Bakland stjórnarinnar farið og tálsýnin er úti

Jóhanna Sig. (einmitt!) fellur í fylgi og Samfylkingin með. Fylgið hennar féll um 40% og flokksins um 19%, á meðan Sjálfstæðisflokkur reis um þriðjung, en ríkisstjórnin hangir á vinsældum Steingríms J.

Þessi þriðja ríkisstjórn Samfylkingar á þremur árum fer eins og hinar og svo er samstarfsflokknum ætíð kennt um ófarirnar. Þótt Steingrímur hafi sterkt bak, þá þolir það varla forsætisráðherran hangandi á því og Steingrímur J. fjármálaráðherra ber þessa byrði varla lengur. Hann hefur þurft að kveðja staðfestu sína í helstu málum Vinstri grænna og draga vagn forystulítillar Samfylkingar til ýmissa óheillaverka eins og Icesave- laumusamnings og ESB- umsóknar, hvorttveggja í óþökk þjóðarinnar. Fyrir vikið telur drjúgur hluti flokks hans hann hafa svikið málstaðinn og þurfi að snúa við blaðinu hið fyrsta.

Kannanir sýna að fylgi fólksins við ESB- umsókn og ESB- aðild er sáralítil nema hjá Samfylkingu sem tapar fylgi. 61,5% þjóðarinnar eru á móti ESB- aðild en 38,5% meðfylgjandi. Það eru því 60% fleiri á móti ESB- aðild heldur en með henni (af þeim sem taka afstöðu). Sjálfstæðisflokkur er 75% á móti ESB aðild en 25% með og Framsóknarflokkur nákvæmlega eins. Kjósendur stjórnarflokksins Vinstri grænna  er 70% á móti ESB- aðild, 30% með. Samfylkingin er í hróplegu ósamræmi við hina þrjá flokkana með 80% fylgi við ESB- aðild gegn 20% á móti. Hún stendur því alein að þessu leyti, með sín 24,1% kjósenda.

Augljóst er af ofansögðu að bakland stjórnarinnar til þessarra helstu afglapaverka hennar er nær horfið, ESB- umsóknar og Icesave- afsalsins. Samt sem áður er hvorutveggja haldið áfram, með sínum kostnaði og töfum, þar sem þjóðfélagið helst í lási sínum.

Sjálfstæðisflokkurinn lætur samt ekki segjast, þótt ¾ hluti kjósenda hans sé á móti ESB- aðild gegn ESB- fjórðungi hans. Fátækur  af fé (eftir endurgreiðslu- skyssuna) og ákveðni, þá fæst flokkurinn ekki til þess að taka afgerandi and- ESB afstöðu og fylkja þar með sjálfstæðisfólki og góðum hluta Framsóknarfólks í sínar réttir, með sterkt fylgi og geta þannig tekist á við alvöru ögranir af myndarskap. Málamiðlunin með varaformann sem yfirlýstan ESB- sinna og formanninn að hafa alla góða gengur ekki upp lengur. Það var raunar ljóst þegar á landsfundinum í janúar 2009, þar sem efnahagsmál og lausnir þeirra fengust ekki rædd, aðallega vegna ESB- umræðunnar. 

Niðurstaðan af öllu ofansögðu er því líklegust þessi: Jóhanna víkur til hliðar, t.d. í byrjun nóvember en Steingrímur J. fær stjórnina formlega og lætur lífstíðardraum stjórnmálamannsins rætast. Þá skerpast andstæðurnar og andspyrnan eflist, þannig að blekkingarnar og tálsýnin sem hafa haldið þessari stjórn á floti víkja fyrir hörðum raunveruleikanum. 

Vel gæti komið til þess að úr verði nokkurs konar „Gunnars Thoroddsen- bragð“ eins og 1980 þar sem ráðamanneskja í Sjálfstæðisflokki myndar samsteypustjórn, enda er nægilega sterkur grunnur til þess ef mótstaðan við ESB- aðild (og króa hennar, Icesave) er skoðuð. Sjáum til hvort úr verði, en alla vega er deginum ljósara að hver flokkur þarf að gera hreint fyrir sínum dyrum með skýra mótstöðu við ESB- aðild. Sá sem gerir það fyrst á afgerandi hátt verður sigurvegarinn til langframa og sameinar landsmenn í erfiðleikum þeirra.


mbl.is Sjálfstæðisflokkurinn stærstur á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Sæll Ívar,

velkomin til baka í  baráttuna. Nú þurfa allir Íslendingar að taka á honum stóra sínum og framkvæma ormahreinsun í öllu stjórnkerfinu. Annars sekkur skútan með manni og mús.

Gunnar Skúli Ármannsson, 18.9.2009 kl. 21:19

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Ívar, velkominn til baka.  Verst hvað framtíðarsýnin er nöturleg, þegar eins sannspár maður og teiknar upp framtíðina.

Sammála þér með það "að hver flokkur þarf að gera hreint fyrir sínum dyrum með skýra mótstöðu við ESB- aðild. Sá sem gerir það fyrst á afgerandi hátt verður sigurvegarinn til langframa og sameinar landsmenn í erfiðleikum þeirra."

Magnús Sigurðsson, 18.9.2009 kl. 22:23

3 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Þetta er náttúrlega ekki flokkspólitískt mál í eðli sínu. Svo mér er nánast sama hvað flokkum finnst. Þetta er spurning um að lifa í ævintýraheiminum eitt kjörtímabil í einu. Ef Íslendingar komast ekki inn í ESB verða þeir frystir úti allsstaðar þar sem við vildum helst fá að vera. Til að komast að þessari niðurstöðu þarf maður ekki að vera í stjórnmálaflokki.

Gísli Ingvarsson, 19.9.2009 kl. 12:27

4 Smámynd: Ólafur Als

Sæll Ívar,

ég hef, líkt og þú, verið í fríi frá bloggheimum og allt eins víst að ég haldi því áfram. Ég er þér fyllilega sammála að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki enn náð áttum sínum í stjórnmálaumræðunni, sem helgast m.a. af því að fjölmargir einstaklingar innan hans hafa ekki farið í nauðsynlega naflaskoðun. Fjölmargir "hægr" menn bíða þess að Sjálfstæðisflokkurinn setji fram skýra stefnuskrá um það sem þarf að gera á næstu misserum og að forystan standi sameinuð að baki henni.

Það þarf að huga að innra starfi, t.d. að opna betur fyrir málefnaumræðu og skerpa á þeim frelsisanda sem við viljum sjá í stefnumálum flokksins. En það verður að vera frelsi með ábyrgð, frelsi sem beinir ljósi sínu að litla manninum og afneitar forræði, nema til þess að vernda þá sem minnst mega sín. Hinir stóru og betur settu geta alla jafna séð um sig sjálfir en þó ekki þannig að setja eigi stein í götu þeirra.

Sjálfstæðisflokknum hefur alla jafna gengið best þegar ásýnd hans hefur endurspeglað umhyggju hans fyrir frelsi og auðlegð litla mannsins jafnframt því að renna stoðum undir efnahagslegri velferð allra - í skýrri andstöðu við kreddur ýmiss konar. Mér er til efs að núverandi forysta nái að finnna samhljóm með þjóðinni á meðan saga undangenginna missera er vörðuð spillingarmálum og sérhagsmunagæslu.

Það þarf að segja skilið við heilagt samband við ýmis hagsmunaöfl, þ.á.m. í sjávarútvegi en einnig víðar. Tryggvi Þór, Pétur, Illugi o.fl. ættu að geta komið sér saman um öfluga efnahagsstefnu en það er einnig hægt að sækja út fyrir flokksraðir um góð ráð. Hvers vegna bólar ekkert á vinnu af þessu tagi, manni er spurn? 

Ætli ég láti þetta ekki duga í bili, Ívar, en fjölmargt fleira mætti segja ...

Kveðja,

Ólafur Als, 19.9.2009 kl. 15:02

5 identicon

Sæll Ívar, Írar eru eins og kunnugt er fremstir í andspyrnunni gegn nýja sovétinu, öðru nafni ESB.  Hér er fróðlegur pési frá þeim:

http://www.sovereignindependent.com/downloads/Sovereign_Independent_Issue1.pdf

Gullvagninn (IP-tala skráð) 19.9.2009 kl. 21:28

6 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Gott að sjá,gott að lesa,velkominn.

Helga Kristjánsdóttir, 20.9.2009 kl. 18:51

7 Smámynd: Ívar Pálsson

Takk fyrir kveðjur og athugasemdir, maður var bara orðinn ryðgaður í skriftarleysinu. Gísli minnist á það hvernig við verðum ef við komumst ekki inn í ESB. Sést ekki vel núna hve fáránlega ólíklegt er að það gerist?

Eftir allt ferlið sem rakið var á RÚV í kvöld, fyrirtekt í Evrópuráði, samningaferli, samþykkt í Evrópuráði og samþykkt í hverju og einu hinna 27 aðildarríkja, þá loksins er samningurinn borinn undir þjóðaratkvæði á Íslandi, sem yrði skítfellt í dag! Hví er þá farið af stað með ferlið? Ekki er öll vitleysan eins.

Ívar Pálsson, 20.9.2009 kl. 20:59

8 Smámynd: Friðrik Björgvinsson

Já velkominn aftur.

Ég hef verið þeirrar skoðunar nokkuð lengi að það eina sem gæti komið landinu upp úr þessu bulli væri þjóðstjórn hæfustu manna, ekki stjórnmálamann.

Hvernig hugsa stjórnmálamenn (konur), það er hugsað út frá hagsmunum sem valda skorðum við að finna bestu lausnina. Þetta á að liggja í augum uppi að mínu mati. Ég held að almenn notkun á þessari framsetnignu sé sögð vera að hugsa út fyrir kassann.

Enn annars velkominn til blogheima og við skulum finna á þessu lausn, sem vonandi verður með allt öðrum hætti en þú lýsir svo vel hér að ofann. Ég er stoltur af því að vera íslendingur enn ég er ekki mjög stoltur af íslenskum stjórnmálamönnum (konum) á þessum tímapunkti.

Endilega lestu það sem opnaðist hjá mér um daginn, en ég er ekki hættur því ég tel að við séum órétti beitt með því að hunsa þessi lög, sem ég ræði um á minni síðu. Við skulum sjá hvað gerist á næstunni.

Friðrik Björgvinsson, 20.9.2009 kl. 21:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband