Fall Evrópu

Eurozone mapNú féllu jaðarlönd Evrópu, Grikkland, Portúgal og Írland. Þeim verður ekki bjargað án skuldaafskrifta, sem þýðir það að bankarnir falla í verði, sem þýðir aftur að eignastaða landanna versnar.  En bankar annarra landa falla líka, enda lánuðu þeir til ríkjanna og þegna þeirra. ESB reyndi að halda þessu falli innan ríkjanna þriggja með björgunarsjóði sínum, nú síðast fyrir helgina, en það tókst ekki. Vaxtakostnaður og ávöxtunarkrafa skuldabréfa er komin langt út úr korti, þar sem hverfandi líkur eru á því að þjóðirnar nái að vaxa svo hraustlega að þær nái að greiða vextina til frambúðar, hvað þá höfuðstól skuldanna.

Allt veltur næst á Spáni

Markaðirnir mæna núna á Spán: Tekst þessu skulduga ríki, með allt sitt atvinnuleysi og sprungna fasteignabólu að komast hjá því að fá aðstoð björgunarsjóðs ESB? Ekki bætir úr skák að spænskir bankar féllu við fall Portúgals, enda stórir lánadrottnar þess.  Um þrjátíu spænskir bankar voru lækkaðir í mati. ESB leggur ofuráherslu á það að Spánn þurfi ekki að leita alfarið á náðir sjóðs þess, þar sem kerfið riðar ella til falls. Franskir bankar, sem standa sterkir enn, höfðu lánað mikið til Spánar og lenda í vandræðum ef Spánn sækir mikið í sjóðinn.

Þjóðin gegn bönkum og stjórnmálamönnum þeirra

Hver Evrópuþjóðin af annarri fellir nú ríkisstjórn sína fyrir það að hjálpa bönkum að færa skuldir þeirra yfir á þegna landanna. Þýska ríkisstjórn Angelu Merkel, herraþjóðar Evrópusambandsins, veiktist m.a.s. enn frekar núna, þegar æ fleiri Þjóðverjar neita að fórna ævisparnaði sínum í að bjarga illa stöddum jaðarþjóðum Evrunnar. Þýskir þegnar sjá loksins núna að til stendur að þeir greiði drýgstan hluta fallsins. Þess vegna sigldi sjóðurinn mikli í strand og hefur ekki einu sinni fjármögnun eftir tvö ár, hvað þá ef ofangreind PIG- ríki fá meira til sín og Spánn fær hlutalán frá ESB- sjóðnum.

EurozonemapPinnaRíkisstjórnir falla

Þegnar Írlands og Portúgal risu nú upp og felldu stjórnir sínar, sem samið höfðu við ESB um ógnarlán á háum vöxtum til „bjargar“ þjóðinni. Írar krefjast sanngjarnari lánasamninga með nýrri ríkisstjórn og Portúgal er í lás, stjórnarkreppu og greiðslukreppu. Rimman á milli þjóðarinnar annars vegar og banka og stjórnmálamanna hinsvegar verður æ harðari. Því miður fyrir þessar Evruþjóðir þá var íslenska leiðin ekki farin, að láta skuldareigandi bankana taka langstærsta skellinn, heldur var skuldin færð á ríkin að langmestu leyti. Það reiknisdæmi gengur ekki upp: vaxtakostnaður er langt yfir hagvexti í meðalári þannig að þjóðin gæti aldrei þrælað fyrir vöxtum af lánunum og síst af höfuðstóli.  

Þjóðverjar borgi brúsann?

Þýskaland er stærsti greiðandi í björgunarsjóð ESB vegna bankahrunsins. ESB mistókst um sl. helgi að ná samkomulagi um fjármögnun sjóðsins, sem sér fram á sjóðþurrð eftir tvö ár.  Komið er að þeim punkti í Evrópusósíalnum að hver og einn þegn hvers ríkis fer að spyrja sig: „Hver greiðir þessar skuldir að lokum?“ Þjóðverjar gegna hér lykilhlutverki eins og í hruninu sjálfu. Þeir hafa haldið Evrunni saman, en Merkel veitist erfitt að láta almenning draga Suður- Evrópuvagninn.  Græningjum, sem vex ásmegin í Þýskalandi (vegna andstöðu við kjarnorku) mun örugglega ekki takast að halda Evrunni betur saman þótt þeir vildu.

Öryggið ekki fyrir hendi

Markaðurinn hefur fellt PIG- löndin og síðast fréttist að Írar þurfi að þjóðnýta banka sína og hugsanlega stærsta lífeyrissjóðinn, Irish Life, sem hefur nú fallið um helming í verði. Öryggið sem fólk taldi felast í ríkisábyrgð er ekki fyrir hendi. Ólga hverrar þjóðar eykst eftir því sem fólkið gerir sér betur grein fyrir raunverulega bágri  stöðu þjóðarbúsins.

JabbaLeiaBlekkingar á Íslandi

En hér á Íslandi er aftur allt eins og fyrir hrun að þessu leyti: Fólki er talið trú um að ríkið geti enn ábyrgst hitt og þetta, allar inneignir í bönkum og borgað hundruð milljarða króna í vafasamar erlendar kröfur. Því er sagt að því sé best borgið innan Evrópusambandsins, sem sé svo traust og að við getum jafnvel fengið gjaldmiðil þess, Evruna, sem komi á stöðugleika!

Höfum þetta stutt: Við kaupum enga góðvild með því að borga Icesave og aðildarumsóknin að ESB er út í hött við þessar hrunaðstæður í því ríkjasambandi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Vonandi verður Nei svarið 9. apríl.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 30.3.2011 kl. 11:40

2 Smámynd: Erla Magna Alexandersdóttir

Skuldsett þjóð ætlar að BORGA-  með hvaða peningum '?

Erla Magna Alexandersdóttir, 30.3.2011 kl. 13:03

3 Smámynd: Ívar Pálsson

Rétt Ásthildur, NEI er eina svarið.

Einmitt Erla Magna, eða með peningum hverra? Líkleg Icesave- upphæð er tvö hundruð þúsund milljónir króna, fyrst Bretar og Hollendingar höfnuðu staðgreiðslutilboði Buchheitsog gengið fellur eðlilega.Hvort á að skera niður eða að skattleggja meira? Hvorugt, því að Icesave á aldrei að greiða.

En ESB, hvaða þjóðir eiga að borga í björgunarsjóðinn, sem aldrei fæst greiddur til baka? Allar, auðvitað, líka nýir græningjar eins og Ísland sem héldi sig vera komið í draumaland Evru- öryggis!

Ívar Pálsson, 30.3.2011 kl. 13:14

4 identicon

Þetta rímar allt við innanbúðarupplýsingar Lindsey Williams, en hann segir Evruna hrynja á þessu ári og dollarann 2 vikum síðar.

http://kryppa.com/evran-deyr-2-vikum-a-undan-usd/

http://kryppa.com/80-likur-a-hruni-evrunnar/

Verður fróðlegt að sjá hvaða upplýsingar leka út af bilderberg fundi ársins, sem er haldin í Sviss snemma í júní

http://kryppa.com/bilderberg-fundur-arsins-i-sviss/

Gullvagninn (IP-tala skráð) 30.3.2011 kl. 14:22

5 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Efast ekki um eitt orð í þessum pistli minnugur pistilsins þíns um fall Íslands.  Icesve NEI.

Magnús Sigurðsson, 30.3.2011 kl. 15:13

6 Smámynd: Ívar Pálsson

Takk fyrir tenglana, Gullvagn. Takk fyrir traustið, Magnús. Því miður, ef þetta reynist rétt.

Þorvaldur Hrafn: Hér einbeitti ég mér helst að skuldamarkaði Evrópu. Spánn er næsti stóri hlekkurinn í keðjunni, sem margt treystir á. Holland er kjölfesta í Evrunni með Þýskalandi, en Belgía er tvískipt land, tvær þjóðir og án stjórnar. Annars er þetta ekki tæmandi úttekt á 27 ríkjum, heldur mynd af því helsta sem á sér stað eins og ég sé það. En það er ljóst með Icesave eins og annað: auknar skuldaviðurkenningar auka álagið og gera framtíðina erfiðari. Nei við Icesave! Áhættan felst í því að segja já.

Ívar Pálsson, 3.4.2011 kl. 02:19

7 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Hvað ertu að gera með mynd af Gunnari Birgissyni þarna?

Jón Steinar Ragnarsson, 9.4.2011 kl. 03:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband