Meira af arfleifð Gnarrs

Ekki leggja her

„Nemendum hefur fjölgað og eftir því sem byggingum fjölgar, þá fækkar bílastæðum,“. Þetta leikhús fáránleikans heldur áfram og nemendur HÍ eru spurðir hvort þeir vilji borga um 140 þúsund krónur á ári fyrir bílastæði sem voru áður frí, en voru eyðilögð fyrir hjólastíg við hlið fáförnu götunnar. Nemendur mega þá ekki eiga bíla, nema þeir fái pláss á togara eða eigi ríka foreldra. Hvað er að því að ryðja lóð, setja möl á hana og leyfa nemendum að leggja að vild? Eða bara að láta bílastæðin þeirra vera í friði fyrir hjólglöðum Trotskýistum?

101 menningarelítunni til upplýsingar, þá kostar sitt að vera nemandi, þótt það hafi verið vel frítt fyrir þau, á danska sósíalnum á áttunda áratugnum í heimspekivímu með óverðtryggð námslán sem eyddust upp á verðbólgubáli. Gefið nemendum smá slaka, bílastæði eru algert lágmark. Það kostar nefnilega 5000 krónur að leggja á öllu fína heilaga grasinu sem er alls staðar.


mbl.is Vilja nemendur greiða 700 krónur?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Björgvin Jóhannsson

Væri ekki nær að rukka hjólreiðafólk þá líka fyrir það að leggja hjólunum sínum við skólann 700kr einnig. Hafa smá sanngirni í þessu, ef einn sem geymir farartæki þarf að borga þá ættu allir að þurfa þess ekki satt?

Halldór Björgvin Jóhannsson, 13.11.2013 kl. 09:58

2 Smámynd: Ragnar Þórisson

Það er rétt hjá þér að það kostar mikið að vera nemandi. Að reka svo bíl í ofanálag við það er líka mjög stór kostnaður hvort sem greiddar eru 700 kr. fyrir bílastæði eða ekki.

Og svo til Halldórs Björgvins og hans illa ígrunduðu hugmynd að rukka hjólreiðafólk um sömu upphæð fyrir stæði og ökumenn. Veltu fyrir þér plássinu sem hjólreiðamaðurinn tekur þegar hann leggur hjólinu sínu og berðu það síðan saman við bílastæði, innkeyrsluna í bílastæðið og akbrautina sem liggur um bílastæðið. Kemstu þá að sömu niðurstöðu? Ef svo þá þætti mér mjög fróðlegt að heyra röksemdafærslu þína fyrir því.

Ragnar Þórisson, 13.11.2013 kl. 12:21

3 Smámynd: Ívar Pálsson

Það hlýtur að vera rétt hjá Ragnari að samanburður á plássi undir bíl og reiðjól í stæði er ekki raunsær. Ekki er verið að bera saman reiðhjól og bíla, eins og umræðan leiðist gjarnan út í. Það er alveg hægt að liðka fyrir báðum ferðamátum. En núverandi stefna, að þvinga fólk beinlínis til þess að láta bílinn sinn af hendi eða gera ökumönnum lífið leitt, er algerlega ónauðsynleg.

Nemandi sem leigir á ódýrari stað uppi í bæ þarf að vera á bíl, nema að hann vilji eyða lunganu af deginum í dýrar strætóferðir (hækkaði nemandakortið ekki um 100% á 2 árum?). Grundvallarástæðan fyrir þessum aðgerðum mörgum gegn bílum er koltvísýringslosun sem hitar heiminn. Við vitum öll að engu breytir um heimshitann hvort við öll göngum í vinnuna með börnin okkar á bakinu eða ökum þangað. Ástæðurnar fyrir því að pína 3/4 hluta Reykvíkinga til þess að hætta við akstur eru hreinlega út í hött.

Ívar Pálsson, 13.11.2013 kl. 13:40

4 Smámynd: Árni Davíðsson

Það þarf ekki annað en að skoða loftmynd af Háskólasvæðinu til að sjá hvern forgang akandi fá og hversvegna það er skynsamlegt að láta akandi greiða eitthvað fyrir það land sem þeim er afhent endurgjaldslaust undir bílana sína.

Upphæðin þarf ekki að vera há til að margir þeirra sem búa skammt frá Háskólanum (500 m til 3 km t.d.) breyti ferðavenjum sínum og gangi, hjóli, taki strætó eða verði samferða öðrum á vinnustaðinn sinn. Það mundi minnka umferð nokkuð og draga úr þörfinni á bílastæðum fyrir Háskólann og losa um land fyrir nýbyggingar eða fegurra umhverfi. Þeir sem vilja geta ekið eftir sem áður og minni umferð mundi greiða för þeirra ef eitthvað er.

Árni Davíðsson, 13.11.2013 kl. 13:55

5 Smámynd: Ragnar Þórisson

"[E]yða lunganu af deginum í dýrar strætóferðir". Þessi fullyrðing á sér ekki stoð í raunveruleikanum. Athugaðu að samanburðurinn er við rekstur á bíl. Það er alltaf ódýrara að taka strætó. Að tala um dýrar strætóferðir er rökleysa í þessu samhengi. Og ef þú athugaðir málið mundi líklega koma þér á óvart hversu fljótlegt það er að taka strætó. Miðað við umferðina vestur í bæ á morgnana þá er strætó nokkuð fljótur á leiðinni, sérstaklega vegna þess að hann keyrir sérakrein framhjá versta umferðarþunganum. Og ekki má gleyma tímanum sem fer í að leita að bílastæði.

Ragnar Þórisson, 13.11.2013 kl. 13:56

6 Smámynd: Ragnar Þórisson

"eyða lunganu af deginum í dýrar strætóferðir".

Samanborið við rekstur á bíl eru strætóferðir alls ekki dýrar. Og þær eru heldur ekki eins tímafrekar og þú heldur. Umferðarþunginn er ansi mikill vestur í bæ á morgnana og strætó fær forgang fram fyrir hann á sérstakri akrein.

Ragnar Þórisson, 13.11.2013 kl. 14:05

7 Smámynd: Ragnar Þórisson

Úbbs. Eitthvað skrítið hér á ferð. Fyrri færslan birtist mér ekki inn fyrr en ég skrifaði þá síðari. Ég hélt að eitthvað hefði klikkað með hana. Ég biðst forláts.

Ragnar Þórisson, 13.11.2013 kl. 14:07

8 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Það er ekki svo ýkjalangt síðan að gjaldmælum var komið fyrir allt í kring um H.Í.við mikla óánægju. En mölin fyrir neðan Sæmundargötu og langleiðina niður að Vatnsmýrartjörn var gjaldfrí seinast þegar ég spurði um það.

Helga Kristjánsdóttir, 13.11.2013 kl. 14:34

9 Smámynd: Ívar Pálsson

Ragnar, þú lætur mig skammast mín fyrir villuna margoft, náttúrulega átti þetta að vera lunganum úr deginum (þgf.). Auðvitað er það smá- ýkjur, en mér finnst alger óþarfi að eyða löngum tíma í samgöngur að óþörfu. Núverandi meirihluti stjórnar borgarinnar vill auka þennan tíma, hægja á og tefja umferð sem mest og að liðka sannarlega ekki fyrir flæði umferðar.

Árni, ef nemendur eru á bílum sem ekki er hægt að leggja vegna þess að heilagt gras er víða, af hverju má hluti þess ekki fara undir bílastæði? Þessum bílum þarf að leggja, hvort sem maður borgar fyrir stæðin eða ekki. Þarna eru líka ennþá lóðir með órækt, sem nota mætti þar til byggt er.

Við komum alltaf aftur að grundvallarpunktinum, frelsi til athafna. Það er ekki Háskólans að pína nemendur í einhvern samgöngumátan með neikvæðum aðgerðum eins og að fækka stæðum. Ef nemendum fjölgar, þá vantar fleiri stæði, svo einfalt er það.

Ívar Pálsson, 13.11.2013 kl. 14:35

10 Smámynd: Ragnar Þórisson

Það hefur nú aldrei þótt góð lenska að færa rök fyrir máli sínu með ýkjum.

Stærsti áhrifavaldurinn af auknum ferðatíma vestur í bæ á morgnana er aukin útþensla borgarinnar, þ.e. það eru alltaf fleiri og fleiri sem þurfa að fara þessa leið. Það er alls ekki hægt að kenna núverandi stjórnvöldum um þessa útþenslu. Hún hefur verið í gangi í langan tíma og síst á þessu kjörtímabili. Og ef eitthvað er þá mætti segja að núverandi stjórnvöld séu að reyna að liðka fyrir flæði umferðar með aðgerðum til að hvetja fólk til að velja aðra samgöngumáta en einkabíl. Það þýðir færri bílar á götunum og þeir sem eftir eru eiga þá greiðari leið.

Ragnar Þórisson, 13.11.2013 kl. 15:27

11 Smámynd: Ívar Pálsson

Ragnar, SamBesti meirihlutinn hefur marglýst því yfir að hann vilji hægja á umferð, sem hann gerir, t.d. á Hofsvallagötu (10.000 bílar á dag), Snorrabraut og í Borgartúni. Samt er hraði umferðarinnar ekki til vandræða fyrir. Núna er líka viðurkennt að bestun í umferðarflæði borgarinnar er vísvitandi ekki hámörkuð sem skyldi, þ.e. með umferðarljósunum, þótt tæknin sé fyrir hendi, allt vegna stefnunnar að stífla flæðið.

Svo er það ekki hvati að öðrum samgöngumátum að sækja að einkabílnum, heldur áþján. Hinir samgöngumátarnir eru fyrir hendi, en eru bara ekki vænlegir kostir.

Ívar Pálsson, 13.11.2013 kl. 16:08

12 Smámynd: Ragnar Þórisson

Jæja. Þetta er nú komið langt út fyrir upphaflega umræðuefnið sem snerist um bílastæðagjöld fyrir utan Háskólann.

En hvað um það. Hvers vegna segirðu að hinir samgöngumátarnir séu ekki vænlegir kostir? Ég fullyrði sem ég stend hér að það er ekki satt. Ég var lengi á sama máli og þú en hef algjörlega skipt um skoðun eftir að ég prófaði aðra samgöngumáta en einkabílinn.

Ég var núna fyrir stuttu að reikna út hvað ég spara mikinn pening á því að nota einkabílinn sem minnst. Mér reiknaðist til að ég spara ca 200.000 kr á ári bara í bensínkostnað. Það kalla ég bara ágætlega vænlegt.

Ragnar Þórisson, 13.11.2013 kl. 16:26

13 Smámynd: Ívar Pálsson

Læt ég þetta þá gott heita og þakka þeim sem lögðu sitt fram.

Ívar Pálsson, 13.11.2013 kl. 16:36

14 identicon

Kjarni málsins er m.a. sá að það er ekki til neitt sem heitir "ókeypis bílastæði".  Ekki veit ég hvað Háskólinn á af landi sem hægt er að nota undir bílastæði, en allt þetta kostar eitthvað.

H.T. Bjarnason (IP-tala skráð) 13.11.2013 kl. 16:43

15 Smámynd: Halldór Björgvin Jóhannsson

Og svo til Halldórs Björgvins og hans illa ígrunduðu hugmynd að rukka hjólreiðafólk um sömu upphæð fyrir stæði og ökumenn.

Já já, hví ekki að rukka þá um sömu krónur, ekki er mismunað á milli mótorhjóla og bíla, né mismunandi stærða á bílum þegar kemur að því að rukka.

Ekki borgar hjólreiðamaður krónu í viðhald á þessum vegum (m.a. þessum fáu hjólreiðastígum sem til eru) á sama máta og við bílaeigendur gerum með bensíni. 

En persónulega tel ég það í góðu lagi að rukka hjólreiðamenn fyrir að leggja sínum hjólum, það á einnig að sekta þá ef þeir skilja hjólin sín eftir þar sem ekki er tilgert hjólastæði. Hví ekki það.

 Og ef eitthvað er þá mætti segja að núverandi stjórnvöld séu að reyna að liðka fyrir flæði umferðar með aðgerðum til að hvetja fólk til að velja aðra samgöngumáta en einkabíl.

Það er mikill munur á því að hvetja og neyða, þessar aðgerðir hjá núverandi borgarstjórn á móti einkabílnum á ekkert skylt við hvatningu. 

Þó að sumir hafi getu og tíma til að vera spóla á einhverju hjóli út um allt þá þýðir það ekki að allir geri það. Sumir eiga það til að fara út fyrir 101 ótrúlegt en satt... 

Halldór Björgvin Jóhannsson, 13.11.2013 kl. 17:28

16 Smámynd: Ragnar Þórisson

Halldór Björgvin. Þessi hugmynd þín er jafnvel verr ígrunduð en ég fyrst taldi. Fyrir það fyrsta er samanburður þinn á vélknúnum ökutækjum og óvélknúnum fáránlegur. Í öðru lagi þá eiga margir hjólreiðamenn bíla og borga þar með viðhald á vegum. Þar fyrir utan þá nota hjólreiðamenn vegi sáralítið og þegar þeir gera það þá er vegslit vegna þeirra nánast ekki neitt. Þar af leiðandi hefurðu engin góð rök til að rukka gjald af hjólreiðafólki til að leggja hjólunum sínum. Hins vegar hef ég ekkert á móti því að sekta hjólreiðamenn fyrir að skilja hjólin sín eftir þannig að aðrir verði fyrir ónæði. Það er ekkert nema sjálfsagt.

Og varðandi hvatningu eða neyð. Þú vilt ekki kalla þetta hvatningu en það neyðir þig heldur enginn til að nota ekki bíl. Svo þetta er heldur ekki neyð. Hvað viltu kalla það þá?

Og varðandi það þegar þú gefur í skyn að hjólreiðafólk sé bara inni í einu póstnúmeri þá er sú fullyrðing augljóslega út í hött.

Ragnar Þórisson, 14.11.2013 kl. 13:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband