Gúgglaðu sjálfan þig!

"Gúgglaðu sjálfan þig!" hefði Sókrates eflaust sagt í dag. Öllum er hollt að slá nafninu sínu inn á Google leitarvélina af og til og fletta þar áfram síðurnar. Núorðið er ekkert til nema að það sé til á netinu. Þú ert kannski svo heppin(n) að vera ekki til þar, en líklegast kemur það þér á óvart hvaða ómerkilegu upplýsingar eru einu heimildirnar sem til eru um tilveru þína. Vitneskjan um það að þær verði þarna til eilífðar heldur kannski fyrir þér vöku.

Þinn að eilífu

En lítum kannski frekar á þessar upplýsingar eins og þær sem komu fram í Þjóðviljanum og Morgunblaðinu í alþjóðamálum í kalda stríðinu. Einhverjar upplýsinganna geta verið rangar, villandi eða gefa ekki raunsanna heildarmynd af einstaklingnum, en í stað þess að rembast við að leiðrétta eitthvað sem ekki er hægt að færa í rétt horf, þá ætti hver og einn að útbúa gögn um sig sjálfan, sem gefa réttari mynd að hans mati. Fæstir eru tilbúnir til þess að ganga þannig fram fyrir skjöldu og bera kannski tilfinningar sínar á torg, en okkur er þetta nauðugur kostur, eins og netmálum er fyrir komið. Áður fyrr hefði fólk sagt að slíkt væri eins og að skrifa minningargrein um sig sjálft, fullt af sjálfbyrgingshætti, en flestum sem skoða þetta mál í dag hlýtur að vera ljóst að lausnin sé að bæta við upplýsingarnar, í stað þess að vona að aldrei komi neitt á netið um þá sjálfa.

Greypt í Google stein

Ég "gúgglaði" mig í gær og sá eitt og annað nýtt sem opnaði augu mín, sérstaklega hól og réttmæta gagnrýni á greinarskrif mín sem hafði komið fram á www.malefnin.com án þess að ég vissi, en hefði gjarnan viljað sjá þegar það var í gangi. Það virðast vera nokkrir vettvangar skoðanaskipta í gangi og flóran er merkilegri en mig grunaði fyrir tveimur vikum þegar ég byrjaði að blogga. Það kemur helst á óvart hve ódugleg við erum (á blog.is) að koma með athugasemdir við blogggreinar, en kannski er það vegna þess að maður vill ekki setja sig í hóp með dónum og fagkverúlöntum sem vaða uppi af og til. Annars getur fælnin líka orsakast af því, að ein lítil athugasemd sem sett er fram á vefsíðu eða bloggsíðu einhvers verður síðan framarlega á Google um alla tíð eins og dómur um karakter manns, greyptur í stein. Ég mæli því eindregið með því að fólk með skoðanir komi sér upp bloggsíðu sem það ræður alveg sjálft og getur gert grein fyrir sér að lyst. Allt sem frá manni fer ber þó að ígrunda eilítið áður en það er greypt í netstein, nema hól um aðra, sem aldrei er nóg af.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband