Frægasti Íslendingurinn níðir Ísland

Hvað gengur Björku nú til? Að nýta frægðina, sem áður bar hróður Íslands Bjork Swanút um víðan völl, nú til þess að níða Ísland á alþjóðagrundvelli og gera lítið úr óumdeildri forystu Íslendinga í nýtingu endurnýjanlegrar orku, heiminum öllum til hagsbóta? Frægðin hefur augsýnilega ruglað hana vel í ríminu.

Ímynd Íslands er góð, en Björk vill breyta því

Björku er tíðrætt um ímynd Íslands, að við hin séum að eyðileggja ímyndina með stöðugri fjölgun álvera hér á landi. Hvað ætlar hún þá að gera til þess að bæta þessa  skertu ímynd?  Hún vill „kynna þetta svolítið erlendis“, að við Íslendingar „megum ekki vera 30 árum á eftir“. Á meðan ímyndar- kynnendurnir Al Gore og Forseti Íslands segja Íslendinga standa fremst í heimi í nýtingu endurnýjanlegrar orku, þá mun Björk kynna þá verptu skoðun sína erlendis að Íslendingar séu að eyðileggja Ísland, sem hún hefur margtuggið í erlent fréttafólk, þyrst í að heyra hvað kemur næst úr viskubrunni söngkonunnar.

Bjork nattura Lewis orgFyrstu kynni af Íslandi eru batnandi, en Björk vill breyta því

Alla Bjarkar hunds- og kattartíð hafði ameríska herstöðin í allri sinni grábrúnu gaddavírs- braggafegurð verið fyrstu kynni útlendinga af Íslandi við komu ferðamannanna til landsins. Nýlega breyttist það og NATO, háskólasamfélag og fjölbreytt byggð og athafnalíf tók við. Þá telur Björk að álver í Helguvík (sem yrði ekki nálægt þjóðveginum) yrði slæm fyrstu kynni af landinu. Þar við bætist Straumsvík. „Það er bara verið að skjóta sig í fótinn og þetta er rosalega mótsagnakennt“. Ef einhverjar mótsagnir er að finna, þá er það í málflutningi Bjarkar. Vonandi ber rógsherferð hennar um heiminn engan árangur. Man hún ekkert hvað það er að vera Íslendingur, sem þarf að koma sér áfram í lífinu og borga skatta á Íslandi? Veit hún ekki af því að ál er aðal- útflutningsvara Íslands?

Þegar Björk þýtur landa á milli í álþotum og eyðir orku á við heilt þorp í Afríku á hverjum hljómleikum sínum, sem knúnir eru áfram af olíu og kolum, þá ætti henni að vera hugsað til gamla landsins, þar sem fólk háir enn lífsbaráttu sína og vill nýta orku sína og landsins til skapandi athafna eins og hún gerði forðum, ekki til niðurrifsstarfsemi á þjóðinni.

 


mbl.is Björk og Sigur Rós með útitónleika í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Örvar Þór Kristjánsson

Heyr,heyr.

Frábærlega skrifuð og vel rökstudd grein hjá þér.  Björk er náttúrulega vel spes en þetta rugl hjá henni er gjörsamlega út úr kú.  Það sem skiptir máli er að fólk hafi vinnu og geti lifað sómasamlega.

Örvar Þór Kristjánsson, 31.5.2008 kl. 16:01

2 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Sæll. Þetta er fín grein hjá þér og gaman að lesa en í sjálfu sér er ekki ástæða til að halda nafni Bjarkar á lofti í sambandi við þessi mál. Hún er bara með þetta týpíska óraunsæja listamannaviðhorf og er ekkert að horfa í eigin barm eins og þú bendir á. Hún vakti heimsathygli þegar hún mætti í þessum grímubúningi (svaninum) en hvort einhver tekur mark á pólitískum yfirlýsingum hennar er annað mál. Ég held að það sé svo með fleiri en mig að ég gleðst yfir velgengni hennar en hlusta aldrei á lögin hennar og á enga plötu með henni.

Kolbrún Stefánsdóttir, 31.5.2008 kl. 16:01

3 identicon

Magnað hvað íslenska þjóðarsálin er viðkvæm alltaf og þolir sjaldnast að fólk hafi sjálfstæðar skoðanir sem stangast á við meginstrauminn... burtséð frá því hvort að ég fíla list eða skoðanir Bjarkar þá sé ég enga ástæða til að fara að væla yfir hennar skoðunum eða bölsóttast út í hana persónulega.

...désú (IP-tala skráð) 31.5.2008 kl. 17:23

4 Smámynd: Ívar Pálsson

Takk, Örvar Þór og Kolbrún. Björk er sú sem leitað er til ef Ísland ber á góma og þessi talsmaður okkar er á því að við séum aftur í öldum í umhverfismálum.

„...désú“: Skoðanir Bjarkar stangast ekkert endilega á við meginstrauminn, allt eins þær sem hér er lýst. Björk tekur undir það að jákvæð ímynd Íslands skipti verulegu máli. Það er sjálfsagt mál að ég birti mína sjálfstæðu skoðun á þessari orðræðu Bjarkar, sem er á forsíðum blaðanna og verður hamrað á með tónleikum. Ég sé ekki nokkra viðkvæmni í því.

Björk er hin mætasta persóna og það er ekki til umræðu, en þær skoðanir sem hún kýs að birta um land og þjóð eru sannarlega gagnrýnisverðar.

Jóhamar, skoðun þín er full sterk fyrir minn smekk, en andstæðingar álvera eru varla eins slæmir og þú lýsir. 

Ívar Pálsson, 31.5.2008 kl. 19:16

5 Smámynd: Andrea

Hvaða rugl er þetta eiginlega?
Björk er ekkert ein um þessa skoðun en er í betri aðstöðu til að láta í sér heyra en hinir

Og hvað ertu annars að segja? Á hún að sitja á skoðunum sínum af því að þær eru ekki þér þóknanlegar?

Andrea, 31.5.2008 kl. 20:28

6 Smámynd: Ívar Pálsson

Ekkert rugl er í gangi. Skoðun sú sem Björk lýsir í blöðunum er og varðar ímynd Íslands er ekki jákvæð. Henni er auðvitað frjálst að hafa þá skoðun. Hún fullyrðir að Ísland sé 30 árum á eftir öðrum í umhverfismálum og að Íslendingar séu á góðri leið með að eyðileggja Ísland. Hvorttveggja er út hött og það er illt að sá aðili sem er í hvað bestri aðstöðu til þess að tala máli landans skuli nýta sér það á gagnstæðan hátt.

Ívar Pálsson, 31.5.2008 kl. 21:16

7 Smámynd: Andrea

Hefur það farið framhjá þér að það er andstaða við álverssæðið í landinu?

Andrea, 31.5.2008 kl. 21:45

8 Smámynd: Ívar Pálsson

Það er rétt Andrea, enn eru þó nokkrir andstæðingar íslenskra álvera til. En flest þeirra gera sér þó grein fyrir nauðsyn framleiðslu þeirra, eins og öðrum minni útflutningi, þ.e. fiskveiða/vinnslu, ferðamannaiðnaðar og útflutnings hugbúnaðar. Einnig því að raforkan til álveranna kemur 99% frá endurnýjanlegum orkugjöfum og þau menga lítið hér, sbr. skýslan um Straumsvík.

En staðreyndir fyrir einn aðal- talsmann Íslendinga, Björku, eru gjarnan mílu vegar frá málflutningnum, þegar henni segist vera annt um ímynd Íslands.

Ívar Pálsson, 31.5.2008 kl. 22:02

9 Smámynd: Andrea

Ó ég skil! Þeir sem eru á móti því að planta álverum um allar jarðir eru bara ekki nógu vel gefnir til að átta sig á nauðsyn þeirra!

Ég hef sjaldan verið ánægðari með Björk

Andrea, 31.5.2008 kl. 22:20

10 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég er sammála Johnny Rebel að Björk er stórlega ofmetin, og þá á ég bara við tónlistarlega.

Sigurður Þór Guðjónsson, 1.6.2008 kl. 00:04

11 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ég stend með Björk. 

Jenný Anna Baldursdóttir, 1.6.2008 kl. 00:43

12 Smámynd: Ingólfur

Aðalmarkmiðið með þessum tónleikum skilst mér að sé að verkja athygli Íslendinga á umhverfismálum, og miðað við suma hérna að þá er ekki vanþörf á því.

Íslendingar eru langt á eftir mörgum þjóðum þegar kemur að endurvinnslu og orkusparnaði. En vegna þeirra náttúrulegu aðstæðum sem hér eru að þá er landið okkar þrátt fyrir það tiltölulega hreint.

Reyndar grunar mig að það sé einmitt vegna náttúrunnar, hreina vatnsins og ódýru orkunnar sem að við göngum svona óhóflega á náttúruna.

Við höfum aldrei þurft að spara vatnið eða hitann og margir virðast haldnir þeirri blekkingu að við séum með óendanleg raforku.

Þess vegna fagna ég þessu framtaki Bjarkar og strákanna í Sigur rós.

Ingólfur, 1.6.2008 kl. 02:41

13 Smámynd: Ellý

Við erum framarlega í umhverfismálum vegna þess hve land okkar er magnað, ekki vegna þess hversu frábær þjóð við erum. Það er alveg satt að við erum á góðri leið með að eyðileggja fyrir okkur og komandi kynslóðum.

Þegar sagt er að við séum 30 árum eftirá er það því miður ekki lygi. Þrátt fyrir hræðilega reynslu útum allan heim af vissum erlendum fyrirtækjum taka Íslendingar upp samstarf við þau.

Og hvað er þetta með olíuhreinsistöð á Vestfirði og álver út um allt? Björk hefur mikið til máls síns!

Ellý, 1.6.2008 kl. 03:46

14 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Góð umfjöllun hjá þér Ívar, um einn mesta bull-mengara landsins. Það að auki er tónlist hennar á meðal þess mengaðasta sem finnst.

Björk hefur ekki ennþá séð samhengi mannfjölgunar og mannvirkjagerðar í landinu ? Þegar hún hefur vaknað til vitundar um það samhengi, mun fyrst færast fjör í leikinn. Þá mun hún ekki bara krefjast þess að virkjanir, brýr og verksmiðjur verði brotnar niður, heldur mun hún einnig krefjast brottflutnings fólks af landinu. Ekkert má standa í vegi fyrir frama hennar á erlendri grundu.

Eru ummæli hennar ekki fáránlega heimskuleg, eða ættum við að segja geðveikisleg:

Þetta er meira að segja slæmt fyrir okkur listamennina sem erum að ná árangri erlendis, það gengur mikið út á að við séum hrein, tengd náttúrunni og fleira í þeim dúr.

Hvað er "hrein náttúra" ? Hlýtur það ekki að vera eitthvað dauðhreinsað ? Sú náttúra sem ég þekki er ekki bara óhrein, heldur er hún óhreinindi. Hvað hrærist í huga svona dekurbarns eins og Bjarkar sem aldreigi hefur óhreinkað hendur sínar ? Væri ekki ráð að láta hana moka út úr eins og einu fjárhúsi ? Það myndi koma henni í tengsl við náttúruna.

Loftur Altice Þorsteinsson, 1.6.2008 kl. 11:59

15 Smámynd: Georg P Sveinbjörnsson

Er afar ánægður með það að Björk og Sigur Rósar strákarnir skuli vera óhrædd og ófeimin við að segja sínar skoðanir tæpitungulaust...og bíð eftir byltingu!

Georg P Sveinbjörnsson, 1.6.2008 kl. 14:11

16 Smámynd: Ingólfur

Loftur, mold og drulla er ekki óhreinindi þegar maður talar um hvort landið sé hreint. Það sem gerir land "óhreint" er mengun og t.d. mundi ég ekki segja að Peking væri hrein borg þó maður sjái ekki endilega neitt drasl á götunum.

Að þú skulir kalla ummælin sem þú vitnar í "fáránlega heimskuleg" ber þess first og fremst merki að þú berð ekkert skynbragð á það hve ímyndin um "hreint Ísland" er verðmæt þeim sem selja íslenska afurð erlendis, hvort sem það er fiskur, skyr eða tónlist.

Ingólfur, 1.6.2008 kl. 15:24

17 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Það sem þú Ingólfur nefnir "ímyndin um hreint Ísland" er líklega það fáránlegasta sem fundið hefur verið upp á þessu landi. Ef við snúum þessu upp á einhvert annað land, hvar er þá að finna dæmi um land/vöru sem við "verslum við" eða "verslum ekki við" vegna þess að landið er hreint eða óhreint ? Þetta viðmið "hreint/óhreint land" er einfaldlega ekki til nema í hugum örfárra ofstækisfullra flóna.

Ég fekkst árum saman við sölu á erlendum mörkuðum og varð hvergi var við að hreint/óhreint Ísland hefði minnstu áhrif á möguleika okkar á erlendum mörkuðum. Hægt er að fullyrða, að ótal atriði hafa meiri áhrif. Fólk erlendis er einfaldlega ekkert öðruvísi en hérlendis. Þegar kemur að vörukaupum, eru það fyrst og fremst verð og gæði sem skipta fólk máli.

Það þarf mikla sérvitringa til, að gera mun strangari kröfur til annara þjóða en sinnar eigin. Almennt gera útlendingar ekki slíkar kröfur ti okkar. Vegir, brýr, orkuver og verksmiðjur eru nauðsynlegar í öllum samfélögum, nema auðvitað í þeim samfélögum sem við nefnum frumstæð. Krafa um að við sleppum samfélagslegri uppbyggingu sem erlendar þjóðir hafa notið í 100 ár, er einfaldlega krafa um að hér verði aftur horfið til þess frumstæða samfélags sem íslendingar bjuggu við í aldir.

Loftur Altice Þorsteinsson, 2.6.2008 kl. 16:35

18 Smámynd: Vesturfari

Í rauninni skiptir litlu máli hvaða skoðanir útlendingar hafa á Íslandi.  Óupplýstir mynda sér órökstuddar skoðanir.   Það sem skiptir máli er hvað Íslendingar GERA, frekar en það sem þeir SEGJA.  Læra má af því sem búið er að framkvæma.  Nú ber að líta fram á við. Áður en samningar eru gerðir um fleiri álver, ber að grandskoða reikningsskil.  Vega þarf hagnað (tekjur ríkissjóðs og einstaklinga) gegn kostnaði (fé, skuldum og umhverfi) og gera það fram í tímann.  Engin ástæða er fyrir Ísland að vera með olíuhreinsunarstöð.  Hvað sem sérfræðingar segja, hefur reynsla annarra þjóða, sem dæla og hreinsa olíu haft varanleg áhrif á umhverfið vegna mengunar.  Í Ekvador voru afleiðingar olíudælingar óhugnanleg mengun regnskóga og alvarlegir sjúkdómar einstaklinga.  Ekvador varð skuldugra eftir því sem meiri olíu var dælt úr jörðu og flutt úr landi. Á Íslandi er áhættan meðal annars að olía leki í land og sjó.  Þar að auki eru olíubirgðir heimsins að minnka.  Hugsa þarf frekar um orkustefnu Íslands yfirleitt.  Í Bandaríkjunum hefur orkustefna þjóðarinnar verið undir verulegum áhrifum frá olíu- og bílaframleiðendum,  sem hvöttu til ótakmarkaðrar bensínneyslu.  Vegna  þessara ákvarðana er farið að þrengja að bandarísku þjóðinni.  Íslendingar ættu því að vera á varðbergi gegn áhrifum olíufyrirtækja og bílainnflytjenda á orkustefnu þjóðarinnar.  Til þess að gera landið „hreinna“, væri ekki æskilegast að taka þá stefnu að aðeins mætti flytja inn rafmagnsbíla, eyða álverspeningunum í að leggja lestir á fjölförnum brautum og styðja við gróðurhúsarækt.  Eftir tíu ár yrði því þjóðin óneitanlega til fyrirmyndar.

Vesturfari, 3.6.2008 kl. 19:13

19 Smámynd: Gunnar Þórðarson

Þetta er fínt hjá þér Ívar.  Það svellur oft í mér blóðið þegar íslendingar agnúast út í land sitt og þjóð með alls kyns vitleysugangi.

Snemma í vor sagði bílstjórinn minn í Colombo að hann hefði heyrt í hádegisfréttunum á Sri Lanka að Ísland væri besta land í heimi til að búa í.  Þetta var einhver alþjóðlega úttekt ef ég man rétt.  Ég var mjög ánægður að heyra þetta og var bara nokkuð sammála.  Það sést oft í skoðanaskiptum heima að Ísland sé bananalýðveldi þar sem mannréttindi séu fótum troðin og fátækt sé mikil.  Miðað við hvað?  Einhverja byggðir í fjarlægum sólkerfum?  Við tilheyrum minnihluta í samfélagi þjóðanna sem býr við einstaklega góðan kost.  Töluvert frelsi og lýðræði sem hvergi er betra. 

Ég veit ekki hvort áhrif Bjarkar á ímynd þjóðarinnar eru mikil.  En hún breytir því ekki að Íslendingar þurfa ekki að bera kinnroða gagnvart öðrum þjóðum.

Gunnar Þórðarson, 5.6.2008 kl. 14:13

20 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Mælt þú manna heilastur Gunnar Þórðarson. Flott komment hjá þér og ég hjartanlega sammála. Óþolandi stundum að hlusta á fólk væla og væla jafnvel þá sem hafa það mjög gott í sjálfu sér. Hitt er annað að auðvitað viljum við fara vel með landið og gera það sjálfbært það er vel. Við eigum ekki að vara kærulaus með okkar mál af því við höfum það gott. Reyndar held ég að við höfum það gott af því við  höfum haldið nokkuð vel á spöðunum í okkar málum, svona í það heila tekið. Við höfum verið í neikvæðri  umræðu undanfarið þ,e, dýfan í peningamálunum, jarðskjálfti, hvalaveiðar og ísbjarnadráp en ég held að það sé tímabundið og komi ekki að sök til lengri tíma litið allavega meðan við förum ekki að gefa okkar sjálfstæði upp á bátinn. kveðjur Kolbrún.

Kolbrún Stefánsdóttir, 6.6.2008 kl. 21:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband