Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007

Fullt tungl, en fólkið?

Fulla tunglið sem ég tók mynd af áðan var fyrst hulið slæðu, síðan með hálsklút og tróndi loks blindfullt  í Tvíburamerkinu. Fullt tungl með slæðuTungl med klútÞað þýðir samræður, dans og fjör. Eða er það ekki laugardaksvöldið sem skapar þannig aðstæður?

Það kemur vel út að afrita skýru myndina, draga saman og setja upp í horn á tölvuskjánum, þar sem það dinglar sér. Smellið þrisvar á myndina til þess að ná henni skýrri í fullri stærð.

 

Fullt tungl i Tviburamerki


Bankar í afneitun

Samkeppnisfærni banka með hátt skuldatryggingarálag miðað við aðra er ekki mikil. Helsti möguleikinn á því að kría út einhvern vaxtamun er þá ef Seðlabankinn hækkar stýrivexti enn meir. En þá hækkar skuldatryggingarálagið strax enn frekar vegna aukinnar áhættu hjá þjóðinni og kallað er á aðra stýrivaxtahækkun. Glórulaust er að feta þessa braut.Skuldatrygg CDS Isl banka

Þann 25/5 2007 benti ég á óstöðugleikann sem býr að baki, í greininni „Stöðugt ástand?“ (líka hér niðri til vinstri). Einnig í blogginu „Vextir lækka ekki“ . Nú tóku tölurnar enn eitt stökkið eins og sést á pílunum yfir gömlu greinina á myndinni. Vert að skoða sögu Brasilíu þar að þessu leyti á línuriti Deutsche Bank. Þá sést hvað svona CDS kostnaður getur margfaldast.

Áhyggjur fólks vegna stöðu íslenskra fjármálafyrirtækja snarjukust í gær þegar reynt var að róa okkur með því að til þess að fara í greiðsluþrot þyrfti Kaupþing að afskrifa meira en 12% af heildarlánasafni sínu, en líkurnar á því séu hverfandi. Mér er spurn, af hverju teljast þær hverfandi? Markaðnum finnst það greinilega ekki. Á meðan stærstu bankar í heimi þurfa að afskrifa hundraða  milljarða dollara „virði“ af bréfastöflum með merkilegar skammstafanir, er þá einn áhættuglaðasti banki síðustu ára nær stikkfrí að þessu leyti, sem keypti meir að segja annan slíkan, NIBC bankann? Þótt íslenskir fjármála- og stjórnmálamenn fari mildilega hver með annan, þá er alþjóðamarkaður harður húsbóndi og hann er kominn heim úr löngu ferðalagi að vitja bæjar síns uppi á norðurhjara. Það er eins gott að allir séu með sitt á hreinu!


mbl.is Álag á skuldatryggingar viðskiptabankanna aldrei hærra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veð íslenskra banka?

Landsbankinn greindi Kaupþing þannig fyrir tveimur vikum, að „svimandi hátt“ skuldatryggingarálag upp á 160bp (1,6%) væri verulegur óvissuþáttur fyrir Kaupþing. Nú hefur það hækkað um amk. 74% síðan þá (en um 1000% frá mars sl.) upp í 278bp (2,78%).

Landsbankinn sagði sanngjarnt virði Kaupþings vera 1150 á hlut þá en það var þá 1126 og er 916 núna (-18,6%). Kaupþing og íslenska krónan eru að langmestu leyti háð veiku Jeni eins og ég hef útskýrt áður, en Jenið hefur styrkst verulega á þessum tveimur vikum. Því er varla hægt að draga aðra ályktun en að greining Landsbankans líti svo á Kaupþing í dag að þau séu all- nálægt undirvogun, svo ekki sé dýpra í árinni tekið.

Hver er raunstaðan í dag? 

Íslensk fjármálafyrirtæki ásamt FLGroup eru víst yfir 90% áhrifavaldar í Úrvalsvísitölunni og þar vegur Kaupþing þyngst (Kaupþyngd?) . Svo virðist sem hratt sig Kaupþings (sbr. skuldatryggingarálagið) sé samt dempað af Landsbankanum, sem er spakari með tvöfalt lánstraust, en Glitnir þarna inni á milli. Íslenskir bankar eru eflaust spyrtir saman í hugum lánveitenda og því er spurning hvenær Landsbankinn og Glitnir, til þess að bjarga sér sjálfum, fara að aftengja sig almennilega Kaupingi á alþjóðamarkaði, í stað þess að verja ýmsar aðgerðir í raun með þögninni. Þar er helst um að ræða óheyrilega áhættutöku og skuldagleði með æ lægra tryggingarhlutfalli að hætti amerískra fjármálafyrirtækja, sem hrúguðu nýjum bréfum ofan á alvöru veðbréf þar til trygging að baki hvers bréfs var komin niður í örfáár prósentur af upphæð bréfsins. Enginn veit hve stórar upphæðir er um að ræða í þessu hjá íslensku fjármálafyrirtækjunum. Stærstu viðlíka amerísk fyrirtæki afskrifa núna milljarða dollara, en íslensku bankarnir hafa aðeins tiltekið hvaða hluti rekstrar þeirra tengist svokölluðum undirmálsbréfum (subprime), sem eru aðeins tindur ísjakans.

Fjármálaeftirlitið eða OMX ætti að krefjast þess að íslensk fjármálafyrirtæki á markaði geri betur grein fyrir virði bréfa sinna og raunverulegri stöðu veða.

Hér er útdráttur úr fyrirtækjagreiningu Landsbankans á Kaupthing bank 5/11/2007 (feitletranir ÍP):

CDS spreads at record high

Despite the bank’s very credible Q3 performance its credit default spreads have risen to a record current high of 160 bp, which must be a source of concern to management. As the bank’s underlying operations are in good shape, we are confident that spreads will drop, if not before then following the bank’s PO, which should bolster the faith of Kaupthing’s creditors.

Recommend Hold

We have kept our 50 bp premium on Kaupthing’s discount rate until some of the uncertainty surrounding the company is resolved. In our opinion, there are major uncertainties involved in its acquisition of NIBC and holding in Storebrand, plus dizzyingly high CDS spreads. Kaupthing’s price multiples are not unattractive at current market price, its P/E ratio for this year is 10.7 and 10.4 for 2008. Our valuation of Kaupthing gives a fair value of 1150 and we recommend investors hold their shares in the company.


mbl.is Citigroup gæti þurft að afskrifa 15 milljarða dala
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Banna vegna hræðslu við þekkingu?

Hún er dæmalaus hræðslan við upplýsingar og þekkingu sem smitast eins og pestin um allt, sérstaklega í framsæknum vísindum eins og í erfðafræðirannsóknum Íslenskrar erfðagreiningar. Þetta minnir á upphaf Internetsins, þegar andstaðan við frelsun upplýsinga var víðtæk, en var sem betur fer yfirbuguð.  Ef einstaklingur deCODEmevill fá upplýsingar um genin sín og ein fremsta rannsóknarstofa í heimi í þeirri grein býður honum þær upplýsingar til sölu, þá sé ég enga ástæðu til þess að stjórmálamaður á löggjafarsamkundu okkar eigi að geta komið í veg fyrir það. Einmitt vegna slíkra ofdrottnunareiginleka haftapólítíkusa dreif ég í því að panta genasúpuna mína hjá deCODEme.com svo að vísindin verði ofan á. Best væri ef við hjónin fengjum bæði þennan pakka, því að þá sjá börnin okkar (væntanlega!) og aðrir afkomendur hvernig þau eru samsett. Hvað beri sérstaklega að varast osfrv. Frjálsir samningar fullorðins fólks um greiningu líkama þeirra eru sjálfsagðir. Þingmenn ættu að hugsa um eitthvað þarfara en að hamla framgangi vísindanna.
mbl.is Skoðað hvort setja eigi reglur um sölu á erfðaupplýsingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sígandi markaður?

Nú er von á áframhaldandi skelli á mörkuðunum heima í dag, þar sem Jenið hefur risið í 18 mánaða hámark gagnvart dollar og vaxtamunaverslun leggst af að sama skapi. Hlutabréfamarkaðir í Asíu féllu í nótt, þannig að ljóst er hvernig þetta fer á Íslandi, nema eitthvert óvænt atriði hressi upp á Evrópumarkaði núna. Gengi Japanska Jensins ræður íslensku krónunni, eins og Ástralska og Nýsjálenska dollarnum, sem hafa báðir fallið mikið. Nú ætti því Kaupþing að leiða áframhaldandi fall hlutabréfa, ásamt Exista og Spron sem dansa með (úps! ég á enn í Spron), en gengi krónunnar að síga að sama skapi. Skuldatryggingarálag bankanna hlýtur að hækka enn í dag. Vaxtamunur sumra þeirra væri því nálægt núlli núna ef yfirlýsingar þeirra um muninn hafa verið réttar. 

Nú er að sjá hvort seðlabankarnir rugli ekki þessa eðlilegu leiðréttingu eins og þeir gerðu síðast fyrir tveimur mánuðum, að bæta hundruðum milljarða í pottinn án þess að eiga innistæðu fyrir því.

 

  • Uppfært kl. 11:00:

Evrópumarkaðir byrjuðu lágt, en svo vænkaðist hagur Strympu. Íslendingar stukku til og allt fór nákvæmlega öfugt við athugasemdir mínar í morgun. Þarna sjáið þið, farið eftir eigin innsæi, ekki eftir ráðgjöfum!

 „Úrvalsvísitalan hefur hækkað um 1,78% það sem af er degi og stendur vísitalan í 7.351,6 stigum. Straumur hefur hækkað um 2,96%, Exista um 2,43%, Kaupþing um 2,3%, FL Group um 2,27%, Eik Banki um 2,21%, Atlantic Petroleum um 2,19% og SPRON um 1,94%.“


mbl.is Nikkei lækkar um 2,48%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hagavatnssvæðið í myndum

Útsýnið af Hlöðufelli getur verið stórgott, m.a. að Langjökli og skriðjökli hans, Eystri Hagafellsjökli, en Hagavatn myndast við sporð hans. Hagavatn Jarlhettur IPSandfok getur verið mikið frá svæðinu, eins og sést á myndum mínum, annars vegar frá árinu 2007 í logni og funhita, en hins vegar frá árinu 2006 í Hagavatn sandfok 2006 IPmiklu sandfoki. Ýtið þrisvar á hverja mynd fyrir fulla stærð.

Trúlegt er að stækkaða stífluvatnið muni hemja eitthvað af þessum leir sem myndar hluta sandfoksins niður til byggða. Eina verulega sjónmengunin á svæðinu hefur verið stóra rafmagnslínan norðan við Hlöðufellið, en fyrst leggja á rafmagnið í jörð að henni, Hagavatn Jarlhettur stor IPþá eykst sú röskun sáralítið. Línuskrattinn sá er nógu rosalegur nú þegar, sbr. myndir Stefáns Bjarnasonar.

Á myndunum sést Eystri Hagafellsjökull til vinstri, Hagavatn við rætur hans, Jarlhettur þar til hægri, en Kjölur, Hofsjökull og Kerlingarfjöll handan Jarlhetta. Bláfell sést lengst til hægri.

Ef umhverfisáhrif virkjana eru einhvers staðar í lágmarki og jafnvel jákvæð (vegna viðvarandi sandfoks) þá er það við Hagavatn.

En Langisjór verður vonandi látinn algerlega í friði um alla tíð.

 

Hagavatn Google Earth

 

 

 


mbl.is Kanna kosti Hagavatnsvirkjunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rangt hjá Ingibjörgu Sólrúnu

Geir H. Haarde og Siv Friðleifsdóttir hafa rétt fyrir sér, að sérákvæði Íslands í loftslagsmálum beri að halda, því að annað eru ekki samningar, heldur afsal á „verðmætum“, sem Ingibjörg Sólrún kallar svo. Hún fer með rangt mál þegar hún segir að engir samningar séu í gangi núna um þessi mál, heldur einungis í Kaupmannahöfn 2009. Það er einmitt núna í desemberbyrjun á Balí í Indónesíu þar sem 10.000 manns munu þræta í eina viku um loftkvótaskiptinguna til ársins 2020. Hver þjóð leggur fram sínar kröfur og síðan verður harkað um þetta, enda bíða kauphallir heimsins í ofvæni með hundraða milljarða króna kvótamarkaði að heyra tóninn frá samningaliðinu. Við getum ekki sagt þar að við sleppum ákvæðinu en krafist þess síðan árum seinna.

Hver fer til samninga með þann ásetning að fá sem minnst fyrir þjóð sína og gefa allt eftir áður en byrjað er að semja? Einhver reyndur úr viðskiptalífinu? Nei, Samfylkingarmanneskja.

Auk þess legg ég til að Ísland segi sig úr samningum um takmörkun á losun gróðurhúsalofttegunda vegna hreinleika og sérstöðu okkar ágætu þjóðar, sem við eigum að njóta. 


mbl.is Siv: Misvísandi yfirlýsingar um loftslagsmarkmið skaða málstað Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góði Geir!

Góði Geir

gáðu að þér!

Gróðurhúsagengið

gengur frá þér,

hamlar för og heftir

en hreykir sér á eftir

af ábyrgð og álögum,

ánauð og ólögum.

Þórunn þrætir

en þú bætir

upp fyrir allt

eittþúsundfalt

ef Kyoto kvölin

og kolefnisbölin

verða gleymd og grafin

til eilífðarnóns

engum til tjóns

en þú til skýjanna hafinn!


mbl.is Geir: Eigum að reyna að fá samþykkt nýtt íslenskt ákvæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krónur, skuldir og verðlaus bréf

Ég var á ágætum fundi Viðskiptaráðs um stýrivexti í dag. Davíð var góður fyrir hönd Seðlabanka að vanda, því miður, þar sem öðrum myndi varla líðast þessar hækkanir. Ljóst er að háir vextir eru fastir í sessi. En stóru spurningunni var þar ósvarað: gerir Seðlabankinn sér ekki grein fyrir því að krónan hefur aftengst hagkerfinu (sbr. greiningardeildir bankanna) og að hækkun stýrivaxta auki einungis vinsældir krónunnar í vaxtamunarviðskiptum? Síðan varð krónan gersamlega háð gengi Jensins eins og aðrar hávaxtamyntir, á meðan risaskuld á krónuna hefur safnast upp. Davíð sagði þjóðarbúið (ekki ríkið) þó vera komin að hámarki þeirrar skuldabyrði sem búandi er við, með sjö þúsund milljarða á þjóðarbúinu.

Krónan er amk. 800 milljarða í mínus, þmt. krónubréf og vaxtaskiptasamningar, þjóðarbúið skuldar 7000 milljarða (en hátt metnar eignir, t.d. bréfaeignir, eru um 1200 milljörðum lægri). Mér skilst að Líbanon sé eitt OECD ríkja skuldugra en Ísland.

Hvaða upphæðir þarf fólk að sjá til þess að hætta að styðja aðgerðir Seðlabankans, sem flestir sjá að skila sér ekki, enda styðjast þær við úrelta hagfræði?

En vandræði Bandaríkjanna eru svo hrikaleg að okkar smásyndir gleymast þegar við sjáum Amerísku tölurnar. Afskriftir þar sem hoggið er á báða bóga í verðlausa bréfabunkana en nóg er eftir. Síðan eru dollarar prentaðir eins og þýsk Mörk í Weimar- lýðveldinu. Samt tekur hlutabréfamarkaðurinn þar dauðakippi upp eins og núna, þó að fjármálageirinn sé enn varhugaverður. Það er nóg að gerast!


mbl.is Hlutabréf hækkuðu í Bandaríkjunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband