Allt er bannað sem ekki er sérstaklega leyft

Á Samfylkingar- og VG árunum hefur almenn skynsemi brenglast á þann hátt að sjálfsagðri athafnagleði landans er haldið niðri með reglunni „Allt er bannað sem ekki er sérstaklega leyft“ í stað heilbrigðu reglunnar „Allt er leyft sem ekki er sérstaklega bannað“, sem er öllu íslenskari í eðli sínu.

 

Bönn á þjóð í losti

Boð og bönn alviturrar ríkisforystunnar eiga víst að vera heildinni til heilla, en hvað ef þau eru vanhugsuð vitleysa sem heldur vexti heilla byggðarlaga niðri og veldur fátækt og vansæld í misskilinni forræðishyggju sinni? Hví á forysta sem valin er út á stór slagorð hennar yfir þjóð í losti að mega dæma almenning til ævarandi þrælkunar þótt þau sitji öll á auðlindum og aðstöðu sem nýta má öllum til hagsbóta án mikillar fyrirhafnar, einungis ef forystan þvælist ekki fyrir?

 

Forgengin tækifæri

Nú hrannast upp mýmörg dæmi um það hvernig þessi nýhaftastefna drepur frumkvæði á skilvirkan hátt. Varla þarf að skrifa listann, skoðum einungis fréttir hvers dags. Þó fréttist ekki af fjölmörgum forgengnum tækifærum, sem visnuðu eins og fræ sem fá ekki vökva og næringu. Bannárátta vinstra valdsins leyfir ekki vaxtarbroddana nema þeir séu frá ríkinu komnir og í gegn um það, hannaðir af nefndum og ráðum sósíalsins. Lítill vandi er síðan fyrir þetta alríki að sýna fram á það að annað virki ekki heldur en módel ríkisins, því að það er það eina sem leyfist að virka.

 

Útópían

Haftaaðallinn hefur aðaláhuga á álögum, ekki tekjum. Í stað þess að leyfa tekjuhlið ríkisins að hækka fordómalaust með öllum skynsamlegum ráðum, þá hafna þessir valdhafar flestu sem fellur ekki að útópíu þeirra um aljafnt þjóðfélag, sléttu með engum fjöllum og dölum, þar sem allir geta hjólað á bændamarkaðinn á ríkishjólinu sínu og keypt sér sjálfbæra agúrku í kvöldmatinn. Á meðan ekur millistéttin til vinnu sinnar í raunveruleikanum þar sem æ minna verður eftir til þess að lifa af með þennan algræðisgamm svífandi yfir sér.

 

Gamminum líst vel á hræið, en þetta er ekki sjálfbært ástand.


mbl.is Telja niðurstöður gagnast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 7. nóvember 2010

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband