Lánin borga hringavitleysuna

Megintilgangur 18% stýrivaxtanna er víst sá að halda vaxtamunarviðskiptum gangandi, en þau voru rót vandans. Þessir himinháu vextir eru aðeins plástur á holsárið og lækna ekki meinið. Það gefur auga leið að langflestir fjárfestar munu flýja krónuna um leið og tækifæri gefst, enda eru líkurnar sáralitlar á því að fjárfestar treysti bankakerfi sem hrundi, ríki sem er í greiðsluþroti eða gjaldmiðli sem er varla til lengur. Hvað ætlar ríkið að gera þegar útstreymið á fyrstu stundum frjálsrar krónu er augljóst?  Henda tugum milljarða á eftir krónunni til þess að „styrkja“ hana, en endar með að laga aðeins tap flóttamannanna? Seðlabankinn vonar þetta og hitt, en það eru tálvonir. Útflytjendur munu ekki verða píndir til þess að henda gjaldeyristekjum inn í þennan ofn, sem drífur lestina úr landi. Þeir verða að gæta fjár síns eins og lífeyrissjóðir eða aðrir ábyrgir aðilar.

Endalaust gjaldeyrisútstreymi

Tryggingasjóðurinn er 19 milljarðar króna, en ábyrgðarhluti Icesave (Bretland og Holland) er um 600 ma. Einnig gætu slíkir Kaupþings- reikningar í Þýskalandi verið 45 ma. kr. (ísl. hlutinn). Það þýðir um 645 ma. í heildina, þar sem tryggingarsjóðurinn er tæp 3% af því. Þá er bara eftir að fjármagna 97%! Athugið að skuldaupphæðirnar eru miðaðar við gengið núna, en þegar gjaldeyrisverslun kemst á, þá rýkur skuldin upp um tugi milljarða króna, enda er von á geigvænlegu gjaldeyrisútstreymi, allt að 900 milljörðum króna skv. sérfræðingum sem Mbl. ræddi við.

Kröfur upp á þúsundir milljarða

Hingað til hefur varla verið rætt um þá skuldareigendur sem hafa tekið á sig mesta skellinn, en það eru helst bankar, aðallega í Þýskalandi með allt að þúsundir milljarða kröfur í heildina. Þessir aðilar munu eðlilega gera kröfur á íslenska ríkið upp á tjón sitt, þar sem ríkið tók eignirnar en reyndi að skilja þessa stærstu kröfuhafa alveg eftir með nýrri lagasetningu á Alþingi. Ef kröfuhöfunum tekst að vinna mál sín fyrir Evrópudómstólum, þá fáum við ótrúlega bakreikninga eftir nokkur ár. Ríkinu bar ekki gæfa til þess að láta bankana verða gjaldþrota og valdi því þessa þrautaleið, að hætta á það að ríkið komist í þrot.

Krónan heyrir sögunni til

Hver og einn sem skoðar þær gjaldeyrisupphæðir sem um ræðir í öllu þessu samhengi sér að okkur eru allar bjargir bannaðar til þess að bjarga krónunni. Við eigum ekki að gæta hags vaxtamunarspekúlanta lengur, heldur að koma okkur beint í það að geta lifað eðlilegu lífi, án afleiða og skuldabréfavafninga sem vefjast um háls barnanna okkar. Best væri ef okkur tækist að komast í skandinavískan gjaldmiðil, en örlögin draga okkur, sýnist mér, illu heilli inn í móður allrar vandamálaframleiðslu, Evrópusambandið.


mbl.is Ríkið þarf að taka lán fyrir hundruð milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Auðveld og allsendis lögleg leið til að hafa smávegis upp í dráttarvexti Dabba

Hér er um að ræða nauðaeinfalda og snögga fjárfestingu sem gefur vel af sér og er alveg utan við skattakerfið. Þú ferð bara í ríkið og kaupir áfengi fyrir 1-2 milljónir eða bara þann aur sem þú átt til og síðan eftir mánaðamótin skilarðu áfenginu aftur í Ríkið og færð peninginn til baka auk 20-30% ágóða vegna stórfelldra hækkana sem munu skella á um mánaðamótin. Munið bara að passa upp á strimilinn og framvísa honum þegar áfenginu er skilað. Síðan væri auðvitað tilvalið að senda mér svona 5-10% af hagnaðinum eða bara hann allan ef vill. Í guðs friði.

Baldur Fjölnisson, 30.10.2008 kl. 12:38

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þetta er góð greining hjá þér Ívar.  Þetta er það sem mig grunar.  Það hefði verið betra að taka kreppuna út með gengishruni og mikilli verðbólgu heldur en að borga himinháa vexti ofaná allt saman og sitja uppi með fyrirtækin í rúst og tilheyrandi atvinnuleysi.

Ég fæ ekki betur séð en að núverandi valdhafar séu svo rúnir trausti að við sem þjóð komumst ekki frá þessu með þá sem samningamenn.  Ekki einu sinni þó svo að við fengum nothæfan gjaldmiðil.

Magnús Sigurðsson, 30.10.2008 kl. 12:57

3 Smámynd: Ívar Pálsson

Takk fyrir hugmyndina, Baldur. Við bjuggumst að vísu við þessu og gerðum ráðstafanir, en ég læt öðrum um að græða beint á þessu.

Magnús, ég veit ekki hver er fær um að stýra skútunni út úr skerjagarðinum.

Ívar Pálsson, 30.10.2008 kl. 14:26

4 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Innlent - fimmtudagur, 30. október, 2008 - 10:43

Upprifjun í T24: Dómnefnd hálærðra álitsgjafa sagði Icesave bestu viðskipti ársins 2007

icesave5.jpgDómnefnd þekktra íslenskra hagfræðinga, háskólakennara,  starfsmanna greiningardeilda, embættismanna og hagsmunavarða valdi um síðustu áramót Icesave-reikninga Landsbankans í Bretlandi og aukið hlutafé Baugs í FL-Group sem bestu viðskipti Íslendinga árið 2007. Tilkynnt var um þetta val í áramótaútgáfu Markaðarins, viðskiptafylgirits Fréttablaðsins. Samtímis var Jón Ásgeir Jóhannesson, aðaleigandi blaðsins, valinn viðskiptamaður ársins.

Vefritið T24 rifjar þetta upp og upplýsir hverjir álitsgjafarnir voru sem voru svona hrifnir af Icesave og FL-Group fyrir nokkrum mánuðum.

Dómnefndina skipuðu: Ingólfur Bender, forstöðumaður greiningardeildar Glitnis, Edda Rós Karlsdóttir, forstöðumaður greiningardeildar Landsbankans, Svafa Grönfeldt, rektor Háskólans í Reykjavík, Halla Tómasdóttir, stjórnarformaður Auður Capital, Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, Ágúst Einarsson, rektor Viðskiptaháskólans á Bifröst, Ólafur Ísleifsson, lektor við HR, Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, forstjóri Saga Capital, Jafet Ólafsson hjá VBS fjárfestingabanka, Katrín Pétursdóttir, forstjóri Lýsis, Ásta Dís Óladóttir, dósent á Bifröst, Þorsteinn Þorgeirsson, skrifstofustjóri efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins, Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallar Íslands, Hafliði Helgason, fyrrverandi ritstjóri Markaðarins, Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, Gunnar Ólafur Haraldsson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar, Friðrik Már Baldursson, prófessor í HR, Hrund Rudólfsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Milestone og formaður stjórnar SVÞ, Jón Þór Sturluson, aðstoðarmaður viðskiptaráðherra, og Guðjón Rúnarsson, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja.

Auk Icesave og hlutafjáraukningar FL-Group valdi dómnefndin sölu Novators á búlgarska símanum BTC sem ein af þremur bestu viðskiptum ársins 2007.

Taktu eftir, hverjir eru í hop sérfræðingana. 

sama liðið og vill okkur inn  í ESætli spádómsgáfan sé betri nú en í fyrra??????

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 30.10.2008 kl. 14:46

5 Smámynd: Erna Bjarnadóttir

Ívar, hvað þýðir greiðsluskyldan vegna Kaupþing Edge sem FME var að kynna í viðbót við það sem komið er?

Erna Bjarnadóttir, 30.10.2008 kl. 15:05

6 Smámynd: Ívar Pálsson

Takk Bjarni, þetta var athyglisvert. Erna, ég sá bara í Mogganum að möguleiki sé á 45 milljarða króna ábyrgð vegna Kaupþings reikninga í Þýskalandi. Þá er heildin sem komin er: Icesave UK =440, NL=160 og Kaupþing DE=45. En nýja fréttin í Mbl. lítur út eins og ALLIR Edge reikningar séu innan ábyrgðar. Englandshluti Kaupþings Edge átti að teljast undir breska félagið. Hver veit sannleikann?

Ívar Pálsson, 30.10.2008 kl. 16:03

7 Smámynd: Eggert Kjartansson

Sæll Ívar, góð grein sem og margar áður.

Sammála með að "elítan" á Íslandi eins og einn af toppunum í Hollandi orðaði er rúin öllu trausti. "Sviku land og þjóð" var það sem ég fékk ískalt framan í mig hér í Kína. Skuldir samfélagsins eftir bankaræningjana eru skelfilegar og ljóst að það þarf að hreinsa til. Nú er bara að koma sér saman um heiðarlegt fólk sem er laust við hreina eiginhagsmuna pólitík og sjáfsaðdáun. Þetta er okkar land. Land þeirra 96-97% sem munu verða að borga brúsann. 

Getum við ekki komið upp heimasíðu þar sem við tökum upp aðferðir Grikkja nema að við notum ekki steina - kjósum um þau málefni sem varða okkur Íslendinga. Tillögu að forsætisráðherra, viðskiptaráðherra etc og samþykkum inngöngu í ESB etc. Getum við ekki gert þetta einfalt þar sem við erum með um 98% nettengt og þokkanlegan hluta jarðtengdan? 2/3 á að duga til að koma mönnum í skilning um að það er hingað og ekki lengra.

 Kkv,

Eggert

Eggert Kjartansson, 30.10.2008 kl. 16:38

8 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Það er spurning hvort ekki verður að nota aðferð sem gamli hagfræðiprófessorinn ýjaði að; það er að velja fólk af handahófi úr símaskránni til að leysa úr vandanum. 

Allavega er það alltaf að koma betur í ljós að núverandi valdhafar virðast hafa ástundað vísvitandi blekkingar bæði gagnvart sinni þjóð og eins út á við þegar efast var um ágæti bankanna.

Það er spurning hvort ekki er betra að hafa saklausa óvita til að semja um málin en þetta lið.  því eins og Einar Már benti svo snyrtilega á þá höfðu valdhafar ekki vit á að gera það sama og Englar alheimsins gerðu þegar þeir gátu ekki borgað reikninginn á Sögu; þegar þeir sögðu þjóninum að senda reikninginn á Klepp og sanda upp frá borðinu, heldur sitja þeir enn sem fastast til borðs og hafa sett þjóðskránna að veði.

Magnús Sigurðsson, 30.10.2008 kl. 18:20

9 Smámynd: Theódór Norðkvist

Nákvæmlega, lækningin sem notuð er við sjúkdómnum er sjúkdómurinn.

Ein spurning: Er það klárt að þýfið sem Tryggingarsjóðurinn getur ekki bætt erlendum sparifjáreigendum, 600 ma. kr., dæmist á íslenska ríkið?

Theódór Norðkvist, 30.10.2008 kl. 23:26

10 Smámynd: Ívar Pálsson

Takk fyrir hólið, Eggert. Gangi þér vel í Kína. Ekki verð ég með pólítíska heimasíðu, nema þá til þess að berjast fyrir norskri krónu ef þeir vilja okkur, frændurnir.

Magnús, það er fátt til ráða þegar blaðran er sprungin.

Theódór Norðkvist (eins og vinur minn heitinn í rækjunni forðum):  Nei,sem betur fer þá neitar stjórnin að greiða þetta og kýs vonandi dómstólaleiðina. Ef samið er, þá einungis um brot af upphæðinni.

Ívar Pálsson, 31.10.2008 kl. 00:16

11 Smámynd: Kristján Þór Gunnarsson

Ívar; getur það verið að annar ( auka-) tilgangur hafi verið með vaxtahækkuninni ? Með henni jókst ávöxtunarkrafa spariskírteina Ríkissjóða o.þ.l. rýrnuðu sjóðir sem höfðu ávaxtað þessi bréf. Þannig var fólk sem hafði ætlað að vera 100% öruggt; sett sýna aura í slíka sjóði en með vaxtahækkuninni rýrnuði þeir á 1 nóttu um rúm 10% !!! Ég hef ekki hugmynd um hve miklar fjárhæðir eru geymdir í þessum Ríkisbréfum en þarna virðist vera að Ríkissjóður losni undan gífurlegum fjármunum með einu pennastriki.

Það "spaugilega" er að lækkunin er vegna hærri ávöxtunarkröfu en samt er enginn viðskiptavakt með þessi bréf !!! Þannig segir m.a. í tilkynningu frá Landsbanka " Auk þess hafa skuldabréfamarkaðir að miklu leyti verið óvirkir þar sem ekki er lengur viðskiptavakt með íslensk ríkisskuldabré "

Kristján Þór Gunnarsson, 31.10.2008 kl. 10:39

12 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Baldur Fjölnisson, 31.10.2008 kl. 14:25

13 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Þjóðveldið virkaði ágætlega í denn þangað til erlend öfl komu sér upp leppum hér, þá leystist það fljótlega upp ásamt sjálfstæðinu. Nú á dögum hefur fullveldi og sjálfstæði verið mest í orði en á borði síðustu öldina hefur verið rótgróið og hefðbundið erlent eignarhald á bæði stjórnmálamönnum og völdum gögnum á ruslveitum (sem enginn heilvita maður kallar lengur því hátíðlega nafni fjölmiðla). Og fyrirsjáanlega hefur þessu leppadóti núna tekist að útrýma sjálfstæði þjóðarinnar. Fyrir liggur núna háðulegasta inntaka ríkis í sögu Evrópusambandsins þar sem sníkill rennur saman við hýsil eftir að opinberir sníklar hafa verið snapandi um allan heim eftir lánum í algjörlega fallít bú án árangurs skiljanlega og því liggur aðeins fyrir innlimun í Evrópusambandið á algjörum botnkjörum.

Góður punktur hjá KÞG um ríkisbréfin. Skuldabréf eru seld á gengi og hreyfast gengi og ávöxtunarkrafa í gagnstæðar áttir. Hækkandi ávöxtunarkrafa samfara stýrivaxtahækkun þýðir því gengislækkun bréfanna og enn eina eignaupptökuna sem við verðum vitni að þessa dagana.

Baldur Fjölnisson, 31.10.2008 kl. 16:51

14 Smámynd: Ívar Pálsson

Já, ríkisbréfin slakna, enda seldi ég mín þegar lætin voru að hefjast, hætti að safna þeim  og keypti gjaldeyri í seðlum. Planið hjá ríkinu gengur ekki upp.

Ívar Pálsson, 31.10.2008 kl. 18:58

15 Smámynd: Ívar Pálsson

Ath: Gjaldeyririnn fór í box í banka, eg er ekki með neina seðla heima ef einhver skyldi fá vitlausa hugmynd!

Ívar Pálsson, 31.10.2008 kl. 19:00

16 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ívar: Hann Theodór er einmitt yngsti sonur Tedda Norðquist, þess öðlings, sem einnig var mikill vinur föður míns.

Jón Steinar Ragnarsson, 31.10.2008 kl. 21:54

17 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Áttu ekki einhvern að í Noregi, sem getur sett þennan gjaldeyri inn á reikning þar? Skömm að verða af innlánsvöxtum fyrst þú hefur á annað borð náð að breyta drullu í gull? Þeir bjóða að ég held ca. 5.25% vexti. Það er dágott finnst mér.

Jón Steinar Ragnarsson, 31.10.2008 kl. 22:01

18 Smámynd: Ívar Pálsson

Jón Steinar, Theódór yngri hringdi einmitt í mig eftir bloggfærslurnar og við áttum ágætis samtal. Gaman að því.

Það þarf nú ekki að sjá ofsjónum yfir þessum litlu upphæðum sem ég var að ræða um. Þó virðist þú hafa lesið huga minn, því að ég hringdi í norska banka, þar sem margir Íslendingar hafa stofnað reikninga upp á síðkastið. Takk samt fyrir ábendinguna.

Ívar Pálsson, 31.10.2008 kl. 22:15

19 Smámynd: Kristján Þór Gunnarsson

Ívar - við sjáum þá hvenær þú hefur farið í boxið. Hve mikið krónan styrkist þegar þú skiptir yfir í krónur ( ef þá einhvern tíman )skýrist væntanlega af upphæðinni sem í boxið hefur farið:-)  !

Kristján Þór Gunnarsson, 2.11.2008 kl. 22:27

20 Smámynd: Höfundur ókunnur

Heldurðu að IMF setji vikmörk á ISK gegn lánaveitingunni? Að verja ISK er, rétt eins og þú segir, hreint brjálæði.  Seðlabankinn gæti séð það líka ef við gerum ráð fyrir því að þar séu einhverjir með fullu viti. Eina ástæðan sem ég sé fyrir því að við ættum að reyna yfir höfuð að fara út í "varnir" á krónunni væri að þær kvaðir kæmu frá IMF.

Sjálfur sé ég það sem möguleika út úr vandanum að henda sjálfstæðinu. Gerast sýsla í Noregi. Leið SJSigfússonar gengur ekki; Norðmenn lána ekki Íslendingum nema til að græða á því. En ég gæti trúað því að Norðmenn gætu lánað öðrum Norðmönnum (fyrrum Íslendingum) með öðru hugarfari.  Hví ættu Norsarar að gera þetta; jú, þeir eru sjálfir á leið inn í ESB, hafa kosið um það tvisvar. Ef eyjan Ísland er með þeim (sem sýsla eða sjálfstætt ríki) eru samningsaðstaða inn í ESB bætt heilmikið. Fiskimiðin eru orðin gjöfulli, yfirráð í Norðursiglingum (framtíðar Pólsiglingum?) eru meiri. Þetta er allt einhvers virði. 

Noregur væri bara hliðarleikur inn í ESB. Fullveldið er hvort eð er farið og fjármálayfirráð eru engin eftir inngrip IMF.

Höfundur ókunnur, 8.11.2008 kl. 12:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband