2008 kl. 23:06

2 Smámynd: Þórir Kjartansson

Gleymdu því ekki Ívar, að um margra ára skeið var útflutningur á íslenskum prjónavörum svo stór hluti af iðnaðarframleiðslunni að hann var alltaf sér kapítuli í skýrslum Hagstofunnar.  Þetta eins og margt annað var eyðilagt með gengissveiflum o.fl., sem  of langt mál yrði að telja hér. En almennt er nú talið að þær þjóðir sem eru bara í því að  skaffa öðrum hráefni  verði aldrei ríkar af slíkri  starfsemi.

Þórir Kjartansson, 27.2.2008 kl. 23:27

3 Smámynd: Ívar Pálsson

Jóhannes, eðlilega finnst mér sjávarútvegurinn skipta máli, enda hef ég lifað á þeim útflutningi í 24 ár, í rækjunni. Þar er innflutt hráefni nú um 75-80% afurðaverðsins, enda sáralítil rækjuveiði hér vegna lága verðsins og háa olíukostnaðarins. Ég vona sannarlega að fiskurinn haldi sem mest áfram, en því miður er hlutur hans dalandi. Olíuhreinsunarstöð kemur alveg til greina, fyrst visthræddir Þjóðverjar geta haft slíkt hjá sér án teljandi mengunar. Olíuflutningarnir eru hér framjá hvort eð er.

Þórir, áliðnaðurinn okkar er hratt að breytast í fullvinnslu. Ég held að um 90% af framleiðslu Fjarðaáls sé tilbúinn álvír til rafmagnsflutninga. Hráefnisútflutningur teldist vera frá þeim löndum sem senda okkur frumunna álið til frekari vinnslu, enda er virðisaukinn hvað mestur þar sem orkunotkunin er í umbreytingu málmanna. Það hentar ekki að forma bílbretti eða flugvélavængi hér, því að flutningurinn myndi éta það upp.

Ívar Pálsson, 27.2.2008 kl. 23:58

4 Smámynd: Bobotov

Veit einhver hver nettó innspýting af erlendum gjaldeyri í íslenskt hagkerfi er vegna áls þegar búið er að taka tillit til innflutnings a hráefni, greiðslu af lánum, hagnaðar sem fer til  móðurfyrirtækjanna osfrv?

Stendur eitthvað eftir annað en útgjöld álfyrirtækjanna á Íslandi, s.s. laun orka og opinber gjöld? 

Bobotov , 28.2.2008 kl. 09:21

5 Smámynd: Ívar Pálsson

Ef reikna á nettó innspýtingu af erlendum gjaldeyri í íslenskt hagkerfi vegna áls, þá væri nú rétt að íhuga líka margföldunaráhrif peninganna. Það er amk. ljóst að heilmikil starfsemi sem virðist ótengd, væri ekki fyrir hendi ef álsins nyti ekki við. Það sama á við um aðrar greinar.

Ívar Pálsson, 28.2.2008 kl. 11:16

6 Smámynd: Bobotov

Væri þá ekki rétt að telja einnig til erlendar skuldbindingar vegna afleiddra fjárfestinga, svo sem innflutnings vegna jaðaráhrifa (hér bíta margföldunaráhrifin í skottið á sér), línumannvirkja til álversins og Kárahnjúkavirkjunar sjálfrar? Talsverðan gjaldeyri hefur þurft til þessa, svo og til að standa skil á afborgunum komandi ára.

Tek það fram ad ég er ekki viðskiptamenntaður, en mér finnst að það hljóti að skipta höfuðmáli hvað mikið sitji eftir af erlendum gjaldeyri í buddunni þegar upp er staðið, frekar en veltan sem slík. 

Er ekki leikurinn annars til þess gerður að afla gjaldeyris? 

Bobotov , 28.2.2008 kl. 12:08

7 Smámynd: Jóhannes Snævar Haraldsson

Auðvitað er mikið til í þessu öllu. Verðum að passa að fara ekki út í að stilla atvinnugreinum upp hverri gegn annarri.

Flotinn þarf innflutt eldsneyti og tæknibúnað, áliðnaðurinn þarf súrál og annan innfluttan búnað. En að lokum snýst þetta allt um að nýta auðlindirnar okkar.

Ég er sammála Þóri að við erum allt of mikil hráefnisþjóð. Þurfum að vera duglegri við að vinna verðmætari vörur. Betra ef bankagúrúarnir hefðu beitt kröftum sýnum inn á þá braut, frekar en að telja þjóðinni trú um að framvegis lifðum við á bankastarfsemi. Það var það sem ég átti við með að eftir allt þá væri lífið bara saltfiskur. Bankabólan sprungin.

Varðandi fleiri álver eða olíuhreinsistöð, þá eru mann bara hræsnarar að vera á móti byggingu slíkra iðjuvera hér á landi, nema þeir gefi það jafnframt út samtímis að þeir séu hættir að nota olíu eða álafurðir.

Ef ekki, þá eru þeir að segja að þessi útspúandi mengunarvaldar eigi bara að vera hjá öðrum, ekki hjá mér.

Öll sveitarfélög á Vesturlandi vildu vera með í sorpsamlagi, á sínum tíma, en rifust svo í rúmt ár um hvar ætti að urða draslið. Það átti að urðast annarstaðar, ekki í minni (fallegu) sveit.

Jóhannes Snævar Haraldsson, 28.2.2008 kl. 14:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband