Einn banki gerður upp á dag

9000 milljarða virði af skuldatryggingarafleiðum (CDS) íslensku bankanna koma til uppgjörs núna (sjá töflu), einn banki á dag, fyrst Landsbanki Íslands í dag (2400 ma.kr.), síðan Glitnir á morgun 5. nóv. (2.200 ma.kr.) og loks Kaupþing þann 6. nóv. (4.400 ma.kr.).  Uppboð fer fram, þar sem líklegt er að 1,25 – 3% fáist að lokum greidd frá íslensku bönkunum. Ríkið tók bankana yfir og hefur því brugðist sem greiðandi að 97% hlutarins að mati skuldareigenda, sem eru yfir 160 bankar og fjárfestar í skuldatryggingarafleiðum á íslenska banka.

 

CDS bankauppgjorid

Ísland er þar komið í flokk stærstu greiðenda sem brugðist hafa, með um 70 milljarða dollara greiðslufall vegna skuldabréfa íslensku bankanna. Mat markaðarins virðist vera það að eignir bankanna hafi horfið inn til ríkisins. Við tókum því nokkurs konar „Hugo Chavez“ á bankana.

 

Fyrst skuldir bankanna voru svo ótrúlega háar og eignir voru ofmetnar er augljóst að hvorki við né bankarnir hefðum getað greitt skuldirnar. Því er öðruvísi farið en t.d. með Finnland, sem greiddi skuldir sínar eftir sína kreppu. Fjárfestar og bankar munu ekki fara í biðröð við það að komast að á Íslandi, fyrst svona fer. En þetta er eina lausnin, nema sú sem var hugsanlega betri, þ.e. að láta bankana verða gjaldþrota og borga þá frekar sparifjáreigendum heldur en að fá risa- bakreikninga frá skuldareigendum bankanna. Þá hefðu kannski ríki og borg haldið bankatrausti vegna aðildarskorts, en það traust er varla til í dag.

 

Lánin sem íslenska ríkið fær þó fara beint í að borga út væntanlegt gengisfall þegar krónan fer á flot (að kröfu IFM), svo að afgangurinn af íslenskum krónum verður skipt í gjaldeyri á nokkrum tímum eða dögum, hugsanlega 400 til 900 milljarða króna virði. Seljendur gjaldeyris eru einungis til fyrir brot af þeirri upphæð og því getur jafnvægi ekki komist á krónuna. Þetta tiltæki mun reynast okkur Íslendingum dýrt, því að það virðist dæmt til þess að mistakast og lánspeningar okkar fara þar með í súginn á nokkrum dögum.

 

Finninn Jaakko Kiander lýsti kreppu Finnlands á tíunda áratugnum á góðum fyrirlestri í Háskóla Íslands í dag. Hann taldi  hávaxtastefnuna ranga í mótaðgerðunum og að kostnaður samfélagsins hafi verið stórfelldur. Aðrar þjóðir voru í mun betri stöðu og komu Finnlandi til bjargar, en því er ekki eins til að dreifa nú þegar umheimurinn er nær allur í kreppu.

 

Raunar er allt í lás, þar sem ríkisstjórnin vill ekki leggja fram beiðni um gjaldeyrissamstarf við Noreg og hinn kosturinn er Evran með ESB umsókn. Nú sverfur trúlega til stáls. Svo gæti farið að Steingrímur J. fengi starfsstjórn samþykkta í nóvember- desember og kosningar jafnvel fyrr en hann hélt, í janúar komandi. Hlutirnir gerast svo hratt í afleiðuheimi.

 

Kaupthing Bond Auction May Take Iceland Swap Loss to $7 Billion

http://www.bloomberg.com/apps/news?pid=newsarchive&sid=ahVOWWQCm9k0

 

Landsbanki Íslands hf CDS Auction Results, Tuesday 4th November 2008 http://www.creditfixings.com/information/affiliations/fixings.html

Glitnir Banki hf. CDS Auction Results, Wednesday 5th November 2008

http://www.creditfixings.com/information/affiliations/fixings/auctions/current/glitni-res.shtml

 


mbl.is Samson í þrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Getur þú ekki stækkað letrið svo að það sé þægilegra fyrir mig að lesa pistilinn? Fyrirgefðu frekjuna.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 4.11.2008 kl. 20:27

2 Smámynd: Ívar Pálsson

Ég átti í vandræðum með blog.is, en nú er þetta í lagi.

Ívar Pálsson, 4.11.2008 kl. 20:39

3 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Ef ég á að vera alveg hreinskilin þá verð ég stundum skíthrædd þegar ég hugsa um ráðaleysi þeirra sem eru að stýra okkur í gegn um þetta. Hrædd um að þetta verði krappt (kreppt)

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 4.11.2008 kl. 20:53

4 Smámynd: Jóhannes Snævar Haraldsson

Ívar nú lendir þú í að skýra þetta betur fyrir okkur almúganum.

Er hér bara verið að tala um útgefin skuldarbréf? Hvernig er með eignirnar á móti?

Eru ekki sumir lánadrottnar með veð í einstökum eignum?

Hvað í ósköpunum er þetta eiginlega sem verið er að selja????????

Jóhannes Snævar Haraldsson, 4.11.2008 kl. 22:12

5 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Er ekki málið einmitt það að ef rikisstjórnin hefði látið þessa einkavæðingarhugmynd bankanna standa en ekki gripið inn í og þjóðnýtt þá, þá hefðu bankarnir farið á hausinn eins og hver önnur fyrirtæki. Þeir sem áttu hlut í viðkomandi banka hefðu tapað sínu en tapið aðeins komið lítilsháttar við þjóðina að öðru leyti.

Nú er að koma í ljós, eins og margir óttuðust, að þjóðnýtingin bjargar engu. Hún verður hins vegar til þess að tapið lendir af fullum þunga á þjóðinni allri því hún varð ábyrgðarmaður skuldanna með þjóðnýtingunni. Ég skrifa þetta aðallega hér vegna þess að mig langar til að fá það staðfest hvort þetta er í aðalatriðum rétt skilið hjá mér?

Með fyrirfram þökk til þess sem tekur að sér að svara mér og leiðrétta ef með þarf

Rakel Sigurgeirsdóttir, 4.11.2008 kl. 23:14

6 Smámynd: Ívar Pálsson

Það má líta á CDS eins og greiðslufallstryggingu. Nú þegar sýnt er að bankarnir eru komnir í þrot, þá er uppgjör á CDS. Skuldabréf bankanna eru talin nær verðlaus þar sem við, íslenska ríkið, virðumst ekki ætla að greiða skuldir bankanna (þessa 9000 milljarða). Ríkið sölsaði undir sig búið og Alþingi bjó til forgangsröð og reglur. Það er þegar farið að greiða sparifjáreigendum osfrv. en bankar heimsins líta þannig á að röðin komi aldrei að þeim að fá greitt, sem er vonandi rétt, því að annars erum við steikt á teini með allan skuldabagga bankanna, ofan á þann sem er fyrir.

Veð í einstökum eignum virðast fátíð. Ætli AAA skuldabréfapakkar hafi ekki gengið betur á markaði?

Rakel, einkavæðingin var löngu liðin og búin að bæta hag flestra þegar vaxtamunarverslun og afleiður fóru út úr korti. Auk þess seldu margir í raun hús sín til bankanna með 90% lánum og nutu peninganna (ekki ég). Gjalþrot bankanna hefðilíklegra verið öruggara heldur en þjóðnýtingin eða eeignaupptakan sem farið var í.

Ívar Pálsson, 4.11.2008 kl. 23:39

7 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ívar, þú hefur eitthvað misskilið um hvað spurningin mín snerist. Ég er ekki svo illa upplýst að ég viti ekki hvenær einkavæðing bankanna gekk í gegn

Spurningin var reyndar bara í seinni efnisgreininni en það kom sennilega ekki nógu skýrt fram. Þakka þér samt fyrir að gefa þér tíma til að reyna að svara mér

Rakel Sigurgeirsdóttir, 5.11.2008 kl. 00:08

8 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Mér er bara í huga aðgerðir IMF á slysstað. Það má líkja þeim við að leggja eld að hinum slasaða. Allt í aðkomu þeirra dýpkar vandann. Til hvers, kemur svo í ljós síðar því það er nokkuð klárt að þeir hafa agenda, sem ekki er eins dularfullt og hulið og margur heldur.

Nú er bara að bíða og sjá.

Annars...varstu búinn að sjá nýjustu myndbönd Sullumbuller um Sterling stöntið?

Jón Steinar Ragnarsson, 5.11.2008 kl. 00:33

9 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Er það rétt skilið hjá mér að þessar IMF og þá stýrivaxtaaðgerðir miða fyrst og fremst að því að erlendir lánadrottnar (þ.e. jöklabréfaeigendur) geti innleyst þau á betra gengi?

Nú er það yfirleitt svo að þegar skuldari er kominn upp við vegg að honum er einungis lánað til að gera upp fyrri skuldir telji lánadrottnar mögulegt að hann geti endurgreitt nýja lánið.  Það sama og svo fallega er talað til almennings af ráðamönnum þ.e. frysting lána og eða skuldbreyting.

Er ekki akkúrat um það að ræða nú?  Verðum við ekka bara að nota 7 hægri aðferðina þeirra menntamálaráðherra hjóna og skrá nýja kennitölu á Ísland ehf?

Magnús Sigurðsson, 5.11.2008 kl. 07:11

10 Smámynd: Ívar Pálsson

Afsakaðu, Rakel, ég las of hratt það sem þú hafðir skrifað. Þú hafðir skilið hlutina rétt að mínu mati.

Jón Steinar, ég reyndi en mistókst að birta hér lista bankanna sem voru skuldareigendur Landsbankans. Mann grunar að helstu bankar þar séu áhrifaaðilar í IMF, sem hlýtur ekki að vera ánægt með það að Ísland ætli ekki að greiða bankaskuldirnar, sem eru upp á þúsundir milljarða króna.

Það hlýtur að vera mikill þrýstingur á IMF nefndina að pína ríkið til þess að borga sem mest, annars fái það engin lán frá neinum banka eða ríki. En það er þá eins og með Bretana, að þeir vilja lána okkur til þess að við getum borgað þeim. Á þá ekki bara að sleppa því?

Magnús, Ísland er í kennutölubreytingu, það er satt. Við sleppum því líklega að greiða kannski 7000 milljarða af skuldabréfaskuldum bankanna og fáum eðlilega bágt fyrir. Þá eru bara eftir skuldir heimilanna, ríkis og sveitarfélaga, sem eru amk. jafnmiklar!

Jón Steinar, ég hef ekki séð Sterling myndband. Þessi öfgafulludæmi um lánaútþenslu einstaklinga og fyrirtækjafiff eru lýsandi fyrir það sem gerðist í hagkerfinu í heild, sem bjó sér til skuldir upp á kannski 15-17.000 milljarða króna. Það var rosalegt fyllirí!

Ívar Pálsson, 5.11.2008 kl. 09:01

11 Smámynd: Liberal

Góð grein og góðar pælingar.  Ég hins vegar dýrka svona gáfnaljós eins og Svein Elías, sem vilja tala um Íhald og Framsókn, það vantar bara að henn setji inn "kjósa strax" í feitu letri, hástöfum og með tuttuguogsjö upphrópunarmerkjum.  Svona fólk er dásamlegt í kreppunni, því hlátur er ókeypis.

Liberal, 5.11.2008 kl. 11:15

12 Smámynd: Ásgeir Kristinn Lárusson

Mæli með að fólk skoði þessa „crash course“ þætti eftir Chris Martenson til að átta sig á trilljónaævintýrum fjármálaheimsins...

Ásgeir Kristinn Lárusson, 5.11.2008 kl. 12:41

13 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Jón Steinar Ragnarsson, 5.11.2008 kl. 12:50

14 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Ívar, ég er með sterling klippurnar á blogginu mínu, http://gammon.blog.is/blog/gammon/ .

Kveðja, BF.

Baldur Fjölnisson, 5.11.2008 kl. 13:25

15 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Skuldabréfadrasl Glitnis fer líklega á 2% af nafnverði í dag skv. Reuters og toppar þannig Landsbankapappírana (1.25%).

Baldur Fjölnisson, 5.11.2008 kl. 13:33

16 Smámynd: Ívar Pálsson

Takk, Liberal og Benedikt: Ég skil þetta á sama máta og þú. CDS kaupandinn gerir ráð fyrir að fá eitthvað fyrir snúð sinn og mun þá kría á ríkið, kannski með 100% ávöxtun ef hann nuddar í Björgvini greiðsluglaða. En upphæðirnar verður þú að meta sjálfur skv. tenglunum og öðrum fréttum. Þar sést t.d. listi bankanna og upphæðanna sem ég flokkaði og skal birta.

Takk félagar fyrir myndbönd og ábendingar. Skoðum sem mest af þessu til þess að ná betri heildarmynd.

Ívar Pálsson, 5.11.2008 kl. 13:59

17 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Takk fyrir að svara Ívar. Mér finnst þetta vera mikilvægt atriði í þessari fléttu allri saman. Þ.e. að vegna þjóðnýtingar bankanna lentu skuldir þeirra á þjóðinni allri. M.ö.o. að með aðgerðum sínum gerði Seðlabankastjórnin aðeins illt verra. Ég var hins vegar ekki viss um að í því lægi m.a. hundurinn grafinn.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 5.11.2008 kl. 14:02

18 Smámynd: Kristján Þór Gunnarsson

Takk Ívar fyrir góða grein. Ég er samt ekki viss um að ég sé að skilja þetta. Hvað með þær eignir sem fást upp í Icesave reikningana ? Nú sögðu bæði ráðamenn og Landsbankamenn á sínum tíma að eignir ættu að vera til fyrir stærstum eða öllum hluta vegna þeirra inneigna. Einhverja hugmynd um hvernig það uppgjör mun líta út ?

Kristján Þór Gunnarsson, 5.11.2008 kl. 15:05

19 Smámynd: Jóhannes Snævar Haraldsson

 Þetta eru ansi áhugaverðar pælingar. Ef það er eins og þú segir Ívar að bankarnir hafi gefið út þessi bréf og selt (náð sér í lán) út á AAA einkunn en ekki út á veð, eins og við jólarnir þurfum að gera, erum við þá ekki að losna við ansi góðan skuldapakka. Við verðum náttúrulega ekkert vinsæl sem þjóð, skiptir kannski ekki miklu hvort óvinsældarstuðulinn verður 4 eða 6.

Benedikt, það er einmitt þetta með eignirnar sem ég er að meina. Snúa neyðarlögin að því að halda eftir eignunum og senda lánveitendum sem tóku veð í AAA fock merki.

Maður er svo mikið barn í þessu að ég hélt að svona væri gert upp eins og gjaldþrot. Eignir seldar og kröfuhöfum greitt eftir einhverjum reglum.

Og Rakel, þetta var það sem ég óttaðist líka. Að með yfirtöku yrði ríkið ábyrgt fyrir skuldum bankana. Það virðist þó ekki ætla að verða svo miðað við þessi uppgjör. Gjaldið verður nú samt sem áður greitt með háum Óvinsældarstuðli þjóðarinnar

Jóhannes Snævar Haraldsson, 5.11.2008 kl. 15:08

20 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Ég veit ekki hvort ég hef skilið hlutina rétt, ég hef haft afar lítinn tíma til að setja mig almennilega inn í hlutina og upplýsingar eru af ákaflega skornum skammti í þeim Íslensku fjölmiðlum sem ég kemst í.

En í mínum skilningi hefur í  raun enginn Íslenskur banki verið þjóðnýttur.  Þeir eru undir stjórn skilanefnda, samkvæmt lögum, en ég þekki ekki til þeirra laga til að geta sagt um hvort að það í raun snertir eitthvað á eignarhaldi, en leyfi mér að efast um að ríkið hafi í raun "eignast" þá nokkurn tíma.

Síðan er verið (eða búið) að selja eignir "gömlu" bankanna til "nýju" bankanna" og síðan koma "gömlu" bankarnir til með að fara í þrot.  Sambærilegt dæmi er t.d. 365/Rauðsól.

Eftir koma til með að sitja eigendur skuldabréfa á bankana, þeir fá lítið eða ekkert.  Hins vegar gætu þeir ákveðið að fara í mál við skilanefndirnir/Íslenska ríkið, ef þeir telja að eigur "gömlu" bankanna hafi verið seldar á óeðlilega lágu verði til "nýju" bankanna.  Þeir myndu þá fara fram á að þeim kaupum yrði rift.  Þetta gætu hæglega orðið langvinn og kostnaðarsöm málaferli, sem erfitt er að sjá hvernig myndu enda.

Þetta er minn skilningur á þessarri mynd, en eins og ég segi hef ég ekki séð þær upplýsingar að ég skilji dæmið til fulls.  Það væri vissulega þarft verk ef einhver fjölmiðilinn útskýrði gjörninginn fyrir almenningi.

G. Tómas Gunnarsson, 5.11.2008 kl. 15:32

21 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Gjaldið mun aðallega birtast í því að erlent fjármagn mun flýta sér á brott þegar krónan verður sett á flot aftur, með þeim afleiðingum að gengi hennar mun gjörsamlega hrynja. Um er að ræða hundruði milljarða. Stjórnvöldin hafa að sjálfsögðu skipulega tryggt þetta komandi gengishrun með því að lýsa yfir de facto gjaldþroti þjóðarbúsins (að skuldir verði ekki greiddar).

Geir og Davíð hafa reglulega síðustu vikur verið að ljúga því að viðskipti með krónuna séu að fara í gang á ný en ekkert er eða verður að marka þessa labbakúta og það veit markaðurinn mæta vel. Í mótmælum næstu laugardaga hvet ég menn til að mæta með mótmælaspjöld á ensku - fyrir erlenda fjölmiðla.

Baldur Fjölnisson, 5.11.2008 kl. 15:56

22 Smámynd: Ívar Pálsson

Kristján Þór, ég held að Icesave komi þessum upphæðum ekki við, án þess að ég þekki það betur en aðrir. Núna er að vísu einungis verið að gera upp skuldatryggingarafleiður, en vegna eðlis þeirra þá fær kaupandinn skuldbréfið sem lá að baki. Því kemur þetta varla innistæðureikningum við, eða hvað?

Skilanefndir hljóta að nota líkar reglur og við gjaldþrot, en þó náttúrulega eftir nýju lögunum um þær, t.d. með forgang innistæðueigenda á Íslandi osfrv. Varla verður mikið eftir fyrir eigendur skuldabréfa bankanna, sérstaklega ef Icesave í UK og Hollandi ásamt Edge í Þýskalandi verður greitt að einhverjum hluta. En eins og ég hef lýst áður þá er langhættulegasta atriðið öll langvarandi dómsmálin, þar sem skuldareigendur taka ekki á sig þúsunda milljarða skuldir orðalaust. Enginn veit hvernig þau mál fara.

Ívar Pálsson, 5.11.2008 kl. 15:57

23 Smámynd: Ívar Pálsson

Jón Frímann, mér skilst að heildarskuldir bankanna hafi verið um 12000 ma. kr. (þar af skuldbréf 9000ma.). Heildarskuldir þjóðarbúsins var um 12- föld þjóðarframleiðsla, 12x1300 ma.kr.= 15.600 ma.kr. Staðan hefur versnað síðan, t.d. vegna gengis, en hluti bankanna og fyrirtækjanna hefur þegar verið seldur, þannig að það lækkað á móti.

Baldur, við erum sammála sem oftar. En Íslendingar ættu að fara varlega í að benda umheiminum á það að við létum önnur lönd og aðra banka um að greiða langstærsta hluta taps og lánavitleysu okkar. Þýskur almenningur sem sparar margfalt á við okkur þarf að greiða fyrir vitleysuna og minnkar þar með sparnað sinn. Kannski ætti að standa á spjöldunum: "Untschuldigund" (afsakið).

Ívar Pálsson, 5.11.2008 kl. 16:07

24 Smámynd: Jóhannes Snævar Haraldsson

 Þá er þetta að skýrast aðeins fyrir manni! Sem sagt, þeir eru að kaupa skuldabréfin sem "gömlu" gjaldþrota bankarmir áttu að borga til baka í framtíðinni. Þá reikna þeir sem sagt með að það sé möguleiki að kría einhvern til að greiða smá upp í draslið ( væntanlega Björgvin Greiðsluglaða eins og þú kallar hann Ívar)

Eru menn þá í raun ekki að veðja á að það verði stórfeld málaferli og í þeim verði íslenska ríkið dæmt til að greiða (hluta) skuldir bankana.

Jóhannes Snævar Haraldsson, 5.11.2008 kl. 16:17

25 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Þeir sem tryggðu þessar skuldir Landsbankans þurfa sem sagt að borga tryggingatakanum 98.75% af andvirði þeirra.

Fjármálakerfi heimsins hefur tryggt sjálft sig í bak og fyrir gegn eigin hruni sl. 2-3 áratugi með sífellt ævintýralegri instrúmentum og reiknikúnstum og eftir því sem fór að hilla undir gjaldþrot þessa dauðadæmda kerfis hefur kerfið teflt fram siðlausari raðlygurum til að ljúga það áfram í lengstu lög. Og anga þessarrar lygamaskínu höfum við vissulega séð að verki hér á landi.

Baldur Fjölnisson, 5.11.2008 kl. 16:48

26 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Eins og ég hef skilið þetta endar dæmið á því að íslenska þjóðin þarf að blæða. Það er íslenskur almenningur sem greiðir upp skuldirnar með sköttum sínum næstu tvær til þrjár kynslóðirnar. Sú niðurstaða kom út úr þjóðnýtingargjörningi Seðlabankans. Seðlabankastjórnin ákvað að gera þjóðina að ábyrgðarmönnum fyrir skuldum bankanna. Kannski vegna þess að þeir héldu að það mætti bjarga bönkunum þannig en miðað við að þeir fóru nú samt í þrot þrátt fyrir gjörninginn efast ég um þekkingu og hæfileika Seðlabankastjórnarinnar. Nema að við viljum halda að þeir hafi eingöngu ætlað að bjarga vinum sínum sem stjórna bönkunum með því að velta ábyrgðinni af þeim og yfir á þjóðina.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 5.11.2008 kl. 16:59

27 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Gengisfall gjaldmiðilsins þýðir einfaldlega kaupmáttarskerðingu þjóðarinnar gagnvart umheiminum og innflutta óðaverðbólgu. Almenningur hefur síðan orðið fyrir stórfelldri eignaupptöku og horfir fram á hrun húsnæðis framundan, lækkandi laun og minnkandi vinnu. Afleiðingin er því hverfandi verðhækkanamöguleikar í atvinnurekstri sem er að flytja inn verðbólgu í rekstrarkostnað sinn og þarf nauðsynlega að auka tekjur sínar en getur það ekki - lausnin verður því niðurskurður gjalda, uppsagnir osfrv. Við erum með vinnuafl upp á 170-180 þúsund manns og aðeins brot af því er í störfum í rekstri sem hefur hag af gengisfalli. Megnið er í ýmiss konar þjónustustarfsemi sumri það fáránlegri að hún er dæmd til að hrynja þegar dregur saman og í ýmsum atvinnuleysisgeymslum ríkisins, sem vegna eigin gjaldþrots verður að skera stórlega niður og fækka í amk. vitlausustu og mest uppblásnu forsjárhyggjuapparötum sínum.

Baldur Fjölnisson, 5.11.2008 kl. 17:31

28 Smámynd: Baldur Fjölnisson

En þar sem innrætt grúppuhugsun og hópefli og meðvirkni og skipulögð útrýming einstaklingshyggju og sjálfstæðrar hugsunar hafa sett okkur gjörsamlega á hausinn býst ég við mikilli grósku framundan hjá vandamálafræðingum í þessum greinum. Sjálfstortímingarhvöt er greinilega innbyggð í kerfið sjálft. Vandamál skapa þúsundum atvinnu og enginn vill jú  leggja eigið starf niður. Vandamálaframleiðsla hefur því haft sívaxandi efnahagslegt vægi, sérstaklega síðustu 1-2 áratugina eða svo. Gott dæmi um framleiðslu af þessu tagi er skipulögð útþynning og forheimskan skólakerfisins síðasta hálfan annan áratuginn eða svo. Afleiðingarnar sjást ekki síst í treglæsu og -skrifandi liði sem auglýsingaruslpóstur hefur skilað alla leið á álþingi og þarf orðið aðstoðarmenn til að fara yfir stafsetningu og koma bullinu að öðru leyti í birtingarhæft form. Ekki er kyn þó keraldið leki, botninn er suður í Borgarfirði.

Baldur Fjölnisson, 5.11.2008 kl. 18:49

29 Smámynd: Ívar Pálsson

Þetta CDS uppgjör er nokkuð sögulegt, því að þetta er í fyrsta sinn sem uppblásið CDS kerfið þarf að greiða út tjón vegna hruns banka heillar þjóðar í fjármálakreppunni. Tapið er vel meira en vegna Lehman Brothers, sem taldist nú stórt. Afkoma stórra banka eins og BNP Paribas skerðist vegna þessa. Fyrst svona fór með okkar litlu banka, hvernig haldið þið að fari þegar greiða þarf CDS af falli stórra banka? Uppblásið CDS heimskerfið þolir það ekki og m.a. þess vegna er peningum pumpað í bankana erlendis.

Gengismálin eru vonlaus eins og þú lýsir, Baldur. 

Ívar Pálsson, 5.11.2008 kl. 20:41

30 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Já, en allt þetta pumperí, þó risavaxið sé á mælikvarða umfangs ríkissjóða og seðlabanka, er í rauninni bara sem dropi í hafið enda heimurinn margveðsettur upp í topp og búið að slá út á hundinn líka. Þetta vonlausa keðjubréfaæði var logið áfram ótrúlega lengi af siðlausum raðlygurum og nytsömum sakleysingjum og skaðinn hámarkaður skipulega eins og hver maður hefur séð. Menn sem enginn heilvita maður tekur alvarlega hvort sem er utan lands eða innan er síðan haft áfram við völd til að tryggja áfram hámarksskaða. Það hlýtur að koma að því að Geðlæknafélag Íslands álykti um ástandið í förgunarúrræðum þríátta um Arnarhól og vitlausraspítalanum við Austurvöll.

Baldur Fjölnisson, 5.11.2008 kl. 21:01

31 Smámynd: Ragnar Marteinsson

Gömlu föllnu bankarnir voru/eru hlutafélög sem væntanlega verða gerðir upp skv. íslenskum lögum.  Eða gilda einhver önnur lög yfir þá? Kannski alþjóða bankalög?  Eru þau frábrugðin íslenskum lögum hvað takmörkun ábyrgðar snertir?  Kröfuhafarnir mega bara rífast um rústirnar og deila því á milli sín sem þeir ná.  Þeir gera auðvitað athugasemdir við það að öll verðmætin voru flutt yfir a nýja kennitölu .... en hvað með skuldirnar?  Tóku þeir þær einnig yfir?

Ragnar Marteinsson, 5.11.2008 kl. 21:51

32 Smámynd: Ívar Pálsson

Nú kom fram í sjónvarpinu áðan að til standi að gera bankana gjaldþrota (sem er eina vitið og átti að gera strax). IMF ákvörðun kemur líklega núna á föstudag (eftir markaði?) sem þýðir „fjöruga“ helgi og mánudag. Maður getur ekki annað en haft áhyggjur af sparifjáreigendum, því að aðrir kröfuhafar fara að sækja verulega á.

Ívar Pálsson, 5.11.2008 kl. 23:00

33 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ertu nokkuð að segja að íslenskir sparifjáreigendur ættu að bjarga því sem þeir eiga í bönkunum áður en af því verður? Ég ætlast ekki til að þú svarir já eða nei. Ekkert víst að slíkt svar sé til heldur. Mér sýnist bara eðlilegt að draga þá ályktun að gjaldþrot bankanna geti leitt til þess að allar innistæður sem eru geymdar þar séu ekki lengur á vísum stað frekar en það sem þegar hefur glatast í ýmis konar áhættutengdari sparnaði.

Það er líka stór spurning hvernig kröfum í þrotabú bankanna verður forgangsraðað. Það er t.d. hæpið að kröfu Jóns Jónssonar um 100.000,- karlana sem hann átti inni á bankabókinni sinni verði látingagna fyrir margmilljóna krónu kröfu t.d. sveitarstjórnarsjóðanna sem voru í vörslu IceSave.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 6.11.2008 kl. 00:12

34 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Komonn, góðfúslega rumskið. Fyrir 2-3 vikum sögðu raðlygarar ykkur að yrði farið að versla eðlilega með krónuna eftir 2-3 daga. Ef þið ætlið að halda áfram að taka mark á raðlygurum og siðvillingum af því tagi þá látið allavega ömmu ykkar geyma 100 þúsund kall fyrir ykkur til að borga fæðið hjá henni þegar þið standið loks uppi allslaus.

Baldur Fjölnisson, 6.11.2008 kl. 00:31

35 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Plís ... plís ...

___________

22. maí 2008 kl. 11.44 | visir.is

Seðlabankinn segir ekki unnt að slaka á peningalegu aðhaldi

Atli Steinn Guðmundsson skrifar:

Rökstuðningur Seðlabanka Íslands fyrir óbreyttum stýrivöxtum, 15,5%, felst fyrst og fremst í því að gengislækkunin fyrstu þrjá mánuði ársins hafi leitt til meiri verðbólgu í apríl og gæti jafnvel orðið meiri á næstu mánuðum en Seðlabankinn spáði í apríl.

Aukinn innlendur kostnaður og áhrif minnkandi framleiðsluspennu geri það að verkum að innlend eftirspurn dragist verulega saman á næstu árum og húsnæðismarkaðurinn kólni.

Seðlabankinn segir það brýnt að skammtímaverðbólga leiði ekki til víxlbreytinga launa, verðlags og gengis. Háum stýrivöxtum og öðrum aðgerðum sé ætlað að stuðla að stöðugleika á gjaldeyrismarkaði sem sé forsenda þess að böndum verði komið á verðbólgu og verðbólguvæntingar. Gjaldmiðlaskiptasamningar bankans við erlenda seðlabanka hafi haft jákvæð áhrif en leysi þó ekki allan vandann.

Tekur Seðlabankinn að lokum fram að ekki verði unnt að slaka á peningalegu aðhaldi fyrr en sýnt sé að verðbólga sé á undanhaldi enda fátt mikilvægara fyrir efnahag heimila og fyrirtækja en að sú þróun hefjist og verði hnökralítil.

Baldur Fjölnisson, 6.11.2008 kl. 00:34

36 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Að minnsta kosti fimm fábjánar hérna á blogginu taka enn mark á þessarri skítamafíu sem hefur haldið fólki sofandi á meðan eignum þess hefur verið eytt - og ef þú vilt kóa með þessum strumpum þá allavega láttu þá hafa smá pening sem þú telur líklegt að muni hjálpa til að fóðra þig í framtíðinni.

Baldur Fjölnisson, 6.11.2008 kl. 00:41

37 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Þessir nýju ríkisbankar eru í raun jafn fallít og fyrri kennitala aðallega vegna þess að þeir hafa ekkert traust í fjármáheiminum utanlands frekar en seðlabankainn eða þessi skrípamafía sem hér er við stjórn. Án trausts og trúnaðar út á við er allt eins hægt að loka þessum sjoppum endanlega og fá erlenda aðila til að setja hér upp bankastarfsemi. Jafnframt þyrfti að fá erlenda verktaka til að sjá um yfirstjórn landsins. Með þessu móti mætti hugsanlega endurvinna álit landsins og viðskiptavild á 10-15 árum. Núverandi mafía hættir ekki fyrr en allt er stopp hér og landslýðurinn á hröðum flótta úr landi. Þið getið algjörlega bókað það.

Baldur Fjölnisson, 6.11.2008 kl. 17:35

38 Smámynd: Ívar Pálsson

Sem betur fer er Geir H. Haarde farinn að svara afdráttarlaust að við berum ekki ábyrgð á skuldum einkafyrirtækja. Davíð sagði það strax og fékk bágt fyrir að ósekju, en Samfylkingarráðherrar hafa ekki svarað því skýrt. Hver sá sem sá upphæðirnar gat vitað að ekki yrði greitt. Vonandi verður tekin hörð afstaða þótt að það þýði augljóslega mikinn skell, því að ella er forarvilpan til fjölda ára.

Vegna lagalegrar óvissu um þessa gjörninga alla, nýju lögin, bankana og yfirtöku eigna án skuldanna,  þá hlýtur maður að efast um öryggi reikninganna. Margir telja sig örugga, kannski komna með allt í gjaldeyri inn á bók, en þá er það ekki gjaldeyrir, því að ef maður ætlar að taka hann út þá er það ekki hægt. Allt sem á undan er gengið segir manni að ekkert sé öruggt. IMF og þjóðir þrýsta á að við greiðum skuldir bankanna, annars förum við í greiðsluþrot. Það verður þá bara svo að vera, en hver og einn verður að gæta fjár síns og lágmarka hugsanlegt tjón.

Vonandi fer ekki aftur eins og í gamla daga að eldra fólkið er með allt sitt inni á bókum sem brenna upp í gengisföllum og verðtryggingum. Betra ef þau deila þessum Matadorkrónum á börnin sín sem fyrirframgreiddan arf eins og pabbi gerði forðum. 

Ívar Pálsson, 6.11.2008 kl. 22:16

39 Smámynd: Ragnar Marteinsson

Held að best sé að taka út alla aura og/eða rástafa öllu sparifé til að greiða niður skuldir með því að ráðast beint á höfuðstólinn.  Því miður verð ég að giska á algjöra ringulreið í nokkra mánuði því þetta ástand er miklu alvarlegra en við höldum.  Samt gott að við höfum enn netið ....

Ragnar Marteinsson, 6.11.2008 kl. 22:22

40 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Knoll og Tott eru nýbúnir að afhenda Kasper, Jesper og Jónatan þessa banka og nú þykjast Knoll og Tott ekkert ætla að gera með skuldbindingar einhverra einkafyrirtækja. Hahahaha. Og Knoll og Tott ætla að redda þessu öllu fyrir okkur þangað til kemst aftur á friður og ró og einhverjir aðrir geta misnotað þessa jaðarmongólíta og heilaskemmdar fyllibyttur  í förgunarúrræðum umhverfis Arnarhól. Amen og kúmen.

Baldur Fjölnisson, 6.11.2008 kl. 22:30

41 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Góður Baldur. Kann vel við góða Íslensku, hún verður ekki veðsett.

Jón Steinar Ragnarsson, 7.11.2008 kl. 17:12

42 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Vandræðagangurinn eftir að þjóðarbúið fór opinberlega á hausinn einkennist aðallega af helsta vandamáli lygasjúkra sækópata - óvissu og sennilega þverrandi framboði ofurtrúgjarnra hálfvita. Sækópatar þrá öðru femur að ráða yfir öðrum og stjórna þeim og beita hvaða ráðum sem er til að fullnægja þessarri áráttu sinni. Þetta lygasjúka hyski laðast því skiljanlega að ýmis konar sölumennsku þar sem sjálfvirkrar lygaáráttu er krafist og stjórnmálum og siðlausasti úrgangurinn endar yfirleitt þar ef hann getur haldið sig á mottunni póstmódernískt séð og forðast að lenda á brautum sem lenda til varanlegrar fangelsunar og jafnvel lífláts þar sem það á við.

Baldur Fjölnisson, 7.11.2008 kl. 19:21

43 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Vert að kynna sér Joseph Stiglitz nóbelsverðlaunahafa í hagfræði, sem starfaði sem efnahagsráðgjafi IMF og gerðist whistleblower og varar eindregið við IMF WB ITC (international trade commission, sama graut í sömu skál). Hann gerði  þessa útekt á hagkerfinu fyrir seðlabankann árið 2000. Spurnigng hvort menn hafi fylgt því.

Nú væri allavega ráð fyrir Geir og Dabba að spyrja hann úrræða í viðskiptum sínum við sjóðinn.

Jón Steinar Ragnarsson, 7.11.2008 kl. 20:53

44 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Endanlegur votdraumur sækópatsins er síðan að ná því að láta aðra samsækópata fjármagna sig í pólitík. Lýðræði og kosningar eru heilög hugtök og framkvæmd þeirra er þar af leiðandi hafin yfir umræðu og þannig hefur þetta bilaða hyski komist í æðstu stöður. Afleiðingarnar munu án efa halda áfram að verða sífellt skelfilegri.

Baldur Fjölnisson, 7.11.2008 kl. 22:08

45 Smámynd: Theódór Norðkvist

Þetta eru sláandi tölur, Ívar. Ég velti því líka fyrir mér hvort auðlindir landsins séu í hættu, að þær lendi í höndum erlendra stórfyrirtækja og banka.

Kvótinn og mikið af jörðum voru veðsettar og erlendir lánardrottnar hljóta að gera tilkall til allra veða íslensku bankanna.

Mig langar að spyrja þig að einu, sem er óskylt þessu:

Ég sé oft á VISA-yfirlitum að sumar verslanir eru merktar Erlend í dálkinum Tegund. Eru þetta aðilar sem gera upp í evrum?

Theódór Norðkvist, 7.11.2008 kl. 23:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband