Falsað gengi til framtíðar?

Bankarnir og nú ríkið eru orðnir sérfræðingar í því að eyðileggja útflutningsgreinarnar sem eiga að halda okkur uppi.  Loks þegar glitti í lok áralangs falsks gengis krónunnar og uppsöfnuð vandræðin sem af því hlutust skullu á okkur, þá setti ríkisvaldið lok á kraumandi suðupottinn með styrkingu krónu. Gjaldmiðlinum hafði verið haldið sterkum í fjölmörg árYfirsuda með víxlum sem hrönnuðust upp, en því haldið áfram nú með gjaldeyrishöftum og háum stýrivöxtum.

Stóra spurningin er hvort nýja vinstri stjórnin taki almennilega á vandamálinu, snarfelli gengið um 40-50%, lækki stýrivextina niður í 5-7%, afnemi gjaldeyrishöft og verðtryggingu, taki upp viðurkenndan gjaldmiðil, neiti að greiða Icesave eða aðrar skuldir bankanna eða að setja aðra slíkar byrðar á þær vinnandi manneskjur sem eftir verða á Íslandi eða á afkomendur þeirra.

Allt ofangreint verður að gerast á sama tíma til þess að virka af viti. Tímar hálfgildingslausna eru liðnir. Ekki er lengur hægt að athuga og skoða mánuðum saman. Allur þorri manna hefur verið látinn halda of lengi að við höfum rétt á hinu og þessu sterku gengi krónunnar. Þótt einungis sé litið til gengis Jensins, helsta skuldagjaldmiðils okkar (skuldir bankanna ekki taldar með), þá sést að það hefur styrkst um tugi prósenta gagnvart öðrum gjaldmiðlum á sl. hálfa árinu. Það er deginum ljósara að flestar jaðarmyntir sem byggðu á vaxtamunarverslun gegn Jeninu eru nú í rúst, íslenska krónan þar fremst í flokki.

Komandi rimma á milli Steingríms J. Sigfússonar fjármála- sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Evrópusambandsins verður athyglisverð. Ef hann hefur það bein í nefinu sem af er látið, þá verður ekki af uppgjöri Icesave, sem vekur ekki hrifningu ESB eða Alþjóða gjaldeyrisinnheimtusjóðsins, sem myndu þá loks afjúpa sitt innra eðli almennilega, þannig að Íslendingar forðuðust þá gamma. En hæfileika Samfylkingar til útvatnaðra miðjumoðslausna má ekki vanmeta. Því er líklegasta niðurstaðan aframhaldandi skoðun, blekking, tálsýn, kostnaður og dans á þyrnum en ekki rósum.


mbl.is Krónan veiktist um 2,06%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Ég held nú reyndar að háir stýrivextir hafi EKKI áhrif á gengi krónunnar miðað þær aðstæður sem við búum við núna.

Jóhann Elíasson, 3.2.2009 kl. 09:24

2 Smámynd: Björn Kristinsson

Raungengi IKR var í byrjun jan aðeins 68. Ég veit ekki hvað þér finnst Ivar, en ef einhver fölsun á sér stað núna þá er það í átt að allt of veikri krónu. Þú vilt sem sagt enn veikri krónu, væntanlega svo hagnaður þinn af útflutningi verði enn meiri !!

 Vandi IKR var að við blésum út hagkerfið í stærðir sem henta á engan hátt 300.000 manna þjóð. Hagkerfi okkar á að vera þannig sniðið að GDP per haus sé á eðlilegum nótum.

Björn Kristinsson, 3.2.2009 kl. 11:02

3 Smámynd: Ívar Pálsson

Greinin mín virðist eitthvað óskýr. Háu stýrivextirnir eru til óþurftar og mjólka úr okkur vexti til þess eins að halda jöklabréfaeigendum í skefjum og halda þannig áfram platsterkri krónu. Björn, krónan þarf að lýsa raunstöðu sinni, en henni er haldið saman á lyginni á Sovét- hátt.

Stjórnendur útflutningsfyrirtækja reyna að meta og skilja gengisskráninguna og keyptu t.d. hráefni í veikri krónu en selja nú afurðir í óskiljanlega sterkri krónu í tapi enn einu sinni. Ekki argast út í útflytjendur vegna þess að veikja þarf krónuna vegna skuldasúpu og stórinnflutnings í gervi- sterkum krónum.

Ívar Pálsson, 3.2.2009 kl. 11:25

4 Smámynd: Björn Kristinsson

Sæll Ívar, ég er sammála þér að vandi IKR er þetta ótrúlega flökkt sem hefur verið á henni í gegnum tíðina. Vandinn er einnig sá að við höfum tvær tegundir af krónum, þá verðryggðu sem er í reynd 30-40% gegnistryggð, og síðan "viðskiptamyntina" sem fyrirtæki og almenningur nýtir í innlendum viðskiptum. Þar sem grunnur hagkerfisins er bundinn verðtryggðum lánum þá er alltaf til staðar þessi mikla bjögun á milli eðlilegrar peningastjórnunar og áhrifa hennar á raunhagkerfið. Þannig valda breytingar á stýrivöxtum aðeins takmörkuðum áhrifum á skuldara í verðtryggðum lánum þar sem þeir eru í öllum tilvikum að taka vextina að láni til langs tíma.

Ívar, hvað finndist þér eðlilegt gengi á IKR og hvað heldur þú að það væri eðlilegt að það væri næstu 2-3 árin ?

Björn Kristinsson, 3.2.2009 kl. 11:33

5 Smámynd: Ívar Pálsson

Björn, spurningin er þá á hvaða réttu gengi krónan ætti að vera þegar við tækjum upp viðurkenndan gjaldmiðil, segjum rétt eftir næstu kosningar, sem ættu að snúast að mestu um þá aðgerð og allan aðgerðapakkann yfirleitt, en ekki um þarflitla fundi við ESB um aðild.

Samkeppnishæfni okkar skiptir þar mestu um gengið, því veikara, því auðveldara er að komast að á mörkuðum erlendis. Nú þegar mörg önnur ríki horfa á sinn gjaldmiðil falla (t.d. Rússar núna), þá verðum við að fylgja með, annars missum við bestu alþjóðlegu fyrirtækin og einstaklingana út. Hrein ágiskun mín er Evra upp á 180-200 kr og Sterlingspund upp á 200- 220 kr. en markaðurinn ætti að ráða þessu, ekki ríkisbankarnir með eina einvaldsákvörðun.

Ívar Pálsson, 3.2.2009 kl. 11:53

6 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Það er ekki hægt að heyra betur en nýja vinstri stjórnin ætli að athuga og skoða málin áfram.  Stingrímur að fylgja IMF línunni og sé búin að pakka niður stóru orðunum. 

Því miður talar Steingrímur orðið eins og Geir, Jóhanna er sama "skjaldborgin um heimilin" fyrir og eftir stjórnaskipti.  Vertryggingin virðist heilög eins og Jóhanna.

Evran á 220 annarstaðar en hjá íslensku greiðslumiðlununum með gjaldeyrishöftin.

Trúir þú á betri tíð Ívar með núverandi þingmenn á Alþingi?  Ég er forvitinn um hvað þú heldur, því að fáir hafa greint ástandið á eins raunsæjan hátt.

Magnús Sigurðsson, 3.2.2009 kl. 14:42

7 Smámynd: Ívar Pálsson

Magnús, því miður virðist Steingrímur J. ætla að kyngja IMF pakkanum eins og allir aðrir, en leyfum okkur að vona að svo verði ekki. Skjaldborg um greiðslu skulda annarra ætlar að verða raunin.

Línur þurfa að skýrast fram að kosningum, hver framkvæmir hvað en ekki hver athugar og skoðar hvað. Það er von mín að stjórnmálafólkið verði trútt sannfæringu sinni en elti ekki hjörðina að svörtu holunni í miðjunni þar sem ekkert gerist. Þessir tæpu 80 dagar verða spennandi, t.d. stillir Davíð tímasprengju sína á rétt augnablik í aðdraganda landsfunda og kosninga, þar sem gögn og upplýsingar birtast. Spennum beltin!

Ívar Pálsson, 3.2.2009 kl. 15:48

8 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Hefur þú ekki heyrt neyðarópin frá fyrirtækjunum og heimilunum sem tóku gjaldeyrislánin undanfarin ár?  Er ekki verið að ræða björgunaraðgerðir fyrir þessa aðila vegna þess að þeir standa ekki undir skuldunum?  Hvað þyrfti að gera til viðbótar, ef gengið félli um 30 - 40% í viðbót?

Axel Jóhann Axelsson, 3.2.2009 kl. 16:35

9 Smámynd: Björn Kristinsson

Veistu Axel, gerðu ekki ráð fyrir að neinum verði rétt hjálparhönd nema að lengt verður í lánum. Menn skulu greiða þetta upp með húð og hári. Hver græðir síðan á þessu öllu misgengi ? Sá sem keypti lánapakkann af gömlu bönkunum, allavega ekki lánveitandinn.

Björn Kristinsson, 3.2.2009 kl. 16:54

10 Smámynd: Ívar Pálsson

Axel Jóhann, eiga skattgreiðendur að greiða niður gjaldeyristap þeirra sem tóku lán og keyptu eitthvað eða framkvæmdu í of sterkum krónum? Hvað ef þessum sömu skattgreiðendum leist ekki á lántökur í gjaldeyri á þessum tíma, reyndust skynsamir og slepptu þeim en nutu ekki lífsgæða eða tækifæra hinna sem tóku lánin? Eiga þau samt að vera neydd til þess að greiða lánin fyrir þá sem tóku þau og nutu á sínum tíma? Ekki finnst mér það.

Innflutningsfyrirtæki sem náði að safna milljarðaskuldum í góðærinu þrátt fyrir t.d. vaxtatekjur mjólkandi krónuna í uppsafnaða skuld okkar á ekki að bjarga. Hinir ráðdeildar- og fyrirhyggjusömu mega einhvern tíma njóta stöðu sinnar, sem þeir gerðu ekki í góðærinu. Svo þegar hallærið kemur loks, þá mega þeir blæða! Er það réttlátt?

Ívar Pálsson, 3.2.2009 kl. 20:16

11 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Ég er alveg sammála því að menn eiga að vera ábyrgir fyrir sínum lánum sjálfir og skattgreiðendur eiga ekki að greiða þau.  Sjálfur tók ég engin erlend lán og tók ekki þátt í "lánærinu" eða "lánaæðinu" sem gekk yfir þjóðina á undanförnum árum.

Það breytir ekki því að þeir sem tóku þátt í þessu kenna nú bönkunum, ríkisstjórninni og öllum öðrum en sjálfum sér um.  Nú er þess krafist að ég og þú öxlum byrðarnar.  Því óttast ég þennan kór ennþá meira, ef krónan lækkar mikið ennþá.

Í það heila tekið er ég nokkuð sammála þér.

Axel Jóhann Axelsson, 4.2.2009 kl. 13:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband