Koltvísýringslosun er ekki kosningamál

Nú funda Kyrrahafsþjóðir um loftslagsbreytingar, ekki um heimsaðgerðir gegn breytingunum, sem flestir vita nú að breytir engu í margar kynslóðir, heldur einungis rætt um hverjar þær eru. Við eyjaskeggjar ættum að skoða þetta mál hvernig það snýr að Íslandi.

Ísland á réttri braut

Nýjasta skýrsla IPCC hóps#3 Sameinuðu þjóðanna sýnir okkur enn fram á það að Ísland er á hárréttri braut, langt á undan sinni samtíð og losar nær ekkert af þeim koltvísýringi (CO2) sem heimurinn dælir út. Umræður um þetta efni hér á landi eru aftur á móti komnar á villugötur, þar sem fólk í kosningaslag fullyrðir hið gagnstæða. Ljóst er að stefna og framkvæmd þessara mála á Íslandi er eins og best verður á kosið, enda sýna tölurnar það. Gefum okkur að skýrsluhöfundar hafi rétt fyrir sér, þ.e. að aðgerðir manna auki meðalhita jarðar, þótt það sé enn umdeilt. Það á sér aðallega stað (77%) með brennslu kolefnaeldsneytis, mest til raforkuframleiðslu. Aðrir helstu orsakavaldar manna eru bruni skóga og kjarrlendis, hrísgrjónarækt og annað sem ekki er stundað á Íslandi.

CO2 losun Íslendinga: dropi í hafið

Raunar er skondið hve mikið er rætt um CO2 losun Íslendinga, m.a. af því að það er hjóm eitt miðað við íslenska náttúru.  Sú stórgóða bók, Íslenskar eldstöðvar eftir Ara Trausta Guðmundsson, segir frá því á blaðsíðu 310 að á síðustu öld, 1900-2000, hafi átt sér stað eldgos hér á þriggja og hálfs árs fresti, en allt að tveggja ára fresti eftir því hvernig litið er á það. Vitað er að hvert eldgos losar gríðarlegt magn af CO2 og öðrum efnum og gastegundum sem teljast gróðurhúsalofttegundir, út í andrúmsloftið. Fastlega er búist við Kötlugosi innan tíu ára og innan tveggja ára með verulegum líkindum. Gera má ráð fyrir því að hörðustu hugsanlegar mótaðgerðir gegn losun gróðurhúsalofttegunda myndu breyta jafn miklu og það hvort næsta Kötlugos hefjist klukkutímanum síðar en það gerði ella.Ísland er hreint

Til fyrirmyndar eins og það er og verður

Aðgerðir Íslendinga gegn mengun heimsins eru til fyrirmyndar. Það staðfestir hinn þenkjandi hluti umheimsins, en ekki stjórnarandstaðan á Íslandi, sem hefur sitt eigið sérstaka mat á þessu. Viðbótar- virkjanir  losa engan koltvísýring og  áliðnaður sem notar slíka orku  losar aðeins brotabrot af því sem notar  kolefnaeldsneytisnotendur gera til sömu framleiðslu.  Alcan sá sig tilneytt til þess að semja  við olíubrennandi Saudi -Arabíu um smíði stærsta álvers í heimi þegar Hafnfirðingar höfnuðu tveggja kerskála viðbót við verksmiðjuna. Þar er hnattræn samviska vinstri vængsins í hnotskurn.

Aðgerðir manna munu engu breyta í kynslóðir

Skýrslur IPCC hafa sagt, að taki þjóðir heims sig verulega á varðandi losun gróðurhúsalofttegunda, sem er alls ekki líklegt, þar sem mestu mengunarvaldarnir hafa lýst sig stikkfría, þá gæti hægt á aukningunni í einhverja áratugi. Nýja skýrslan segir jafnvægi ekki komast á fyrr en á 100 árum eða mun lengri tíma en það. Það heldur enginn því fram að raunhæfar aðgerðir muni kæla niður jörðina innan nokkurra kynslóða. Raunar er bent á það í fyrri skýrslum IPCC að langmest af CO2 fellur að lokum í hafið og þaðan til botns smám saman þar sem efnin síast og jafnast, en það ferli tekur amk eitt þúsund ár. Hafi mennirnir valdið tjóni, þá verður því ekki snúið við á fjórum árum, 10 árum eða hundrað árum, heldur hugsanlega á 1000 árum. Það voru ekki Íslendingar sem ollu þessu tjóni, það verða ekki Íslendingar sem bæta það og líkast til ekki jarðarbúar. Aðeins náttúran sjálf getur leiðrétt slíkar skekkjur, enda er ómögulegt fyrir 6300 milljónir manna að ná samkomulagi um svona mál, þar sem þeir geta ekki einu sinni verið sammála um að drepa ekki hver annan.

Ábyrgð á heiminum? Nei, en gott fordæmi.

Hve langt á ábyrgð Íslendinga á gjörðum umheimsins að ná? Við erum ekki foreldrar heimsins, þó að við gefum oft gott fordæmi, t.d. í orkumálum. Hlýnun á Íslandi er ekki vandamál, nema það hve hratt jöklarnir gætu verið að bráðna og verða lítt virkjanlegir eftir 80-100 ár ef svo heldur áfram. En það bendir okkur á að virkja jökulárnar á meðan það er hægt og kraftur er í bráðnuninni. Loksins þegar vinstri vængurinn vill fara að virkja jökulárnar eftir áratugi, þá er ekkert eftir nema urðin og grjótið, sem allir ferðamenn elska víst!

Við höfum kosið rétt og gerum það áfram

Förum að ráðum IPCC, framleiðum meira af vatnsorku, þá getum við verslað með heimskvóta. Vöxtur þjóðfélaga eykur koltvísýringslosun og við getum ekki stöðvað vöxt þeirra. Skýrslurnar sína að orkuöryggi er aðalmálið, það minnkar CO2 losun verulega. Höldum áfram að sýna rétt fordæmi, verum leiðandi í orkugeiranum.  Aðgerðir  okkar eru eins og  heimurinn mælir með. Fyrir utan það,  þá breytum við engu í bráð. Lesið  bara skýrsluna!
mbl.is Kyrrahafsríki funda um loftslagsbreytingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Góður sprettur Ívar. Ég get skrifað undir margt í þessum texta.

Með beztu Kveðju.

Loftur Altice Þorsteinsson, 9.5.2007 kl. 13:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband