Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

Hrapað að ályktunum

Loftslagsmál er sá málaflokkur þar sem hvað algengast er að hrapað sé að ályktunum, sérstaklega þeirri að maðurinn hafi valdið einhverju eða geti fært það í lag. Stormurinn Billy NASAgovMeðfylgjandi frétt Mbl.is (AFP), „Mesta hamfaraárið“ er gott dæmi þar sem um 220 þúsund manns hafa látið lífið af völdum náttúruhamfara á árinu 2008 „ ... og þykir þetta til marks um brýna nauðsyn alþjóðlegs loftslagssamnings“.

Þar er jarðskjálftinn í Kína og fellibylurinn í Burma sem ráða úrslitum. Afar hæpið getur talist að maðurinn hafi valdið þessum þáttum, hvað þá að hann breyti einhverju um slíkt. Við völdum ekki jarðskjálftum og aukin tíðni eða virkni fellibylja er tæpast tengd athöfnum manna, amk. eru tölfræðilegu tengslin þar á milli ekki sterk.

En það er deginum ljósara að samningur í loftslagsmálum breytir engu í þessu tilliti. Fellibylir fara að mestu eftir samspili lofts- og sjávarhita, sem jafnast af risa- hringferli hafstrauma um heiminn. Því verður ekki breytt að okkar skapi á einhverjum áratugum. Þetta vita flestir sem eitthvað kynna sér málin, en markaðssetning vitleysunnar er komin á það stig, að þörf er á álíka uppgjöri þeirra mála og bankamálanna.

Horfumst í augu við sannleikann: maðurinn breytir ekki veðurfari að skapi sínu. Auk þess yrðu 6.700 milljónir manna aldrei sammála um það hvar ætti að auka eða minnka hitann. Tilraunir okkar eru hjákátlegar þegar hugsað er til stórra áhrifaþátta, t.d. sólstorma og eldgosa.

Notum tímann og peningana í eitthvað uppbyggilegt, t.d. að eiga við afleiðingar náttúruhamfara, eða að reyna að spá fyrir um þær enn betur.


mbl.is Mesta hamfaraárið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

WSJ myndband um fall Íslands

Wall Street Journal birti þetta áhugaverða myndband á annan í jólum um það hvernig Ísland féll saman. Tengillinn sem ég birti á blogginu virkaði illa, smellið því á tengilinn í setningunni.

Það er erfitt að horfa á þetta svona sem orðinn hlut!


mbl.is Rannsaka millifærslur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ef við þraukum desember

Kántrýkarlinn Merle Haggard syngur dável um þrautir miðsvetrar. Hér er YouTube tengill og textinn að neðan. Ætli við verðum ekki að framlengja textann út Þorrann og Góuna?

If we make it through December
Everythings gonna be all right I know
It's the coldest time of winter
And I shivver when I see the falling snow

If we make it through December
I got plans of being in a warmer town come summer time
Maybe even California
If we make it through December we'll be fine

I got laid off down at the factory
And their timing´s not the greatest in the world
Heaven knows I've been workin' hard
I wanted Christmas to be right for daddy's girl
Now I don't mean to hate December
It's meant to be the happy time of year
And why my little girl don't understand
Why daddy can't afford no Christmas here

If we make it through December
Everythings gonna be alright I know
It's the coldest time of winter
And I shivver when I see the fallin' snow

If we make it through December
I got plans of being in a warmer town come summer time
Maybe even California
If we make it through December we'll be fine


mbl.is Neytendur fara sér hægt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vonlítið að reka fyrirtækin í þessu

Fyrirtækin verða ekki rekin í þessu ástandi. Þrír mánuðir af handaflsaðgerðum í krónunni hafa sýnt okkur að þannig aðferðir eru sóun á tíma og peningum. Gengi krónu leitar sannstöðu sinnar, sem er veiking, EUR ISK 2008 Lokinen 500 milljarða króna jöklabréfaskuld er haldið inni með 100 milljón króna vaxtamútum til útlendinganna á dag. Þrátt fyrir það leitar gengið fyrri veikingar.

 Vonlaust er að stunda framleiðslu til útflutnings í 70% gengisflökti. Hráefnisinnkaup t.d. í rækjupillunarverksmiðju eru kannski ¾ hlutar afurðaverðsins. Gengi þess sveiflast til eftir óútreiknanlegum geþóttaákvörðunum stjórnvalda um fast gengi og síðan gjaldeyrishöft, þannig að tæpast er hægtað geta sér til um það, hvenær kaupa skuli eða á hvaða verði.

Næsta ágiskun er síðan hvenær eigi að selja, þar sem afurðaverðið ræðst þá í raun af sömu sveiflukenndu ákvörðunum stjórnvalda.  Sveiflur markaða er barnaleikur miðað við þær sveiflur sem stjórnvöld valda. Útflutningsaðilar sjávarafurða hafa nú þurft að glíma við verðfall markaða, fallandi gengi Sterlingspundsins, lánaleysi eða snarhækkuð lán og aukinn tilkostnað, en verst er líklegast ríkissveiflan og þau gjaldeyrishöft sem ríkið leggur á. Sá sem stendur í alþjóðlegri samkeppni um viðskipti með örfárra prósenta hagnaði virkar ekki  undir þessum kringumstæðum, þar sem tugaprósenta taps er von á hverri stundu eftir ákvörðun stjórnarinnar.  

Stjórnin segist síðan ætla að styðja útflutningsgreinar. Er það þá með styrkjum (okkar) og lánafyrirgreiðslu til nýrra fyrirtækja í samkeppni við þau sem fyrir eru? Besta aðstoðin felst í því að vera samkvæm sjálfri sér, láta markaðinn í friði, taka upp stöðugan gjaldmiðil strax, hætta við að ábyrgjast „skuldir óreiðumanna“  en sinna helst hlutverki sínu, samfélagsþjónustunni.


mbl.is Stjórnendur fyrirtækja svartsýnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Neyðarlögin framkalla ójafnræði

Framvirkir gjaldeyrisskiptasamningar mjólkuðu vexti úr krónunni og skiluðu spákaupmönnum vel í sterkri krónu. Nú þegar dæmið snerist loks við eigum við að greiða í annað skipti, fyrst í vaxtamun krónunnar sem safnaðist sem skuld upp á hana og nú með eftirgjöf skulda þegar veðmálið snerist gegn þeim.  Aðalástæða eftirgjafar 30 milljarða skulda virðist vera sú að um sjávarútvegsfyrirtæki sé að ræða. Jafnræðisregla er þá þverbrotin. Trúlega keyptu þau krónur framvirkt gegn Japönsku Jeni, sem virkaði vel og lengi þar sem vextir íslensku krónunnar voru svimandi háir með gamblaranum, en sáralitlir Jenavextir á móti. Lífeyrissjóðir stunduðu þetta líka og vilja fá eftirgjöf skulda þegar Jenið styrktist svo að um munaði og vaxtamunarverslunin (e. Carry trade) lagðist nær af. Sjóðunum bar að stunda örugg viðskipti en fóru sumir í hreint fjárhættuspil með gjaldmiðla.

Hyglum þeim sem skulda mest

Neyðarlögin sýna nú sitt rétta andlit: ójafnræðið uppmálað. Hvaða réttlæti er í því að Séra Jón (sum sjávarútvegsfyrirtæki, helst þau áhættusæknu) fái eftirgjöf ofurkrafna en ekki Jón eða Gunna? Af því að svo vill til að önnur deild í fyrirtækinu veiðir fisk og selur fyrir gjaldeyri? Mest af þessum skiptasamningum eru ekki varnir, heldur einmitt áhættutaka, sem sést t.d. af því að flest fyrirtækin taka lán sín eða gera svona samninga í Jenum en selja minnst útflutninginn þangað, heldur í Evrum, Sterlingspundum og í Dollurum.  Jenið er núna metsterkt gagnvart dollar, svo að kröfurnar eru háar. Ef þetta er aðgerð til bjargar gjaldeyrisskapandi útflutningsfyrirtækjum, af hverju á þá að hygla þeim mest sem skulda mest, en ekki hinum ráðdeildarsamari eða bara jafnt yfir alla? Svona tilfærslur auðs bjóða spillingunni heim, fyrir utan það að aðrir kröfuhafar eru verulegum órétti beittir.

Innheimt af almenningi. Samningar í plús fara í þrotabúin

Frágangur framvirkra gjaldeyrisskiptasamninga eftir bankahrunið er með afbrigðum óréttlátur. Samningar sem hefðu skilað samningsaðilanum arði (rétt veðjað gegn krónu) eru ekki greiddir út, heldur fara inn í komandi þrotabú. Þá má heldur ekki nota til skuldajöfnunar (og heldur ekki skv. gjaldþrotalögum) ef samningshafi átti einnig samninga sem skuld var á, heldur var sú krafa sett í innheimtu strax. En hún er þá ekki innheimt ef þú ert með sjávarútvegsfyrirtæki!

Bjarga kvóta frá erlendu kröfuhöfunum?

Getur verið að ein meginástæða þessarar makalausu eftirgjafar  sé sú, að kvóti þessarra fyrirtækja lendi ella hjá nýju eigendum bankanna, hinum erlendu kröfuhöfum, sem til stendur að samþykkja kröfur frá og afhenda síðan bankana með öllu sínu, kvóta og fasteignum til útlendinganna með tíu þúsund milljarða króna kröfurnar sínar? Af hverju er eftirgjöfin þá ekki frekar kaup ríkisins á kvóta þessarra rammskuldugu fyrirtækja? Þá er hugsanlega hægt að ráðstafa honum á réttmætari hátt.

Voru umrædd sjávarútvegsfyritæki beitt valdi?

Á það hefur verið bent (Fannar frá Rifi) að gömlu bankarnir hafi þvingað sjávarútvegsfyrirtækin til þess að gera samninga sem festu gengið og takmörkuðu gengishagnað fyrirtækjanna. Það er þó verðugt rannsóknarefni hve stór hluti 30 milljarðanna slíkt er og líka það hver ákveður samningsgengið í raun. Amk. trúðu margir á það að vaxtamunarmyllan væri eilífðarvél.

Hin mestu ólög

Eftirgjöf skulda sjávarútvegsfyrirtækja vegna gjaldeyrissamninga virðist vera enn eitt ósanngjarnt afkvæmi neyðarlaganna sem hleður álögum á þegnana. Þau ólög ásamt gjaldeyrishaftalögunum fara í sögubækurnar á topp tíu lista vanhugsuðustu laga Íslandssögunnar.


mbl.is Kröfur verði felldar niður að hluta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gjaldeyrinn í krónur og þaðan í ofninn

Löghlýðnir borgarar moka nú gjaldeyri sínum yfir í krónur í brennsluofn ríkisins, píndir til þess innan tveggja vikna á fölsku ríkissköpuðu hágengi sem er í engum tengslum við raunveruleikann.  Þau ganga þarmeð í hóp hinna síblekktu, sem sjá ekki í gegn um sjónarspilið með platkrónuna. Gjaldeyri brenntRíkið tók við af bönkunum sem blekkingarmeistari. Fleyting krónu fór þannig fram að amk. 500 milljarðar af gjaldeyriseftirspurn voru teknir í burtu (jöklabréf og allir aðrir sem vilja út úr hrundu bankakerfi) og þrjár ríkisstýrðar bankaleifar þykjustu- versla sín á milli en hafa þá dagsskipun frá yfirmanni sínum eina að styrkja krónuna með ráðum og dáð. Sjóðir og aðrar eignir eru hirtar erlendis frá og hrapa í verði á innleiðinni. Bankar geta þannig haldið áfram að fá helstu tekjur sínar núorðið, gengismun í krónunni sem veikir gjaldmiðilinn en styrkir bankana áður en þeir verða afhentir kröfuhöfunum. Á meðan borgum við 60-100 milljóna króna vexti á dag vegna jöklabréfanna.

Gjaldeyrishöftin: niðurgreiðslur fyrir hina útvöldu

Með gjaldeyrishaftalögunum þá er þetta eins langt frá viðskiptafrelsi með gjaldeyrinn og hugsast getur, niðurgreiðsla skattborgara fyrir þá fáu útvöldu sem mega kaupa hann, ríkisbankana og tengslafyrirtæki þeirra. Reynt verður að halda þessari sýningu áfram út 31. desember í ár, svo að fyrirtækin og stjórnmálamennirnir geti haldið áfram. Eins og segir í lagi Bjartmars, Týnda kynslóðin: „… missum ekki af Gunnari og sjóinu“ núna yfir jólin.

Verður inneignum breytt í hlutafé að lokum?

Leiðin út úr jöklabréfunum sem ríkið gæti reynt er kannski sú að henda þeim pakka inn í risakröfupakka bankanna og afhenda svo allt saman til erlendu kröfuhafanna sem hlutafé. Kröfuhafar tíu þúsund milljarða krónanna munu ráða yfir bönkunum og eflaust krefjast jafnræðis veðskulda og inneigna. Geta inneignir okkar í bönkunum þá ekki orðið að hlutafé og þar með að engu vegna smæðar sinnar?


mbl.is Dýrasta endurskipulagning mannkynssögunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fasteignir, kvóti ofl. afhent? Klúður 101

Ríkið tók illu heilli ábyrgð á öllum skuldum bankanna með því að krukka í eignir þeirra. Fyrir vikið eru fjármál ríkisins gersamlega í rúst um ókomna tíð, þar sem tólf þúsund milljarða skuldir bankanna skapa ómæld vandræði í kerfinu, ofan á fyrri skuldir ríkis, einstaklinga og sveitarfélaga. Ríkið hrúgaði fyrst nokkur þúsund milljarða skuldum á sig, missti gjaldmiðinn þannig út úr höndunum og telur sig nú verða að afhenda bankabúið (gömlu og nýju bankana) til erlendu kröfuhafanna, með upphæðir sem drekkja öllu öðru.

 

Stærðar eignatilfærsla

Staðan er því sú að flestar veðsettar eigur Íslendinga verða í erlendu eignarhaldi og skuldir í erlendum gjaldmiðlum, þar sem lánin að baki þessu öllu eru erlend. Þar með fljóta fasteignirnar, kvótinn, jafnvel virkjanir og eitt og annað smálegt. Álíka atburðarás á sér stað og í bandarísku kreppunni forðum: eignirnar renna allar sem ein inn til bankanna og er síðan miðlað áfram til nokkurra stórra aðila frá hendi banka og stjórmálamanna. Kotbændum fækkaði um tugi þúsunda á meðan stóreignir og viðeigandi völd soguðust upp í fárra hendur.

 

Upplýsingar í smáskömmtum

Landinn tekur upplýsingarnar smám saman inn eins og lýsið, einungis hægt í smáskömmtum. Icesave UK, Icesave Hollandi, Edge í Þýskalandi, síðan hvert útibú hvers banka í hverju landi, þar til stóra kakan er loks sprengd klukkan 12, að allar skuldir (og ofmetnar eignir) allra bankanna eru samþykktar. Súpan er sett í þrjá aðskilda potta sem stærstu áhættusjúklingar vorra daga, stærstu bankar í heimi, munu deila út súpu úr og gefa smá brauð með næstu áratugina.

 

Losum ríkið við mistök sín

Sá ræður sem heldur um buddubandið, segir Kaninn. Ríkið gerir það varla lengur ef það heldur áfram að vasast í eignum annarra, að skapa sér meiri ábyrgð og skuldir í bankarústunum.  Þegar það nær loks að losna við þessa byrði með því að afhenda erlendu kröfuhöfunum hana, verður að gæta þess að láta mistök síðustu tveggja mánaða (ss. Icesave samþykki) fylgja pakkanum eins og böggull skammrifi, því að annars fylgir böggullinn okkur skattgreiðendum, nokkur þúsund aukamilljarðar vegna mistaka stjórnmálafólksins sem við kusum rúmu ári áður.

 

Ríkið sinni grunnþáttum. Björgunaraðgerðir fella það.

Nýlegir atburðir sanna það, að ríkið á einungis að sinna sínum grunnþáttum, ella fer illa. Davíð Oddson sagði réttilega: „Við borgum ekki þessar skuldir“ en fékk afar bágt fyrir. Geir H. Haarde forsætisráðherra hélt þessu líka fram framan af,  en virðist hafa talið sig þurfa að feta þessa ógæfubraut, þar sem Samfylkingarráðherrar gáfu í skyn eða fullyrtu við erlenda ráðamenn að greitt yrði. Hefði ríkisstjórninni borið gæfa til að halda ríkinu utan við fall bankanna  værum við vissulega í vandræðum, en ekkert nálægt þessu síki sem við erum nú öll föst í. Skjaldborg um íslenska sjóðseigendur, uppkaup ónýtra skuldabréfa úr sjóðum bankanna, neyðarlögin og gjaldeyrishaftalögin eru sorgleg dæmi um misskilda greiðasemi við okkur þegnana sem festa okkur einungis í eigin netum.

 

Töfralausnir og Vorið í Prag

En komdu með lausnir, segir fólk þá við mann. Höfum þetta einfalt: ríkið er einungis fyrir grunnþætti samfélagsins og á ekki að hella sér (og þar með okkur) út í óendanlegar skuldir til þess að „bjarga“  hinu og þessu, bönkum, fyrirtækjum, húseigendum eða einstaklingum sem skuldsettu sig um of. Við erum öll sammála um það hverja ber alltaf að aðstoða, öryrkja, sjúka, aldraða osfrv. En nú dregur hver stjórnmálamaðurinn af öðrum fram rykfallin ávísanahefti sem átti að vera búið að eyða og skrifar út innistæðulausa risatékka eins og hann hafi fundið upp töfrapeningamaskínu. Ídealisminn og slagorðin blómstra og vorið í Prag er á næsta leyti.  Má ég frekar biðja um eina A4 Excel- töflu frá ríkisstjórninni  með öllum skuldbindingum hennar til næstu ára. Þar sæist að ríkið er að fara sömu leið og bankarnir gerðu, að skuldsetja sig og okkur til andskotans. Það er engin lausn. En pólítíkus sem boðar núna lágmarks- skuldsetningu ríkisins á sér enn færri fylgjendur núna en þeir höfðu sem voru með öll varnaðarorðin þegar uppsveiflan stóð sem hæst. Því fer sem fer.


mbl.is Lánshæfi ríkisins hrynur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband