Fallin spýtan

Fall krónunnar og bankanna mun eflaust koma út á mismunandi hátt í sögubókunum. Umræður í SilfriSvifid um (IP Ulfarsfelli) Egils í dag ollu því að ég tók saman þessa útgáfu af sannleikanum, eins og hann birtist mér í fyrra og í ár:

Viðskiptahalli Bandaríkjanna skóp umframfjármagn sem var gírað upp í ótrúlegar stærðir, m.a. með skuldabréfavafningum. Japanir og aðrar lágvaxtaþjóðir lánuðu svimandi fjárhæðir til vaxtamunarviðskipta. Fjármagnið leitaði hæstu ávöxtunar með mesta öryggi og það fannst m.a. á Íslandi, sem var með nálægt hæstu stýrivöxtum  á vestrænum markaði og með AAA einkunn eins og US Federal Reserve og Exxon Mobil. Því hentaði öryggi Íslands inn í blandaða skuldabréfavafninga.  Mikið umframfjármagn varð til hjá flestum bönkum og var það lánað út ótæpilega.

Hærri vextir, meiri vinsældir krónunnar

Þegar að kreppti þá hækkaði samt Seðlabankinn vexti þannig að skuldum yrði velt áfram en kæmu ekki á gjalddaga, sem yrði of erfitt fyrir krónuna. Erlendir lánveitendur gáfu því meiri slaka á hengingarólina, þar sem ólíklegt var að stýrivextir yrðu lækkaðir hér í bráð. Stóri áhrifavaldurinn var og er stýrivaxtaákvörðun Seðlabankans, sem ákveður vinsældir krónunnar. Hækkun stýrivaxta eykur skammtímavinsældir krónunnar og styrkir hana, en lækkun skapar flótta frá krónunni og gengislækkun. Uppsafnaður vandi marghækkaðra stýrivaxta veldur heiftarlegu ójafnvægi og skuldasöfnun með afleiðingum sem eru rétt byrjaðar að birtast.  

Alþjóðlegt fjármagnsflæði með uppgíruðu bankafólki ræður semsagt ferðinni í efnahagsmálunum, en staðbundnir stjórnmálamenn á t.d. Íslandi, Spáni eða á Nýja- Sjálandi halda því enn fram að grunnþættir efnahagslífsins eins og einkaneysla ráði mestu um hag þjóðarskútunnar.

Í átt til leiðréttingar

Lækningin hefst með lækkun stýrivaxta Seðlabankans, en bataferlið er langt og erfitt, því að í kjölfarið kemur mikið gengisfall í viðbót við 40% fallið sem orðið hefur á rúmu ári. Krónan verður afar óvinsæl þegar ávöxtun í vaxtamunarviðskiptum verður orðin verulega neikvæð. Raunveruleg staða eigin fjár  banka og fyrirtækja almennt er smám saman að rata í bækurnar, þar sem fall virðis fasteigna, verðbréfa og viðskiptavildar snarminnkar eignirnar, svo að heildar- nettóskuldir færast úr tvö þúsund milljörðum króna, eflaust í amk. 4-5 þúsund milljarða þegar upp er staðið, þar sem lokauppgjör vandræðanna er enn eftir. Það eru fjórir til fimm með 12 núllum, sem er margföld landsframleiðsla Íslands á ári.

Hefði það verið hefðin sú, hefði allt farið betur

Nú er „hefði-“ kórinn kominn á fullt: Allt hefði verið betra, hefðum við ekki selt bankana, byggt virkjanir og álver á fullu og framselt húsin okkar til bankanna. Hefðum víst átt að vera spök í gamaldags skömmtunar- og regluveldi ríkisins.  Við því er helst að segja: Það gerðist ekki , frekar en að Hitler hafi verið skotinn í upphafi stríðsins. Enginn veit hvernig hefði farið hefði Ísland ekki tekið eins hraustlega á í uppgíraðri áhættutöku og eyðslu, sem var gerð möguleg með háum stýrivöxtum, kallandi á allt skammtímaáhættufé heimsins til vistunar hér. En snemma ársins 2007 var mörgum ljóst (þmt. mér) að ferlið hafði snúist við, að endurgreiðslur krónubréfa, aukinn gjaldeyrisforði og lækkun stýrivaxta þyrftu að vera forgangsatriði, en bankar, ríki og fjárfestar sungu í samróma kór sálminn um að hér væri allt í himnalagi. Enn hefur Seðlabankinn ekki séð ljósið og heldur í þá barnslegu trú að ofur- stýrivextir hér lækki verðbólgu, þegar reynslan hefur marg- sýnt annað.

Neyðin í útlöndum

Bandaríska stjórnin tók yfir veðfyrirtækin Fannie Mae og Freddie Mac, sem bakábyrgðust um helming allra fasteignalána þar vestra. Hluthafarnir misstu allt sitt, en þessi fyrirtæki höfðu verið talin með þeim al- öruggustu vegna stöðu sinnar. Vonandi freistuðust íslenskir lífeyrissjóðir ekki  til þess að eiga í þessum fyrirtækjum.  Breska ríkið yfirtók Northern Rock bankann, þýska ríkið hjálpaði IKB og danska ríkið yfirtók Roskilde bank. Íslenska ríkið hefur enga burði til þess að yfirtaka einn af þremur stóru viðskiptabönkunum hér og ætti ekki að gera það. Hinir ráðdeildarsömu eiga að fá að njóta stöðu sinnar (einstaklingar, bankar og ríki), en þau fyrirtæki sem fóru offari í sjúklegri áhættutöku erlendis eiga að fara á hausinn, án þess að við hin verðum neydd til þess að kaupa hræið á uppblásnu verði eins og úreltan kvótabát. Það er nóg með að „íslensku“ bankarnir mjólki hvern dropa úr krónunni á hverju misseri núna með tilbúnu flökti með gjaldeyrinn („að verja eigin féð“ en allt í einu ekki) og græði milljarðatugi á verðbólgunni.

Aðrir pissuðu í skóinn þinn Sun chair CD BANK

Það eru jafnan helst almennir borgarar sem farast í stríðum núorðið, en lítill hluti hermanna og nær engir herforingjar. Eins er það almenningur sem mun mest finna fyrir þessum bardögum, minna þeir sem stunda þá og varla þeir sem hófu þá. Þeir fengu pottþétta starfslokasamninga og finnast á Cayman- eyjum næstu þrjú árin, þangað til að fasteignir fást á spottprís hér með góðum lánakjörum, baktryggðum af íslenska ríkinu.


mbl.is Ógnvænleg efnahagsþróun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Oddur Ólafsson

Góð samantekt.  Þú ættir að vera í Seðlabankanum, nú eða ríkisstjórn.

Oddur Ólafsson, 8.9.2008 kl. 06:48

2 Smámynd: Sveinn Ingi Lýðsson

Góð "analýsa" hjá þér og get tekið undir flest af því sem þú segir.  Það er og verður alltaf þeir sem liggja í neðstu lögum efnahagslífsins sem taka á sig mestu byrðarnar.  T.d. með verðtryggingunni firra lánastofnanir sig allri ábyrgð á heimskulegum og illa tímasettum lántökum.

Sveinn Ingi Lýðsson, 8.9.2008 kl. 08:47

3 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

Vel sagt.  Öfgalaust.

Sigurður Viktor Úlfarsson, 8.9.2008 kl. 12:34

4 Smámynd: Villi Asgeirsson

Góð lísa. Síðasta málsgreinin er uðvitð sú sorglegasta. Þegar fólk er komið í þrot og húsnæðisverð lækka, mun efnameira fólk sjá sér leik á borði. Þjóðin hafði ekkert með þetta fyllerí að gera en hún má samt drepast úr þynkunni.

Villi Asgeirsson, 8.9.2008 kl. 12:46

5 Smámynd: Ívar Pálsson

Ég þakka ykkur fyrir athugasemdirnar og öllum hinum sem nenntu að lesa þetta. Hér er tilraun til svars við spurningum Áhugamanns:

Ein aðalástæðan fyrir því að ég fór að blogga um þessi mál er einmitt sú að hlutlæg skrif eru vandfundin, enda er flest áhugafólk um málefnið hagsmunaaðilar. Ég er engum banka tengdur, skulda ekkert og segi því það sem mér dettur í hug, sem er mörgum ekki leyfilegt. En ég er aðallega  áhugamaður um gengismál í þessu, ekki ráðgjafi og ekki einhver alvitur gúrú, enda fara þeir flestir flatt á því.

Ástæðan fyrir því að ég stofnaði gjaldeyrisreikninga í Landsbankanum var nú aðallega persónulegar áhyggjur út af Kaupþingi/SPRON, en hvað veit maður? Ekkert meira en næsti maður.

1)  Mér finnst peningamarkaðssjóðir varasamir, því að þeir virðast fyrstir til þess að falla, eins og í BNA. Óbundin gjaldeyris- bankabók eða seðlar í gjaldeyri í hólfi er eina vitið. Hrun tekur bara 1-2 daga ella og sjóðurinn læsist inni.

2) Næsta dýfa krónunnar gæti orðið þar sem stór fyrirtækjasamsteypa eða banki fer á hausinn, þar sem upplausnarvirði eigna er langt frá því að borga skuldirnar. Evran hefur fallið nokkuð gagnvart dollar og gæti gert það áfram, en flöktið er orðið mjög mikið og ekkert að marka mín orð né annarra um það hvert hún fer. Þó er nokkuð  ljóst að gagnvart krónu þá verður Evran öllu sterkari en hún er í dag, segjum t.d. í lok ársins. Ef banki rúllar þá fellur krónan strax um amk. 30-40% þó að hún gæti lagast aðeins eftir aðgerðir eftir á. Ég segi sem fyrr, borgum skuldir og söfnum gjaldeyri!

Ívar Pálsson, 8.9.2008 kl. 17:45

6 Smámynd: Ívar Pálsson

Fátt er til svara þegar stórt er spurt, Áhugamaður. En reynum:1) Þegar flestir vilja gjaldeyri þá fellur krónan og verðbólga eykst. Öryggið er fyrir öllu, en ávöxtun skiptir minna máli, enda er góð eða léleg miðað við alla aðra kosti. Sl. ár  hafa t.d. fjármagnseigendur þótt góðir ef þeir halda sjó, þ.e. tapa ekki, t.d. í dollurum talið. Flest er núna eins og 1980-1981: eina vitið er að eiga tiltækan gjaldeyri.

Fjöldi þátta ráða stöðu einhvers banka og einhver einn hefur ekki yfirsýn yfir alla þættina. Ég spyr einungis almennra spurninga eins og: hvaða banki var líklegastur til þess að hafa tekið mest þátt í uppgíruðum ævintýrum og fjárfestingabrölti? Hvern grunaði að botninn væri suður í Borgarfirði (Sparisjóði Mýrarsýslu)? Líklegast bankinn til þess að þola ágjöfina er sá sem var varfærnastur og hefur bestan aðgang að lausafé áfram.

Greiningardeildir eru með bráðgreindu fólki en eru greinilega hagsmunaaðilar. Samdráttur er alltaf þó nokkra mánuði fram í tímann í greiningunum, en þó jafnan með sterkum bjartsýnistóni, enda ekki annað fært. Aldrei sagði fólkið: „seljið öll hlutabréf“ þó að það gerði það kannski sjálft, ef það var framsýnt. Fasteignafallið er langt og erfitt. Þannig krísur taka amk. 2-3 ár.

Höfum þetta einfalt með krónuna. Hún eldur áfram að gefa eftir í allan þann tíma sem það tekur að breyta um kerfi, hvort sem það verður einhver fasttenging eða hvað annað. Og þó að hún haldi í einhvern tíma, þá étur verðbólgan hana upp nokkuð hratt. Giska þú, en ég segi raunsig um 4% á mánuði að meðaltali.

3) Banki á ekki nema brot á móti því sem hann skuldar. Þegar hann fellur, þá eru dómínóáhrif fyrir utan föllnu tilrúna. Stærðirnar eru líka svo miklar fyrir litla hagkerfið okkar. Ríkið ætti náttúrulega ekki að gera neitt vegna fallsins, en krafan um það yrði svo almenn að það færi eflaust einhver þjóðnýtingarpakkinn í gang. Þannig að þú endar alltaf með að borga brúsann fyrir heildina að einhverju leyti, hversu skynsamur þú ert með eigin sjóði.

Ívar Pálsson, 8.9.2008 kl. 21:57

7 Smámynd: Jón Aðalsteinn Jónsson

Góð grein hjá þér og því miður of sönn En ég vil fara að athuga með saknæmi og sakamál á hendur ýmsum af þessum aðilum því þetta er nákvæmlega eins og Enron og ef ekki eru til lög hér sem að ná í rassin á þeim seku þarf að skapa þau einn tveir og þrír.

Jón Aðalsteinn Jónsson, 8.9.2008 kl. 22:27

8 Smámynd: Ívar Pálsson

Áhugamaður, þú virðist hafa rétta sýn á hlutina. Ég spyr altént sömu spurninga og þú. Kannski aðrir geti svarað þér.

Ívar Pálsson, 8.9.2008 kl. 23:34

9 Smámynd: Theódór Norðkvist

Góð greining, en ég hef eina athugasemd. Þú segir:

Nú er „hefði-" kórinn kominn á fullt: Allt hefði verið betra, hefðum við ekki selt bankana, byggt virkjanir og álver á fullu og framselt húsin okkar til bankanna. Hefðum víst átt að vera spök í gamaldags skömmtunar- og regluveldi ríkisins. Við því er helst að segja: Það gerðist ekki , frekar en að Hitler hafi verið skotinn í upphafi stríðsins.

Ég held það hljóti að verða að túlka ástandið á fjármálamörkuðum sem ósigur frjálshyggjunnar, sem heimtaði að allt yrði einkavætt, öllu landi sökkt undir virkjanir vegna álvera og að bankarnir gleyptu allar húseignir landsmanna.

Risastór einkafjármálafyrirtæki í Bandaríkjunum, landi frjálshyggjunnar, hafa verið ríkisvædd. Það hlýtur að teljast alger niðurlæging fyrir talsmenn frjálshyggjunnar.

Engu að síður góð og rökrétt úttekt hjá þér Ívar.

Theódór Norðkvist, 9.9.2008 kl. 09:24

10 Smámynd: Ívar Pálsson

Það er rétt, Theódór, að þjóðnýtingin á Fannie May og Freddie Mac er niðurlæging, enda ber að líta á hvaða kerfi hafði verið skapað. Ákveðin félög höfðu baktryggingarrétt fasteigna í BNA, þ.e. lögvernduð fákeppni, sem sannt frjálshyggjufólk styður ekki. En alls kyns slík einokunarstarfsemi komst á þar vestra og kannski er versta dæmið Federal Reserve, einkabanki með ríkis- einokunarleyfi.

Ívar Pálsson, 9.9.2008 kl. 10:02

11 Smámynd: Ívar Pálsson

En Theódór, ég missti af hinni setningunni þinni um Ísland. Það er enginn dómur um frjálshyggjuna að örfoka land fari undir vatn og að fólk glepist til þess að selja húsin sín til bankanna eða velur það að koma sér í skuldaánauð. Orka er aðalstyrkur Íslands en ekki óbeisluð orka. Frelsi til lántöku var algert, ekki skammtað af pólitíkusum. Ég kaus að nýta ekki það frelsi, því að í smáa letrinu sagði að vextir væru breytilegir plús að lánin voru verðtryggð, þannig að varúðarbjöllur fortíðar klingdu.

Ívar Pálsson, 9.9.2008 kl. 10:13

12 Smámynd: Oddur Ólafsson

Geturðu ekki tekið eins og einn góðan pistil um verðtryggingu?  Mér finnst hún það eitt það versta við Ísland.  Ég er líka svo vitlaus að ég fatta ekki þennan svonefnda stöðugleika sem kunn vera henni að þakka.  Það er líka talað um að hér væri meira atvinnuleysi ef ekki væri verðtrygging.  Þá spyr ég - hvaða störf eru þessi vertryggingarstörf?  Eru þau í seðlabankanum eða hinum bönkunum, eða í fiskvinnslu?  Ætli mitt starf (læknir) sé verðtryggingarstarf sem annars væri ekki til ef hér nyti ekki verðtryggingar. 

Það er einnig dálítið grunsamlegt hvað aðrar þjóðir hafa verið tregar að taka upp þessa nýung sem skapar bæði störf og stöðugleika.

Oddur Ólafsson, 9.9.2008 kl. 11:05

13 Smámynd: Theódór Norðkvist

Ívar, það er meira en örfoka land sem fer eða á að fara undir vatn, samanber fyrirhugaðar virkjanir í neðri Þjórsá, þar sem grónu og grasgefnu landi á að sökkva, m.a.s. landi sem búið er á. Þó þetta sé ekki til umræðu hér.

Ég spyr þá sem eru hrifnir af verðtryggingu hvort þeir vilji þá ekki líka verðtryggja laun og félagslegar bætur. Hvers vegna mega bara bankarnir hengja sig í verðtrygginguna, eða réttara sagt hengja sig í henni?

Theódór Norðkvist, 9.9.2008 kl. 11:53

14 Smámynd: Ívar Pálsson

Ég segi eins og Oddur læknir, það þarf mér færara fólk til þess að fjalla af viti um verðtryggingu. Ein ömurlegasta birtingarmynd hennar er þegar maður greiddi afborganir lána og sá höfuðstólinn hækka eftir afborgunina. Sú mynd er svo brennd í huga minn að ég hef verið krossfari gjaldeyriseignar og skuldleysis. Stig fastra vaxta sýnir manni jafnan hvert ástandið er í raun á hverjum tíma.

Ívar Pálsson, 9.9.2008 kl. 13:57

15 Smámynd: Theódór Norðkvist

Stig fastra vaxta sýnir manni jafnan hvert ástandið er í raun á hverjum tíma.

Nákvæmlega.

Theódór Norðkvist, 9.9.2008 kl. 15:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband