Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2019

Heimskuheimildir halda áfram

Fredin palmatreDagur & Co. halda áfram að reyna á þolrif íbúa Reykjavíkur með því að skattleggja þá sérstaklega og sólunda síðan fénu á einstæðan hátt.  Halda mætti að met Alfreðs Liljuföður í slíkri sóun myndi halda eitthvað til framtíðar, en það er nú ítrekað slegið í burtu af einurð. 

Alfreð sóaði fé borgarinnar í ræktun dýrustu heitsjávarrækju í heimi, fyrr og síðar. Kannski fór hann nálægt Ingibjörgu Sólrúnu, þá borgarstjóra, sem kastaði milljarði í internet- tengingu um rafmagnskerfið, sem aldrei varð. En þessi nýja deild sóunarsinna, sem nú er tekin við, kallar ekki allt ömmu sína í þessum efnum. Ef hugmyndin er nógu arfavitlaus, þá fær hún samþykki hjá þessum hópi. Fjölgun í borgarstjórnar- hópnum, fiskiker og fuglahús á göturnar, hálfs milljarðs braggi, bara að nefna það. Vonandi verður ekki stungið upp á bananarækt eða innflutningi á baðstrandarsandi, því að yrði samþykkt strax.

Á næsta plan

Sér-innflutta braggamelgresið var víst bara forsmekkurinn. Nú er það stækkað í risa- pálmatré, sem flytja skal frá suðurlöndum og reyna að halda lífi í því með ótrúlegri orkusóun beint út í loftið.

Í dag verður skrúfað fyrir einhverjar sundlaugar vegna mikillar heitavatnsnotkunar. En forgangurinn hlýtur að verða að halda lífi í 140 milljóna króna „fjárfestingunni“ með öllum ráðum fyrir milljónir króna á ári, eða allt þar til öllum er ljóst að pálmablöðin í 10 metra hæð hljóta að falla í frostinu og vetrarmyrkrinu efst í plasthólknum, sem flautar á hverfið í rokinu. Pálmastaurarnir standa þá einir eftir, sem minnismerki um þá óstjórnartíma, þegar ofdekraðir miðbæjarkommar réðu lögum og lofum og keyrðu ófæra borgina í þrot með ídealisma sínum.


mbl.is Vilja endurskoða áform um pálmatré
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umsögn er ekki atkvæðagreiðsla, en þó

Sveigdur timiSamráðsgátt um tímahringl ríkisins hefur opið á umsagnir, sem fólk virðist skilja sem atkvæðagreiðslu, en það er ekki svo. Líklega verður fjöldi umsagna fylgjandi breytingu notaður sem stuðningur við frumvarpið um breytingu á klukkunni, en það tvennt er ekkert tengt í raun.  Hér er mín umsögn þar inni:

Veljum A, óbreytt tímabelti. Lífsstíllinn á norðurhjara skiptir meginmáli og þá helst tími með manns nánustu, sem er helst eftir nám eða vinnu hvers dags. Núverandi kerfi hámarkar birtu eftirmiðdagsins og inn á kvöldið, frá hausti til vors. Eftir breytingu styttist sá birtutími.

Þunglyndi fylgir breiddargráðum sannanlega á skýran hátt og breytingin er líklegri til þess að gera það verra. Unglingar á Egilsstöðum fara varla hálftíma fyrr að sofa í dag en jafnaldrar þeirra í Keflavík, þótt sólin sé hálftíma fyrr á ferðinni fyrir austan. Instagram- herferð um svefnvenjur hefur mun meiri áhrif á þeirra hegðun en hringl ríkisins með klukkuna.


mbl.is Stuðningur er við seinkun klukku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vilja fækka frí- birtustundum

Kaffiklukka

 

KaffiklukkaAndstæðingar dagsbirtunnar í frítíma Íslendinga láta ekki deigan síga og stofna ráð og nefndir á kostnað okkar allra fyrir þessi hugðarefni sín. Þeir vilja snúa klukkunni þannig að hástaða sólar í Reykjavík verði klukkan rúmlega tólf, í staðinn fyrir rúmlega eitt, eins og allar götur síðan árið 1968, þegar hætt var að hræra í klukkunni.

Heim í myrkri

Breytingin myndi þýða það, að t.d. um jólin sé sólin á lofti frá kl. 10:22 til kl.14:32, í stað kl. 11:22 til 15:32 eins og verið hefur. Að sama skapi, í febrúar og október færist sólarlagið frá því að vera fyrir klukkan 18 í dag í það að verða fyrir klukkan fimm, rétt áður en haldið er út í stíflaða umferð þess dags.

Meiri birtu!

Heillegur frítími flestra á hverjum virkum degi er eftir nám og vinnu. Veturinn í Reykjavík telur sjö mánuði í mínum huga og illt er að fjölga myrkurtímum hans verulega með þessari breytingu.

Látum klukkuna í friði og veljum kost númer eitt í Samráðsgáttinni, ekta vinstri gervi- lýðræðisbatteríinu.


mbl.is Breyting á klukkunni í samráðsgátt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband