Allt er bannað sem ekki er sérstaklega leyft

Á Samfylkingar- og VG árunum hefur almenn skynsemi brenglast á þann hátt að sjálfsagðri athafnagleði landans er haldið niðri með reglunni „Allt er bannað sem ekki er sérstaklega leyft“ í stað heilbrigðu reglunnar „Allt er leyft sem ekki er sérstaklega bannað“, sem er öllu íslenskari í eðli sínu.

 

Bönn á þjóð í losti

Boð og bönn alviturrar ríkisforystunnar eiga víst að vera heildinni til heilla, en hvað ef þau eru vanhugsuð vitleysa sem heldur vexti heilla byggðarlaga niðri og veldur fátækt og vansæld í misskilinni forræðishyggju sinni? Hví á forysta sem valin er út á stór slagorð hennar yfir þjóð í losti að mega dæma almenning til ævarandi þrælkunar þótt þau sitji öll á auðlindum og aðstöðu sem nýta má öllum til hagsbóta án mikillar fyrirhafnar, einungis ef forystan þvælist ekki fyrir?

 

Forgengin tækifæri

Nú hrannast upp mýmörg dæmi um það hvernig þessi nýhaftastefna drepur frumkvæði á skilvirkan hátt. Varla þarf að skrifa listann, skoðum einungis fréttir hvers dags. Þó fréttist ekki af fjölmörgum forgengnum tækifærum, sem visnuðu eins og fræ sem fá ekki vökva og næringu. Bannárátta vinstra valdsins leyfir ekki vaxtarbroddana nema þeir séu frá ríkinu komnir og í gegn um það, hannaðir af nefndum og ráðum sósíalsins. Lítill vandi er síðan fyrir þetta alríki að sýna fram á það að annað virki ekki heldur en módel ríkisins, því að það er það eina sem leyfist að virka.

 

Útópían

Haftaaðallinn hefur aðaláhuga á álögum, ekki tekjum. Í stað þess að leyfa tekjuhlið ríkisins að hækka fordómalaust með öllum skynsamlegum ráðum, þá hafna þessir valdhafar flestu sem fellur ekki að útópíu þeirra um aljafnt þjóðfélag, sléttu með engum fjöllum og dölum, þar sem allir geta hjólað á bændamarkaðinn á ríkishjólinu sínu og keypt sér sjálfbæra agúrku í kvöldmatinn. Á meðan ekur millistéttin til vinnu sinnar í raunveruleikanum þar sem æ minna verður eftir til þess að lifa af með þennan algræðisgamm svífandi yfir sér.

 

Gamminum líst vel á hræið, en þetta er ekki sjálfbært ástand.


mbl.is Telja niðurstöður gagnast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ívar Pálsson

Þegar ég horfi á blikkandi ljósið á Keflavíkurflugvelli (grænt+ tvö hvít) sem þýðir alþjóðlegur almennur flugvöllur og herflugvöllur, þá minnir það á enn eitt nær- glundrað tækifari: Þjálfun flugmanna á vegum E.C.A. sem virðist amk. vera rakið dæmi og sjálfsagt að leyfa það.

Þegar ég tjargaði flugskýlisþak á vellinum í tvö sumur ásamt tugum Suðurnesjamanna þá þutu tvær herþotur gjarnan af stað með afturbrennara á fullu og ruku vopnaðar út á haf til æfinga og eftirlits.  Nokkrar þotur voru í gangi í heildina þá en E.C.A. yrði með heilmikla starfsemi nú og vopnlausar vélar. Aðstaðan er öll þarna fyrir og ekkert þarf nema leyfið en siðapostulum ríkisstjórnar hentar þetta ekki.

Ívar Pálsson, 7.11.2010 kl. 16:26

2 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

   Siðapostular ríkisstjórnar líta á þotur,sem vígtól,þótt vopnlausar séu og gæfu þjóðinni e.hv. í aðra hönd. Hræsnörunum hugnast betur að  nota sín eigin tól (þótt ekki séu það vígtól) ,til að ganga hægt og bítandi frá Íslendingum sem fullvalda þjóð

Helga Kristjánsdóttir, 7.11.2010 kl. 23:19

3 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Við færumst æ nær Sovétkomunistanum, þar sem menn voru sekir uns sakleysið var sannað!

Gunnar Heiðarsson, 7.11.2010 kl. 23:40

4 Smámynd: Ívar Pálsson

Helga, ætli stjórninni finnist ekki Svíasósíallinn ímynd hins fullkomna hlutleysis í varnarmálum? Raunin er að þeir framleiddu stál fyrir möndulveldin í stríðinu og Saab orustuþotur og sprengjur fyrir hvern sem er núna.

En að þjálfa flugmenn fyrir NATO eða aðra passar ekki fyrir Steingrím J. Aðra prjónastofu á Blönduós!

Ívar Pálsson, 8.11.2010 kl. 00:38

5 Smámynd: Ívar Pálsson

Rétt Gunnar. Kannski var búið að ganga frá næstu fimm ára áætlun félaga Steingríms J þannig að flugþjálfunaráætlunin væri ekki á dagskrá fyrr en 2015!

Ívar Pálsson, 8.11.2010 kl. 00:41

6 identicon

Ógæfu Íslands verður allt að vopni - meira að segja vopnlausar flugvélar!

Sigurjón Pálsson (IP-tala skráð) 8.11.2010 kl. 08:23

7 Smámynd: Einar Guðjónsson

Er nú á þeirri skoðun að það sem keyrði Ísland á kaf var einmitt það sem þú mælir með og kallar '' íslenskara í eðli sínu'' . Hér gera bara menn það sem þeim sýnist og er hver fyrir sig og það hefur ekkert breyst.

Ríkis sósíalisminn hér er nú allur aðallega í boði Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Ég er nú ekki sérstakur fylgismaður VG eða S en vil ekki sjá

Sjálfstæðisflokkkinn hér á beit í Ríkissjóði  í nánustu framtíð. Ástandið á Suðurnesjum er aðallega þeim sjálfum að kenna og virðist þar ekki nein þekking á samlagningu. Þeir hafa í raun tapað öllu sem þeir hafa komið nærri. Búnir að tapa eða selja alla útgerð frá sér. Búnir að skuldbinda sveitarfélögin þarna um milljarða án þess að sjá nokkurn tíma möguleika á að borga þá nema með meðgjöf frá ríkinu.

Einar Guðjónsson, 8.11.2010 kl. 09:32

8 Smámynd: Geir Ágústsson

Lengi skulu andstæðingar Sjálfstæðisflokksins (hvort sem þeir eru samherjar S/Vg eða ekki) benda mörg misseri aftur í tímann til að leita að orsökum núverandi (og hríðversnandi) ástands í hagkerfinu.

Geir Ágústsson, 8.11.2010 kl. 16:25

9 Smámynd: Þórdís Bachmann

Mæltu mann heilastur, félagi Ívanov.

Mætti ætla þú hefðir fengið snert af röntgensýn Sporðdrekans við lestur þessa pistils. Til hamingju með það,

þín í baráttuham,

Þórdís

Þórdís Bachmann, 8.11.2010 kl. 17:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband