Frá ídealisma yfir í sníkjur

cancunclimateapnewstribune.pngLoks glittir í endalok heimshlýnunaræðisins, nú í Cancun í Mexíkó, þar sem 6.164 fulltrúar 193 þjóða gefast upp við að ná samkomulagi um aðgerðir í baráttunni við veðurfarsbreytingar. Kyoto samkomulagið frá 1997 rennur því líklegast sitt skeið með réttmætri undanþágu Íslands. Bandaríkin, Kína, Rússland og Kanada eru meðal þeirra sem tæpast myndu taka þátt í nýju samkomulagi, enda eru um 70% losunarinnar á koltvísýringi utan samkomulagsins.  Í stað þess eru gerðir milliríkjasamningar um einstaka þætti.

 

Mannmargir sníkjufundir

Þessir Balí, Kaupmannahafnar- og Cancún- fundir hafa snúist upp í sníkjur þróunarlanda á hinum vestræna heimi, sem á að hafa móral eftir Iðnbyltinguna, þá sömu iðnbyltingu og á sér stað í stærstu þróunarlöndunum s.s. í Kína og á Indlandi.

Verkefnin í Cancun og á næsta fundi eru víst aðallega þrenn:

  • ·         Koma á fót feiknamiklum loftslagssjóði iðnríkjanna sem greiða á úr til þróunarríkja.
  • ·         Hefja aðstoð iðnríkjanna til þess að koma í veg fyrir eyðingu skóga.
  • ·         Að sannreyna og innheimta frjáls framlög þjóðanna.

Japan, heimili upphafssamningsins Kyoto, er sú þjóð sem tók að sér að andmæla heimssamningi sem tæki við af Kyoto eftir 2012. Margir urðu fegnir að taka ekki það verk að sér.

 

Ísland ekki bótaskylt

Hvað segir þetta okkur Íslendingum?  Við erum algerlega úti að aka í þessu, spyrðum okkur við gömlu mórölsku  iðnríkin eins og við eigum sök á manngerðri heimshlýnun, ef hún er til. Aðalatriði SÞ- ráðstefnanna er að fá okkur til þess að greiða öðrum þjóðum bætur vegna ætlaðra misgjörða okkar.

cancunstatuelibertyap.pngHelmingur þessara bóta á víst að fara til aðlögunar fyrir þær þjóðir að breyttu loftslagi. Samkvæmt nefndinni eigum við, sem erum  með endurnýjanlega orku en á hausnum með samdrátt í hagkrefinu, að greiða vaxandi alvörumengandi  kolarykspúandi „þróunarríkjum“  bætur svo að þau geti aðlagast enn hraðar. Þetta er þróunaraðstoð á sterum, þar sem engin almennileg réttlæting finnst fyrir sukkinu frekar en með aðra slíka aðstoð.

 

Njótum stöðunnar

Hví ættum við, nokkrar hræður á norðurhjara að fá lán hjá IMF til þess að greiða þessa svívirðu til eilífðarnóns? Eða að setja reglur sem gera Ísland ósamkeppnisfært og dýrt á meðan þjóðirnar semja um þetta eins og hvern annan bisniss, þar sem Ísland ætti að vera á toppi tilverunnar vegna endurnýjanlegu orkunnar?

 

CO2 markaðir: leggjast af?

Kolefniskvótamarkaðir hljóta nú blessunarlega hægfara dauðdaga. Helstu seljendur á þeim hafa verið Kína og Rússland (eins og þau lönd hafi verið einhverjir umhverfisenglar), en Ísland hefði átt að fá ómælda kvóta vegna stöðu sinnar. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar, t.d. gegn innlendri framleiðslu með kvótasetningu og gegn ferðaþjónustunni  með álögum á flug og farartæki ganga þvert gegn öllum sanngirnisreglum í þessum málum. Búið er að afbaka umhverfismál þannig að áherslan hefur færst frá nánasta umhverfi í peningaustur í Lönguvitleysu úti í heimi.

 

Umhverfismálin heima!

Færum umhverismálin heim í hérað, minnkum uppblástur, endurheimtum votlendi og borgum ekki eina einustu lánaða krónu út í heim í Skammarsjóð Iðnríkjanna eða í aðra þarflausa þróunaraðstoð. Við erum kannski ennþá rík þjóð, en vonandi ekki heimsk.

 

 

Hér er fréttalisti fjölmiðla um Cancun- ráðstefnuna og um SÞ- loftslagsmálin.

http://unfccc.int/press/news_room/items/2768.php?topic=all


Bloggfærslur 9. desember 2010

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband