Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

Háa vexti og framkvæmdaleysi

Seðlabankinn er fastur í eigin hringiðu hárra vaxta. Hræðsla hans við verðbólgu eykur verulega ásókn spekúlanta í ofurháa vexti með góða tryggingu og lága áhættu. Í stað þess að rjúfa vítahringinn með því að lækka stýrivexti ætlar bankinn að bíða eftir meira atvinnuleysi og vel minnkuðum framkvæmdum og þá ekki strax, heldur eftir tímabil stöðnunar. Lántaka Íslendinga er mest í erlendum gjaldeyri og myndi ekki aukast með lægri stýrivöxtum hér. Það er með ólíkindum að Seðlabankinn kjósi háa vexti og framkvæmdaleysi yfir þjóðina og virðist þá ætla að verða að ósk sinni. Hljómar eins og þversögn, en er  veruleikinn.


mbl.is Of snemmt að fagna sigri í baráttunni við verðbólguna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB gliðnar

Bloomberg er með ágæta grein á vef sínum um ESB á 50 ára afmæli upprunalega sáttmálans. Þar er því lýst hvernig ESB náði hápunkti sínum árið 1991 í Maastricht, þegar 71% Evrópubúa innan ESB töldu sambandið vera gott mál. Nú gefa aðeins 53% íbúanna sama svar. Aðeins um 33% þeirra svara því til nú að þróunin sé í rétta átt.

Ofvöxtur

Ákvarðanataka innan ESB er afar flókið ferli hjá aðildarríkjunum 27 og erfitt að komast að viðunandi málamiðlunum. Í upphafi var miðað við stjórnmálalega samstöðu um bakdyrnar, sem átti við í Kaldastríðsheimi, en nú eru t.d. fyrrverandi Sovésku lýðveldin ófáanleg til þess að afhenda völdin til Brussel, loks þegar þau höfðu náð völdunum af Moskvuherrunum. Þessi ríki hafa mörg hver lága skatta og launakostnaður er lágur þar, sem varð til þess að 14 vestrænu ríkanna loka dyrunum á vinnuafl þaðan. Varnarmál eru bitbein, þar sem austantjaldsríki styðja Bandaríkin á ýmsan hátt, t.d. með eldflaugapöllum og stuðningi við Íraksstríðið. Orkumál eru erfið, þar sem minni ríkjum finnast þau stóru valta yfir sig. Nú ræða leiðtogarnir um það hvort eigi að endurlífga stjórnarskrána (eða sáttmálann), hafa forseta eða forsætisráðherra og jafnvel það sem Belgía vill, stofna Bandaríki Evrópu, með sameiginlegri sköttun og einum herafla.

Alls ekki fyrir Ísland

Það hlýtur að setja hroll að Íslendingum við ofangreindan lestur. Við þetta bætist að um 10.000 manns starfa að hagsmunagæslu í Brussel að staðaldri (sbr. undirgrein Mbl. hér), þar sem Íslendingur er eins og krækiber í helvíti. Verjum frekar EES samninginn eins og kostur er, tökum etv. upp Evruna ef okkur sýnist svo, en látum okkur ekki detta í hug að reyna samningaviðræður þar sem við munum örugglega mála okkur sjálf út í horn. Betur er heima setið.

Grein www.bloomberg.com :

http://www.bloomberg.com/apps/news?pid=newsarchive&sid=aFBCkKvtpYmw


mbl.is Fimmtugsafmæli ESB fagnað í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öskraði af kvölum

Hófdrykkja hefur ekki skaðað neinn sem ég man eftir, en þessi fyrirhugaða drykkjukeppni á Pravda minnir mig á eitt átakanlegasta drykkjuatriði sem ég hef orðið vitni að. Lögfræðingur einn, mikill drykkjumaður þá ungur, svolgraði í sig 1/3 hluta úr vodkaflösku fyrir framan okkur fyrir 25 árum og sagði þetta vera lítið mál. Það tók ekki langa stund þar til hann öskraði svo af kvölum að við hringdum í læknavaktina. Ekki var ákveðið að dæla upp úr honum, en nóttin og næsti dagur var kvalræði. Hann hefur aldrei stært sig af atvikinu, enda verður enginn meiri maður á því að djöflast svona á lifur, nýrum og líkamskerfinu yfirleitt.

Auglýst heimska

Að auglýsa og standa fyrir hópaðdáun á svona heimsku er ennþá meiri vitleysa, meiri en stóð í Pravda forðum. Ábyrgð eigenda er augljós, þótt þeir láti þátttakendur skrifa upp á annað, þar sem þeir æsa til atviksins, vitandi til áhættunnar sem því fylgir. Hvað ef einhver ber varanlegt heilsutjón af? Eru Pravda- menn tilbúnir að axla þá ábyrgð? Þau treysta kannski á þá staðreynd að lifrarskemmdir og magabólgur koma ekki í ljós fyrr en löngu síðar, en það er mál "sigurvegarans" í drykkjukeppninni. Samkvæmt lögum má fólk ekki æsa til uppreisnar, en það hlýtur að vera gert ráð fyrir því að skemmtistaðir æsi áhættuglöð ungmenni ekki upp í því að fremja andlegt og líkamlegt HaraKiri til múgskemmtunar. Ef það er einhver glóra í staðarhöldurum Sannleikans, þá hætta þau við keppnina á meðan hægt er.


mbl.is Ölgerðin kemur ekki að drykkjukeppni með neinum hætti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gúgglaðu sjálfan þig!

"Gúgglaðu sjálfan þig!" hefði Sókrates eflaust sagt í dag. Öllum er hollt að slá nafninu sínu inn á Google leitarvélina af og til og fletta þar áfram síðurnar. Núorðið er ekkert til nema að það sé til á netinu. Þú ert kannski svo heppin(n) að vera ekki til þar, en líklegast kemur það þér á óvart hvaða ómerkilegu upplýsingar eru einu heimildirnar sem til eru um tilveru þína. Vitneskjan um það að þær verði þarna til eilífðar heldur kannski fyrir þér vöku.

Þinn að eilífu

En lítum kannski frekar á þessar upplýsingar eins og þær sem komu fram í Þjóðviljanum og Morgunblaðinu í alþjóðamálum í kalda stríðinu. Einhverjar upplýsinganna geta verið rangar, villandi eða gefa ekki raunsanna heildarmynd af einstaklingnum, en í stað þess að rembast við að leiðrétta eitthvað sem ekki er hægt að færa í rétt horf, þá ætti hver og einn að útbúa gögn um sig sjálfan, sem gefa réttari mynd að hans mati. Fæstir eru tilbúnir til þess að ganga þannig fram fyrir skjöldu og bera kannski tilfinningar sínar á torg, en okkur er þetta nauðugur kostur, eins og netmálum er fyrir komið. Áður fyrr hefði fólk sagt að slíkt væri eins og að skrifa minningargrein um sig sjálft, fullt af sjálfbyrgingshætti, en flestum sem skoða þetta mál í dag hlýtur að vera ljóst að lausnin sé að bæta við upplýsingarnar, í stað þess að vona að aldrei komi neitt á netið um þá sjálfa.

Greypt í Google stein

Ég "gúgglaði" mig í gær og sá eitt og annað nýtt sem opnaði augu mín, sérstaklega hól og réttmæta gagnrýni á greinarskrif mín sem hafði komið fram á www.malefnin.com án þess að ég vissi, en hefði gjarnan viljað sjá þegar það var í gangi. Það virðast vera nokkrir vettvangar skoðanaskipta í gangi og flóran er merkilegri en mig grunaði fyrir tveimur vikum þegar ég byrjaði að blogga. Það kemur helst á óvart hve ódugleg við erum (á blog.is) að koma með athugasemdir við blogggreinar, en kannski er það vegna þess að maður vill ekki setja sig í hóp með dónum og fagkverúlöntum sem vaða uppi af og til. Annars getur fælnin líka orsakast af því, að ein lítil athugasemd sem sett er fram á vefsíðu eða bloggsíðu einhvers verður síðan framarlega á Google um alla tíð eins og dómur um karakter manns, greyptur í stein. Ég mæli því eindregið með því að fólk með skoðanir komi sér upp bloggsíðu sem það ræður alveg sjálft og getur gert grein fyrir sér að lyst. Allt sem frá manni fer ber þó að ígrunda eilítið áður en það er greypt í netstein, nema hól um aðra, sem aldrei er nóg af.


2006 gaf þeim 3 milljarða

Þrír milljarðar í laun og kauprétti fyrir stjórnarformann og forstjóra Kaupþings árið 2006 virðast ekki hafa nægt þeim. Hvað eru hluthafar Kaupþings að hugsa? Ef bankanum gengur vel áfram, þá þynnist eign hluthafanna stöðugt út til stjóranna, sem ráða öllu að lokum. Þessi umbun á víst að halda þeim við efnið og tryggum hjá félaginu, en hún lækkar í raun hugsanlega arðsemi nýrra hlutafjárkaupenda. Síðan, ef syrtir í álinn, þá þarf samt að greiða út milljarða til þeirra, sama hverju reksturinn skilar. Eins og í bréfakeðju, þá byggir allt á því að viðbótar bréfakaupendur fáist, svo að dæmið gangi upp. Hver lætur blekkjast til þess?
mbl.is Stjórnendur Kaupþings fá kaupréttarsamninga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heilsa og fiskur eða pítsurusl

Hugsum um það sem máli skiptir. Manneskjan er hér á jörðu til þess að fjölga sér, koma genunum áfram.  Gæta síðan afkvæmanna, veita þeim skjól og næringu og stýra þeim í rétta átt til sjálfsbjargar og sjálfstæðrar hugsunar.  Erum við að gera þetta í dag?  Hver getur sagt að hann eða hún sé með forgangsröðina á hreinu? Góð heilsa verður að vera til staðar til þess að geta gert nokkurn skapaðan hlut fyrir mann sjálfan, hvað þá fyrir aðra. 

Ábyrgð á heilsu annarra líka

Ef nægileg ábyrgðartilfinning fyrir eigin heilsu er fyrir hendi þá nær sú ábyrgð líka yfir börnin og fjölskylduna sem heild.  Flestir vita hvað er gott eða slæmt fyrir þá og þeirra nánustu, en gera flest annað en gott þykir.  Eitt helsta framfararspor mannsins var það þegar hann fór að safna mat og hugsa til vetrar.  Sá sem stríðelur sig í dag á rusli án hreyfingar fyrir sig eða aðra í fjölskyldunni er sannarlega ekki að hugsa til nánustu framtíðar, hvað þá til langframa eða til viðhalds stofninum.  Neyslan hefur einnig áhrif á geðheilsu, sem nánast gengur í ættir eftir hegðunarmynstri, því að neysla og lífshættir móta einstaklingana sem eiga þátt í að móta afkomendurna. 

Leiðir skiljast í móðurkviði

Leiðir þeirra sem neyta hollustufæðu ungir og hinna sem lifa á rusli skiljast mjög snemma, þar sem þeim í hollustunni gengur betur í námi og ná lengra en aðrir.  Börn þeirra mæðra hafa strax forskot í líkamsvexti og atgervi öllu, t.d. með skilvirkari heila ef fiskneysla hefur verið góð.  Mannskepnunni hefur hvarvetna reitt vel af þar sem fiskur hefur verið drjúgur hluti neyslu hennar.  Þetta er nokkuð augljóst þegar skoðað er menntunarkort Bandaríkjanna, þar sem æðri menntun er langmest með ströndinni og upp með Mississipifljóti, í beinni samsvörun við fiskneysluna, á meðan fólkið inni í landi borðaði allt annað en menntaðist minna.  Það gæti þá verið að fólk með virka heila hafi sóst eftir félagsskap sinna líka eða jafnvel til neyslumynsturs sem það sá að gaf af sér hæfa einstaklinga í samkeppni tegundarinnar.

Íslendingar og Japanir

Nýlegar rannsóknir benda til þess að Neandendalsmenn hafi lítið eða ekkert neytt fiskjar enda dóu þeir út í samkeppni við Homo Sapiens manninn, sem við erum komin af (a.m.k. flest!). Íslendingar og Japanir, heimsmethafar í fiskáti hafa þótt standa sig vel að ýmsu leyti, t.d. í langlífi og frumkvæði, en eitthvað hlýtur að saxast á forskotið þegar áhrifa pítsukynslóðarinnar fer að njóta eða gæta, því varla er það að njóta.  Hertar jurtaolíur hafa t.d. ekki hjálpað mörgum til heilsu og sjálfsþurftar. Japönsk börn borðuðu hvalkjöt (Omega3- ríkt)  framan af öldinni. Fiskafurðir, kindakjöt, íslenskt grænmeti, ásamt skyri er það sem hefur gert okkur að því sem við erum í dag, þ.e. þau sem hafa húkt á skerinu í hundruð ára.  Það gildir áfram, því að sannleikurinn um fæðuna hefur ekkert breyst. Enn er tími til þess að snúa til betri vegar, því að jafnvel háaldrað fólk fær einhvern bata þegar það fer að taka lýsi og borða meiri fisk.

Vinir mínir segja að sem betur fer hafi móðir mín gefið mér lýsi og verið menntaður uppeldisfræðingur. Hvernig hefði þetta annars farið!


20 þúsund rammar á sekúndu

Myndskeiðið af fallandi dropanum dáleiðir mann. Þetta slær út hippa- hraunlampana! Rannsókn Dr. Sigurðar Thoroddsen í Singapore.


30.000 krónur á mínútu allt árið

Það er skondið að fylgjast með því þegar fólk yfirgefur einn banka fyrir annan af hugsjónaástæðum eins og er að gerast þessa dagana eftir að Bjarni Ármansson forstjóri Glitnis nýtti allan kauprétt sinn og hagnaðist um rúmar 380 milljónir á því, enda aðeins 144 milljónir í laun og hlunnindi eða 5500 kr. á vinnumínútu alls samanlagt.

Hvernig er Kaupþing?

Þau sem hugleiða flutning vegna hugsjóna ættu fyrst að skoða hvar aðrir standa að þessu leyti og kemur Kaupþing náttúrulega fyrst í hugann. Þar margfaldast allar slíkar tölur með tveimur, þar sem Sigurður Einarsson og Hreiðar Már Sigurðsson fá allt jafnt. Þeir leystu út hagnað á kaupréttarsamninga upp á 674 milljónir hvor (ofan á 140 milljóna laun) og kostuðu bankann því 1.588 milljónir árið 2006. Bjarni er því aðeins þriðjungur þeirra. Þó er ekki öll sagan sögð um þessa stjórnendur Kaupþings árið 2006, því að þeir leystu aðeins út hagnað á hluta þess kaupréttar sem þeir nýttu sér þann 3. mars árið 2006(sbr. frétt Mbl. sd.): 1.624.000 hlutir á genginu 303 og 1.000.000 hlutir á genginu 740. Ef þeir hefðu selt alla þá kauprétti sem þeir nýttu á árinu 2006, nú þegar gengið var 1044, þá væri heildarupphæðin um 3.000 milljónir. Fyrir hverja klukkustund af bankaárinu 2006 greiddi Kaupþing því í raun til þeirra félaga um 1,875 milljónir eða þrjátíu þúsund krónur á bankamínútu.

En Landsbankinn?

Ef einhverjum finnst ofangreindar upphæðir fullháar og vill því færa sig frá Kaupþingi eða Glitni til Landsbankans vegna þessa, þá fýkur fljótt í hugsjónasporin. Eignarhaldsprósenta einna ríkustu feðga í heimi í Landsbankanum er það há, að hægt er að telja bankann þeirra eigin fyrirtæki, þar sem aðrir eigendur fá að fljóta með og njóta velgengni feðganna. En gleymum eignarhaldinu og höldum áfram með stjórnendur: Sigurjón og Halldór fengu líklega um 330 milljóna króna laun saman, en nýttu engan kauprétt á árinu. Þó er ekki öll sagan sögð: Samkvæmt ársreikningi L. Í. eiga þeir ónýtta kauprétti á um 159 milljónir að nafnvirði, þar af eru 99 milljónir á genginu 3,58 til 14,25, en gengi Landsbankans er 32,0 þessa stundina. Erfitt er að finna diplómatíska stund til þess að leysa þetta út, því að hagnaðurinn þeirra tveggja stjórnenda getur varla orðið minni en þrír milljarðar, þannig að þeir standa þá jafnir Kaupþings- stjórunum.

Sparisjóðirnir?

Þá hlýtur hugsjónamanneskjan að fara með spariféð sitt (hver á slíkt?) og viðskipti yfir í einhvern sparisjóðinn. Þar hlýtur að vera um lægri laun að ræða og ekki hægt að greiða stjórunum í formi valrétta á hlutafé eða annarra framvirkra samninga. En athugum það nánar. Launin sjálf þykja ekki slæm hjá stærstu sparisjóðunum, en haldbærar tölur liggja ekki fyrir. Fyrst nýleg lög um sparisjóði meinuðu þeim að breyta þeim í hlutafélög og stofnfjáraðilum að eignast sjóðina þannig, þá fóru þeir Krýsuvíkurleiðina, uppfæra stofnfé og greiða arð eins og hægt er, ásamt því að vera með stofnfjármarkað. Á nokkrum árum þá eignast stofnfjáraðilarnir þannig sparisjóðinn, þótt ekki sé það beint að nafninu til. Enginn annar hefur þennan rétt og sjálfseignarsjóðir verða ekki búnir til. Eignin er því stofnfjáraðilanna, sem eru gjarnan stjórnendur sparisjóðanna, fjölskyldur og vinir þeirra, eða þá nýir fjárfestar. Þessar upphæðir eru drjúgar, þar sem venjulegur eignarhlutur marfaldast hvert síðastliðinna ára. Þannig er  milljón fyrir 7 árum orðin tugir milljóna í dag í sumum tilfellum.

Hvert fara viðskiptin þá?

Ráðleggingin til hugsjónafólksins er því sú, að stunda sín bankaviðskipti óháð tilfinningum sínum eða þeim ímyndum sem bönkunum hefur tekist að skapa, heldur þar sem tölurnar sýna að peningunum verði best og traustast fyrir komið. Kannski er það í gjaldeyri í geymsluhólfi einhvers bankans?

Ársfundir

Það sérstæðasta við allt ofangreint er það, hve lögmál Parkinsons um stórar upphæðir virka vel. Það varð allt vitlaust á Íslandi þegar bankastjórarnir fengu 50 til 100 milljónir í kaupauka um árið. En þegar hann er tíu til þrjátíu sinnum meiri, þá rétt heyrist kurr. Einnig eru ársfundirnir algjör brandari. Þar sem eigendur og stjórnendur hagnast hrikalega, þá eru kosningar rússneskar og umræður engar, enda um hvað á að ræða? Hvaða vitleysingur fer að gaspra um óánægju sína yfir því að hagnast endalaust? Það er ekki fyrr en skellir koma á reksturinn sem kurrið um kaupréttina verður að öskri, en þá er þetta allt geirneglt og var frágengið árum áður, þegar allt lék í lyndi eins og nú. En svona er eðli framvirkra samninga.

PS: vinsamlegast sendið mér leiðréttingu í athugasemdadálkinn ef um talnaskekkju eða misskilning er að ræða. Byggt er á ársskýrslum bankanna fyrir árið 2006 og á fréttum Mbl.

 


2 á móti 98

80/20 reglan, sem hefur verið nær algild, er á undanhaldi. Það var jafnan talið að fólk notaði t.d. 20% af fötum sínum 80% af vökutíma sínum. 80% viðskiptavina færðu manni aðeins 20% af hagnaðinum, á meðan 20% þeirra skópu 80% af hagnaðinum. 80% vinnunnar fara í 20% afrakstursins og 20% hennar skapa 80% afrakstursins. Hægt er að yfirfæra þetta á flest í heimi hér. En nú gerist sú spurning áleitnari, hvort hlutfallið sé ekki frekar 98/2 eða 2/98 heldur en 20/80. Svissneskur vísindamaður, skólafélagi minn, sagði t.d. um daginn að þau í vísindahópi hans veittu því eftirtekt að af þremur milljörðum DNA (e: nucleotides) í manninum þá eru 98% þarflaust rusl (þeirra orð!) á meðan hin tvö prósentin ákveða hvort einhver er ljóshærður, með blá augu eða hvaðeina. Allt annað má líta á sem fylliefni!

Ráða 2% okkur í raun? 

Við getum freistast til þess að færa ofangreinda "reglu" yfir á aðra þætti lífsins og umhverfisins, jafnvel mannlífsins. Vel getur hugsast, að af  6,581,102,838 manneskjum sem byggja þessa jörð einmitt núna, þá ákveði í raun 2% þeirra, 131.622.057 manns, hvað hinir taka sér fyrir hendur, eða á Íslandi, að sex þúsund manns geri slíkt hið sama við okkur hin. Kannski hefur náttúran kennt okkur að þau komist af sem eru leiðitöm í hópi, þannig að flestir sem slíta sig út úr hjörðinni lifa ekki af, þegar til langs tíma er litið. Því taka fæstir áhættuna á því að breyta út af hegðun hópsins, sem ákvarðast gjarnan af hæfum einstaklingum. En það er samt vel erfitt fyrir níutíu og átta prósentin að sætta sig við það að þetta sé einhvers konar náttúrulögmál  og því fer meginorka leiðtoganna oft í það að sannfæra hina um ágæti kerfisins eins og það er. Þótt slíkt hljómi eins og einræði, þá er aðhald hópsins sem heildar nokkurs konar lýðræði og virkar t.d. vel sem slíkt hér á landi.

Dregið í dilka Far Side bollinn minn

Það sem vert er að benda á er það hversu auðvelt er að greina fólk í hópa og hafa síðan áhrif á hvern hóp með auglýsingum og þrýstingi.   Markaðsrannsróknir mínar í námi með þáttagreiningu komust að 98% vissu um það hvaða naglalakkstegund hver miðmælandi notaði, út frá skoðunum hennar, áður en hún staðfesti tegundina. Það kom hverri og einni á óvart, því að auðvitað taldi hún sig sérstaka. En 98% okkar er hægt að draga í dilka eftir skoðunum og lífsháttum.

 
Allir suði jafnt, ekki í gusum! 

Eitt helsta vandamál tveggja prósentanna getur verið flökt í almenningsáliti á einhverju máli þar sem þörf er á langtímasjónarmiðum. Það reynir verulega á staðfestu leiðtoganna þegar slíkt gerist. Allt í einu lýsast allir upp í einu eins og eldflugur í tré sem ég sá eitt sinn í Vermont í Bandaríkjunum. Allt var hljótt í myrkrinu þar til einhverjar flugur byrjuðu að suða og lýsast upp og tréð var orðið að háværu jólatré á skammri stundu. Síðan lauk því jafn snögglega og allt varð hljótt. Ef mannlífi er stýrt með þessum hætti, þá er hlutskipti þessa sex þúsund manna ekki öfundsvert, að reyna að halda stefnu á hópnum eða að láta alla suða jafnt og þétt, en ekki í gusum.

Finnur þú nokkuð til vanmáttar þíns við þessa lesningu?


Vísindi, dropar og Decode

Vísindin heilla mig æ meir. Það er með ólíkindum hve eljusamt fólk getur verið í leit sinni að örlitlum sannleika að því er virðist, þrátt fyrir andstreymi og jafnvel athlægi er það verður fyrir einhvern tíma í þessu ferli.  Vísindamaður einn, prófessor dr. Sigurður Thoroddsen í Singapore, mágur minn, er dæmi um þetta.  Þegar hann var að mæla og reikna út vindsveipi um skýjakljúfa eða vindmótstöðu skíðabrunkappa, þá skildi fólk það mætavel, en þegar hann fór að rannsaka fall blekdropa á blað og var alvara með það,  þá héldu margir að hann væri eitthvað að tapa sér. Thoroddsen drop

Öðru nær, hann skoðaði dropana sína ofan í kjölinn, dropinn holar steininn og hann hélt því áfram í áratug og núna í annan.  Farið er dýpra og dýpra ofan í viðfangsefnið þar til niðurstaðan er stórkostlegt sjónarspil með hjálp japanskrar ofurmyndavélar sem tekur allt að eina milljón mynda á sekúndu!  Hver sveifla í kanti dropans er reiknuð út með flóknum stærðfræðiformúlum og náttúrumynstrin sem skapast eru með ólíkindum, þrátt fyrir smæð sína, eins og sést á meðfylgjandi mynd.  Hvort nokkuð af þessu er praktískt á beinan hátt á eftir að koma í ljós og skiptir í raun ekki máli, heldur það að þekking okkar eykst.

Íslensk erfðagreining (Decode) hefur þegar eytt milljörðum í þekkingarleit sinni að skrá hvert einasta gen mannsins og að tengja þau við sjúkdóma, en krafa umheimsins um að allt borgi sig strax er fullhörð, þar sem sannleiksdroparnir taka sinn tíma að hola steininn.  Sú þekkingareign sem bundin er í fyrirtækinu og starfsfólki þess er verulegur vegsauki fyrir íslenska vísindastarfsemi og má aldrei gleymast í dægurmálaþrasi.

Við styðjum best allt vísindafólk með því að þakka þeim fyrir þrákelkni þeirra við sannleiksleitina.  Við vonumst til að þau geti haldið áfram á fullum krafti, þrátt fyrir landlægan skort á skilningi og stuðningi.

 


Næsta síða »

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband