Öryggi fjárins finnst ekki hér á landi

Ráðdeildarsemi borgar sig varla á Íslandi. Safnarar hér tapa Peningapokinnmestu af fénu hvað eftir annað og enda jafnan með að borga fyrir skuldarana. Safnarar eiga í stöðugri baráttu við ríki, borg, banka, fyrirtæki og skuldara almennt til þess að reyna að nurla einhverju saman til framtíðaröryggis án þess að það étist upp í viðbótar- skattheimtu, verðbólgu, óráðsíu og óheftri lántöku. Fé safnaranna verður að vera á stöðugum flótta undan þessum árásaraðilum til þess að ná vexti. Það er engin furða að gyðingar í Þýskalandi Nasismans söfnuðu demöntum og földu þá, því að þeir þekktu þetta heilkenni, sem hrjáð hefur landann í amk. hálfa öld.

Eldri borgarar tapa mestu að jafnaði

Eldri borgarar á Íslandi hafa helst orðið fyrir barðinu á þessum ofsóknum gegn sparifé í gegn um tíðina. Í ungdæmi mínu á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar hélt aðallega eldra fólk áfram að leggja fé inn á sparisjóðsbækur í þeirri öldnu trú að slíkt skilaði arði, en það var öðru nær. Skuldararnir skrifuðu upp á víxla og skuldabréf á báðar hendur og nutu lífsins á meðan krónurnar á bókum aðhaldssömu safnaranna breyttust í aura. Sá sem keypti og skuldaði mest, græddi mest. Síðan kom verðtrygging og nokkrar leiðréttingar, en tímabil skuldaranna taka fljótt yfir, enda virðast jafnan fleiri  græða á þeim til skamms tíma, t.d. bankar. Á milli er reynt að koma upp nýrri kynslóð safnara eins og með skyldusparnaðinum forðum, en hann varð fljótt að engu og manni lærðist að skipta honum út við fyrsta tækifæri svo að eitthvað yrði eftir.

Síðustu árin hefur ofangreindur háttur orðið að reglu. Þar kom að hann endaði með einum allsherjar Stórahvelli nú í október 2008, þar sem traustustu heimar sundruðust, bankar, fyrirtæki og nærri því ríkið sjálft.  Reynsluríkir safnarar sáu þetta fyrir og höfðu forðast skuldir að vanda, en höfðu því ekki notið síðustu vaxtarára eins og gíruðu skuldararnir, sem græddu nú ótrúlega með því að skuldsetja fyrirtæki sín, bankana, ríkið og alla Íslendinga margfalt.

Falskt öryggi sparnaðarleiða

Nú eru góð ráð enn einu sinni dýr fyrir safnarana, sem munu aftur greiða reikning skuldaranna. Bankar, gjaldmiðillinn, fasteignir, hlutabréf og skuldabréf eru almennt fallin. Lífeyrissjóðir rýrna líka, sérstaklega viðbótarsparnaður. Einn aðalmátinn til varðveislu fjárins á þannig stundum hefur verið gjaldeyriskaup. En ríkið takmarkar notkun gjaldeyrisreikninga þannig að þeir eru ekki slíkir í raun, heldur krónureikningar með gjaldeyrisviðmiðum og heitum í stíl. Öryggið er líka takmarkað, þar sem óvissa um lögmæti gjörninga nýju bankanna er mikil og skjaldborg um gjaldeyrisreikninga með háum upphæðum yrði takmörkuð ef t.d. erlendir kröfuhafar þúsunda milljarða króna skulda verða gerðir að eigendum bankanna. Þeim gæti þess vegna dottið í hug að gera innistæður að hlutafé.

Ríkið seilist í það eina örugga: gjaldeyrinn

Helstu ráð safnaranna á þessum víðsjárverðu tímum eru þá að eiga gjaldeyri í seðlum í bankahólfi eða á bankareikningum erlendis. En hvernig bregðast þá vitorðsmenn skuldaranna við? Setja nýju gjaldeyrisólögin með skilaskyldu gjaldeyris og banni við kaupum á erlendum verðbréfum. Þá ber öllum að skipta sínum gjaldeyri í Matador- krónur eða að leggja inn alvöru gjaldeyri í gervigjaldeyri í platbönkum þar sem ríkið ákveður gengi „erlenda“ gjaldeyrisins sem er lítt háð óheyrilegri skuldasöfnun ríkisins eða öðrum þeim þáttum sem ákvarða verð gjaldeyris á markaði.

Lífeyrissjóðir píndir heim?

Stærsti glæpurinn er þó sá, ef lífeyrissjóðir eru látnir skila inn erlendri eign sinni, sem hefur haldið gengi sjóðanna uppi eftir að þeir léku sér margir í framvirku gjaldeyris fjárhættuspili hér heima en féllu á því með gengi krónunnar. Nýju haftalögin virðast því þvinga sjóðina til þess að dæla peningum inn í rammskuldugt og hálfgjaldþrota hagkerfið þar sem hluti þeirra brennur fljótt upp, sérstaklega fyrst stjórnmálamenn ráða ferðinni í hvað þeir fara.

Þvingað til trausts á krónunni

Traust á íslensku krónunni vinnst ekki með þvingunaraðgerðum, hversu tímabundnar sem þær eru. Hagsmunir hinna ráðdeildarsömu, aðallega eldra fólks, sem streitast hafa við að leggja eitthvað fyrir og að halda sig fjarri skuldum, eru vel aftarlega í forgangsröðinni. Nú verða þau annaðhvort sektuð sem lögbrjótar fyrir það að vilja eiga sinn lögmæta gjaldeyri áfram eða neydd til þess að setja hann í kvörnina stóru. Gull og demantar er líklega ráðið, ef svona heldur áfram.

Auk þess legg ég til að norsk króna verði tekin upp.


mbl.is Nauðsynleg aðgerð en ekki sársaukalaus
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fróðleg lesning og átakanlega sönn - Ég legg reyndar til Dollar :)

Guðjón Atlason (IP-tala skráð) 1.12.2008 kl. 10:48

2 Smámynd: Ívar Pálsson

Takk, Gaui. Án efa er vandræðaminnst að taka upp dollar, en mér líst ekki á að lenda kannski í tvöföldu flugslysi, þar sem sjúkravélinni (USD) hlekkist kannski líka á. BNA hafa dælt óendanlegu fé án innistæðu inn í rammskuldugt kerfi sitt og líklegt er að skuldabréf þeirra fari að falla í verði, einmitt þegar við værum búin að hengja okkur á þann vagninn. Aftur á móti eru grunnþættir Noregs sterkir, góður sjóður, auðlindir og einn fremsti her í heimi til þess að verja þær.

Ívar Pálsson, 1.12.2008 kl. 11:14

3 Smámynd: Ívar Pálsson

Nú staðfesti fyrrverandi hæstaréttardómari réttmæti þeirrar skoðunar minnar, að eignarréttur stjórnarskrárinnar standi framar sjálfsskipuðum rétti ríkisins til þess að ásælast löglega fenginn gjaldeyri manns (t.d. í hólfi). Að mínu viti væri það eignaupptaka og sektir ættu ekki við. Þessi vanhugsuðu gjaldeyrislög verða eins og stagbættur björgunarbátur fljótlega. Því er ráðlegt að halda ró sinni vegna þeirra.

Ívar Pálsson, 1.12.2008 kl. 14:58

4 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þetta er mögnuð samantekt hjá þér Ívar, sorglega sönn.  En sennilega munu utanaðkomandi aðilar koma vitinu fyrir ríkisstjórnina samkvæmt því sem IGS segir á fundi Útflutningsráðs.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra segir að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn muni ekki veita okkur frekari lánafyrirgreiðslu nema gjaldeyrishömlum þeim sem settar voru fyrir helgi verði aflétt bráðlega.

Magnús Sigurðsson, 1.12.2008 kl. 18:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband