Bara ef þeir hefðu nú farið!

Við lestur fréttar Mbl.is um banka og ábyrgðir hnaut ég um þessa grein mína frá því í júlí 2008 fyrir hrunið. Smá „flashback“:

28.7.2008 | 11:08

Bankar úr landi?

Væntanleg þjóðnýting ábyrgða bankanna á meðan þeir halda eignunum leiðir huga manns að  því hvort við ættum ekki frekar að hvetja skuldugustu bankana til þess að flytja höfuðstöðvar sínar úr landi. Að öðrum kosti lenda hrikalegar skuldir þeirra og ábyrgðir  á okkur ef illa fer, sem verður æ líklegra.

BNA: Gegn markaðshagkerfi 

Yfirtaka Federal Reserve (nk. Seðlabanka Bandaríkjanna)  á 5,2 milljón milljóna dollara ábyrgðum Freddie Mac og Fannie May fasteigna- veðlánabankanna  sýnir hvernig ríkið getur hlaðið nær óendanlegri ábyrgð á þegnana á einni helgi, eins og að smella fingri. Reiknað var út að virði ábyrgðarinnar vegna þessa væri um 150 milljarðar dollara, en rúmlega helmingur þess fór beint til hluthafanna sjálfra skv. The Economist (19/11/2008 forsíðugrein).  Ábyrgðirnar urðu til af því að ríkið taldi sér skylt að veita þessa vernd til bankanna. Breska ríkið fór eins að með Northern Rock bankann. Í stað þess að láta hann mæta þroti sínu ákvað stjórnin að bjarga honum og skekkti þar með samkeppnisstöðuna, þar sem bankinn færðist úr verstu stöðu, sem hann kom sér í sjálfur, í eina þá bestu, framar flestum öðrum bönkum, enda ríkið ábyrgt.

Þjóðnýting skulda á Íslandi Þjóðnýting?

Á Íslandi stefnir í það að ríkið færi meginþorra skulda og taps bankanna beint yfir á þegna landsins. Það er helst á tvenna vegu. Annars vegar með því að tilkynna að um mikil gjaldeyriskaup ríkisins verði að ræða, en það hvetur bankana og fleiri til andstæðra aðgerða, sem skila þeim milljarðatuga króna hagnaði á nokkrum vikum, en okkur sömu upphæð fátækari í gegn um krónuna. Hins vegar með því að gefa í skyn að um ábyrgð ríkisins sé að ræða á skuldum bankanna. Það hefur aukið lánakostnað trausta ríkisins okkar  verulega, en aðallega myndi það valda gríðar- hruni  krónunnar ef ríkið bjargaði íslenskum banka sem yrði fyrir áhlaupi þegar í ljós kæmi  að stoðirnar væru ekki nægilega traustar, fasteignirnar ofmetnar og  ábyrgðirnar vanmetnar.

Vaxtamunarverslun gegn krónunni 

Einhver segir eflaust núna að ofangreint sé ábyrgðarlaust tal, þúsundir manna hafi atvinnu hjá bönkunum hér og ruðningsáhrif séu mikil. En ábyrgðarleysið er hjá bönkunum, sem verða að horfast í augu við afleiðingar aðgerða sinna síðustu árin. Vaxtamunarverslunin (e. Carry Trade) með krónubréf ofl. er ein helstu rangindin sem við höfum verið beitt, þar sem krónan er gíruð upp, sem ýtir Seðlabankanum til vaxtahækkunar sem gírar krónuna upp frekar, þar til stíflan bregst.  Það hefur aðeins verið greitt inn á þá ofurvíxilskuld sem vaxtamunarverslunin skóp, stærsti hluti hennar er ógreiddur og fellur senn á krónuna.

Ábyrgð Íslendinga á útrás bankanna 

Bankarnir hafa verið stoltir af Edge og Icesave reikningum sínum, þar sem t.d. breskar húsmæður hagnast á því hve Seðlabanki okkar ákvað stöðugt hærri  stýrivexti, margfalt hærri en í Bretlandi. Þetta hefur tekist með flóknum vaxtaleik íslenskra banka. Ef okkur ber gæfa til þess að Seðlabankinn lækki stýrivexti hraustlega, þá gæti grunnur slíkra reikninga veikst (en kannski einnig ef raunveruleg staða bankanna yrði ljós). Umræður eiga sér stað í Bretlandi hvernig færi ef bankarnir sem að baki standa færu í þrot. Ein hugsanleg  niðurstaða var sú að íslenska ríkið greiði allt að 2 milljóna þrot hvers reiknings, en breska ríkið afganginn upp að nær 4 milljónum.  Íslendingar ættu að krefjast þess að stjórnvöld hér staðfesti óumdeilanlega að um engar slíkar ábyrgðir sé að ræða, enda eru allt að 2/3 hlutar viðskipta bankanna erlendis. Hví ætti fámenn þjóð að standa ábyrg fyrir „útrás“ bankanna, þar sem um ógurlegar upphæðir er að ræða og stofnun hvers reiknings hækkar hvort eð er vaxtastig á Íslandi eða grefur undan krónunni með tímanum.

Raunverð fasteigna ratar í bækur bankanna að lokum 

Fasteignaleik bankanna hlýtur senn að ljúka. Þeir mega ekki við því í lausafjárkreppunni að verðmat fasteignaveða þeirra sé lækkað um þau 30-40% sem þau þyrftu helst að gera til þess að sýna markaðsvirði, enda er þá drjúgur hluti nýju fasteignalánanna vel í mínus og því viðhalda þeir ímynd stöðugra fasteignaverða. Ekki er staða banka öfundsverð ef hann er með 1000 punkta (10%) skuldatryggingarálag, ofmetnar fasteignir, hættur að þéna á skuldabréfavafningum og vaxtamunarviðskiptum og hefur lítið eftir nema kaup og sölu krónunnar, sem gefur að vísu vel í miklu flökti núna. Hann verður þá að halda áfram að virka sem fjárfestingalánasjóður úti í heimi, en hátt á áhættukúrvunni þar sem ávöxtunin er drýgri ef vel gengur.

Álögur okkar minnka ef skuldugur banki flyst burt

Ef íslenskur banki færir höfuðstöðvar sínar úr landi, t.d. til Bretlands, þá léttir af okkur ábyrgðum, lánakostnaður okkar og ríkisins lækkar, bankanum er ekki eins auðvelt að leika sér með krónuna sem flöktir þá minna og fer frekar eftir grundvallaratriðum (e. „fundamentals“) í gengi hennar, ss. vöruskiptajöfnuði. Bretar beita banka sína líklega meira aðhaldi en við með eftirlitsstofnunum sínum, þannig að rekstur bankans yrði trúlega gegnsærri. Rými myndast þá á Íslandi fyrir evrópska banka sem veitt geta lágvaxta Evrulán gegn veðum í hágæðafasteignum  með raunsætt verðmat.  Ætli maður bíði þá ekki bara í 2-3 ár eftir því?


mbl.is Nýju bankarnir bera byrðina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband