Hömstrum glóperur til stjórnarskipta

Lightbulb idea

Bann við sölu glópera er dæmigert besservissera- búrókratabann á sjálfsagðri nauðsynjavöru, þarfaþingi hér á klakanum en úthrópað í blokkum Brussels. Hvað er eðlilegra en að kaupa venjulega gamaldags ljósaperu, sem kostar sáralítið, lýsir og hitar upp heimilin og endar sem líttmengandi málmur og gler á stærð við sykurmola, ef þjappað er saman? Bann við slíkum stórhættulegum viðskiptum er í anda þeirrar trúar að Mið- Evrópubúi viti mun betur en Íslendingur hvernig lífsstíl landinn ætti að temja sér í stóru og smáu: nota lítið vatn, rafmagn og hita, þótt það allt sé bráðnauðsynlegt til þess að njóta lífsins hér til fullnustu, njóta heilsu og forðast þannig þunglyndi sem sótt getur á heimskautabúa.

 

Bann til sparnaðar? 

En til hvers var bannið sett? Ekki getur það verið vegna heildarsparnaðar, því að hlandódýrt er að kveikja á glóperu hér í því herbergi sem gengið er inn í, með fullri birtu frá upphafi og slökkt þegar gengið er út. Hitinn frá perunni minnkar hitunarkostnað í herberginu. Kostnaðurinn við að urða hana er síðan í lágmarki. Allt annað eru dýrari lausnir, sérstaklega sparperur sem þarf síðan að fara með eins og mannsmorð vegna kvikasilfurs með ærnum kostnaði, ef perunni er ekki bara hent í ruslið. Kostnaðspörun með banninu er afsökun, ekki ástæða.

 

Almenningur beygður 

Raunveruleg ástæða glóperubannsins er tilhneigingin til þess að beygja lífsstíl almennings undir regluvaldið, sem „veit“ hvað er best fyrir hann og nær sínu fram með bönnum. Þar gildir víst einu hverjar aðstæður eru, rússneska peran í fjósinu hjá afdalabóndanum við norðurheimskautsbaug um jólin eða gyllta 20- peru kóngaljósakrónan í veislusal ráðherranefndarinnar í Madríd þegar 40°C molla er utandyra: Eitt skal yfir alla ganga, með góðu eða illu, eins og hér er gert.

 

EES ekki endilega staðfest 

Þegar hér er komið rís Kratareglukórinn upp á afturlappirnar og fer með gamla viðkvæðið: „En við samþykktum þetta í EES!“. Þar gleymist að sá samningur er milliríkjasamningur þar sem okkur er í sjálfsvald sett hvað við samþykkjum sem lög eða ekki, enda kom það margoft í ljós áður en núverandi ESB- aðildarstjórnvöld samþykktu sem lög á Íslandi hvað sem sent var úr eyðimörkinni sunnan úr löndum.

 

Frjáls verslun með vörur sem valda ekki skaða er ein af undirstöðum heilbrigðs samfélags. En því miður hafa núverandi stjórnvöld ekki grænan grun um það hvernig halda beri samfélagi heilbrigðu og því verðum við að kaupa upp birgðir af glóperum til þess að endast fram að stjórnarskiptum. Vonandi er það bara ein pera! 


mbl.is Engar glóperur eftir næstu mánaðamót
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Tek undir hvert orð hjá þér.  

Það er ekki smá rafeindabúnaður í hverri  sparperu. Þessu þarf að farga ásamt kvikasilfrinu í hvert sinn sem skipt er um peru.  Ekki beinlínis umhverfisvænt. Kannski eigum við von á að þessar sparperur verði einnig bannaðar innan skamms?

Sjálfsagt lenda 99% af ónýtum sparperum í heimilissorpinu, hvað svo sem tilskipunum líður.

 Cfl PCB Cfl Ballast Cfl Shell Cfl Glass

Hvers vegna að banna hefðbundnar ljósaperur?   Hvers vegna ekki að leyfa fólki að velja?    Nú er um að gera að birgja sig upp af perum!

Ágúst H Bjarnason, 18.8.2012 kl. 11:25

2 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Ég byrjaði fyrir 2árum,keypti slatta og á enn, annars förum við ekki að hrekja þetta lið úr túninu heima??

Helga Kristjánsdóttir, 18.8.2012 kl. 11:28

3 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Sammála. Svo má íhuga hvort það hafi skipt máli að gömlu góðu Osram perurnar okkar voru framleiddar í Noregi.

Hver framleiðir þessar "umhverfisvænu" sparperur?

Kolbrún Hilmars, 18.8.2012 kl. 13:24

4 Smámynd: Árni Gunnarsson

Orð í tíma töluð. Hér á Íslandi hefur bara orðið nokkuð sérstæð "menningarbylting." Nú sitja ráðherrar við hringborð hjá miðli sem gefur þeim samband við gamlan bárujárnsskúr í belgískri stórborg. Og til að halda miðlinum í transsambandinu söngla þessir ráðherrar lágt og með vægum áherslum: "Jæg er sgu ingen helvedes islandsmand."

Árni Gunnarsson, 18.8.2012 kl. 14:04

5 Smámynd: Eyjólfur Jónsson

Það er berg af "sparperum" sem bíða förgunar í himnaríki ESB. Þeir hafa ekki hugmynd

um hvernig þeir fargað þeim. Kvikasilfursbergið er fætt!

Eyjólfur Jónsson, 18.8.2012 kl. 14:04

6 Smámynd: Elle_

Jeg  er en helvedes Islandsmand.  Við skulum ekki leyfa Brussel og íslenskum leppum þeirra að ráða þessu.  Við næstu stjórn hljótum við að skipta yfir.

Elle_, 18.8.2012 kl. 14:44

7 Smámynd: Höfundur ókunnur

Þörf ábending. Takk.

Ég hef þegar hamstrað 100 W og 75 W perur, sem hvergi eru fáanlegar lengur. Það er svosem ekkert mál að hamstra hitt líka en þetta er ekki það sem maður sá fyrir sér fyrir nokkrum árum, verandi með 200-300 perur eða fleiri inni í geymslu.

Höfundur ókunnur, 18.8.2012 kl. 21:39

8 Smámynd: Ívar Pálsson

Gaman að sjá hvað fólk er sammála og takk fyrir ábendingar og mynd.

Ívar Pálsson, 19.8.2012 kl. 00:02

9 Smámynd: Kommentarinn

http://www.youtube.com/watch?v=0bxzU1HFC7Q

Kommentarinn, 19.8.2012 kl. 22:48

10 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Í vor keypti ég sparperu og setti í lampa. Þetta er 18W Philips pera og er hún m.a. merkt Genie made in China og er ekki með CE merki. Í gærkvöldi sprakk hún þegar kveikt var á henni og sló út öryggi. Líklega hefur ekki logað lengur á henni en samtals um 10 klst og kannski verið kveikt á henni um 10 sinnum alls.

Fyrir fáeinum vikum keypti ég fjórar 20W sparperur. Þrjár þeirra eru enn í lagi en ein þeirra flökti strax með daufu ljósi. Kom ónýt.

Þetta eru perur sem eiga að endast margfalt á við gömlu góðu glóperurnar en eru ekki betri en þetta. Af þeim fimm perum sem ég hef keypt undanfarið hafa tvær reynst gallaðar. Með þessum tveim gölluðu perum fuku nokkrir þúsundkallar.

Ágúst H Bjarnason, 25.8.2012 kl. 10:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband