Carl Bildt í ESB og flotta sænska krónan

Carl Bildt ESB

Carl Bildt utanríkisráðherra Svíþjóðar hélt ágætan fyrirlestur í Norræna Húsinu í dag um ESB við mikinn fögnuð ESB- sinna, enda bar hann lof í trogum á sambandið. Ég spurði hann um sænsku krónuna (SEK): Fyrst svo vel hefur gengið með SEK í Svíþjóð í þessi 20 ESB- ár Svíþjóðar og fjárfestar flykkjast núna úr Evru yfir í SEK, er það þá ekki hið besta mál að halda því áfram?

Árangur með sænska krónu

Carl Bildt forðaðist spurninguna að mestu (að mínu mati) með því að tala um það hve hvikult fé flestra fjárfesta er. Hann ítrekaði síðan Evru- ást sína. Það er þrátt fyrir velgengni Svíðjóðar með sína krónu og það hve sjálfstæðið er þeim mikilvægt, þegar Evru- löndin 17 hræra sig saman í eina skuldasúpu, en Bildt hafði engar áhyggjur af því. Pólitíkin virkar þannig, sagði hann, að t.d. utanríkisráðherrarnir greiða aldrei atkvæði á fundum sínum, heldur ræða sig að niðurstöðu. Ætli hún sé fyrirframgefin?

EES: engin áhrif á lagasetningu 

Bildt sagði EES-samninginn góðan til síns brúks, að færa Ísland nær ESB í reglum osfrv. (enda stóð hann að gerð samningsins). En stóri munurinn ef til aðildar kemur er sá að Ísland hefur þá áhrif á lagasetninguna sjálfa innan ESB! Trúlegt.

Fleiri aðildarlönd, Tyrkland velkomið 

Sænski utanríkisráðherrann vill fleiri meðlimi í ESB, bara betra! Hann tók sérstaklega fram að Tyrkland ætti að fá aðild, en það hefur beðið á bekknum í áratugi. Þar búa 75,6 milljónir manna og 99,8% þeirra eru múhammeðstrúar. Ef það hefur ekki áhrif á stjórnunarhætti í ESB, af hverju ættu 0,32 milljónir Íslendinga að breyta einhverju þó að þeir séu 236 sinnum fleiri en við?

Engin þörf á Evru 

Ein aðalástæðan fyrir löngun Já- ESB sinna í „öryggið“ í Brussel er Evran sem ekkert fær haggað. En Carl Bildt og Svíþjóð eru sönnun þess að ef ríki lagar til í fjármálunum hjá sér (sem er skilyrði inngöngu), þá þarf ekki að gangast undir afarkosti Sambands Evrulanda með Evruna. Svo færa Bretar sig eflaust yfir til okkar í EES- samning!


mbl.is Norðurslóðamál í deiglunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kýpur: Enginn samþykkti ESB- planið

Kypur motmaeli AP

Enginn þingmaður á kýpverska þinginu kaus með skattinum á bankainnistæður sem ESB/AGS höfðu sett sem skilyrði fyrir neyðarláni sínu. Hlustað var á fólkið, sem getur ekki skrifað sjálfviljugt upp á ánauð um alla tíð til þess að ESB „bjargi“ þeim, eða raunar bönkum þeirra frá glötun. Bankakerfi Kýpur er 7-föld þjóðarframleiðsla þeirra, en á Íslandi var það 12- föld þjóðarframleiðslan í október 2008. Þessi ofur- Icesave nauðasamningur Kýpverja hefði riðið þeim að fullu: ósjálfbær með öllu.

Skatturinn rauf traustið 

Ráðist er þarna með skattlagningu að grundvelli bankakerfisins, sjálfum sparnaðinum, sem fólki er tjáð alla daga að sé verndaður. Traustið á kerfið hverfur. Bankar verða ekki opnaðir á Kýpur á morgun, enda yrðu þeir tæmdir. 

Þörf á íslenskri lausn 

Nú þarf Kýpur á neyðarlögum að halda að hætti Íslendinga, en á óhægt um það vegna ESB/AGS/ECB Troikunnar sem heldur fram sínum lausnum, til varnar sínum gjaldmiðli, Evrunni, ekki einni milljón Kýpverja. ESB hefur agnúast út í þessa bankareikninga- eyju upp á síðkastið, sérstaklega þar sem skattaklær ESB ná illa til þeirra, en fé hefur líka flúið Grikkland til Kýpur. 

Rússarnir koma 

Rússar eru líklegir til að beita sér enn meir á Kýpur. Hún stefnir raunar í að verða „Kúba Miðjarðarhafsins“, ef Kýpur gefst upp á ESB (og gagnkvæmt). Þá tryggja áhrifamiklir Rússar sínar eignir þar og ríkið fær flotastöð með lykiláhrif við Miðausturlönd og við Norðurströnd Afríku, en ófriðurinn þróast hratt áfram, sérstaklega í Sýrlandi. ESB og NATO óttast slíka þróun og því er ESB líklegt til þess að ná einhverri miðjumoðslausn í gegn á Kýpur. En bankana þar verður að taka í slitameðferð og passa upp á innistæður, það liggur hreinlega fyrir.

ESB hefur nú sýnt, með Grikkland og Kýpur, að almenningur getur treyst því að það komi til varnar gjaldmiðlinum og bönkunum, ekki fólkinu í nauðum þess. 


Bloggfærslur 19. mars 2013

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband