Örþrifaráð og Matadorkrónur

„Aldrei grípa til örþrifaráða“, sagði pabbi mér forðum. Geir og Davíð hefðu betur þegið þau ráð áður en þeir stukku með okkur öll beint út í skuldafen Glitnis, í stað þess að fara að eins og aðrar Evrópuþjóðir núna, að tryggja sparifé landa sinna í þarlendum bönkum án þess að taka ábyrgð á ótakmörkuðum skuldum fjárhættuspilaranna, eins og gert var með Glitni.

Kaupþing verður að drífa sig að skipta upp starfseminni svo að fyrirtækið verði ekki sú áþján á landinu sem það er orðið með skuldabyrði sinni. Bretland fer líklega sömu leið og aðrir, að tryggja spariféð, en varla fyrir Kaupþing, sem laumar sér þá yfir til þeirra en er með 5000 punkta (50%) skuldatryggingarálag, þ.e. helming af nýju skuldabréfi! Á ekki að túlka það svo að helmingslíkur verði á því að um greiðslubrest verði að ræða á nýju láni á næstu fimm árum?  Hvað kostar þá núna að fá lán hjá þeim?

Nú var ég lafhræddur um að ríkisstjórnin og Seðlabankinn myndu bíta höfuðið af skömminni og hrúga enn frekari álögum á okkur þegnana vegna ófara bankanna, í stað þess að ríkið og við nytum staðfestu þess árin 1991-2006 til þess að greiða niður erlendar skuldir þar til að ríkið stóð ansi keikt og skuldlítið. Öll sú staðfesta rauk burt í einni svipan þegar þeir skrifuðu upp á risastóran gjalfdfallinn víxil Glitnis, sem dregur okkur í svaðið. Við vorum stolt af nokkurra hundraða milljarða greiðslum skulda, en horfum nú upp á þúsundir milljarða vegna Glitnis.

Síðan mátti vænta einhvers félagsmálapakka þar sem reynt yrði að halda í ríkandi há fasteignaverð en lán yrðu fryst og boðið upp á lága vexti á vaxtagreiðslurnar, en Geir segist ekki boða neitt núna, sem betur fer. Eða þá að lífeyrissjóðirnir verði píndir til þess að kaupa Matadorkrónur (IKR) til þess að lækka verðið á gjaldeyrinum fyrir bankana, sem vantar hann sárlega til þess að borga fyrir afborganir krónubréfanna. Þar með hverfa milljarðar frá lífeyrissjóðunum á örskotsstundu, enda fellur gengið þá trúlega áfram vegna mikillar eftirspurnar.

Jenið rís núna sterkt upp gagnvart Evru og dollar, sem flýtir frekari lokum vaxtamunarsamninganna og falli krónunnar. Þróunin erlendis yfir helgina hefur því gert stöðu krónunnar verri. Það er þá mjög erfitt að meta áhrif einhverra aðgerða stjórnvalda og Seðlabankans, ef þær verða.

Hver maður hugsar fyrir sig. Þeir sem ég þekki nota tækifærið og kaupa gjaldeyri, sérstaklega ef hann fæst á spottprís eftir helgi vegna aðgerða ríkis, Seðlabankans eða lífeyrissjóðanna. Við spilum nefninlega ekki Matador lengur.

 

 


mbl.is Ekki þörf á aðgerðapakka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband