Dýr er hver Bitru- túristinn

Verðleggjum nú væntanlega túrista næstu 20 ára á Bitru- svæðið, þar sem jarðhitavirkjun átti að rísa. Þeir eru víst aðalástæðan fyrir þeirri arfavitlausu ákvörðun að hætta við virkjunina. Hver ferðamaður sem dáist að ósnortinni náttúrunni þarna í nálægð jarðhitamannnvirkjanna kostar okkur og niðja okkar hundruð þúsunda, auk fjölda tækifæra til athafna og vaxtar sem fara forgörðum vegna nokkurra þúfnaaðdáenda. RÚV lýsir tjóninu vel á síðu sinni RUV.is, birt hér að neðan því að tengilinn virkar illa.

OR mynd jardhitiNú missum við dampinn í frumkvöðulsstarfsemi jarðhitans, en allt í einu er Bitra orðin það langflottasta síðan niðurskorið brauð var fundið upp. Við erum sammála um Hveradal í Kerlingarfjöllum og aðra slíka staði, en Bitra hafði ekki annað með sér en öfgafulla náttúruverndarsinna sem langaði til þess að sýna vald sitt og tókst það. Þau sem þjást eru þegnar þessa lands, sem geta yljað sér við þá tilhugsun í kulda og athafnaleysi komandi vetra að nokkur hundruð græningjar hafi heillast af ákvörðuninni að hafa „bjargað“ svæðinu frá vondu körlunum með borina, sem allir dásömuðu fyrir stuttu.

Við skulum vona að sá stjórnmálamaður finnist, sem þori að taka beina afstöðu með Bitruvirkjun og að hún komi sem fyrst til framkvæmda.

Af RUV.is :

 

Bitruvirkjun: Mörg verkefni tapast

Ekkert verður af verkefnum fyrir tugi milljarða króna sem annars hefðu verið unnin við byggingu Bitruvirkjunar. Þeir sem missa af verkefnunum eru m.a. verkfræðistofur, vélsmiðjur, flutningafyrirtæki, ferðaþjónusta, auk iðnaðar- og verkamanna. Fulltrúar þeirra undrast fögnuð borgarfulltrúa vegna þessa.

Orkuveitan hefur ákveðið að ekkert verði af Bitruvirkjun eftir að álit Skipulagsstofnunar reyndist vera neikvætt í garð virkjunarinnar. Stjórnarformaður OR hefur m.a. sagt að fyrir liggi að ekkert verði af framkvæmdinni á þessu kjörtímabili.

Ljóst er því að hætt hefur verið við gerð virkjunarinnar þar til annað verður ákveðið og er ekki að sjá, miðað við yfirlýsingar stjórnenda OR og stjórnar fyrirtækisins, að slíkt sé í spilunum. Orkuveitan hefur þegar lagt um 1 milljarð króna í verkefnið.

Áætlað er að bygging virkjunarinnar kosti um 25 milljarða króna og taki um fimm ár að ljúka því. Samtals var gert ráð fyrir að við bygginguna mundu starfa þessi fimm ár um 500 manns frá ýmsum verktökum. Þeirra á meðal eru hönnuðir frá verkfræðistofum, eftirlitsverkfræðingar, jarðboranir, vélsmiðjur sem smíða rör og leiðslur, jarðvinnuverktakar, flutningafyrirtæki, fólksflutningar og veitingaþjónusta að ógleymdum iðnaðar- og verkamönnum.

Gert var ráð fyrir að orkan yrði seld til tveggja eða þriggja stórra fyrirtækja í Þorlákshöfn. Óvissa er nú um hvort sú starfsemi verður að veruleika. Kísilhreinsiverksmiðja, sem hefði orðið stærsti kaupandinn, kostar um 70 milljarða að byggja auk tækjakaupa frá útlöndum. Nokkur hundruð manns hefði þurft til að byggja hana og setja saman vélbúnaðinn, ófaglært fólk, faglært og háskólamenntað. Þá hefði þurft um 500 manns til langframa í verksmiðjuna, 300 í fyrra áfanga og 200 í þann seinni.

Ljóst er að allar líkur eru á að þarna hverfi störf fyrir nokkra tugi milljarða króna á byggingartímanum, auk hinna 500 framtíðarstarfa. Fulltrúar þessara atvinnugreina, sem rætt hefur verið við, undrast fljótaskriftina á ákvörðun OR að hætta við og lýsa jafnframt undrun á því að fulltrúar eigenda fyrirtækisins, borgarfulltrúar, skuli lýsa fögnuði yfir þessari niðurstöðu.

Fréttastofa Útvarps hefur heimildir fyrir því að menn líti nú í kring um sig eftir möguleikum á að af Bitruvirkjun geti orðið, með því að Orkuveitan selji verkefnið. Þannig nái hún inn kostnaðinum sem þegar er áfallinn upp á um milljarð. Þetta hefur verið óformlega rætt hjá öðrum orkufyrirtækjum, en ekki innan Orkuveitu Reykjavíkur. Ljóst þykir að sé gagnkvæmur vilji fyrir hendi hjá kaupanda, Orkuveitunni og sveitarfélaginu Ölfusi sé mögulegt að láta þessi verkefni verða að veruleika.

 


mbl.is Fögnuður stjórnarmanna á móti hagsmunum OR
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Tryggvi L. Skjaldarson

Arfavitlaus ákvörðun er ágæt lýsing og hógvær miðað við aðstæður.

Tryggvi L. Skjaldarson, 22.5.2008 kl. 17:38

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Verðleggjum líka hvern túristann sem kemur að sjá Gullfoss og Geysi og borgar ekki krónu fyrir það því að það er ókeypis að sjá þessi fyrirbæri.

Bitra er aðeins hornið á stóru svæði sem virkjanafíklarnir ætluðu að gleypa og það er verið að hengja bakara fyrir smið þegar niðurfelling virkjunar þar er sögð hafa eyðilagt fyrir kísilflöguverksmiðjunni í Þorlákshöfn.

Það er álverið í Helguvík sem gerir það með mesta hugsanlega orkubruðli sem til er ásamt mengun og miklu færri störfum á orkueiningu en kísilflöguverksmiðjan.

Ómar Ragnarsson, 22.5.2008 kl. 19:47

3 Smámynd: Jón Sigurgeirsson

Þó ekki væri nema milljarðurinn sem tapast í rannsóknakostnað tekur allverulegan tíma að greiða hann upp

Virkjanafíkla kallar ómar þá sem vilja atvinnu og velmegun í þessu landi.

Þegar allar framfarir eru stöðvaðar og við tökum lán til daglegrar neyslu safnast skuldir saman og það endar með því að við verðum teknir upp í skuld. Þá þýðir ekkert fyrir Ómar að segja nokkuð. Vistvæn orka verður ekki látin óbeisluð í framtíðinni.  

Jón Sigurgeirsson , 22.5.2008 kl. 21:03

4 Smámynd: Theódór Norðkvist

Ég hef margoft spurt og spyr enn: Ef orkan okkar er svona dýrmæt og erlend stórfyrirtæki bíða í röðum að fá að nýta hana af hverju er hún seld á 1-2 kr/kWh, meða heimilin og innlendu fyrirtækin þurfa að borga 8 kr/kWh?

Hefur RÚV, sem er að verða æ meiri strengjabrúða stjórnvalda, tekið eftirfarandi atriði með í reikninginn?

  • Aukna þenslu og óðaverðbólgu af völdum stóriðju, sem íslenskt atvinnulíf og heimili þurfa að bera í formi vaxtaokurs og dýrtíðar?
  • Vaxandi ólgu og uppgang öfgaafla vegna innflytjendavandamála, því uppgangurinn krefst innflutnings á erlendu vinnuafli þar sem verktakarnir tíma ekki að borga laun samkvæmt töxtum?
  • Hvað Okurveitu Reykjavíkur varðar og fjáraustur hennar í verkefnið er það náttúrverndarsinnum að kenna að þeir sói almannafé í vitleysu? Alltaf þægilegt að kenna öðrum um sitt eigið klúður.

Theódór Norðkvist, 22.5.2008 kl. 21:04

5 Smámynd: Alma Jenny Guðmundsdóttir

Er nokkud um misminni ad raeda hja mer,  ad verndun lifrikis er einnig i myndinni.

Og ad lokum skyldu Reykvikingar verda anaegdir ef Mosfellingar akveddu ad setja upp virkjun vid landamork sin.

Hvergerdingar attu ad fa ad una vid thad ad sveitarfelagid Olfus gaefi virkjanaleyfi a jardvarmavirkjun, med tilheyrandi brennisteinsmengun o.fl., i nokkurra km. fjarlaegd fra baenum. 

Alma Jenny Guðmundsdóttir, 22.5.2008 kl. 21:24

6 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Sæll Ívar.

Hversu margir ferðamenn ættu að leggja leið sína á Bitru slóðir til að þú verðir sannfærður um að þar ætti ekki að virkja? Eru tíu næginlegur fjöldi, eitt hundrað, eitt þúsund, tíu þúsund, tuttugu þúsund ...?

Þú ert nú sjálfur útivistarmaður og hefur víða farið, jafnvel um ótroðnar slóðir eða þangað sem fáir leggja leið sína. Það hef ég iðulega gert. Fáir leggja til dæmis leið sína í Hattver austan Landmannalauga. Er fámennið á þessum slóðum einhver rök fyrir því virkja þann gífurlega hita sem þar er í jörðu?

Fyrir nokkrum árum töldu ýmsir virkjunarsinnar að hægt væri að sökkva Eyjabökkum af því að þar væri svo allt svon blautt, landið erfitt yfirferðar og enginn nennti að fara þangað. Eru það einhver rök fyrir virkjun?

Auðvitað geta menn reiknað gat á alla vasa fyrir þá sök eina að hætt hefur við Birtuvirkjun. Eflaust sýnist sitt hverjum um landið á þessum slóðum en eitt er víst að gildi lands verður aldrei metið með Excel einu saman vegna þess að í því ágæta forriti eru ebgar formúlur sem taka tilliti til hugarástands, upplifunar og tilfinningar.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 22.5.2008 kl. 21:36

7 Smámynd: Ívar Pálsson

Gullfoss og Geysir fara í flokk með Kerlingarfjöllum, Ómar. En það er rétt að Bitra er einmitt hluti af stóru virkjanasvæði og er það vel.

Fyrst Bitra er svona merkileg, hvaða vistvæna háhitaorkusvæði vill Ómar þá að verði nýtt? Er það þá ekki nýtt svæði með nýjum línum osfrv.? Er það betra? Best hefur þótt að takmarka rask við þau svæði sem þegar hefur verið raskað.

Orkubruðl Ómars er sú nýting endurnýjunlegrar orku til álframleiðslu, sem minnkar brennslu jarðefnaeldsneytis, hvort sem er í léttari farartækjum eða í álframleiðslunni sjálfri.

Theódór, orkan yrði sannarlega ekki seld á gömlum verðum í dag. Samningar hvers tíma bera með sér verðlag og væntingar þeirrar stundar. Hagvöxtur er við núllið núna og þörf er á vexti. Allt annað eru gamlar tölur. Hávaxtastefnan orsakar mest af yfirspennunni.

Vinnuaflið er mjög fljótandi: um leið og þörf er á þv, þá flæðir það inn. Nú eru t.d. rækjuverksmiðjurnar að reyna að halda í Pólverjana sem forða sér úr vesenlandinu hér.

Orkuveitan gat ekki annað en farið eftir þeim væntingum sem flestir gáfu í skyn að myndu skila árangri, en ekki neitun. Það er verulega kostnaðarsamt að rannsaka ný svæði. Annars er líka búið að klúðra OR inn í kolruglaða borgarpólítíkina, þannig að enn erfiðara er að taka ákvarðanir á þeim bænum. Flestir kætast ef ekkert er gert!

Alma Jenny, háhitasvæði er helsta svæðið fyrir jarðaflsvirkjun. Hveragerði er og hefur verið baðað í gufunum og er nálægt Bitru, ekki á henni. Komið er að grundvallarspurningunni um vernd: á að vernda öll svæði? Virkjanastopp? Þú vilt það eflaust, en meirihluti kjósenda ekki.

Ívar Pálsson, 22.5.2008 kl. 22:08

8 Smámynd: Ívar Pálsson

Sæll félagi Sigurður. Já, ég ann náttúru landsins eflaust meira en meðalmanneskjan, enda ferðast í margan afkimann, þó ekki nálægt því eins og þið Ómar. Oft verður manni hugsað til þess, að hitt og þetta svæðið þurfi að vera ósnortið áfram. Það er einmitt málið: ákveðin svæði fá að vera í friði, en þau svæði sem þegar eru undirlögð eru langt frá því ósnortin og þar á vöxturinn að eiga sér stað. T.d. ef rafmagnslínur eru yfir einhverja heiðina, þá ætti frekar að tvöfalda þær þar heldur en að leggja ný virki á næstu heiði. Helst náttúrulega að grafa þetta í jörðu, en tæknin og verðið leyfa það ekki nógu vel enn.

Eyjabakkar fengu að vera í friði, líklega mest vegna kvikmyndarinnar og ljósmyndanna af gæsahópnum góða. Það getur vel hafa verið rétt ákvörðun að friða þá. Mér fannst það amk. bara gott mál.

Vitræn umræða um væntanlega virkjunarstaði næstu áratuga fer ekki fram ef fólk gefur sér að um virkjanastopp verði að ræða.

Ívar Pálsson, 22.5.2008 kl. 22:25

9 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Ívar, raforkuverðið til Alcoa var mjög vel varðveitt ríkisleyndarmál sem alls ekki þoldi dagsins ljós og þurfti á endanum leka frá Alcoa til að upplýsa að fyrirtækið borgaði hér helming þess sem rafmagnið kostaði það í Brasilíu. Möo rafmagnið var selt á útsöluverði í bullandi seljendamarkaði á orku. Það er eitthvað mjög óhreint við það. Þannig að ef slík leyndarvinnubrögð í sambandi við eignir og fjármálahagsmuni skattgreiðenda eiga að viðgangast áfram er betra að bíða með virkjanir þangað til eitthvað skárra höndlar með þau mál.

Baldur Fjölnisson, 22.5.2008 kl. 22:56

10 Smámynd: Theódór Norðkvist

Rétt hjá Baldri. Ef menn kvarta undan doða og drunga í atvinnulífinu er ágætis byrjun að lækka orkuverð til grænmetisbænda. Þar er möguleg stóriðja sem er vistvæn, en gerir ekki landið að drulludýi eins og búfjárrækt og mengar ekki loftið eins og stóriðjan.

Theódór Norðkvist, 22.5.2008 kl. 23:25

11 Smámynd: Finnur Hrafn Jónsson

Menn eru að kvarta yfir ytri aðstæðum sem valdi efnahagsvanda á Íslandi. Íslenskir umhverfisverndarsinnar með hjálp huglausra pólitíkusa eru á góðri leið með að verða stærsta efnahagsvandamál landsins.

Andstæðingar framfara hafa barist af hörku gegn öllum stærri framkvæmdum hérlendis síðan sunnlenskir bændur riðu hundruðum saman til Reykjavíkur til að mótmæla sæsímanum árið 1905.

Það sem er að gerast núna er að skynsemin er að lúta í lægra haldi fyrir öfgakenndri náttúrudýrkun. Sífellt stærri hluti fólks virðist vera hættur að átta sig á því að aukin verðmætasköpun er nauðsynleg forsenda fyrir efnahagsframförum í landinu.

Finnur Hrafn Jónsson, 23.5.2008 kl. 01:17

12 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Gott blogg. Atvinna og lífsafkoma er ekki mikilsvirði hjá náttúrufegurð!

Heimir Lárusson Fjeldsted, 23.5.2008 kl. 13:08

13 Smámynd: Theódór Norðkvist

SPAMsi hefur ekki lesið athugasemd mína. Ég sagði að það væri ágætis byrjun að lækka orkuverð til grænmetisbænda.

Hverju hefur stóriðjan skilað okkur, öðru en deilum, náttúruröskun, verðbólgu, okurvöxtum, offjárfestingu sem óvíst er að skili sér nokkurn tímann og rándýrum störfum sem hafa fallið nánast öll í hendur erlendra verkamanna og verktaka?

Eða líta sumir hér þannig á að það sé hlutverk Íslendinga að skapa störf fyrir alla aðra en Íslendinga og verkefni fyrir Impregilo?

Theódór Norðkvist, 23.5.2008 kl. 14:52

14 Smámynd: Ívar Pálsson

Jóhann Örn, fyrst þarf að kanna hvort einhver virkjun sé möguleg. leyfi til virkjunar yrði varla gefið út, byggt á grófri hugmynd um virkjun. Þetta ferli er vísvitandi vítahringur. Svo myndi umhverfisráðherran stoppa allt ef hún gæti.

Vonlaust er að hugsa hundruð ára fram í tímann með háhitavirkjun. Allt er breytingum undirorpið, svæði hitna og kólna með jarðhræringum eins og sást með holurnar við Kröflu. Eins er með bráðnun jökla og vatnsvirkjanir, þetta getur allt klárast á 50-100 árum. Stór eldgos á 50-100 ára fresti setja allt á kaf í ösku (það er komið að Kötlu). Takmörkun flugsamgangna og stríð úti í heimi geta gerbreytt ferðabransanum. Það er sem er, en sumir elja að ekkert sé góður valkostur. Ég tek eitthvað fram yfir það.

Ég þakka hvetjandi orðin. Einn atvinnuvegur útilokar ekki annan. Það þarf ekkert í stað stóriðju, hún er einungis með öllum hinum ævintýrunum, sem skila mismiklu.

Theódór, síðasta athugasemd þín minnir mig á andspyrnufundinn í kvikmynd Monty Pythons, „Life of Brian“, þar sem þau spurðu: „Hvað hafa Rómverjar svo sem gert fyrir okkur?“ Jú, heilbrigðiskerfi, vatnslagnir, vegalagnir osfrv. osfrv. Álframleiðslan er núna sterkasti grundvöllur íslensks útflutnings og gerir ríkinu því mögulegt að starfa, gefa út gjalmiðil ofl. ofl. Í orkukreppu heimsins getur enginn hagfræðingur tekið undir þetta með þér, að um offjárfestingu hafi verið að ræða. Starfsemin hefur líka skapað fjölda starfa. Ekki er það atvinnuleysið sem hefur hrjáð Íslendinga. Getur það verið að það sé m.a. vegna þess að gætt hefur verið að grundvallarstarfsemi þjóðarinnar? Það tel ég.

Ívar Pálsson, 23.5.2008 kl. 16:14

15 Smámynd: Einar Karl

Hellisheiðarvirkjun rétt svo komin í gagnið og þá verður að halda áfram og byggja eina virkjun í viðbót, svo aðra, svo enn eina og eina eftir það ... og svo framvegis.  Þeir sem segja " - eigum við aðeins að bíða..." eru strax stimplaðir öfgafullir náttúruverndarsinnar.

Með leyfi, hverjir eru hófsamir náttúruverndarsinnar, bara þeir sem eru sammála þér, Ívar? Ég sjálfur er t.d. hófsamur náttúruverndarsinni en samt á móti Bitruvirkjun! Og andstæðingar hennar eru fleiri en fáein hundruð, voru ekki yfir þúsund athugasemdir sem bárust Skipulagsstofnun? Og ekki skilaði ég athugasemd svo andstæðingar eru þá í það minnsta þúsund og einn! (Og hvers slags eiginlega aumingja telurðu sérfræðinga Skipulagsstofnunar vera? Bara viljalaus verkfæri í höndum þessara fáeinu freku umhverfis-öfgamanna??)

Hvernig væri t.d. að hinkra aðeins eftir fyrstu niðurstöðum úr rannsóknum á því hvernig megi koma í veg fyrir útblástur nokkurra tonna af brennisteinsvetni á hverjum einasta sólarhring úr hverri jarðvarmavirkjun?

Hvernig væri að hinkra eftir ítarlegri upplýsingum um það hvort líftími háhitavirkjana á Hellisheiði sé hugsanlega bara 30 ár miðað við það orkumagn sem á að framleiða, sökum þess að meira er dælt upp heldur en nær að renna í ofurheit varnslögin sem dælt er úr?

Hvernig væri að dusta rykið af Framtíðarlandi Andra Snæs til að rifja upp að það stoppar ekki allt þó svo við byrjum ekki strax á nýrri virkjun um leið eða áður en þeirri seinustu er lokið? 

Einar Karl, 23.5.2008 kl. 20:31

16 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Erum við hrædd þjóð, eða e.t.v. löt. Bitruvirkjun hafði sannarlega mikla annmarka, eins og e.t.v. flestar virkjanir. Það er full ástæða til þess að skoða vel hvað skal virkja og hvað skal ekki. Orkuverð mun hækka og þá er spurningin hvað borgar sig að gera e.t.v. nú. Ég var stuðningsmaður Kárahnjúkavirkjunar og fagnaði henni. Þegar hins vegar líða fór á dæmið fór ég að fá fleiri efasemdir. Af hverju þurftu aðilar að fara með rangt mál, ef málefnið var gott. Þegar ég fór yfir útreikninga, varð ég enn meiri efasemdarmaður. Við eigum að nýta okkur orkuna, og þá þekkingu sem er til hjá okkur hvað það varðar, en við skulum setja meiri fagmennsku í málið. Þeir aðilar sem eru með virkjunum, eða á móti þeim af trúarástæðum gera málstað sínum illt.

Sigurður Þorsteinsson, 24.5.2008 kl. 07:59

17 Smámynd: Ívar Pálsson

Hófleg nýting orkunnar, þar sem hugað  er vel að náttúruvernd, er það sem flest okkar viljum fyrir Ísland. Þá kemur að magninu, hvað er hóflegt? Ferlið tekur langan tíma, umræður, rannsóknir, leyfi og hvaðeina og því er ekki verjandi að sitja aðgerðarlaus í 0% hagvexti og ætla sér að lifa einungis á eldri aðgerðum í árafjöld.

Milljarðurinn hjá OR vegna Bitruvirkjunar hlýtur að hafa farið mest í faglega vinnu (skulum við vona!). Flestir aðilar sem leggðu slíkar upphæðir fram vildu fá eitthvað fyrir snúð sinn, en OR- stjórnaraðilar kættist yfir neituninni! Hvernig er hægt að vinna svona dýr og flókin verk þegar helstu vandamálin eru pólítískar sveiflur í nefndum, þegar flestir þættir liggja fyrir og heilmikill kostnaður er undir? Það er ekki hægt og því fólk það sem einungis sumir vilja, virkjanastopp.

En vissulega á að selja orkuna dýrt og ekki til of langs tíma í senn. Það er hugsanlega það helsta sem hefur brugðist hingað til.

Ívar Pálsson, 24.5.2008 kl. 10:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband