Fasteignir, kvóti ofl. afhent? Klúður 101

Ríkið tók illu heilli ábyrgð á öllum skuldum bankanna með því að krukka í eignir þeirra. Fyrir vikið eru fjármál ríkisins gersamlega í rúst um ókomna tíð, þar sem tólf þúsund milljarða skuldir bankanna skapa ómæld vandræði í kerfinu, ofan á fyrri skuldir ríkis, einstaklinga og sveitarfélaga. Ríkið hrúgaði fyrst nokkur þúsund milljarða skuldum á sig, missti gjaldmiðinn þannig út úr höndunum og telur sig nú verða að afhenda bankabúið (gömlu og nýju bankana) til erlendu kröfuhafanna, með upphæðir sem drekkja öllu öðru.

 

Stærðar eignatilfærsla

Staðan er því sú að flestar veðsettar eigur Íslendinga verða í erlendu eignarhaldi og skuldir í erlendum gjaldmiðlum, þar sem lánin að baki þessu öllu eru erlend. Þar með fljóta fasteignirnar, kvótinn, jafnvel virkjanir og eitt og annað smálegt. Álíka atburðarás á sér stað og í bandarísku kreppunni forðum: eignirnar renna allar sem ein inn til bankanna og er síðan miðlað áfram til nokkurra stórra aðila frá hendi banka og stjórmálamanna. Kotbændum fækkaði um tugi þúsunda á meðan stóreignir og viðeigandi völd soguðust upp í fárra hendur.

 

Upplýsingar í smáskömmtum

Landinn tekur upplýsingarnar smám saman inn eins og lýsið, einungis hægt í smáskömmtum. Icesave UK, Icesave Hollandi, Edge í Þýskalandi, síðan hvert útibú hvers banka í hverju landi, þar til stóra kakan er loks sprengd klukkan 12, að allar skuldir (og ofmetnar eignir) allra bankanna eru samþykktar. Súpan er sett í þrjá aðskilda potta sem stærstu áhættusjúklingar vorra daga, stærstu bankar í heimi, munu deila út súpu úr og gefa smá brauð með næstu áratugina.

 

Losum ríkið við mistök sín

Sá ræður sem heldur um buddubandið, segir Kaninn. Ríkið gerir það varla lengur ef það heldur áfram að vasast í eignum annarra, að skapa sér meiri ábyrgð og skuldir í bankarústunum.  Þegar það nær loks að losna við þessa byrði með því að afhenda erlendu kröfuhöfunum hana, verður að gæta þess að láta mistök síðustu tveggja mánaða (ss. Icesave samþykki) fylgja pakkanum eins og böggull skammrifi, því að annars fylgir böggullinn okkur skattgreiðendum, nokkur þúsund aukamilljarðar vegna mistaka stjórnmálafólksins sem við kusum rúmu ári áður.

 

Ríkið sinni grunnþáttum. Björgunaraðgerðir fella það.

Nýlegir atburðir sanna það, að ríkið á einungis að sinna sínum grunnþáttum, ella fer illa. Davíð Oddson sagði réttilega: „Við borgum ekki þessar skuldir“ en fékk afar bágt fyrir. Geir H. Haarde forsætisráðherra hélt þessu líka fram framan af,  en virðist hafa talið sig þurfa að feta þessa ógæfubraut, þar sem Samfylkingarráðherrar gáfu í skyn eða fullyrtu við erlenda ráðamenn að greitt yrði. Hefði ríkisstjórninni borið gæfa til að halda ríkinu utan við fall bankanna  værum við vissulega í vandræðum, en ekkert nálægt þessu síki sem við erum nú öll föst í. Skjaldborg um íslenska sjóðseigendur, uppkaup ónýtra skuldabréfa úr sjóðum bankanna, neyðarlögin og gjaldeyrishaftalögin eru sorgleg dæmi um misskilda greiðasemi við okkur þegnana sem festa okkur einungis í eigin netum.

 

Töfralausnir og Vorið í Prag

En komdu með lausnir, segir fólk þá við mann. Höfum þetta einfalt: ríkið er einungis fyrir grunnþætti samfélagsins og á ekki að hella sér (og þar með okkur) út í óendanlegar skuldir til þess að „bjarga“  hinu og þessu, bönkum, fyrirtækjum, húseigendum eða einstaklingum sem skuldsettu sig um of. Við erum öll sammála um það hverja ber alltaf að aðstoða, öryrkja, sjúka, aldraða osfrv. En nú dregur hver stjórnmálamaðurinn af öðrum fram rykfallin ávísanahefti sem átti að vera búið að eyða og skrifar út innistæðulausa risatékka eins og hann hafi fundið upp töfrapeningamaskínu. Ídealisminn og slagorðin blómstra og vorið í Prag er á næsta leyti.  Má ég frekar biðja um eina A4 Excel- töflu frá ríkisstjórninni  með öllum skuldbindingum hennar til næstu ára. Þar sæist að ríkið er að fara sömu leið og bankarnir gerðu, að skuldsetja sig og okkur til andskotans. Það er engin lausn. En pólítíkus sem boðar núna lágmarks- skuldsetningu ríkisins á sér enn færri fylgjendur núna en þeir höfðu sem voru með öll varnaðarorðin þegar uppsveiflan stóð sem hæst. Því fer sem fer.


mbl.is Lánshæfi ríkisins hrynur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgeir Kristinn Lárusson

Kannski er lán í óláni fyrir auma okkur, að þetta er næstum glóbalt dæmi.

A skuldar B sem skuldar C sem skuldar A.

Stóra spurningin er því: Hver á hið skuldsetta ABC dæmi og hvenær og hvernig verða skuldirnar innheimtar?

Ásgeir Kristinn Lárusson, 5.12.2008 kl. 12:00

2 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Sammála, þau sváfu vært á verðinum.

Sigurður Þórðarson, 5.12.2008 kl. 15:01

3 identicon

Okkar skuldir verða aðeins innheimtar á einn hátt (14.11.08)

Greppur Torfason (IP-tala skráð) 5.12.2008 kl. 22:29

4 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Hvernig geturðu hugsað um fjármál svona snemma morguns?

Hvað finnst þér um einhliða upptöku Evru?

Gunnar Skúli Ármannsson, 6.12.2008 kl. 00:43

5 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Í dag birtast fréttir um að Landsvirkjun þurfi nú að leggja fram meiri ábyrgðir, vegna lána. Upplýsingafulltrúinn gerir lítið úr þeim vanda. En hvaða ábyrgðir getur Landsvirkjun lagt fram? Alveg kostulegt hvað fjölmiðlar eru máttlausir í að fylgja eftir svona fréttum og upplýsa um raunverulegt ástand orkufyrirtækjanna.

Ketill Sigurjónsson, 6.12.2008 kl. 12:25

6 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Flott væri að fá að sjá þetta á Excel síðu. Ríkisstjórnin er að steypa okkur í hyldjúpa skuldahít. Spurningin sem skiptir máli í dag er: hvernig losum við okkur við þessa ríkisstjórn?

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 7.12.2008 kl. 02:39

7 Smámynd: Valdimar Birgisson

Hvaða stjórnmálamaður er það sem nú boðar lámarksskuldsetningu ríkissins?

En góður pistill hjá þér og sannur að mestu.

Valdimar Birgisson, 19.12.2008 kl. 09:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband