Sögur úr sveitinni: Kötturinn og nautið

Tveir kettir voru á Tindum. Annar var rólegur og gælinn en hinn, þessi bröndótti, var að mínu skapi. Hann fældist mannfólkið og var mér þannig uppspretta fjölda ævintýra Bröndóttur köttur (Jón Baldur Hlíðberg) þegar  ég reyndi að ná honum, þó með þeim afleiðingum að hendurnar mínar voru útklóraðar. Ég varð að finna góða leið til þess að ná honum. Loksins datt ég niður á lausnina. Bréfsnifsi var bundið í endann á löngu bandi sem ég hafði merkt með hnútum á eins faðms bili til þess að sjá lengdina, þegar ég dró það hægt fyrir hornið á bóndabænum. Þessa freistni stóðst kötturinn ekki. Kattareðlið dró hann að „músinni" og mér. Þegar lítið eitt var eftir af bandinu og hann kom fyrir hornið, klófesti ég tígurinn Brand, svo að bættist í klórmynstrið mitt. Þá var ég með hann tilbúinn í gamanið, sem framundan var.

Mikill músagangur var í hlöðunni. Ragnar prakkari, jafnaldri minn, fangaði tólf þeirra og tókst að smeygja þeim lifandi innan í Esso olíubrúsa úr málmi, með loftgötum. Ég fór með Brand hinn fælna út á tún og Ragnar hélt músabrúsanum skammt frá. Mús (Jón Baldur Hlíðberg, Ísl. Spendýr)Kötturinn fann lyktina, heyrði eflaust einhver hljóð og æstist upp. Við veltum því fyrir okkur hvort einhver músanna myndi lifa það af að verða sleppt út á túnið hjá kettinum, en við þurftum ekki að íhuga það lengi. „Sleppum músunum!" kallaði ég til Ragnars.  Þær fyrstu kíktu út, en síðan ruku allar af stað, hver í sína áttina. Ég lét Brand lausan og sá var snar í snúningum! Hann vissi að tækifærið var einstakt og dvaldi ekki yfir hverri mús, heldur rauk á eina, svo þá næstu, þar til engin hreyfing sást, allt á augabragði. Þetta var hámark spennunnar fyrir okkur pjakkana, sem dáðust að herkænsku þess bröndótta á hástundu þessa kattalífs hans.

Næsta spennuatvik okkar átti sér stað vegna stríðni Ragnars við nautið mikla. Í hvert sinn er hann hafði mokað flórinn undan kúnum og síðan nautinu á morgnana, þá söng hann hástöfum  „Ó, Sóle Míó" skrækum rómi yfir bola, sem fann söngnum allt til foráttu og rykkti í keðjurnar til þess að reyna að losa sig. Þar kom að því að bolinn yrði leiddur út á tún á aflokað svæði nálægt bænum með gaddavírsgirðingu í kring, nema læk á eina hlið. Skömmu síðar stóðum við Ragnar hjá gaddavírnum og hann manaði mig til þess að fara innfyrir og stríða flykkinu. Ég þorði því ekki, svo að Ragnar smeygði sér varlega í gegn og gekk í átt til tudda, sem lét sér fátt um finnast, upptekinn við ferska töðuna. Þá leit Ragnar yfir til mín og söng „Ó, Sóle míóóóó" af hjartans lyst. Hann náði ekki að sjá skjót viðbrögð tudda, sem virtist tengja allt í einu, setti undir sig hausinn stóra og þeysti af stað í áttina til stráksa. „Ragnar, forðaðu þér!", æpti ég. Ragnar hljóp eins og fætur toguðu að læknum til þess að forða sér með dýrið á hælunum. Hann tók undir sig stökk og sveif yfir lækinn, en brjálaður tuddinn snarstöðvaði á brúninni og fnæsti óðum.

Ragnar sýndi nautinu ávallt tilhlýðilega virðingu eftir þessa raun.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Þórðarson

Eitt sinn þegar ég var við vinnu í Rússlandi og heimsótti mitt fólk sem var um borð í veiðiflota í Okhotskhafi, uppgötvaðist rotta í klefa hjá einum þeirra. Eina veiðitækið var kettlingafull læða sem varla gat hreyft sig, komin svo langt á leið. Við slepptum henni inn í klefann og eftir stuttan tíma var rottan dauð. Ég hef oft hugsað um þennan ójafna leik, enda eru mýs og rottur nagdýr, og alls ekki gerð fyrir bardaga. Kötturinn er hinsvegar fullkominn tortímandi. Með hárbeittar klær og vígtennur. Þrátt fyrir ástand sitt og til tölulega stóra rottu þurfti aldrei að spyrja að leikslokum.

Gunnar Þórðarson, 9.9.2007 kl. 12:13

2 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Það hefur ekki verið dauður tími í sveitinni

Jóna Á. Gísladóttir, 10.9.2007 kl. 10:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ívar Pálsson
Ívar Pálsson

Viðskiptafræðingur með útflutningsfyrirtæki, en grúskar í flestu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband